16.7.08

sumarbúðir

Sólrún lagði af stað í þriggja daga ferðalag í morgun. Dálítið undarleg upplifun, að sjá hana þarna með litlu ferðatöskuna sína og svefnpokann innan um vinina, öll svolítið trekkt, blanda af spenningi og kvíða. Svo lítil en samt eitthvað svo stór.

Og foreldrarnir á nálum, ekki týna dótinu þínu, vertu kurteis, ekki vera hræddur á kvöldin... Amma nokkur hrópaði upp yfir sig þegar bíllinn lagði af stað: Og hún var bara ánægð með að fara! Og pabbinn svaraði: Já, núna er hún ánægð en í kvöld...
Hann veit að hann mun horfa á tómt rúmið hennar í kvöld og ímynda sér að hún sé að hugsa til hans, að hún sakni hans. Þegar mun líklegra er að hún verði alsæl í svefnskálanum með vinkonunum (strákar sér og stelpur sér, er ég ein um að finnast það dálítið undarlegt fyrir 6 ára?) og sé bara ekkert að hugsa heim. Held ég. Vona ég.

Ég fór nokkrum sinnum í Vindáshlíð í gamla daga. Mikið var það alltaf spennandi og skemmtilegt. Þó stundum erfitt líka, hópur af stelpum getur nú stundum breyst í skrímsli. En alltaf vildi ég aftur, fór m.a.s. einu sinni í unglingahóp, líklega 14 ára.

Og nú var ég mamman að vinka, alveg eins og mamma mín forðum. [andvarp]

Lifið í friði.