öfugt
aaaaarrrrrrrgggggghhhhhh!
Ha, ég? Nei, nei, það er allt í lagi með mig. Mér líður ógurlega vel og hef ekki yfir neinu að kvarta.
Lifið í friði.
hár og pár
Hárið er farið. Verst að hitta á uppáhalds hárgreiðslukonuna í öngum sínum. Hún reifst fyrst í síma og svo augliti til auglitis við aðra manneskju meðan hún var að klippa mig. Það var dálítið undarleg tilfinning. En mér tókst að fá hana til að hlæja smá.
Hún vill aflita hárið á mér, gera mig hvíthærða. Hún segir að það sé eðlilegt fyrir eldri konur (quoi!?) að lýsa hár sitt, það feli hvítu hárin.
Ég þarf að hugsa mig um.
Eftir prófin, því nú hugsa ég bara um þau.
og líka reyndar um langa daginn með ferðalöngum á morgun og hvað ég á að hafa í kvöldmatinn og hvort ég eigi að setja í aðra vél og hvernig hægt verði að bjarga heiminum og hvort það sé örugglega til nóg súkkulaði og hvort ég eigi að spara döðlurnar fyrir próftökuna sjálfa og hvers vegna himininn var aftur blár
Ég er svo stressuð að ég fæ hjartsláttarköst með yfirliðstilfinningu. Ég lofa því samt að láta ekki undan lönguninni til að stökkva út um gluggann eða taka næstu vél til Kúala Lúmpur.
Ég hlakka óstjórnlega til að vera búin og finnst ég snarklikkuð að vera að sækja um á framhaldsstigi. Vinur minn sagði að þetta sýndi bara að ég væri "ekta Íslendingur", hann þekkti svo marga sem væru í vinnu með börn og svo einhverju dúndurnámi meðfram því. Hann tekur því rólega sjálfur eins og íbúarnir í landinu sem hann býr í. Er þetta einhver íslenskur "sjúkdómur"? Að gera of margt í einu? Ég á franska vinkonu sem fór í nám meðfram vinnu og með barn. Hún að vísu endaði með að skilja við manninn sinn, en kláraði námið og hækkaði í tign í vinnunni. Það er nú líka voða íslenskt (og auðvitað alþjóðlegt), að skilja. Er það álagið? Er fólk að ætla sér of mikið og tapar því einhverju í ofáætlunum sínum?
En hvað er ég að bulla, ég ætlaði bara að hugsa um hljóð- og hljóðkerfisfræði og auðvitað smá um samsetningu orða og bandstafi og svoleiðis skemmtilegheit.
Gatan mín er öll bleik, lítið af blómum eftir í trjánum en gatan lögð bleiku teppi. Mér finnst það fallegt, verra með blessaða rigninguna og hráslagalegt veður.
Lifið í friði.
steikt
Röddin er komin til baka, hárið á mér er úr sér vaxið, tvisvar sinnum á einni viku hef ég þurft að senda tvö mjög neyðarleg bréf til fólks, var ekki viss um hvað okkur hafði farið í milli áður, heilinn á mér er á stöðugri yfirkeyrslu mér finnst ég alltaf vera að gleyma einhverju, svíkja einhvern, klúðra einhverju.
Er hægt að bræða úr heilum eins og bílvélum? Er það kannski ástæðan fyrir þorstanum sem sótti á mig í dag, þurfti kælivökva?
Ég tók skyndiákvörðun um að skella mér í klippingu á morgun og tókst að sannfæra hárgreiðslukonuna mína um að opna hálftíma fyrr til að koma mér að. Ég hef áður viðrað kenningar mínar um hár sem flækist fyrir mér, sjáum hvort eitthvað skýrist í kollinum á mér varðandi orð sem flækjast fyrir mér, t.d. fer orðið einkvæmt fyrir brjóstið á mér. Kannist þið við það og vitið þið hvað það þýðir? Vinkona mín segist kannast við það hjá eldra fólki, mér finnst ég aldrei heyrt þetta orð, né heldur orðið bilkvæmt, fyrr en ég fór að lesa um hljóð- og hljóðkerfisfræði.
Lifið í friði.
Alþjóðastofnun Háskóla Íslands verður að svara
þessum ásökunum.
Lifið í friði.
gúgglsigur
Ef þið gúgglið orðinu á borginni sem ég bý og starfa í með íslenskri stafsetningu, hvaða síða kemur þá fyrst upp á eftir kortinu þeirra?
Lifið í friði.
ís
Ég les um ísbúðir á öllum þeim bloggurum sem hafa nennt að dýfa penna í blek.
Í kvöld tilkynnti maðurinn minn að við fengjum eitthvað óvænt eftir matinn. Hann hafði keypt ís handa okkur. Honum finnst sjálfum ís ekki góður svo hér er sjaldan keyptur ís, mjög sjaldan.
Tilviljun að við fengum ís um leið og allir Íslendingar fengu ís? Já og skemmtileg er hún.
Nú ætla ég að horfa á Barnaby, ekki til að verðlauna mig eftir lásí dag heldur til að reyna að gleyma hvað ég er lásí.
Þið getið þakkað fyrir að í þögn minni hef ég bloggað stanslaust, en alltaf séð aumur á lesendum og þurrkað færslurnar út í staðinn fyrir að birta þær.
Lifið í friði.
eirðin farin
Ég hef ekki snefil af eirð til að lesa. Eða nokkuð annað. Kannski ég skreppi út í góða veðrið, verið að hóta rigningu á morgun, þegar við skylmingastúlkan ætluðum að setjast á terrössu. Hefðum betur gert það í síðustu viku en það gátum við þó ekki vitað.
Ég er miður mín yfir litlum árangri dagsins. Tíminn líður og sekúndum í prófið fækkar stöðugt.
Lifið í friði.
sunnudagur, sól og hiti
Það er frekar fúlt að taka blogglestrarpásu reglulega á sunnudögum. Fara allir út úr bænum eða er málið að fólk bloggar almennt í vinnunni?
Ég get svo sem ekki kvartað, hef nóg lestrarefni og úða í mig greinum um beygingarendingar og breytingar á sagnbeygingum. Ég skil ekki bofs í þessu, hef enn ekki almennilega náð tökum á því hver munurinn á hljóðfræði og hljóðkerfisfræði er, þó ég hafi skrifað hann 100 sinnum niður, og átta mig illa á því hvenær reglur eru beygingarreglur og hvenær hljóðkerfisreglur. Mér er illt í málfræðikunnáttu minni.
Í tilefni af því að einn greinarhöfunda notaði orðið
líka í útlistunum sínum fór ég að hugsa til Jóns Gúmm sem barði það svo illilega í mig að nota
einnig og aldrei
líka að ég hrekk alltaf við þegar ég sé það í ritmáli. Ég skrifa það stundum sjálf og þarf oft að pína mig til að breyta því ekki í
einnig, því ekki vil ég vera uppskrúfuð, nógu leiðinleg er ég nú samt.
