12.7.08

Græna bannsvæðið

Gatan sem ég bý í er nokkuð blómleg, við íbúar nokkurra blokka deilum með okkur kostnaði við húsvörð sem sér m.a. um öll beðin og þennan litla reit sem er hér rétt við innganginn okkar. Eitthvað hefur verið rætt á húsfundum að kannski ætti að setja bekk og hafa einhverja aðstöðu fyrir íbúana en það hefur alltaf verið fellt og gildir reglan að "ekki er ætlast til" að reiturinn sé notaður. Bekkur er talinn geta dregið að sér unglinga og aðra ódáma.
Okkur var tilkynnt strax og við fluttum inn að reiturinn væri ekki leiksvæði, en ég brýt þó við og við þessa fáránlegu reglu, kem mér þarna fyrir og leyfi krökkunum að skottast um. Aldrei hefur neinn komið til að reka okkur í burtu.
Það er frekar stutt í mjög skemmtilegan garð með góðu leiksvæði, en það tekur þó um 10 mínútur að ganga þangað og stundum er hvorki tími né nenna til þess.
Hér eru nokkrar myndir, vegna þess að rósarunninn vakti áhuga nokkurra lesenda á dögunum.


Kári í flugvél.


Hluti af svæðinu.


Brekkan græna í baksýn er svo ágætt grænt svæði sem er reyndar ráðið frá að fara inn á, vegna þess að þar er hætta á trjáhruni og ótryggðar námur undir. Fáránlegt inn í miðju íbúðahverfi og svæðið er mikið notað þvert á aðvaranir.


Hvaða tré er þetta? Eitthvað silfurgrænt greni.

Lifið í friði.