jómfrúarferð og vond hótel
Ég gat heldur betur prófað bílinn minn í dag í góðverki dagsins - sem ég fæ reyndar eitthvað greitt fyrir. Fór upp á völl og fann mann með lyklakippu. Hann spurði mig hvort þetta væru virkilega lykar að Porche. Ég hló við fót, enda vissi ég betur. Bara lyklar að íbúð í París. En kippan var Porche. Veit nú reyndar ekki hvort er dýrara, læt mig dreyma um hvorugt.Ég bauð manninum með kippuna far með henni inn í miðbæ. Hann þáði það. Ég þorði ekki að spyrja hann að aldri, fannst ég verða eitthvað gömul við það. Við ræddum um heima og geima, ferðalög og París, söfn og raðamenningu þjóða, en ekki um neitt sem máli skiptir. Og það skiptir engu máli. Við erum sammála um að ferðalög án hótelpantana fyrirfram eru best. Samt var ég eitthvað að reyna að gauka að honum upplýsingum um hvar hægt væri að finna ódýr hótel í París. Gat ekki alveg haldið í mér. Eins og mér finnst sjálfri æðislegt að koma í borg og ganga á vit örlaganna. Sem næstum alltaf hafa virkað ótrúlega vel. Ég stoppaði mig af, eða var það hann?
Hann stökk út á horni, greip töskuna sína úr skottinu og öskraði bæ. Ég öskraði bæ og góða ferð.
Kannski hitti ég hann aldrei aftur. Kannski hittumst við einhvern tímann og hlæjum að þessum skyndikynnum. Kannski nikkar hann til mín í Bónus eftir tvö ár og ég pæli í því í tvo mánuði hvaðan í ósköpunum ég þekki hann.
Versta hótel sem ég hef nokkurn tímann gist á, var í fyrstu Parísarferðinni. Þá komum við galvösk á farfuglaheimilið og var hlegið að okkur, það þurfti að panta með minnst tveggja mánaða fyrirvara. En maðurinn í móttökunni talað sænsku og sagði okkur frá hóteli í nágrenninu. Hann bað okkur þó að segja ekki frá því hvar við hefðum fengið upplýsingar um hótelið. Við fundum það, gengum inn í myrka móttöku og báðum um herbergi. Vorum strax spurð um það hvernig við hefðum fundið þau. Settum upp sakleysissvip og sögðumst bara koma fyrir tilviljun inn af götunni. Fengum þriggja manna herbergi með sturtu sem var beint yfir klósetti og vaski (allt þrennt inni í litlum sturtuklefa). Lökin voru alsett "hreinum" blóðslettum (búið að þvo, en blettir ekki farið). Við ákváðum strax að strategían væri að fara út fyrir sólarupprás og koma inn eftir sólarlag og vorum þarna áfram, nenntum ekki hótelveseni í borginni.
Ég hef oft leitað að þessu hóteli, en aldrei fundið.
Lifið í friði.
<< Home