Í framhaldi af hugsunum mínum um hann Jón, gúgglaði ég honum í fyrsta skipti á ævinni og komst að því að hann dó núna í apríl. Það fannst mér dálítið undarlegt, sérstaklega þar sem ég held að við höfum rætt um hann um daginn, ég og MR-ingurinn sem var hér í heimsókn.
Í gönguferðum mínum um Latínuhverfið geng ég framhjá húsinu sem ég bjó í þegar ég var au-pair. Ég hafði farið túrinn oft og mörgum sinnum, stundum bendi ég á húsið, stundum erum við svo mikið að tala um eitthvað annað að það gleymist. En eitt skiptið benti ég ekki bara á það heldur sagði hugsunarlaust að gaman væri að vita hvort kerlingin sem átti herbergið væri enn á lífi. Sama kvöld frétti ég að hún var grafin þann dag. Tilviljun að ég hugsaði til hennar? Já, líklega, en samt undarleg tilviljun. Ég fíla undarlegar tilviljanir. Jón Gúmm hefði strikað með rauðu yfir sögnina
að fíla. Hann hefði líka strikað út sögnina
að elska í þessu samhengi. Ég á alltaf erfitt með að yrða það sem ég fíla, mér þykir vænt um, mér þykir gott. Ég er nefninlega sammála hreintungustefnufólki um að sögnin að fíla er ljót og að það er asnalegt að segja að maður elski eitthvað þegar manni þykir það bara gott eða skemmtilegt. Undarlegar tilviljanir eru skemmtilegar. Þetta er betra.
Röddin er svo til alveg farin, þegar ég reyni að tala kemur annað hvort þvagmælt önghljóð eða ískur. Því þegi ég. Er ekki stutt síðan ég missti röddina síðast? Það var áreiðanlega núna í vetur.
í morgun vaknaði ég líka með dúndrandi höfuðverk sem fór ekki fyrr en ég tók mígrenilyf um hálftólf. Þannig að ég er bæði daufleg og raddlaus. Sem betur fer er ég ein heima. Og sem betur fer er þetta lestrardagur en ekki vinnudagur.
Það fæddust tvíburar í fjölskylduna okkar í gær. Tveir strákar. Ég veit ekki hvort þeir voru teknir með keisara, né hvað þeir eru stórir, né hvar þeir eru staddir eða hvenær ég má koma að sjá. Það er glatað að láta karlmenn taka við svona símtölum. Hvernig stendur á því að þeir spyrja ekki að neinu, bara nei frábært, til hamingju, heyrumst, bless.
Lifið í friði.
rödd
Röddin er að þverra.
Nú ríður á að vera dugleg að þegja. Ekkert að lesa upphátt um hljóðkerfisfræði meira.
Skylmingastúlkan náði ekki inn, fer ekki til Peking.
Lifið í friði.
þó ég væri með bólu
Hér er myndband um París.
Lifið í friði.
sænska þemað
Í gær fór ég hálfa leið til Svíþjóðar á leið frá flugvellinum. Ég kom nefninlega við í IKEA og birgði mig upp af síld, rauðkáli, sætsúrum gúrkum, piparrótarsósu, kjötbollum og kavíar úr túbu, en það er dálítið sjúkt miðað við að hér fæst hið gómsæta grískættaða "tarama" í öllum venjulegum verslunum.
Hádegisverðurinn var síld, egg, kartöflur, rauðkál og smá afgangur af hrísgrjónum. Ég er búin að vera sérstaklega gáfuð síðan.
Svo keypti ég líka púnsrúllur og er búin að láta mig dreyma um eina slíka síðan ég vaknaði í morgun. Loksins er að koma kaffitími! Ég hugsa að rautt te fari vel við grænu púnsrúlluna.
Lifið í friði.
bílstjórar og lögreglumenn
Sénsinn að ég skrifi um það mál!
Lifið í friði.
fyrirtækjaraunir
Ég lenti í því tvisvar um daginn að fá ruslpóst frá sjálfri mér. Þetta voru bréf um einhverjar netverslanir eða lyf, ég man það ekki svo obboðslega gjörla.
Og um daginn fékk ég bréf frá konu sem baðst afsökunar á því að hafa aldrei svarað mér í febrúar, en bréfin frá mér höfðu lent í ruslinu án þess að hún tæki eftir því.
Í dag fékk ég svar frá manni sem ég sendi bréfkorn í gær og í fyrirsögn bréfsins (subjectinu, hvað er það á íslensku?) stendur Spam: Spam: á undan fyrirsögninni sem ég hafði sett.
Þetta veldur forstjóra fyrirtækisins parisardaman.com miklum áhyggjum. Ætli margir séu að fá alvöru ruslpóst frá mér? Er netfangið mitt orðið ruslpóstasendir án þess að ég fái rönd við reist?
Lifið í friði.
spennan magnast
Í dag flaug skylmingastúlkan á vit örlaga sinna og á laugardaginn ræðst það hvort hún kemst til Peking. Ég krosslegg fingur og sendi henni alla mína bestu strauma.
Bitra konan í mér spyr sig líka hvort eitthvað verði fylgst með þessu knáa fólki í íslenskum fjölmiðlum eða hvort það muni eingöngu gerast ef þau ná inn?
Hér er alla vega spennan í hámarki og svissneski vefurinn
fie.ch kominn í bókamerki.
Í dag tókst mér líka að læsa mig úti. Löng saga sem varð til þess að ég átti indæla stund með vinkonu minni og nágranna sem ég hitti næstum aldrei. Og m.a.s. íslenskri mömmu hennar líka, sem er næsti bær við að eiga indæla stund með sinni eigin mömmu.
Lifið í friði.
sólbað
Trimmið varð endasleppt, magaæfingarnar fáar en lega í grasi og baldursbrám þeim mun lengri. Frakkar eiga kannski að taka upp hinn íslenska fyrsta sumardag?
Ég óska öllum lesendum nær og fjær gleðilegs og góðs sumars.
Lifið í friði.
leitað er að orði
Hvað heita grímurnar sem skurðlæknar og fólk í matariðnaði notar? Sem sagt grímur sem vernda umhverfið fyrir útöndun. Ekki eru það öndunargrímur?
Lifið í friði.
bíó
Miðvikudagar eru krakkadagar. Ég átti morguninn en hann fór eingöngu í vinnuna, ekkert í námið.
