6.5.08

léttblogg

Eitt búið, eitt eftir. Ég ætla ekki að tala um hvernig mér gekk því kennarinn minn les nefninlega bloggið mitt. En mér er létt.

Í morgun vaknaði ég og geispaði stórum og teygði mig með látum. Maðurinn minn kom valhoppandi inn í herbergi, brosandi út að eyrum og spurði hvort ég vildi ekki kaffi. Ég fæ þessa þjónustu á hverjum morgni, kaffi í rúmið.
Ég spurði hann hvernig í ósköpunum hann færi að því að vera svona kátur og glaður á morgnana með kellinguna draugfúla á leið í próf og börnin að hugsa um og koma í skólann á réttum tíma. Hann segir að sól að morgni sé nóg fyrir hann til að ná að byrja daginn í góðu skapi.

Einu sinni sagði vinkona við mig að ég ætti þennan mann ekki skilinn en ég ákvað strax að trúa henni ekki. Í dag efast ég örlítið í fyrsta sinn. Ég er búin að vera ömurleg eiginkona undanfarið, á kafi í bókum og glósum, pirruð og uppstökk, stressuð og bara hundleiðinleg. Samt er hann alltaf boðinn og búinn og kvartar aldrei yfir því að allt skuli lenda á honum. Maðurinn minn er hreint ágætur, ég vona að hann viti að ég viti það.

Nú ætla ég að dressa mig upp í hlaupagallann og fara og taka svolítið á. Ekki veitir af að losa örlítið um spennuna í öxlunum og koma blóðinu á hreyfingu. Mér líður eiginlega eins og ég sé ekki að fara í annað próf, þetta sé bara búið. Kannski að hluta til vegna þess að ég veit ekki ennþá um hvað hitt prófið mun fjalla, ég veit ekki enn hvað það er sem ég á að kunna, hef ekki græna glóru. Ég er búin að ákveða að taka þessu bara djassað. Talið við mig aftur á fimmtudagskvöldið, líklega verður ekki mikill djass í mér þá.

Lifið í friði.