3.3.05

hver er best?

Þá er ég endanlega orðin sannfærð um að ég geti allt. Þetta hefur verið að brjótast um í kollinum á mér í einhvern tíma, mér finnast mér vera allir vegir færir og þegar einhver segir nei við mig þá hugsa ég bara eins og litla gula hænan: Þá geri ég það bara sjálf.

Í gær var birtur listi yfir þá sem komast áfram í munnlegt próf/viðtal út af vinnu sem bókasafnverðir hér á Ile de France (e.k. Gullbringu- og Kjósarsýsla sem nær yfir úthverfi Parísar). Maðurinn minn þreytti prófið í nóvember eins og dyggir lesendur muna.
Hann vann vel fyrir það, las allt sem sett var fyrir. Hann er klár og mjög vel ritfær. Honum fannst honum ganga mjög vel. Hann er ekki á listanum. Bless. Kemst ekki áfram. Og engin skýring. Er bara ekki á nafnalistanum.
Fyrst var ég grátklökk og síðan reið og nú segi ég bara: Fjandinn hafi það, við stofnum bara bókasafn, miklu stærra og flottara en þessi sveitasöfn hérna sem eru opin nokkra morgna í viku og loka á sumrin og ekki einu sinni kaffistofa í þeim! Stofnum alvöru pönk/anarkista/hápólitískt hæli fyrir hugsandi fólk. Þarf að melta þessa hugmynd mína, líklega fer hún bara ofan í skúffuna með öllum hinum draumunum sem ég mun aldrei láta rætast, en þetta er engu að síður afar góð hugmynd, að mínu mati.

Í morgun fór ég að leita að korti af París til að nota í greinina sem ég er að skrifa um mig (sic) í tímarit nokkurt. Kortið sem ég fann birtist blikkandi og það leiddi mig til þess að fara að athuga hvernig ég gæti bætt minni við Internet Explorer eins og tölvan segir mér reglulega að gera og það leiddi mig út í að hlaða niður nýrri útgáfu af Internet Explorer fyrir Mac Os 9. Og nú get ég t.d. lesið hana Ljúfu eins og prósa, en ekki eins og undarleg nútímaljóð með einu orði í línu. Er ég ekki klár? Er mín ekki best? Mér finnst það.

Ég hef enn ekki komist í að uppfæra Mac Os X, þar sem eigandinn og fjölskylda hans liggja í veikindum og ég hef staðið í flutningum með vinum okkar Bryn og co. Nóg að gera. Get samt ekki beðið eftir að prófa að gera þetta. Þó ég geti nú ekki neitað því að ég kvíði tilhugsuninni um tölvuleysi mikið, því auðvitað gæti eitthvað farið úrskeiðis. En þar sem ég er best, verður þetta ekkert mál, er það nokkuð?

Lifið í friði.