Eftir hádegi fór ég svo með börnin í bíó að sjá þessa sérdeilis
ágætu mynd. Ef þið nennið að horfa á stiklurnar úr myndinni er þar m.a. hið fínasta
hopp og hælum slegið saman. Samt er þetta ekki dans- og söngvamynd. Bara falleg kvikmyndatónlist á bak við stanlaust fjör og töluvert spennandi kafla. Þau voru bæði komin upp í fangið á mér í lokin og Kári var smá stund að jafna sig, bað um að fá að horfa á eitthvað fallegt. Hann fékk þó ekki að glápa meira heldur gerðist móðirin svo myndarleg að fara og kaupa sandala á þau í stóru ódýru íþróttabúðinni. Það var ekki seinna vænna, allt var að klárast. Hér er engin kreppa. Og reyndar get ég leyft mér að efast um íslenska kreppu líka. Er þetta kannski bara aðallega fjölmiðlafár?
Lifið í friði.
heilsa
Ég fór til taugalæknis í janúar eins og lesendur muna. Síðan þá hef ég nokkrum sinnum tekið Naproxen ef mér hefur fundist ég vera að stífna upp í öxlum. Hef gefið a.m.k. eina töflu og á eina eða tvær eftir úr tíu töflu pakka. Ég fæ mér íbúprófen ansi oft, líklega einu sinni til tvisvar í viku. En mígrenilyfið hef ég bara þurft að taka einu sinni allan þennan tíma. Það fór ágætlega, kastið gekk strax niður og aukaverkanir voru einhvers konar verkur/doði í handleggjum daginn eftir. Dálítið óþægilegt en vel þess virði.
Ég hef ekki mikið dálæti á læknum, þ.e.a.s. að fara sjálf til læknis. Ég þjáist í raun af ofsahræðslu gagnvart læknisheimsóknum sem var mjög greinileg þegar ég var barn, ég trylltist þegar ég sá fólk í hvítum kápum eða frökkum úti á götu. Mamma á hræðilegar minningar um lækna sem hlaupa á eftir mér í kringum skrifborðið, ég á hræðilegar minningar um blóðtökur og annað slíkt, sérstaklega leið mér illa þegar tekið var blóð úr systur minni sem skipti ekki svip á meðan.
Ég held að ef ég fari reglulega til taugalæknis geti ég í raun haldið mígreninu niðri. Eða, eins og ég geri núna, að ég telji mér trú um að ég þurfi að fara reglulega.
12 ára gömul læknaði ég sjálfa mig af bráðri botlangabólgu einfaldlega vegna þess að ég vildi ekki láta skera mig upp. Ég var í sveitinni, læknir kom og skoðaði mig þar sem ég lá í óráði með yfir 40 stiga hita. Hann pantaði sjúkrabíl og sagði að ég þyrfti uppskurð strax. Mér krossbrá þarna úr óráðinu og á leiðinni í sjúkrabílnum horfði ég á fjöllinn út á milli hvítu línanna á glugga bílsins og fann hvernig hitinn rjátlaði af mér og verkurinn hvarf. Þegar við renndum inn í kjallarann við Landspítalann hrópaði ég á lækninn sem tók á móti mér að það þyrfti ekkert að skera mig, það væri allt í lagi núna. Ég var látin dúsa alheilbrigð á spítala í 4 daga því skýrsla sveitalæknisins olli þeim miklum áhyggjum. En ég er enn með botlangann í mér.
Auðvitað hef ég þurft að leggjast undir hníf einu sinni og gat ekki læknað sjálf það sem hafði gerst, en þá brenndi ég mig illilega á fæti. Ég tel mig ekki vera kraftaverkamanneskju, en ég er þó nokkuð á því að hræðsla mín við lækna heldur að vissu leyti í mér heilsunni.
Lifið í friði.
ertu með?
Út að skemmta sér, fara í partý, fara í gilli, fara á djammið, út að tjútta, út á lífið, kíkja í glas, fá sér í tána, lyfta sér upp, sagði BB.
Ég held upp á þennan: fá sér tvo, sjö bjóra (sem hefur breyst í rauðvínsglös með árunum).
Svo er líka hægt að fara út, detta í það, fara út að dansa, fá sér neðan í því, kíkja á krána, kíkja í bæinn, fara á kráarrölt, skreppa á ball...
ekki fleira í bili, en þú?
Lifið í friði.
væl sem ekki skal taka of alvarlega því það gæti reynst hættulegt heilsu minni
Ég skal alveg viðurkenna að ég væli stundum (les: oft) út af náminu bæði hér á
Alnetinu og við vinkonur mínar sem emja undan hljóðlýsingum og tækniorðum eins og viðskeyti líkt og ég sé að tala um snáka og loðnar kóngulær.
En ég held ég myndi ekki væla í kennaranum svona rétt fyrir próf eins og gert var í síðasta tímanum í beyg og morði sem ég hlustaði á rétt í þessu. Ég er sammála kennaranum: "nám á að vera erfitt, annars er það ekki að skila neinu". Ég held að allt of margir íslenskir námsmenn (þar á meðal ég) hafi komist allt allt allt of létt frá grunn- og framhaldsskólanámi og séu sérlega illa undirbúin undir háskólanámið beint. Hörkuna hef ég náttúrulega frá hinum ógurlega
skóla lífsins sem ég hef stundað af krafti töluvert lengur en þessi
börn í tímanum.
Lifið í friði.
truflun
Fyrst grét barn sáran einhvers staðar úti og fullorðna konan sem var með barninu missti sig gersamlega, öskraði stjórnlaust og svo skelltist hurð og þögnin helltist aftur yfir hverfið. Mér leið mjög illa.
Svo upphófust mikil læti á 3. hæð. Unglingsstrákurinn sem var búinn að vera að æfa sig á rafmagnsgítarinn í miklum ham fyrr í dag, hljóðfræðistúdínunni til mikillar gleði, hóf að öskra á pabbann sem öskraði a.m.k. jafnhátt til baka. Samt er íbúðin þeirra bara jafnstór minni, tæpir 70m2.
Nú er allt með kyrrum kjörum en ég er með kvíðahnút í maganum. Mig langar út í sólina. En ég ætla að vera dugleg. Ég ætla að vera dugleg. Ég ætla að vera dugleg og til þess verð ég að vera duglegri en ég er búin að vera í dag. Ég ætla að verða duglegri. Ég ætla að verða duglegri.
Kerfisbundin greining samhljóða í hljóðön.
Lifið í friði.
gott veður
Það er gott veður úti. Fulgarnir syngja, sólin skín. En ég er inni, þæg og góð, ljúf og kurteis, ábyrgðafull og prúð að læra. Eiginlega er ég komin á það stig að ég hlakka til að prófdagur hefjist, þá er styttra í að prófi sé lokið. Það hlýtur að vera gott stig, er það ekki?
Það eru tvær vikur þangað til. Ég væri ekki nándar nærri eins hörð í lærdómnum núna ef ég vissi ekki að síðustu dagana fyrir fyrra prófið verð ég að vinna töluvert.
