7.5.08

10.07

Ég svaf til hálfníu, sem kallast að sofa út á þessu heimili.

Ég er búin að drekka stóran góðan kaffibolla.

Ég er búin að svara nokkrum fyrirspurnum og skrá fólk í gönguferðir.

Ég er búin að kíkja á þau örfáu blogg sem bæst höfðu við frá því í gær og gægjast á nokkra athugasemdahala.

Ég er búin að sitja hérna og horfa út í loftið.

Ég er búin að kíkja á svarið við fyrstu spurningunni í æfingaverkefninu og ákvað að gera allt verkefnið upp á nýtt áður en ég kíkti áfram. Það staðfestist enn og aftur að ég veð í villu og svíma í þessu fagi.
Spurt var um gagnsæi merkingar orða, göngugata, skáldkona og blómapottur. Ég var með skáldkonuna í samræmi við hans pælingar, eingöngu vegna þess að hún var rædd í fyrsta tíma. Fyrir hin tvö fer ég í allt aðrar áttir og fæ allt aðrar niðurstöður.
Það er risastór geitungur inni hjá mér. Glugginn er galopinn en hann flögrar hér um og fer ekki út. Hjálp! Oh, nú sé ég hann ekki, ég dey.

Ég verð að fara að fá mér morgunmat, en það verður ekkert hægt að gera fyrr en geitungurinn flýgur út.

Lifið í friði.