30.4.08

hár og pár

Hárið er farið. Verst að hitta á uppáhalds hárgreiðslukonuna í öngum sínum. Hún reifst fyrst í síma og svo augliti til auglitis við aðra manneskju meðan hún var að klippa mig. Það var dálítið undarleg tilfinning. En mér tókst að fá hana til að hlæja smá.
Hún vill aflita hárið á mér, gera mig hvíthærða. Hún segir að það sé eðlilegt fyrir eldri konur (quoi!?) að lýsa hár sitt, það feli hvítu hárin.
Ég þarf að hugsa mig um.

Eftir prófin, því nú hugsa ég bara um þau.

og líka reyndar um langa daginn með ferðalöngum á morgun og hvað ég á að hafa í kvöldmatinn og hvort ég eigi að setja í aðra vél og hvernig hægt verði að bjarga heiminum og hvort það sé örugglega til nóg súkkulaði og hvort ég eigi að spara döðlurnar fyrir próftökuna sjálfa og hvers vegna himininn var aftur blár

Ég er svo stressuð að ég fæ hjartsláttarköst með yfirliðstilfinningu. Ég lofa því samt að láta ekki undan lönguninni til að stökkva út um gluggann eða taka næstu vél til Kúala Lúmpur.

Ég hlakka óstjórnlega til að vera búin og finnst ég snarklikkuð að vera að sækja um á framhaldsstigi. Vinur minn sagði að þetta sýndi bara að ég væri "ekta Íslendingur", hann þekkti svo marga sem væru í vinnu með börn og svo einhverju dúndurnámi meðfram því. Hann tekur því rólega sjálfur eins og íbúarnir í landinu sem hann býr í. Er þetta einhver íslenskur "sjúkdómur"? Að gera of margt í einu? Ég á franska vinkonu sem fór í nám meðfram vinnu og með barn. Hún að vísu endaði með að skilja við manninn sinn, en kláraði námið og hækkaði í tign í vinnunni. Það er nú líka voða íslenskt (og auðvitað alþjóðlegt), að skilja. Er það álagið? Er fólk að ætla sér of mikið og tapar því einhverju í ofáætlunum sínum?

En hvað er ég að bulla, ég ætlaði bara að hugsa um hljóð- og hljóðkerfisfræði og auðvitað smá um samsetningu orða og bandstafi og svoleiðis skemmtilegheit.

Gatan mín er öll bleik, lítið af blómum eftir í trjánum en gatan lögð bleiku teppi. Mér finnst það fallegt, verra með blessaða rigninguna og hráslagalegt veður.

Lifið í friði.