13.6.05

furðuveröld

Veröldin er skrýtin. Ég hef alltaf vitað það, en ég hef fengið endanlega staðfestingu á því aftur og aftur undanfarna daga.
Fyrst ber mér líklega skylda til að játa það að enginn kom í gönguferð með mér í síðustu viku. Aftur stóð ég, þrisvar sinnum, með spjaldið mitt og enginn kom. Ég er þó ekki á því að láta hugfallast og mun mæta sperrt aftur á föstudaginn. Það getur bara ekki verið að það sé svona gott að vera að grilla á Íslandi, að það slái ferðalögum um fjarlæg lönd við. Næst kemur einhver. Ha? Er einhver þarna úti?
Meðan ég beið við metróstöðina Anvers á laugardagsmorgni sinnti ég ferðalöngum frá öðrum löndum. Fyrst kom japanskt (eða alla vega skáeygt og lágvaxið fólk) að mér með kort af borginni og spurði mig á japönsku hvort að byggingin þarna væri sú sama og á kortinu. Ég sagði þeim á íslensku að svo væri. Þau brostu blítt og þökkuðu mér fyrir á japönsku og hurfu svo upp hæðina ásamt tugum annarra ferðalanga, líklega þó enginn þeirra íslenskur, eða hvað?
Svo lagði stóri pólski hópurinn af stað upp hæðina ásamt sínum heppna leiðsögumanni sem var a.m.k. með 18 manns. Þegar ég var komin upp í 18 nennti ég ekki að telja lengur. Skömmu siðar birtist maður með unglingsdóttur og spurði mig á pólsku hvort ég hefði séð pólskan hóp hérna. Ég sagði honum (í þetta sinn á ensku) að þau væru nýfarin og að ef þau gengu greitt upp götuna ættu þau að ná þeim. Unglingstúlkan hnussaði og dillaði sér pirringslega fyrir aftan pabba sinn og skammaðist sín agalega fyrir hann og lét hann vita af því: Æ, pabbi! Á pólsku. Sumt er bara ekki hægt að misskilja þó ekki skilji maður tungumálin. Unglingar á ákveðnu skeiði eru alveg nákvæmlega eins um allan heim.
Eftir þetta róaðist mannlífið á svæðinu við metró, enda klukkan orðin fimm mínútur gengnar í ellefu og allir hópar sem áttu stefnumót klukkan tíu lagðir af stað. Þá birtist allt í einu maður á skíðaklossum með skíði og stafi á öxlinni, í fínum þykkum skíðabuxum. Mér var allri lokið. Fór að efast um að ég stæði við rætur rétta fjallsins. Spurði því næsta mann hvort þetta væri ekki örugglega Montmartre þarna fyrir ofan okkur. Hann staðfesti það. Ég veit ekki hvort skíðalyftur eru í fjallinu, hélt ég þekkti hvern krók og kima, en maður veit aldrei. Ég get hins vegar lofað því að enginn var snjórinn á þessum fagra og vonum framar hlýja laugardagsmorgni.
Þegar klukkan var korter gengin ákvað ég að gefast upp. Fór ofan í metró og þar hitti ég konu sem notaði þvottaklemmur sem spennur í stutt hár sitt og var í mislitum Doc Martens skóm. Einum grænum og einum rauðum. Vinstri rauður og hægri grænn. Sem gerir mér kleift að álíta að heima hjá sér eigi hún par af vinstri grænum og hægri rauðum. Og svo getur hún vitanlega ákveðið að vera óspennandi og sleppt þvottaklemmum og verið í samlitum skóm. Til dæmis ef hún er að fara í atvinnuviðtal eða að biðja um lán í bankanum.

Um kvöldið fór ég svo í partý. Það væri efni í annan pistil ef ég nenni.

Lifið í friði.