Ég heyrði í sjálfri mér á Bylgjunni í gær. Jámm (það er stílbrigði að því að bæta þessu varamælta raddaða nefhljóði í hala orðsins, trúið mér).
Í morgun var rætt um orð yfir það að
fara út að skemmta sér því skylmingakonan kemur frá Istanbúl á mánudag og við ákváðum að þá ætlum við að setjast út á terrössu og drekka hvítvín, hvernig sem leikar fara hjá henni á laugardaginn - við erum báðar frekar svekktar yfir því að vera ekki að fara að gera það í dag, fyrsta alvöru góða dag vorsins, og erum sannfærðar um að það verði svona gott veður á mánudaginn líka. En ég ætlaði að spyrja um skemmtilegheit:
Þegar ég var lítil, fóru mamma og pabbi (eða var það amma?)
í gilli og við systurnar máttum ekki koma með. Ég fór töluvert
á djammið en fannst einhvern veginn eins og fólk á aldri skylmingakonunnar hefði farið
á tjúttið, alla vega man ég eftir þessu orðalagi frá yngra fólki. Hún kannast hins vegar ekki við að hafa nokkru sinni tjúttað og finnst það ógurlega gamaldags. Ég er fædd 1969, hún 1976. Var einhver örstutt bylgja tjútts þarna inn á milli eða er þetta ímyndun í mér?
Lifið í friði.
rétt stillt
Nú er sviðsskrekkurinn í hámarki. Sjóið er að hefjast.
Ég kláraði að lesa allt sem ég ætlaði mér í dag og sendi m.a.s. nokkra meila út af vinnu á eftir. Og nú ætla ég að skokka út í sólina eftir börnunum sem eru í geymslu þó það sé skólafrí. Ekki það að ég sé með samviskubit, þau fengu ansi gott frí í febrúar.
Lifið í friði.
svalt af því hann segir það
Dr. Gunni segir að Frakkland sé svalt. Og ef Dr. Gunni segir það, er það rétt.
Hins vegar finnst mér íslensk hljóðfræði, að ekki sé nú talað um hljóðKERFISfræðina, svöl. Þess vegna er ég alls ekki á netinu einmitt núna.
Lifið í friði.
skýrsla - varúð tóm leiðindi
Síða nöfnu minnar er horfin. Það finnst mér undarlegt og vona að þetta sé bara tímabundið. Tóta pönk hvarf líka fyrir nokkru en hún er svo mikill sveimhugi að ég hef minni áhyggjur af því, ég treysti því að hún komi til baka þegar hana langar.
Mig hefur oft langað til að smella á eyðingarhnappinn en held alltaf í mér. Ég hef oft pælt í því að hætta en veit að mig langar það samt ekki.
Hér er mest af bla bla ble ble tepokabloggum en þetta er samskiptaleið. Ég blogga t.d. mun minna núna þar sem ég er með íslenska vinkonu heima hjá mér alla daga. Hún fær þvaðrið yfir sig greyið, þið getið þakkað henni pent.
Á laugardaginn fór ég í gönguferð með slatta af fólki og talaði svo við Bylgjumenn. Á eftir hitti ég unga stúlku sem ég tók með mér upp í Vísindasafn. Meðan við biðum eftir börnunum mínum sem voru í kúlubíóinu, spurði ég hana spjörunum úr um það hvernig er að vera unglingur á Íslandi í dag. Ég hitti afskaplega sjaldan unglinga.
Vísindasafnið er troðfullt af efni, það vantar ekki, en það þarf að setjast við skjái og hlusta í 5-10 mínútur á umfjöllun um hvert efni. Frekar leiðinlegt og vonlaust með lítil börn. Get því ómögulega mælt með þessu safni. Það var alveg gaman að sjá tímabundnu sýninguna á gömlu Citroën bílunum, standa undir alvöru herflugvél og nokkur skemmtileg dæmi um þyngdarleysi í geimferðum. Mest var þetta óaðgengilegt og þurrt.
Garðurinn er miklu skemmtilegri og svæðið fyrir 4-12 ára börnin er náttúrulega mjög skemmtilegt. Við dauðsáum eftir að fara ekki þangað með börnin.
í lok dagsins kom svo móðir unglingsins sem
bloggar stundum. Þær komu svo heim í mat og var það ekki leiðinlegt.
Á föstudeginum fór ég á stefnumót við, ekki dauðann, heldur þennan mann. Við ræddum túristabransann, neytendamál, bóksölu á Íslandi o.fl. Alltaf gaman að kynnast nýju fólki. Það var undarleg tilviljun að ein hjónin sem komu í gönguferð á laugardeginum höfðu fundið mig í gegnum síðuna hans. Ég hafði aldrei heyrt um hann fyrr en á fimmtudeginum á undan þegar hann sendi mér tölvupóst og við mæltum okkur mót.
Lífið er skemmtilegt en nú þarf ég að bretta upp ermarnar og hljóðfræðast og orðmyndast.
Lifið í friði.
bylgjan brosandi í lit
Ég verð líklega í síðdegisútvarpi Bylgjunnar á morgun. Nema það fari fyrir þessu viðtali eins og síðasta útvarpsviðtali sem fór að því er ég best veit, aldrei í loftið.
Ég man ekkert hvað ég var spurð um og ég var svo stíf þegar því lauk að ég hefði þurft að komast í sjúkranudd. Meiri sviðsskrekkurinn í manni alltaf hreint.
Lifið í friði.
hvers vegna?
Hvers vegna hefur
þetta ekki fengið neina umfjöllun og athygli? Er maðurinn talinn klikkaður? Eða hvað?
Lifið í friði.
allt
Það er allt að gerast. í einu. Ótrúlega gaman en vissulega ekki hentugt gagnvart ákveðnu mjög mikilvægu verkefni sem ég er búin að greiða 10.000 krónur fyrir, próftökunni.
Lifið í friði.
Ég er á lífi og á mér líf, því miður kannski. Betra væri líklega að engin utanaðkomandi truflun væri til staðar, að ég væri alein einhvers staðar í litlu herbergi búnu helstu nauðsynjum og engu umfram það með bækurnar Íslensk tunga, nokkra vel yddaða blýanta og stílabækur hjá mér.
Próf, próf, próf þetta sönglar í hausnum á mér undir fallegu tíðnihljóðinu sem er orðið órjúfanlegur hluti af sjálfi mínu.
En dömunni berast bréf með beiðnum um gönguferðir, hótelpantanir og fleira, það þarf að ganga frá lausum endum og auðvitað muna eftir að fara með börnin til tannlæknis og gefa þeim að borða.
