9.11.05

Svangir Frakkar

Á föstudaginn tók ég metró yfir í 15. hverfi þvert yfir alla París. Þetta eru um 30 stöðvar og tekur ferðin slétta klukkustund.
Þar kom ég inn í sjónvarpsframleiðslufyrirtæki eitt sem gerir ýmsa þætti, m.a. röð um sjónvarp hvaðanæva úr heiminum. Þeir voru á Íslandi fyrir nokkru og mitt hlutverk er að þýða viðtöl og fréttaefni sem þeir fengu heima.
Á ofurilla skipulögðu skrifborðinu fyrir framan mig rak Íslendingurinn beint augun í bréf utan af Einu setti. Því vissi ég strax að þau höfðu uppgötvað það sem skiptir máli á landinu, sjoppumenninguna. Þegar ég spurði þau hvernig hefði gengið, létu þau vel af dvölinni. Keli fixari stóð sig með prýði, landið er fallegt, fólkið er skemmtilegt. En það hefði nú samt verið gott að geta borðað eitthvað. Eftir veitingahúsaferð fyrsta kvöldið var allur peningur sem áætlaður var í mat búinn. Því lifðu þau á sjoppufæði það sem eftir var. Og þetta stendur illa í þeim, öll mikið mataráhugafólk hef ég skilið eftir þrjá daga í vinnu með þeim, hafa gaman af eldamennsku og góðum veitingahúsum og því voru þetta mikil vonbrigði. Þau hafa mikið verið að spyrja mig um það hvernig fólk lifi á Íslandi. Ég á alltaf mjög erfitt með að svara því. Ég skil það nefninlega ekki sjálf. Ég skil ekki hvers vegna matvöruverð er svona hátt. Ég skil ekki hvers vegna fólkið sættir sig við það. Ég skil ekki hvernig fólk fer að því að vera með heita máltíð á hverju kvöldi en samt eiga pening fyrir stóru húsnæði vel upplýstu, tónlistarskólum, sundferðum, útlandaferðum, jeppaferðum, hreinræktuðum hundum eða köttum og ís um helgar. Ef einhver hefur svarið er það vel þegið... helst á frönsku því ég er komin með ofnæmi fyrir þýðingum.
Síðustu þrjá virku daga hef ég sem sagt setið í litlu heitu herbergi með skjá og takka og horft á viðtöl við fólk sem ég vissi að var til og fólk sem ég vissi ekki að var til. Jón Ásgeir, Sigmundur Ernir og fleiri hafa bunað út úr sér misgáfulegum útskýringum á sínum málum og sínum stöðvum. Lögfræðingar hafa hótað, saksóknarar tuldrað og mitt í öllu þessu fékk ég loksins að sjá Strákana klæða sig í dekk og rúlla niður Arnarhólinn. Sem var hressandi og þægilegt innskot í allt kjaftæðið.
Þó ég hafi þýtt og þýtt í þrjá daga er ekki búið að þýða nærri allt efnið. Nú ætlar leikstjórinn ásamt klippara að vinsa úr og byrja að hráklippa og svo held ég áfram að þýða á laugardaginn og fæ ekki krónu í viðbót fyrir það. Svona er bransinn.

Ég uppgötvaði Baugsmálið. Ég held að þetta sé stríð milli valdamikilla manna og svo illa vill til að báðir eiga fjölmiðla sem þeir nota óspart til að tala saman. Ég held að fólkið sem kaupir þessa fjölmiðla lesi ekki eða ákaflega illa allt sem bullað er í Baugsmálinu. Ég tek það fram að ég veit þetta ekki, ég held þetta bara. Þessir menn ættu að sjá sóma sinn í að hætta að misnota fjölmiðlana sína, gera landsmönnum þann greiða að taka upp gamlar og góðar leiðir eins og fundi eða bréfaskriftir sín á milli.

Varðandi skemmtiefni sjónvarpsins... hm... Strákarnir virðast ágætlega fyndnir en ekki var flugið þó hátt í þessum eina þætti sem ég sá. Ég á alveg eftir að sjá Sylvíu Nótt, þeir frönsku eru afar hrifnir af henni sem og fjölskyldan sem talað var við um sjónvarp almennt. Hlakka mikið til að sjá hana. Var að leita að henni í netsjónvarpinu en fann hana ekki. Þið megið segja mér hvar hún er núna. Kallacafé. Æ. Segi ekkert meir. Ekki neitt hægt að segja. Fékk ekki að sjá Stelpurnar sem ég vona að sé verið að taka upp fyrir mig því vinur minn nýbúinn Bruno galdrakarl er eitthvað að leika í honum þessa dagana held ég.
Ég hef ekki verið dugleg að fylgjast með íslensku sjónvarpi í gegnum árin enda með mjög góða afsökun, ég bý ekki á Íslandi. Í heildina virðist mér af þessu stutta glápi sjónvarpið vera á sömu erfiðu braut og aðrir fjölmiðlar landsins, það má aldrei verða of gáfulegur. Það er magnað að sjá í viðtölunum að um leið og fólkið snertir eitthvað djúpt, finnur einhvers konar greiningu, analýsu, skilur eitthvað, upp rennur ljós, að þá byrjar það alltaf að gretta sig. Þau gera þetta öll. Nema náttúrulega æfðu viðtalskallarnir sem voru hvort eð er bara að fara með utanbókarlærðar þulur.
Ég hlakka svo mikið til að koma heim um jólin. Mér finnst svo margt hallærislegt og þreytandi á Íslandi (úpps braut ég bloggreglu, aldrei tala illa um Ísland) en það sem bjargar þessu landi er hvað fólk er skemmtilegt og djassað og hreinskiptið og gott. Og það skiptir vissulega meira máli en að kunna greiningu og rökhugsun. Er það ekki annars?

Lifið í friði.