5.5.08

rækjur og orðanna hljóðan

Ég fékk mér rækjur í hádegismat. Það hafði róandi áhrif á mig að pilla þær í sundur og þær voru gómsætar. En þegar um fjórar rækjur voru eftir og hrúgan af skel og hausum með tilheyrandi þreifurum var orðin þeim mun stærri, fylltist ég skyndilega einhvers konar ógeðstilfinningu, fannst ég hafa úðað í mig kakkalökkum eða einhverju ámóta spennandi hráefni. Það var ekki eins róandi. Eins gott að ég á súkkulaðikökuafgang frá afmæli tengdamömmu í gær. Fæ mér svoleiðis þegar maginn róast aðeins niður.

Ég er búin að fá tvo mjög uppörvandi tölvupósta frá vinkonum og eitt alvöru raunheimafaðmlag frá annarri vinkonu. Svo las ég skemmtilega hugleiðingu Ástu Svavars áðan, það er nú slatta uppörvun í að lesa svona jákvæðni.
Samt líður mér eiginlega hörmulega svona heilt yfir eins og sumir myndu orða það. En ég veit líka að þetta er bráðum búið og ætlast ekki til vorkunnar.
Ég er komin á stigið að ég kannast ekki við orðin sem ég les, ha, opið atkvæði? Aldrei heyrt á það minnst. Önghljóð? Er það eitthvað ofan á brauð?

Lifið í friði.