30.11.07

án titils

Ég er nokkuð ánægð með orðin þjónn og þerna:

Iðnaðarmálaþerna tilkynnti í gær...

Fjármálaþjónn lofaði að segja af sér ef...

Utanríkismálaþerna, menntamálaþjónn, samgöngumálaþerna

Ég er sátt við þetta. Nennir einhver að hringja í þau þarna til að tilkynna breytinguna?

Annars mæli ég eindregið með þessum vef, horfið á útsendingarnar, þær eru skemmtilegar, bæði framkoma Eiríks og flissið í tökumanninum. Og svo eigið þið náttúruleg að gefa bókina í jólagjöf. Tilvalin handa fólki af öllum stærðum og gerðum, ég held t.d. að hún sé upplögð í pabbapakkann, eru karlarnir ekki alltaf mesta vandammálið? Þetta er lausnin.

Ég fór með mynd í framköllun í gær, það verður að teljast afrek. Kannski ég nái að senda jólakortin eftir allt saman? En fyrst verð ég að ljúka við ritgerðina.

26.11.07

þjónn það er ráð í súpunni minni

Þar sem ég las upprifjun Gurríar á því að engum fannst nokkuð mál að finna upp orðið flugþjónn fyrir karlkyns flugfreyjur rann upp fyrir mér það ljós að þjónn er líka fínt í staðinn fyrir fyrir ónefnið ráðherra. Einhverjar hugmyndir að forskeyti?

Í gær skein sólin og svo aftur í dag. Ég er búin að vera úti báða dagana og ganga mig upp að hnjám. Gaman að því.
Drakk kampavínsstaup á okurprís í fallegu umhverfi með góðri konu sem kom töskulaus og alein til borgarinnar í gær.
Horfði á mann ræna myndavél af öðrum manni 10 sinnum í morgun. Skemmtilegast var að sjá viðbrögð grandvaralausra vegfarenda, enginn sýndi þó hetjubrögð og sneri leikna þjófinn niður.

Ég er svo þreytt. En svona þægilega þreytt, með-hita-í-kinnum-eftir-útiveru þreytt. Eins og uppi í fjalli.

Lifið í friði.

24.11.07

geeeisp

Ég geispa út í eitt í dag. Hvaða mara liggur eiginlega á mér?

Og ég er búin að vera með fjörfisk í hægra auga í svo langan tíma að ég geri mér enga grein fyrir því hvort ég á að telja í vikum eða mánuðum.

Lifið í friði.

23.11.07

tálkn

Eins og við var að búast fékk ég viðbrögð við pælingu um tákn.
Ég er á því að táknin eru mikilvæg og merkileg, og að það skipti máli að vera meðvitaður um að ákveðin tákn eru agressíf í augum sumra, ég myndi t.d. ekki hika við að biðja afgreiðslustúlkuna með klútinn að hugsa sig vel um ef hún mætti með hann í gönguferð um Mýrina í París. Ég myndi aldrei banna neinum að ganga þar um með Palestínuklút, og ég þekki reyndar enga Gyðinga sem eru sammála því sem Ísraelsstjórn er að gera í dag, þeir móðgast því ekki sjái þeir klútinn, en ég myndi ráðleggja fólki að hugsa sig um því það gæti lent í vandræðum.
Ég myndi þó líklega neita að ganga um Mýrina með manneskju með nasistakrossinn utan á sér eða gula gyðingstjörnu um arminn. Sum tákn eru of sterk til að leika sér með.
Í raun eru það trúartáknin sem fólk virðist auðveldlegast "misnota" eða snúa út úr. Það er nú málið að trúfélög hafa oft lagt heilmikið upp úr listsköpun, í kirkjum eru fallegar rúður, fallegar altaristöflur, útskurður, mósaík og annað sem ferðamenn flykkjast til að skoða um allan heim, algerlega burtséð frá trúskoðunum. Ég er t.d. svo fræg að hafa farið í kirkju með þessum fræga yfirlýsta vantrúarmanni.
Ég hlusta á William Byrd, miðaldaskáld sem var reyndar víst bannfærður fyrir að trúarleg tónlist hans var kirkjuyfirvöldum ekki þóknanlega á hans tíma.
Ég er með dýrlingamynd í stofunni, svei mér ef þetta er ekki bara María sjálf með barnið. Ég á krossinn minn í dollunni og þykir vænt um hann af ákveðnum ástæðum. Ég er með fallegt arabískt teppi á gólfinu sem er áreiðanlega troðfullt af táknum sem ég skil ekki. Ég er með indverska gyðju uppi á vegg inni í svefnherbergi. Ég er örugglega að gleyma einhverju.
Í raun er mér "alveg sama" um táknin, þ.e. ég ber ekki ofurvirðingu fyrir þeim. Ég get ekki ímyndað mér að neitt tákn móðgi mig persónulega. Ég get t.d. sagt ykkur það að fánabrennur hafa nákvæmlega engin áhrif á mig, það myndi því líklega ekki særa mig að Frakkar brenndu íslenska fánann til að mótmæla íslenskri innrás í franskt efnahagslíf eða samþykki íslenska ríkisins á innrásinni í Íran.