Stór ákvörðun var tekin um daginn og gengið frá MA-umsókn. Ég bíð svars og út frá því þarf að taka enn fleiri stórar ákvarðanir. Sem varða ekki eingöngu sjálfa mig en aðalinnihaldið er:
Hvað ætlar þú að verða væna þegar þú ert orðin stór?Ég sef illa, bólur eru byrjaðar að spretta á ný eftir smá hlé og mig klæjar í hársvörðinn og það snjóar úr honum. Veðrið er undarlegt, kalt og hlýtt til skiptis, stundum á sömu mínútunni. Skylmingastúlkan er dugleg og ég hef fulla trú á að hún verði í sjónvarpinu í sumar og ég með vasaklút að horfa á. Blómin vaxa og dafna, fuglarnir syngja (les: garga), kettir breima. Það er vor. Það er gull.
Mér barst bók í pósti frá lesanda þessarar síðu. Ég klikkaði alveg á að sníkja bók af Ármanni, en ætla að kaupa hana af honum síðar ásamt fleiri bókum. Síðar. Hins vegar á ég bók eftir Val Geislaskáld og kann honum bestu þakkir fyrir. Bókin er enn pökkuð í plast, ég vil ekki opna og lesa nema vera í næði, næði er ekki hluti af lífi mínu þessa dagana.
Á eftir vori kemur sumar. Það er hvítagull.
Lifið í friði.
hökt og haki
Ég hef hökt í gegnum þennan dag.
Fyrst hökti ég með börnin í skólann, með hárið út í loftið og stíf í öllum útlimum.
Svo hökti ég út með gestinum sem verður hjá okkur í 10 daga að undirbúa sig undir skylmingamót þar sem skorið verður úr því hvort hún nær inn á Ólympíuleikana. Mjög spennandi og ég gef henni vel að borða og hlúi að henni og verður það minn skerfur til styrktar þátttöku Íslands í þessu umdeilda alþjóðlega móti sem á að tákna frið og bræðralag. Ég hökti á eftir henni þar sem hún stökk eins og hind um göngustígana í garðinum.
Svo hökti ég andlega í gegnum umsókn sem ég sendi í kvöld. Fresturinn var lengdur um mánuð og fyrir nákvæmlega mánuði var ég að stressast með þessa sömu umsókn á síðustu stundu. Ég sagði í gríni við ritarann sem færði mér fréttirnar að þá myndi ég bara leggja þessu og bíða í mánuð. Ég hélt í alvörunni að það væri grín. En það er reyndar ekkert grín að vera svona óviss þegar gerð er stór umsókn. Ég hef hugsað heilan helling um þetta en ekki fengið af mér að klára að fylla allt út og senda gögnin.
Allt annað sem ég ætlaði að gera í dag sat á hakanum. Ég náði ekki einu sinni að leggja mig þó ég væri svo þreytt að ég drafaði allan eftirmiðdaginn.
En ég sé á eftir góðum hóp og vel lukkaðri ferð sem ég get, að ég held, verið nokkuð montin af. Skýrsla um launamál og annað kemur síðar. Ég ætla snemma í háttinn í kvöld og mun stökkva eins og hind í gegnum morgundaginn.
Lifið í friði.
líf og markmið
Ég er á lífi en gæti líklega sagt að ég á mér ekkert líf. Ég náði góðum hálftíma með börnunum í gær, baðaði þau og "bjó til" mat (les: sauð pasta). Las fyrir þau sögu og sofnaði á svipuðum tíma og þau. Vaknaði svo reyndar aftur og kláraði heimaverkefni og skilaði, varð að fórna einu slíku þessa vikuna, get ekki kennt neinum nema sjálfri mér um það.
En það er gaman í vinnunni, hópurinn er góður og gaman að fræðast um franskt menntakerfi með fólki sem kann að spyrja réttu spurninganna. Nú get ég t.d. nefnt dæmi um kennaralaun þegar fólk byrjar að spyrja mig spjörunum úr um launamál hérna.
Ég er líka búin að finna draumamenntaskóla fyrir börnin mín og draumaeinbýlishúsið á næsta horni við hann. Það gæti kostað um 2.000.000.000 evrur, plús mínus þrjú núll. Ef það er mínus þrjú núll er ég ekki að ýkja.
Gegnt húsinu eru svo seldir Rolls Royce, Ferrari og Lotus (sem er líka bílar, lærði ég í gær). Mjög hentugt allt saman.
Hver var að tala um markmið og að sjá sig fyrir sér eftir 10 ár? Nú get ég það loksins.
Lifið í friði.
vanlíðan
Mér líður illa eftir ömurlegt samtal í morgun við konu sem segir að svona séu reglurnar en reglurnar sem hún vísar í minnast samt hvergi á það sem ég er að vandræðast með.
Mér líður illa yfir því hvað þetta þjóðfélag er að verða troðfullt af reglugerðum sem eru svo varla til nema í hausnum á öryggisvörðum með valdakomplexa og starfsfólki með yfirlætislega framkomu.
Í fyrrnefndri reglugerð er fyrsta reglan sú að gestir (sem greiða heimsóknina dýrum dómi) skulu sýna starfsfólki fyllstu kurteisi, við eigum að vera bljúg gagnvart yfirvaldinu, munið það.
Svo líður mér líka illa í maganum en hef ekki tíma til þess.
Og líka út af öðru sem ég get ekki nefnt hér.
En fyrst og fremst líður mér illa yfir því að stefna hraðbyri inn í púrítanískt þjóðfélag ofríkis lögreglu og yfirvalds.
Og reynið ekki að senda mér huggunarorð, ég er farin út og kem ekki heim fyrr en seint í kvöld. En ef þið eruð til í byltingu, látið mig þá vita.
Lifið í friði.
takk fyrir að bíða
Ég hata símsvara sem segja þetta aftur og aftur.
Lifið í friði.
grouille
er skemmtilegt orð
en grouille-ið (borið fram grúj-ið) í maganum á mér gæti verið það sem héldi fyrir mér vöku, væri það ekki annað.
Lifið í friði.
skjár einn á morgun sem er eiginlega hinn
Var minnt á það enn og aftur og óþyrmilega hvað tíminn líður hratt:
Mín fögru afkvæmi, ásamt ýmsum öðrum afskaplega vel heppnuðum franskíslenskum börnum verða í sjónvarpinu 9. apríl sem er tæknilega séð á morgun því hér er komið fram yfir miðnætti. En 9. apríl er sem sagt miðvikudagurinn.
Skjár einn klukkan eitthvað, það get ég verið viss um. Þátturinn heitir
Fyrstu skrefin.
Reyndar eru þetta ekki fyrstu skref dóttur minnar í sjónvarpinu, ég man ekki hvort ég skrifaði um það hér, en ég seldi dóttur mína auðvaldinu fyrir jólin, hún kom fram í auglýsingu frá tryggingafyrirtæki sem gerist í París.
