2.4.08

af þröskuldum

Í athugsemdakerfinu mínu sem seint mun teljast ofvirkt (með allri virðingu fyrir ykkur örfáu sem skiljið þar eftir fögur spor) spannst upp hér örlítið neðar umræða um þröskulda sem þurfa að tilheyra aprílgöbbum.
Í framhaldi af því fór ég að spekúlera meira í því hvernig minn innflytjendavandi birtist aðallega. Ég hef nefninlega, með síaukinni umræðu (svona heilt yfir) um innflytjendavandamál stundum spáð í því hvernig vandamálum ég, sem útlendingur, hef valdið hér í Frakklandi.
Að vera Íslendingur í útlöndum er í raun erfitt að færa í vandamálabúning. Ég yfirgef land sem er í uppsveiflu, fjölskyldan mín og ég erum þar örugg og lifum í vellystingum, burtséð frá almennum leiða á því að mæta á sama barinn þar sem sama fólkið situr við sömu borðin ár eftir ár var bara nokkuð fínt að búa þar.
Ég get því ómögulega samsamað mig öðrum útlendingum sem ég hef kynnst hérna, fólki sem sagði mér frá niðurlægingu og eymd, brunum, skotárásum og dauða, viðskilnaði við foreldra sem vildu heldur deyja á sinni jörð en að elta einhverja óvissu, burséð frá vonarglætu um betra líf. Ég bara er ekki þannig útlendingur. Ég er bara venjulegur Íslendingur sem ákvað í hjarta mínu mjög ung að ég yrði að læra frönsku og fann að Frakkland væri líklega besti staðurinn til þess.
Ég kom hingað til Parísar tvítug og bréfin sem ég sendi vinum mínum heim bera vott um að hér leið mér strax vel. Ég tilkynni m.a. vinkonu minni í einhverju bréfanna að hér muni ég vilja deyja, að ösku minni skuli dreift um gangstéttar Parísar.
Ég hef stundum lent í fáránlega undarlegum aðstæðum og stundum jafnvel orðið fyrir aðkasti fyrir það að vera innflytjandi, en það hefur annað hvort endað þannig að ég bakka og læt mig hverfa eða, ef ég hef ekki haft val um það, hefur málið snúist upp í andhverfu sína þegar ljóst var að ég var Íslendingur.
Stundum er það næstum frústrerandi tilfinning að lenda í aðstæðum þar sem litið er niður á þig þangað til þú berð fyrir þig upprunanum og púff allt í einu breytist allt, ó, fyrirgefðu, ég hélt þú værir eitthvað annað en þú ert. Islande, Islande er svo æðislegt, svo frábært, svo sjaldgæft... Já, það er hreinlega stundum frústrerandi, svo fáránlegt sem það má hljóma.
Ég er stundum misskilin, ég lenti t.d. í miklum útistöðum við samstarfsmann á veitingahúsi og þegar ég fór og ræddi við hann var vandamálið að ég kom ekki og kyssti hann á báðar kinnar þegar ég mætti í vinnuna, lét hið íslenska duga. Til að refsa mér fyrir það gerði hann sem barþjónn í því að afgreiða pantanir frá mér seint og illa. Eftir korters samræður féllst hann á að gefa mér séns og síðan þá man ég að virða alltaf þennan sið Frakka, þú heilsar með kossi, annars verða engin samskipti.
Í eldhúsinu á sama veitingastað unnu nokkrir drengir frá Sri Lanka. Það var ekki fyrr en ég fór að vinna þarna að aðrir starfsmenn gerðu sér minnstu grein fyrir því að þeir ættu sitt mál, allir urðu voða glaðir þegar við fórum að bjóða góðan daginn á srilönsku líka á morgnana. Ég hafði eldhúsgæjana alltaf í vasanum, kunni m.a.s. að telja upp að fimm á málinu þeirra þó það hafi horfið í dag. En ég kann að segja vanakam.
Það getur komið manni yfir ýmsa þröskulda, m.a.s í landi eins og Frakklandi, sem hefur enga þröskulda (aldrei rok hérna, je ræt), að bara sýna lágmarksáhuga á manneskjunni sem er á móti þér. Hvaðan hún er, hvað dró hana hingað eða þangað, hvernig býðurðu góðan dag á hennar máli, hvað er einn til fimm, hvað er að frétta frá hennar heimalandi, þetta skiptir þúsundmilljón* máli. Gerir gæfumuninn. Eyðir útlendingavandamálinu, í það minnsta rétt á meðan þú stendur gagnvart þessari manneskju sem er annars staðar frá.

Þröskuldar gera gagn með því að loka vindinn úti en það er fullt af þröskuldum sem eru bara andlegir og frekar auðvelt og einfalt að rífa þá burt. Hver vill hefta andann?

Lifið í friði.

*þetta er nýtt atviksorð