22.2.05

mardi

Mardi er þriðjudagur. Á frönsku.
Um leið og ég þakka uppörvandi orðabelgi og hugmyndir að stórgróða, bið ég lesendur mína afsökunar á leiðindabloggi í gær. Mér líður miklu betur núna, takk fyrir mig.

Tvennt hnaut ég um í íslenskum fjölmiðlum um daginn á Íslandi og hef alltaf gleymt að vekja athygli á:

1. Fyrst var verið að tala um mótmæli í París, sem höfðu átt sér stað á fimmtudeginum áður en ég fór. Hér eru alltaf gefnar upp tvær tölur um fjölda þáttakenda, þarna var sagt að lögreglan hefði talið 3.000, þrjú þúsund manns en að skipuleggjendur hefðu talið 15.000, fimmtán þúsund. Þetta er ekkert óeðlilegt og maður er orðinn vanur að leggja saman og deila í tvennt og fær þá nokkuð góða mynd af stærð mótmælafundarins, ef maður hefur þá nokkra möguleika á að ímynda sér hvernig 9.000 manna hópur lítur út. (Sem ég t.d. hef ekki).
Á Íslandi var minnst eitthvað á þessi mótmæli í útvarpsfréttum og þar var sagt að 300, þrjú hundruð manns hefðu mótmælt í París!
300 manna mótmæli í París er ekki neitt, en það sem truflar mig mest er að þarna datt eitt núll af LÖGREGLUTÖLUNNI. Þ.e.a.s. fréttaskeytið hefur væntanlega gefið eingöngu þá tölu, ekki tölu skipuleggjenda. Hvaða fréttastofa var það? Les RUV kannski bara óhikað obinber skeyti frá skrifstofu yfirvalda? Án þess að athuga fjölmiðla viðkomandi lands og önnur sjónarmið? Mér er alveg sama um núllið, enda held ég að við Íslendingar séum almennt ekki fær um að ímynda okkur muninn á 300 og 3000 manns. Bæði er stórt í okkar hugum og okkur er slétt sama um þáttöku í mótmælagöngu í París líka. Mér finnst samt merkilegt að hugsa um það hvernig erlendar fréttir berast til Íslands og hvernig þær eru reiddar fram.

2. Á léttmetissíðum Morgunblaðsins, þar sem kvikmyndahúsin auglýsa myndirnar með titli og sýningartíma, án þess að geta leikstjóra og sjaldan leikara (ímyndið ykkur að Listasafnið auglýsti: Komið og sjáið frábæru málverkin Esjan, Vornótt í Reykjavík, Bátur við bryggju o. fl.), var um daginn viðtal við kvikmyndagerðarmann sem hefur tekist að ná samningum við Guillaume Depardieu um að leika í mynd fyrir sig og mun faðirinn Gérard einnig vera að hugsa sig um. Þetta finnst mér frábærar fréttir, en það sem furðaði mig var að talað er um að Guillaume sé að ná sér eftir slys sem hann varð fyrir. Málið er að Guillaume mun aldrei verða samur eftir þetta hræðilega slys.
Guillaume var, fyrir nokkrum árum, ungur flottur sonur rétts manns á hraðri leið upp á stjörnuhimininn. Eins og allir vita fylgir frægðinni alltaf einhvers konar örvænting og vandamál sem við litla fólkið getum ornað okkur við að þurfa ekki að burðast með þegar við lesum um hrakfarir fræga og ríka fólksins á fyrrnefndum síðum Moggans eða í öðrum sérhæfðari tímaritum eins og Séð og heyrt. Guillaume fór fullur og dópaður út að keyra á mótorhjólinu sínu, datt og slasaði sig á hné. Í aðgerðinni kom sýking í sárið og endaði þetta með þeim ósköpum að læknarnir neyddust til að taka af honum fótinn við hné.
það hefur alltaf vafist fyrir mér hvort ég á að tala um vin minn hommann sem hommann í hvert skipti sem ég segi frá honum. Eða hvort maður þurfi alltaf að taka fram að manneskjan var svört þegar maður segir frá samskiptum sínum við svarta manneskju. Ég hef verið að æfa mig í því að gera það ekki, að tala bara um fólkið sem fólk almennt nema það skipti virkilega máli í sögunni.
Samt fannst mér þessi saga sem ekki var sögð í fréttinni um að Guillaume hefði misst fótinn hreinlega öskra á að vera með. Maðurinn er leikari, notar líkamann til tjáningar, og nú er hann gerbreyttur maður. Einfættur. Auðvitað er hann kominn með flottustu tegund af gervifæti og kannski á hann að leika tvífættann mann í myndinni íslensku og allt gott um það að segja. En það var bara svo greinilegt að blaðamaðurinn hafði ekki hugmynd um þetta atriði og mér finnst það reyndar dálítið smart hjá íslenska kvikmyndagerðarmanninum að gefa blaðamanninum þetta ekki, fyrst blaðamaðurinn spurði ekki nánar út í slysið sem kvikmyndagerðarmaðurinn nefndi.
Þetta er dálítið flókið allt saman. Á maður núna alltaf að tala um Guillaume einfætta eða á maður að sleppa því að nefna það að hann missti fótinn?
Ætlaði Guillaume kannski að ná frægð og frama á Íslandi í trausti þess að enginn vissi þar að hann er einfættur? Hér í Frakklandi vakti þetta vitanlega gífurlega athygli og ekki síður uppgjör feðganna sem fóru fram í hinum ýmsu viðtalsþáttum sjónvarpsstöðvanna. Fyrst fúkyrði og afneitun hvor á öðrum og síðar sættirnar.
Er ég nú búin að skemma þetta allt saman fyrir honum? Vonandi ekki.

Lifið í friði.