Börnin mín sjást líklega vel í þættinum því þau hittu tökuliðið óforvarendis í metró á leiðinni í skólann og voru því notuð í senuna: Svona förum við í skólann í metró. Verst að fjölmiðlasjúka móðirin sem aldrei borgar fyrir auglýsingar (the kids need their shoes) var fjarri góðu gamni, föst í vinnu.
En þið sjáið aðrar myndarmömmur og náttúrulega flottasta pabbann að öllum líkindum bregða fyrir.
Lifið í friði.
gígantískt
Ég er gígantískt óskipulögð en samt næ ég að skipuleggja heilu prógrömmin fyrir hópa með rútum, veitingahúsum og öllu tilheyrandi, hvað þá að senda reglulega út auglýsingabréf til nýlendunnar ásamt því að sjá til þess að hér sé sæmilega hreint á rúmum og alltaf til hrein nærföt á alla, matur á réttum tíma (ekki alla daga, þar er liðsafli í manninum mínum) et cœteri et cœtera.
Hins vegar klúðra ég sumu sem ég þarf að gera alveg glæsilega, fresta fram á síðustu stundu eða ýti á undan mér óþolandi lengi ef engin er tímapressan.
Líklega erum við öll svolítið svona, ég veit í það minnsta að ég er ekki ein um þetta syndróm.
Nú fer ég að sofa þó ég hafi ekki klárað allt sem ég hefði viljað klára í dag. Á morgun er langur dagur með miklu labbi, vonandi þó ekki í slabbi.
Lifið í friði.
áttu eld?
Aumingja franska löggan. Verður að athlægi fyrir þetta vesen.
Ég er nú sammála þessum
franska vefmiðli, ótrúlega kaldhæðið að það þurfi 3.000 lögreglumenn, þyrlur, brynvarðar rútur og ýmislegt fleira til að koma einu þekktasta tákni friðar og bræðralags í gegnum borgina. En ég árétta skoðun mína á því að ég tel það illa gert að ráðast að íþróttafólkinu og ætlast til þess af þeim að taka þetta á sig. Klúðrið er hjá þeim sem tóku ákvörðun um staðsetningu, vel upplýstir um ástand mála í Kína.
Hann hugsar líka til
Pierre de Coubertin og spyr sig hvort sá hafi ekki snúið sér við í gröfinni í dag.
Það er alveg þess virði að horfa á myndbandið, ef þið nennið. Stóri maðurinn sem þarf að þola það að kínverskur leyniþjónustugutti slekkur eldinn (AFTUR) er íþróttahetjan David Douillet, getur einhver sagt mér eitthvað um júllurnar á honum, eru þetta júllur eða er hann í skotheldu vesti eða hvað?
Lifið í friði.
efi sem skýtur rótum
Jæja, þá þarf ég hjálp ykkar við heimaverkefnið og það strax!
Hvort segið þið
borðaðu með gaFFlinum, eða
borðaðu með gaBBlinum?
Gengið af göflunum eða gengið af göblunum?
Mér fannst ég alls ekki lokhljóða þessi orð (já já, svona tölum við
sérfræðingarnir, kannski), en nú er ég ekki lengur viss.
Lifið í friði.
það sem er best
Það sem er best er þegar kennarinn lætur skína sterkt í aðdáun sína á námsefninu. Ástríða er góð og hvetjandi.
Það kom fyrir minn kennara um daginn, kraftarnir sem toguðust á í beygingu ákveðins nafns voru svo flottir og sýndu hvað það er spennandi að vera málfræðingur.
Ég gleymi aldrei stærðfræðikennaranum sem "barst mér" í 5. bekk í MR. Honum tókst, aðallega með ástríðu sinni sem hann deildi svo grimmt með okkur nemendum, að rífa mig upp um heila þrjá til fjóra í faginu eftir einn vetur í niðurlægjandi lélegri kennslu hjá sjúkum manni.
Birgir stökk um stofuna til að horfa á sannanirnar frá mismunandi sjónarhornum eins og um olíumálverk væri að ræða en ekki óskiljanleg tákn á rykugri töflu. Gat hann annað en smitað okkur nemendur? Hann smitaði mig í það minnsta og ég hefði vaðið eld og brennistein til að gera hann kátan með árangur minn.
Alveg eins og ég ætla mér að gera kennarana núna í það minnsta sátta við árangur minn, þó það þýði töluverða vinnu og líklega fjarveru frá heimilinu á næstunni. Ég skal.
Lifið í friði.
vikan og snjórinn
Eftir skemmtilega en erfiða helgi, djamm og nám til skiptis, hefst vikan sem ég hef lengi beðið eftir. Allir dagar stútfullir frá og með morgundeginum fram á sunnudagskvöld. 2 Versalaferðir, skólaheimsóknir, gönguferðir o.m.fl.
Í nótt vaknaði ég við rokið um kl. 3, eftir hálftíma fór ég fram að fá mér vatnssopa og verður litið út um gluggann. Ég trúði ekki mínum eigin augum, allt hvítt. Vorið sem sagt kom og fór. Mér hrýs hugur við tilhugsun um lautarferðirnar í Versölum. En það á víst að hlýna aftur strax í dag. Þar sem ég er jákvæð að eðlisfari, held ég mínu striki.
Lifið í friði.
í kvöld
Góðar vinkonur og kampavín.
Sem ég á inni fyrir eftir ágæta vinnutörn í dag.
Lifið í friði.
smá náms kvart
Ég var að hlusta á tíma sem var kenndur fyrir viku síðan. Það va heilmikið farið í verkefnið sem við skiluðum þann sama dag, þau fengu fullt af ábendingum. Í gær hlustaði ég á tíma sem lauk fyrir rúmri viku, og áttaði mig betur á ákveðnum hlut sem hefði verið gott að hafa fyrir verkefnið sem ég skilaði í fyrradag.
Ég get svo sem ekki verið fúl, þannig lagað séð. En ég er dálítið hissa á þessu með að geta ekki lengur hlustað, og enginn virðist vita hvað breyttist.
Ég er orðin svo þreytt á að vera bæði hálfgerður tossi sem skilur ekki neitt og lætur frá sér illa unnin verkefni og svo líka tæknilegt vandamál fyrir alla að ég er hætt að láta vita af því. Enda fæ ég engin svör og redda mér bara öðruvísi.
Var einhver að tala um að hætta að kvarta og kveina?
Lifið í friði.
fagnað
Maður á að þakka fyrir hvern dag sem maður fær að lifa hér á jörð, ég hef fengið sterkar áminningar um það undanfarna daga. Þetta líf hangir á bláþræði.
Það er mun auðveldara að vera þakklátur fyrir sólríka daga, fuglasöngurinn ærandi, vorið er komið.
Ég segi takk fyrir mig. Og er sekúndu nær dauðanum.
