15.6.05

partí

Á laugardagskvöldið (það hefur alltaf farið í taugarnar á mér að hafa dag áfram inni þó það sé komið kvöld, af hverju segir maður ekki laugarkvöldið?) fór ég í partí. Sem er mjög sjaldgæf athöfn hjá mér þessa dagana. Það er af sem áður var.
Ég var svo hrikalega sein því ég var í öðru partíi um daginn með börnin að ég ákvað að hoppa upp í leigubíl. Bílstjórinn var hress og skemmtilegur svertingi sem hló mjög smitandi hlátri. Þegar hann hleypti mér út, sagði hann: Þetta er nú ekki sama hverfið og Copavogure-inn þinn! Sem var hárrétt athugað hjá blessuðum karlinum. Ég fór í partí í eitt af fínu hverfunum í borginni. Þar sem ríka fólkið býr.
Ástæðan er sú að vinkona mín vinnur með ríkri stúlku sem vill vinna þó hún þurfi þess ekki, skiljanlegt að vissu leyti þó maður gæti nú ímyndað sér að maður veldi annað lífsmunstur, sérstaklega með tilliti til þess að hún er einhleyp (að vísu nýr kærasti í hverri viku) og barnlaus. En hún vinnur sér ekkert til óbóta heldur og er t.d. alltaf í mánuð á ári í húsinu sínu á Grikklandi með vinum sínum ríku. Plús fullt af öðrum fríum og ferðum.
En vinkona mín og þessi ríka og önnur samstarfskona ákváðu sem sagt að halda saman risapartí, bjóða hver um sig 20 manns og hafa fullt af kampavíni. Allir komu líka með eina flösku og í þessari toppíbúð með 4 metra lofthæð og 30m2 svölum flaut kampavínið, diskótónlist ómaði úr (lélegum) græjunum og inn streymdi alls konar fólk. Það var mjög auðvelt að sjá hverjir tilheyrðu hverjum. Vinkona mín á vini sem eru flest blaðamenn eða leikarar og voru svona frekar frjálslega klædd. Ríka stúlkan á fullt af vinum sem eru fædd rík og þau voru í vönduðum kjólum, pinnahælum, röndóttum ofstraujuðum skyrtum og buxum með broti. M.a.s. skórnir líta öðruvísi út, áberandi dýrir og fínir einhvern veginn.
Fyrst í stað leið mér mjög illa þarna. Fannst ég eins og herfa og hafði engan til að tala við því blaðamenn og leikarar eru enn óstundvísari en ég. Smátt og smátt fór þó kampavínið að hafa áhrif, Abba kom á fóninn og eitthvað losnaði inni í manni. Lenti í samræðum við einn af Arnarnesinu Neuilly sem reyndist hið besta skinn þó hann væri lumma. Hann hefur vafalaust hugsað það sama um mig.
En ég get þó ekki neitað því að þessir ríku krakkar hafa neikvæð áhrif á mig. Að horfa á þetta lið, ofuröruggt með sig utan frá séð þó að oft sé þetta komplexað fólk þegar maður kynnist því. Mér fannst ég stödd í bíómynd, þið vitið, svona ekta franskri búrgeisamynd sem sýnir ungt ríkt og gratt fólk í flottum íbúðum og maður hugsar með sér að þetta sé of óraunverulegt en man ekki að fullt af fólki lifir þennan raunveruleika. Ég get ekki að því gert, en ég lít niður á þetta fólk að vissu leyti. Finnst ég yfir það hafin af því ég þarf að hafa fyrir lífinu. Kannski er það óréttlátt, en þetta er svona. Ég er með fordóma gagnvart ríku fólki, þessu ríka fólki sem fæddist ríkt. Ber meiri virðingu fyrir fólki sem vann sig upp. Eru þetta áhrif af of miklu glápi á ammrískar bíómyndir sem mæra ammríska drauminn? Veit ekki. Og ekki ber ég virðingu fyrir nýríku fólki sem gleymir að láta börnin sín læra að peningar vaxa ekki á trjám. Gera börnin sín að þessum ríkra manna börnum, fædd rík og áhugalaus um eymdina sem getur verið allt í kring.
Eitt veit ég þó: Ef draumurinn minn frá í nótt rætist, verð ég forrík innan skamms. Annað eins magn af kúk hef ég ekki dreymt áður. Og ef ég verð rík, ætla ég ekki að fara og búa í ríkra manna hverfi því ég vil alls ekki að börnin mín gangi í skóla með ríkra manna börnum eingöngu. Sennilega myndi ég finna mér gott hús í þessu hverfi mínu sem ég er alsæl með. Gott hús með skrifstofu fyrir manninn minn og vinnustofu fyrir mig. Og góðum litlum garði með garðhúsgögnum. MMmmm... money money money must be funny in a rich man's world money money money

Manninum mínum þykir líklegast að kúkadraumurinn hafi verið forboði þess að sikileyska lasagnað hennar Hildigunnar reyndist mjög þarmaörvandi. Og þar með er ég búin að brjóta regluna um að halda hægðum mínum frá þessari síðu.

Lifið í friði.

p.s. ef þetta er hundleiðinlegur pistill segi ég mér það til varnar að ég hef ekkert kaffi fengið í morgun.