8.8.05

L'étrange étranger...

Meðan ég pússaði gamlar grotnaðar og misvel smíðaðar tréhillur í sveitinni flögraði hugur minn. Meðal annars hugsaði ég mikið um þolinmæði eða öllu heldur óþol fólks gagnvart hinu ókunnuga. Á frönsku lýsingarorðið "skrýtið" (étrange) af sama stofni og orðið "útlendingur" (étranger). Hugsunin er auðvitað hið ókunna, það sem við þekkjum ekki og skiljum því ekki.
Fólk er mjög auðveldlega hrætt við hluti sem það þekkir ekki. Til dæmis finnst Frökkum það óhugsandi að setja börnin sín út í vagn til að sofa, sérstaklega ef hitastigið er undir 20 stigum.
Þeim finnst þetta undarlegur siður hjá Íslendingum og afar óhuggulegur. Mýmörg dæmi eru um að norrænar manneskjur hafi lent í vandræðum með þennan sið sinn í "útlöndum". Komst það ekki í heimsfréttirnar að kona þurfti að fá lögfræðiaðstoð til að ná barni sínu af barnaverndaryfirvöldum í einhverri stórborg í Ammríku því hún skildi það eftir í vagni fyrir utan kaffihús? Ég man eftir mér síhlaupandi út af Café París í skítakulda til að athuga hvort nýfædd dóttir mín bærði nokkuð á sér. Hún svaf eins og steinn og hefur alltaf verið við hestaheilsu enda svaf hún ávallt úti á svölum hjá ömmu sinni og afa í Norðurmýrinni.
Ég lagði ekki í að setja hana út á svalir hér í Frakklandi þó að ég væri með slíkt fyrirbrigði þá. Nennti einfaldlega ekki að hætta á að valda nágrönnum mínum hugarkvölum, þeim dettur helst í hug að við séum að refsa börnum okkar þegar við setjum þau svona út og þó að maður útskýri þetta vel fyrir þeim eru þeir alls ekki sáttir við þessa meðhöndlun á hvítvoðungum.
Þegar við eyddum viku í Bordeaux með frændfólki mannsins míns sannfærði ég þau um að setja strákinn sinn út að sofa eins og ég gerði vitanlega við Sólrúnu þar sem við vorum í einbýlishúsi með stóran einkagarð. Þau prófuðu einu sinni. Sonur þeirra sem er mjög erfiður verður sennilega greindur með einhvers konar hegðunarvandamál þegar hann byrjar í skóla í haust. Hann er foreldrum sínum þungur í skauti og sefur stutt á daginn. Hann svaf í rúma tvo tíma þarna úti í garði fyrsta daginn okkar. Pabbinn var stöðugt á vappi í kringum kerrurnar þeirra frændsystkina og með sífelldar spurningar um öndun og lungu og kuldann. Drengurinn vaknaði eldhress og bar sig vel en þau gátu ekki hugsað sér að endurtaka leikinn daginn eftir.
Hræðslan við þennan skrýtna ókunnuga sið var of sterk.
Við Íslendingar og Frakkar erum tiltölulega líkar þjóðir. Við lifum í afar svipuðu þjóðfélagi, með álíka háa skatta, svipuð lágmarkslaun og þó að við höfum enn verið í moldarkofum meðan þeir byggðu hallir og turna er varla hægt að kalla það áskorun fyrir mig að búa hér. Einstaka tilslakanir með smáatriði eins og þetta hér að ofan er allt og sumt sem ég hef þurft að berjast við í mér til að aðlagast hérna í París.
Ég þurfti mun meira að vanda mig við aðlögun niðri í Suður Frakklandi, ég var alls ekki vön rólegheitunum í allri þjónustu þar, hvorki frá Reykjavík né París. Það tók mig smá tíma að hætta að pirra mig á því að bíða, en ég var farin að kunna afar vel við það í lokin og finnst að við norðurálfar ættum kannski að taka þennan hægagang upp eftir suðrænni svæðum.
Um daginn fékk ég þær athugasemdir frá Íslendingum hér að Frakkar væru afar rólegir við þjónustustörfin, að allt gengi ógurlega hægt fyrir sig hérna. Þegar ég var að vinna á veitingastað í París fékk maður skammir ef viðskiptavinurinn náði svo mikið sem að líta einu sinni við eftir manni eftir að hann var sestur. Helst átti maður að stökkva á kúnnan áður en rassinn var búinn að ná að fletjast út á sætinu til að spyrja hvers væri óskað. Líklega eru sumir eigendur rólegri en aðrir og kannski eru einhverjir eigendur í fríi og þjónustufólkið rólegra á meðan.
Að kunna að lifa getur verið vandmeðfarin list. Sérstaklega þar sem það er engin ein góð uppskrift til. Er ekki aðalmálið að vanda sig við að láta sjálfum sér líða sem best, opna huga sinn og reyna að skilja að venjur og siðir ókunnugra þjóða geta verið alveg eins góðar og sniðugar og okkar eigin og vitanlega reyna af öllum mætti að koma í veg fyrir að troðið sé á rétti nágranna okkar á plánetunni sem og að ekki sé jörðin okkar eyðilöggð? Og er þetta ekki bara alveg feikinóg að hugsa um fyrir hverja mannveru?

Lifið í friði.