Lifið í friði.
aperitif
Ég sit hér með börnunum (já, blogga í beinni, er það ekki nokkuð lamað?) og við erum að fá okkur aperítíf. Ég fékk mér hvítvín og þau fengu glærvatn og svo erum við með nornahattana (bugles) sem ég keypti í búðinni um daginn (muna að fara alltaf svöng að versla þá kaupi ég alltaf svo gott gott) og hnetur og rúsínur.
Við skáluðum en sonur minn neitar að taka þátt í því. Nú vandast málið, ekki er auðvelt að átta sig á því hvaðan drengurinn hefði skálunarfælni. En þetta stemmir við það sem ég upplifði á meðgöngunni, gat varla lyktað af víni, hvað þá komið því inn fyrir mínar varir (og gvuð veit ég reyndi) ólíkt því þegar ég gekk með stúlkuna og gat alveg legið í því ef þannig lá á mér, eða alla vega drukkið eitt, þrjú glös á góðu og löngu kvöldi.
Eina smugan væri að þetta kæmi frá föðurafanum, hann er mikill hófsemismaður á vín.
Lifið í friði.
aftur góðar fréttir, hvar endar þetta?
Það er vor í lofti, ég fór í létta jakkann minn og þurfti aldrei að taka upp peysuna sem ég tók þó með til öryggis, gat m.a.s. pakkað treflinum ofan í tösku líka.
Sólin skín og 14 stiga hiti. Hí á ykkur í snjónum!
Lifið í friði.
góðar fréttir
Um daginn dró ég óforvarendis góðar fréttir upp úr manneskju sem eyðir mjög miklum tíma í að barma sér og kvarta.
Það er ótrúlega magnað hvernig sumir ná stanslaust að einbeita sér að því neikvæða og virðast jafnvel hreinlega vera að fela hið jákvæða, t.d. með því að segja ekki frá því í óspurðum fréttum.
Stundum líður mér eins og ég hafi það óhugnalega gott, allt í kringum mig eru veikindi og vesen, jafnvel sár sorg, en hér leikur allt í lyndi (fyrir utan helvítis námið en þar sem ég ákvað sjálf að fara í það voga ég mér ekki að kvarta, kvarta ég annars nokkurn tímann yfir því?), allir eru hraustir, ást og almenn lífsgleði ríkjandi á heimilinu.
Gott getur verið að muna að til er fólk sem hefur fest sjálft sig í hjólfari kvartana og kveins og kannski þurfi ekki að taka það neitt of alvarlega. En það getur þó stundum verið ansi erfitt.
Mínar góðu fréttir í dag: Ég fann leið sem gæti dugað til að kveikja ljósið í náminu í gær, ég sá að ég á absolútt að lesa aftur og vandlega yfir glósur úr tímum sem fyrst. Nú þarf ég bara að finna tímann til þess.
Ég er farin út að vinna, jibbí jibbí jei.
Lifið í friði.
húmor - sleysi
Ég þjáist af húmorsleysi. - Ég berst sífellt við fimmaurabrandara í höfði mínu.
Ég er byrjuð að þjást af prófkvíða. Það er gersamlega tími kominn til að ég fari að sjá ljósið. Þetta er farið að verða hið alvarlegasta mál.
Lifið í friði.
MYNDLIST - varúð auglýsing enn og aftur!
Nína Gautadóttir sýnir í SartArt, Laugavegi 12b, 101 Reykjavík
Opnun: fimmtudaginn 3. apríl 2008 kl. 17
Sýning Nínu samanstendur af safni á 2300 myndum sem hún hefur haldið til haga frá árinu 1988 og eru sýnd með myndvarpa. Verkin eiga það sameiginlegt að sýna rauðhærðar konur í myndlist.
Á 16. og 17. öld voru um 20.000 konur í Evrópu brenndar fyrir galdra. Rauðhærðar konur voru oft dæmdar fyrir að hafa verið í tygjum við Satan. Logar vítis áttu að hafa litað hár þeirra. Hér á landi voru 20 karlmenn og ein kona brennd á báli fyrir galdra, þá mest á Vestfjörðum.
En myndir Nínu eru þó ekki af galdrakonum, heldur af rauðhærðum konum eins og listamennirnir túlkuðu þær hver á sínum tíma, allt frá forn-Egyptum og fram á okkar dag.
Sýningin stendur yfir frá 3. til 13. maí 2008
Lifið í friði.
póstur
Hingað að miðju alheimsins var að berast pakki frá hjara veraldar. Á pakkanum er engin dagsetning, engin fylgiskjöl fyrir utan litla græna miðann. Á honum stendur
Christmas gift. Upp úr honum koma undurfagrir vettlingar á börnin og brennivínssokkur handa foreldrunum.
Sem betur fer voru miðar á pökkunum svo ég veit hver sendi þetta.
Í dag eru sem sagt jólin hér í Copavogure.
Á morgun má svo blessað vorið koma endanlega, það hefur náðst að verða milt og bjart þegar líða fer að kvöldi núna síðustu tvo daga. Í leikfiminni í gær var samhljóða ákvörðun um að fara ekkert inn, sprikla bara og sprella úti í kvöldsólinni sem var svo dásamleg.
Lifið í friði.
af þröskuldum
Í athugsemdakerfinu mínu sem seint mun teljast ofvirkt (með allri virðingu fyrir ykkur örfáu sem skiljið þar eftir fögur spor) spannst upp hér örlítið neðar umræða um þröskulda sem þurfa að tilheyra aprílgöbbum.
Í framhaldi af því fór ég að spekúlera meira í því hvernig minn innflytjendavandi birtist aðallega. Ég hef nefninlega, með síaukinni umræðu (svona heilt yfir) um innflytjendavandamál stundum spáð í því hvernig vandamálum ég, sem útlendingur, hef valdið hér í Frakklandi.
Að vera Íslendingur í útlöndum er í raun erfitt að færa í vandamálabúning. Ég yfirgef land sem er í uppsveiflu, fjölskyldan mín og ég erum þar örugg og lifum í vellystingum, burtséð frá almennum leiða á því að mæta á sama barinn þar sem sama fólkið situr við sömu borðin ár eftir ár var bara nokkuð fínt að búa þar.
Ég get því ómögulega samsamað mig öðrum útlendingum sem ég hef kynnst hérna, fólki sem sagði mér frá niðurlægingu og eymd, brunum, skotárásum og dauða, viðskilnaði við foreldra sem vildu heldur deyja á sinni jörð en að elta einhverja óvissu, burséð frá vonarglætu um betra líf. Ég bara er ekki þannig útlendingur. Ég er bara venjulegur Íslendingur sem ákvað í hjarta mínu mjög ung að ég yrði að
læra frönsku og fann að Frakkland væri líklega besti staðurinn til þess.
