16.6.07

lyst á list

Ég hef lengi trúað því að það sé einhvers konar sjálfsagt réttlæti til í heiminum, að þú fáir það sem þú átt skilið, að allt sem þú gefur komi til baka. Einhvern tímann var mér sagt að svona hugsun héti boomerang-kenningin, það fannst mér ágæt líking.

Á þessu ári hafa hrúgast að mér listaverk frá höfundunum sjálfum. Ég fékk málverk eftir góða vinkonu, ljósmynd eftir forstjóra Uppglenningur Group , grafíkmynd bíður eftir mér á Akureyri eftir Sveinbjörgu Svartfugl.is og í gær barst mér tölvuunnin ljósmynd eftir Elmu sem ég lóðsaði um París í kringum aldamótin ásamt tugum annarra kvenna og einhverra hluta vegna héldum við sambandi sem hefur haldist þrátt fyrir að við höfum aldrei sést aftur og þoldi m.a. tölvu"crash" sem olli mikilli grisjun í netfangalista mínum.
Ég veit ekki hvað ég hef gert til að eiga þetta skilið. En ég er þakklát og stolt af öllum þessum verkum sem ég á (ég taldi eingöngu upp verk þessa árs, mörg önnur hafa komið til mín í gegnum tíðina og prýða mitt menningarlega heimili í dag).
Nú er aðalspurningin hvort ég þurfi ekki að kaupa mér fleiri veggi, það er nokkuð ljóst að hér fer að verða þröng á þingi á veggjum, en það er nú svo sem kannski enginn skaði, kannski einmitt smart og minnir á veggina á heimilum listaverkasafnara og menningarvita Parísar í byrjun tuttugustu aldar?

Lifið í friði.