3.11.05

bla bla bla - jólakaka

Þetta sögðum við krakkarnir í blokkinni þegar við vildum dissa einhvern. Arfalélegt rím.
Bryn vinkona skildi eftir þrjú Hús og Hýbýli blöð hjá mér og í þeim þyrfti ég að telja orðin sem byrja á arfa. Einhverri blaðakonunni þykir þetta greinilega smart, lekkert, nýtilegt og vel hannað forskeyti. Svo er greinilegt að í blaðamannaskólanum læra blaðamenn að setja tvö lýsingarorð í myndatexta. Þannig er stofan björt og falleg, hlý og björt eða nýtískuleg og rúmgóð. Í einum textanum bregst bogalistin þó þegar matreiðslubók verður óvenjuleg og sérstök. Afsakið, hver er munurinn? Vanda sig!
Í hvert skipti sem ég fletti blöðunum er engum blöðum um það að fletta að ég les þessi blöð mjög illa. Ég sé alltaf eitthvað nýtt (þó ekkert endilega skemmtilegt og smart) sem ég hafði ekki tekið eftir í síðustu flettingu. Ég geri mér ekki grein fyrir því hvort eins fer fyrir blessuðum laugardagsmogganum sem ég fæ sendan, þykir það þó líklegt þar sem ég lendi oftast í að hraðfletta honum á leið í endurvinnslutunnuna. Tékka svona til öryggis hvort nokkuð sé mynd af einhverjum sem ég þekki eða eitthvað svoleiðis. Mjög léleg nýting á því blaði. En Lesbókina geymi ég og les yfirleitt þó stundum líði langur tími frá útgáfudegi að lestri.
Fletti samt rólega síðasta laugardagsmogga í gærkvöld og rak þar augun í rokna töffaramynd af Helga Björns og textinn undir segir að hann sé laus úr töffaraviðjunum eða eitthvað álíka. Ha? Jú, svo sá ég hann syngja í Kastljósþætti í morgun og ég er ekki frá því að textinn sé sannur. Sakna kyntröllsins sem hann var.
Mér finnst ekkert erfitt að eldast sjálfri, enda er ég með afbrigðum ungleg eins og kom fram hér fyrir skömmu. Hins vegar finnst mér oft erfitt að sjá æskugoðin verða að körlum og kerlingum. Verð hrygg. Hrygg og súr svo við höldum okkur við blaðamannastílinn.
Á mánudag hringdi blaðakona í mig til að spyrja mig út í "óeirðirnar í París". Ég er mjög upp með mér að hringt skuli hafa verið í mig, kominn tími til að einhver myndi eftir mér hérna úti. Hins vegar varð ég að staðfesta það sem blaðakonan hafði heyrt annars staðar frá: Hér er ekkert um að vera. Læti í nokkrum unglingum í úthverfi sem er jafnlangt frá París og Keflavík er frá Reykjavík eru blásin upp í fréttum vegna þess að ekkert annað er að gerast og auðvitað (sem ég gleymdi að benda blaðakonunni á) vegna þess að það hentar Sarkozy mjög vel að geta notað orð eins og racaille (lýður) um úthverfaaumingjana sem hann vill hrekja á brott eða klófesta og loka inni.
Fer ótrúlega í taugarnar á mér að sjá fréttirnar á íslensku vefjunum um þetta mál. Enn og aftur éta íslenskir blaðamenn tilreiddar fréttir án þess að leita staðfestingar eða nýs sjónarhorns.

Í dag vaknaði ég um áttaleytið og gerði huglægan lista um allt sem ég ætlaði að gera í dag. Mála hurðina, fara í sturtu og út í Fnac með filmuna og koma við í byggingavöruverslun og koma heim fyrir hádegi og halda áfram að vinna og taka til. Nú er klukkan 12.03. Ég er búin að mála hurðina síðustu umferðina. Punktur. Ekki farin út, ekki búin að gera neitt af hinu. Og nenni því ómögulega. Fimmtudagar eru, ásamt þriðjudögum (ekki þó þessa vikuna því þri var frídagur) lúxusdagar því þá eru bæði börnin í geymslu. Þá mamman að nota tækifærið og gera alla þessa hluti sem þarf að gera og aldrei er hægt að gera með börnin hangandi í pilsfaldinum. En ég er svoooo þreytt. Mig langar svoooo að liggja hér uppi í sófa og lesa bókina sem ég er að lesa eða hekla smá sem ég hef ekki gert svo lengi og jafnvel glápa á sjónvarp sem ég hef ekki gert lengi lengi.
Var búin að skrifa langan kafla um ástæður fyrir því að mig langar að laga og betrumbæta íbúðina en það var svo leiðinlegt að ég strokaði það út og heimta þakkir fyrir.

Lifið í friði.