Ég kom hingað til Parísar tvítug og bréfin sem ég sendi vinum mínum heim bera vott um að hér leið mér strax vel. Ég tilkynni m.a. vinkonu minni í einhverju bréfanna að hér muni ég vilja deyja, að ösku minni skuli dreift um gangstéttar Parísar.
Ég hef stundum lent í fáránlega undarlegum aðstæðum og stundum jafnvel orðið fyrir aðkasti fyrir það að vera innflytjandi, en það hefur annað hvort endað þannig að ég bakka og læt mig hverfa eða, ef ég hef ekki haft val um það, hefur málið snúist upp í andhverfu sína þegar ljóst var að ég var Íslendingur.
Stundum er það næstum frústrerandi tilfinning að lenda í aðstæðum þar sem litið er niður á þig þangað til þú berð fyrir þig upprunanum og
púff allt í einu breytist allt, ó, fyrirgefðu, ég hélt þú værir eitthvað annað en þú ert.
Islande, Islande er svo æðislegt, svo frábært, svo sjaldgæft... Já, það er hreinlega stundum frústrerandi, svo fáránlegt sem það má hljóma.
Ég er stundum misskilin, ég lenti t.d. í miklum útistöðum við samstarfsmann á veitingahúsi og þegar ég fór og ræddi við hann var vandamálið að ég kom ekki og kyssti hann á báðar kinnar þegar ég mætti í vinnuna, lét hið íslenska
hæ duga. Til að refsa mér fyrir það gerði hann sem barþjónn í því að afgreiða pantanir frá mér seint og illa. Eftir korters samræður féllst hann á að gefa mér séns og síðan þá man ég að virða alltaf þennan sið Frakka, þú heilsar með kossi, annars verða engin samskipti.
Í eldhúsinu á sama veitingastað unnu nokkrir drengir frá Sri Lanka. Það var ekki fyrr en ég fór að vinna þarna að aðrir starfsmenn gerðu sér minnstu grein fyrir því að þeir ættu sitt mál, allir urðu voða glaðir þegar við fórum að bjóða góðan daginn á srilönsku líka á morgnana. Ég hafði eldhúsgæjana alltaf í vasanum, kunni m.a.s. að telja upp að fimm á málinu þeirra þó það hafi horfið í dag. En ég kann að segja vanakam.
Það getur komið manni yfir ýmsa þröskulda, m.a.s í landi eins og Frakklandi, sem hefur enga þröskulda (aldrei rok hérna, je ræt), að bara sýna lágmarksáhuga á manneskjunni sem er á móti þér. Hvaðan hún er, hvað dró hana hingað eða þangað, hvernig býðurðu góðan dag á hennar máli, hvað er einn til fimm, hvað er að frétta frá hennar heimalandi, þetta skiptir þúsundmilljón* máli. Gerir gæfumuninn. Eyðir útlendingavandamálinu, í það minnsta rétt á meðan þú stendur gagnvart þessari manneskju sem er annars staðar frá.
Þröskuldar gera gagn með því að loka vindinn úti en það er fullt af þröskuldum sem eru bara andlegir og frekar auðvelt og einfalt að rífa þá burt. Hver vill hefta andann?
Lifið í friði.
*þetta er nýtt atviksorð
berar júllurnar
Í dag datt mér í hug að kannski þyrfti ég að hlaupa nakin upp í Eiffelturn til að fá umfjöllun um mig í Fréttablaðið, eða eitthvað íslenskt dagblað. Í dag ætla íslenskir femínistar að fara berbrjósta í Vesturbæjarlaugina kl. 17, til að mótmæla hlutgervingu kvenlíkamans, þ.e.a.s. ef þær hlaupa apríl, býst ég fastlega við.
Spurningin sem óneitanlega vaknar: eru þröskuldar í Vesturbæjarlaug? Það eru engir í Eiffel.
Lifið í friði.
sónn
Höfuðið á mér er að springa, sterkur sónn í eyrum. Ég get ekki neitt, kann ekki neitt og skil ekki neitt.
Mig langar svo að liggja uppi í rúmi grafin ofan í sæng mína útbreidda.
Mig langar ekki að búa til kvöldmat, á ég að brjóta reglur heimilisins og drattast niður í búð að kaupa eitthvað tilbúið frosið drasl?
Ég get þetta ekki. Ekki.
Svo er leikfimi eftir klukkutíma, ég hef lifað fyrir þessa tíma í vetur en ég veit ekki hvort ég meika það. Getur einhver lægt vindinn fyrir mig? Getur einhver slökkt á sóninum? Getur einhver kviksett mig á ný, ef kvik skyldi kalla?
Einu sinni var ég alltaf að tala um stríð og frið og trú mína á friði í heiminum og hvað við þyrftum að berjast og að þetta kæmi okkur við. Ég vitnaði reglulega í Lennon og sagðist trúa því að einn góðan veðurdag yrði heimurinn einn, ein heild. Ég veit ekki af hverju ég hætti, það var ekki meðvitað, ég bara hef líklega gefist upp innan í mér en ekkert hefur þó breyst. Jú, reyndar varð ég námsmaður og les mun minna af öðru en námsefni, t.d. greinum í vefmiðlum o.s.frv. Samt. Skrýtið að hætta svona einhverju sem liggur mér í raun mun meira á hjarta en þetta þvaður sem hingað kemst inn.
Það hlýtur að vera skárra að vera með són í hausnum heldur en byssukúlu. Það hlýtur að vera skárra að þjást af valkvíða varðandi kvöldmatinn heldur en að vera hrædd um að börnin mín svelti. Það hlýtur að vera skárra að pirrast yfir því að með nýja tímanum og birtu seinna kemur líka kallinn seinna heim, heldur en að vera hrædd um að kannski komi hann bara aldrei aftur heim.
Sónn. Enginn sónn. Á tali. Gjörið svo vel að hringja síðar. Kannski er ég núna endanlega farin út á tún?
Lifið í friði.
Láttu semja um þig vísu
Fyrir ykkur sem getið skilið eftir athugasemdir á Moggabloggi: Látið rustamennið með steinhjartað og svellkalda húmorinn Má Högnason
semja um ykkur vísu.
Ég þarf þess ekki, enda hefur náskyldur ættingi hans samið um mitt helsta skart,
júllurnar, á öðrum og öruggari stað.
Lifið í friði.
góður matur í Reykjavík
Ég hef alveg gleymt að segja ykkur frá Santa Maria á Laugavegi 22c, minnir mig, alla vega 22 eitthvað. Þar fæst alvöru mexíkóskur matur (sem mig langar að kalla mexíkanskan). Eldabuskan er alvöru mexíkósk (könsk) kella sem fékk Dorrit til að taka mynd af sér með manninum hennar (Ólafur heitir hann) um daginn.
Þetta er ekki aprílgabb.
Lifið í friði.