16.6.05

brýst um og áfram tími

Það er mikið að brjótast í mér þessa dagana hvað tíminn líður hratt. Kannski er það alltaf að brjótast í mér, kannski er ég of mikið að hugsa um það. Mig rámar alla vega í að hafa skrifað um það hér á þessa síðu áður.
Ég er með ágætt dagatal uppi á vegg við tölvuna mína, með stórum reitum fyrir hvern dag. Reitirnir eru yfirfullir af alls konar upplýsingum fyrir mig til að hjálpa mér að muna allt sem ég hef lofað. Þegar ég horfi á framtíðina á dagatalinu finnst mér þetta mikið og skemmtilegt og svo horfi ég á fortíðina á dagatalinu og á erfitt með að muna að ég uppfyllti allar skyldurnar.
Svo er manni sagt að tíminn líði hraðar og hraðar með aldrinum. Ég get staðfest að þannig hefur það verið hjá mér, en á ég virkilega að samþykkja það að þetta muni halda áfram að versna?
Gamanið kárnar. Maður hrörnar og á erfiðara með að þola lífsmunstur sitt og um leið þarf maður að upplifa það og standa í því á meiri hraða. Hvusslags lógík er í þessu?

Ég er að lesa bók sem ég bjargaði frá því að vera hent áður en ég læsi hana. Svo mun ég annað hvort láta einhvern hafa hana eða henda henni út á götu til að einhver geti hirt hana. Það er nefninlega skýr stefna á þessu heimili að Billy má ekki taka of mikið pláss, það eru takmörk fyrir Billyhlutföllum lítilla íbúða. Þess vegna læt ég allar bækur sem ég veit VEIT að mig mun aldrei langa að lesa aftur.
Þetta er þykk og mikil bók sem heitir The Secret History. Fyrsta skáldsaga einhverrar Donnu Tartt um dreng sem lendir í morðmáli. Segi ekki meir, hata það þegar fólk gefur mér upp söguþráð ólesinna bóka. Þetta er svona pæling um sekt og sakleysi og ágæt afþreying hingað til. Svolítið mikill rembingur að vísa í gríska harmleiki, sem fer kannski meira í taugarnar á mér en öðrum af því ég hef aldrei nennt að lesa almennilega gríska harmleiki, en hef lesið slatta af 17. aldar frönskum harmleikjum og er því líklega of meðvituð um skort á þekkingu minni á grísku frumgerðinni...
Ég býst fastlega við að ég sé ekki að fara með fleipur þegar ég uppástend að Tartt mun ekki verða kennd í sama kúrs og Dostojevskí eða Camus. Held hún nái ekki með tærnar að hælum þeirra gaga. Snagi -> snagar, gagi -> gagar. Þetta er líklega það sem ég man best af öllu því sem Broddi Broddason kenndi mér, en hann fór með okkur stúlkum í 3.A. í gegnum grísku goðafræðina sem ég þjáist reglulega yfir að þekkja ekki nógu vel. Hann kenndi mér reyndar líka að lesa dagblöðin með fyrirvara um að þau gætu verið að plata. Broddi var frábær kennari og ég fæ alltaf ástarsting í magann þegar ég hlusta á hann lesa fréttir. Ha, þessi útúrdúr var nógu langur til að ég get hætt að tala um Donnu.

Lifið í friði.