3.6.05

fyrsti dagurinn

Í dag mætti ég í fyrsta sinn í sumar niður á torg með spjald upp á von og óvon að einhvern langaði að kaupa af mér göngutúr. Enginn vildi það en ekkert svekkelsi því ég bjóst allt eins við því, hefði orðið mjög hissa á að sjá einhvern mæta. Ég fæ alltaf mikla athygli með spjalið mitt óskiljanlega: "PARÍSARDAMAN GÖNGUFERÐ Á ÍSLENSKU". Fólk stendur og glápir á mig og spjaldið og aftur á mig. Sumir brosa, aðrir eru feimnari og loka andlitinu. Í fyrra kom kona að mér og rétti mér smápening. Um leið og hún sá svipinn á mér áttaði hún sig og varð hálfskömmustuleg. Ég brosti mínu blíðasta og þakkaði henni kærlega fyrir um leið og ég sagði henni að ég væri að bíða eftir fólki. Eflaust hafa fleiri álitið mig betlara en hún var sú eina sem sá aumur á mér.
Það þarf ákveðið hugrekki eða einhvers konar brjálæði til að gera þetta, að standa svona á áberandi og fjölförnum stað í París með spjald. Ég hef mikinn svipsskrekk, þarf ekki annað en að ímynda mér að ég þurfi að halda ræðu á fundi og þá fer ég að skjálfa. Þess vegna er ég alltaf mjög stressuð og óörugg með mig þegar ég fer í vinnuna. Alltaf sami hnúturinn í maganum á mér sem hverfur á sömu sekúndunni og ég tek í höndina á viðskiptavini. Þá set ég upp einhvers konar grímu, fer í hlutverkið og stend mig yfirleitt alveg ágætlega, held ég.
Ég hugga mig við að mér var einu sinni trúað fyrir því af einum besta kennara sem ég hef haft að hann kæmi alltaf í tíma með hnút í maganum. Og að hann vissi að ef hnúturinn hyrfi, væri kominn tími til að hætta kennslu. Hnúturinn gerir mig kannski ekkert að betri leiðsögumanni, en hann virkjar mig í að gera mitt besta. Ég veit, eins og kennarinn minn fyrrverandi, að ef hnúturinn hverfur er kominn tími til að finna sér annað að gera.
Annað að gera. Gamall maður spurði mig á róló í gær hvort ég gæti lifað af leiðsögustarfinu. Erfið spurning. Við söfnum ekki peningum, við getum ekki alltaf leyft okkur allt sem við gætum óskað okkur, en við erum hamingjusöm fjölskylda og erum aldrei svöng. Við eigum þak yfir höfuðið, internettengingu, sjónvarp og síma. Við lifum lúxuslífi þó að margir hnussi yfir sófaskirflinu okkar og skilji ekkert í okkur. Amma mín lifir stöðugt í þeirri trú að ég lifi í eymd og volæði. Hún getur ekki skilið lífsval okkar og ég ætlast ekki til þess af henni. Reyni oft að segja henni að ég hafi það gott en hún hristir bara höfuðið, grafalvarleg á svip.

Ég gekk latínugöngutúrinn minn að gamni þó ég væri ein. Hann er fínn, alltaf er nú jafngott að koma í arabísku moskuna og drekka myntute. Það er eins og að stíga inn í annan tíma að koma inn í ólífutrjálundinn þeirra. Allir hvíslast á þarna.
Place de la Contrescarpe var ekki eins rómó. Sama hvað ég einbeitt mér að því að ímynda mér Rabelais með vinum sínum að reyna að leysa vandamál heims síns tíma eða Hemingway dulbúinn sem róna að afla sér efnis í næstu bók, mér tókst ekki að leiða hjá mér ofurstóran frystiflutningavagninn sem var greinilega að afgreiða vörur til veitingahúsa hverfisins. Ég vona að við eigum ekki fast stefnumót þarna á föstudögum í sumar. Annars verð ég að breyta leiðinni eitthvað.

Lífið er frábært. Ef manni líkar ekki eitthvað breytir maður því bara. Það er bara hjá stjórnvöldum ríkja og í bandalögum ríkja sem fólk hefur ekki vald til að breyta neinu. Og er okkur ekki bara slétt sama? Verði þeim að því að troða þessum samningi í gegn þvert á allar lýðræðishugmyndir. Verði þeim að því að stuðla að verndum Markaðarins. Lífið er samt frábært. Einhverra undarlegra hluta vegna.

Veðrið var óráðið í dag: Hiti og sól og rok og þrumur og eldingar og svo aftur sól og brennandi hiti.

Lifið í friði.