1.4.08

sónn

Höfuðið á mér er að springa, sterkur sónn í eyrum. Ég get ekki neitt, kann ekki neitt og skil ekki neitt.

Mig langar svo að liggja uppi í rúmi grafin ofan í sæng mína útbreidda.

Mig langar ekki að búa til kvöldmat, á ég að brjóta reglur heimilisins og drattast niður í búð að kaupa eitthvað tilbúið frosið drasl?

Ég get þetta ekki. Ekki.

Svo er leikfimi eftir klukkutíma, ég hef lifað fyrir þessa tíma í vetur en ég veit ekki hvort ég meika það. Getur einhver lægt vindinn fyrir mig? Getur einhver slökkt á sóninum? Getur einhver kviksett mig á ný, ef kvik skyldi kalla?

Einu sinni var ég alltaf að tala um stríð og frið og trú mína á friði í heiminum og hvað við þyrftum að berjast og að þetta kæmi okkur við. Ég vitnaði reglulega í Lennon og sagðist trúa því að einn góðan veðurdag yrði heimurinn einn, ein heild. Ég veit ekki af hverju ég hætti, það var ekki meðvitað, ég bara hef líklega gefist upp innan í mér en ekkert hefur þó breyst. Jú, reyndar varð ég námsmaður og les mun minna af öðru en námsefni, t.d. greinum í vefmiðlum o.s.frv. Samt. Skrýtið að hætta svona einhverju sem liggur mér í raun mun meira á hjarta en þetta þvaður sem hingað kemst inn.

Það hlýtur að vera skárra að vera með són í hausnum heldur en byssukúlu. Það hlýtur að vera skárra að þjást af valkvíða varðandi kvöldmatinn heldur en að vera hrædd um að börnin mín svelti. Það hlýtur að vera skárra að pirrast yfir því að með nýja tímanum og birtu seinna kemur líka kallinn seinna heim, heldur en að vera hrædd um að kannski komi hann bara aldrei aftur heim.

Sónn. Enginn sónn. Á tali. Gjörið svo vel að hringja síðar. Kannski er ég núna endanlega farin út á tún?

Lifið í friði.