1.6.05

strákar og stelpur

Ég er mjög spennt fyrir jafnrétti kynjanna, var alin upp sem rauðsokka af rauðsokku og hef alltaf verið stolt af því.
Nú er ég í mestu vandræðum. Sonur minn sýnir töglum og fléttum og kúlum og spennum mikinn áhuga. Ég get ekki sett slíkt í hárið á honum því það er of stutt. Í mesta lagi fest eina litla spennu í smá stund sem lekur svo úr þunnu ljósu hárinu. Þetta get ég útskýrt fyrir honum auðveldlega. En hann horfir einnig aðdáunaraugum á skó stóru systur. Þeir eru bleikir og blómum skrýddir.
Ég get ómögulega sett hann í svona kvenlega skó. Og alls ekki í kjól ef hann hann biður mig um það einn daginn. Eða hvað? Á maður að brjóta þessi lög um kynskiptan klæðaburð? Ég ímynda mér að ef ég vendi hann á það núna að ganga í stelpufötum myndi hann vilja halda því áfram, það er með ólíkindum skemmtilegra sem gert er fyrir konur, m.a.s. nýfæddar! Strákafötin eru strax frá fæðingu miklu hefðbundnari og minna ímyndunarafli beitt við hönnunina. En þá kemur hættan á að honum verði strítt í skóla. Maður byrjar að óttast einelti um leið og maður kemur úr fyrsta sónarnum og því vil ég ekki gera neitt sem gæti ýtt undir möguleikann á því.
Það fer í taugarnar á mér að þurfa að segja við hann: Nei, þetta getur þú ekki því þú ert strákur. En mér finnst samt persónulega ekkert eins hallærislegt og þessi nýlega hönnun markaðsfræðinga: Metrómaðurinn. Að Beckham fái borgað fyrir að segjast ganga í kvenundirfötum og að meika sig finnst mér lágkúra. Ég vil miklu heldur hlutlausan og hefðbundin mann en spjátrung. Ég er í krísu. Og pirruð yfir þessu.

Örlagaþrungið móment:
Er lífið aðeins fallinn víxill oft þau spyrja sig.
Þau reyna að stefna í rétta átt, hvað um mig og þig?

(muna sérstaklega eftir brostinni rödd Röggu þegar hún syngur "hvað um mig og þig", slær Bó við)

Lifið í friði.