Það er margt í mörgu eins og maður segir þegar manni er orða vant. Ég er að skrópa í lærdóminum með þessu brölti sem er kannski bara meiningarlaust væl. Svo ég er hætt.

Lifið í friði.

22.11.07

tákn

Á Íslandi á dögunum rakst ég inn í eina af fínustu búðunum í bænum, þessa sem ekki bregst að er nefnd á nafn í innlitum hjá fólki, allir virðast hafa keypt sér a.m.k. einn hlut hjá þeim (og ekki halda að ég rífi í mig allar greinar um innvols húsnæðis ríkra Íslendinga, ónei, alls ekki, ég les auðvitað Lesbókina en ekki Daglegt líf, þetta er bara svona hlutur sem ég veit óvart). Þar stendur ung afgreiðslustúlka í fallegum svörtum kjól með svartan og hvítan klút um hálsinn. Eins og allir vita sem lesa Daglegt líf, hafa svartir og hvítir aukahlutir verið í tísku um nokkurt skeið. Ekkert við það að athuga sem sagt. Nema að klúturinn er mjög sterk táknmynd um allan heim, að bera þennan klút er afgerandi afstaða til hápólitísks máls. Ég var því mjög hissa, að í þessari fínu verslun, mætti afgreiðslustúlkan bera þetta gildishlaðna tákn utan á sér. Það er nokkuð ljóst að í Frakklandi yrði þetta ekki leyft, eða a.m.k. rætt fram og til baka áður en það yrði leyft. Stór hluti af viðskiptavinum gæti jú verið í hópnum sem myndi sármóðgast við að sjá þennan klút og því hætta á að þeir sneru við í dyrunum og kæmu aldrei aftur.
Ég veit ekki hvort ég vil heldur. Landið sem er yfirmáta upptekið af táknum, allir kunna að lesa í tákn og taka þeim ofuralvarlega, eða landið sem tekur ekki snefil mark á nokkru slíku, hengir trúartákn hvaðan sem er jafnt utan á sig sem upp um alla veggi og stillir gyðinglega sjöstjakanum út í gluggakistu á aðventunni.

Ég var mjög fegin þegar keðjan í litla gullkrossinum mínum slitnaði fyrir mörgum árum síðan. Ég lagði hann þá ofan í litla dollu og þar hefur hann hvílt síðan og ég var þar með laus við endalausar umræður við ókunnuga um það hvers vegna ég bar krossinn, hver væri trúarstaðan á Íslandi, hvort mótmælendatrúin væri ekki viðbjóðslega hörð o.s.frv. Þessar samræður opnuðu vissulega augu mín og ég er alveg ágætlega sátt við að hafa átt þær á sínum tíma, en ég var líka alveg búin að fá nóg.

Ég er líka sátt við að sjá Palestínuklútinn borinn enda hef ég tekið afstöðu til þess máls. Mér finnst samt einhvern veginn eitthvað óforskammað og sveitalubbalegt við þetta meðvitundarleysi gagnvart táknunum.

Lifið í friði.

21.11.07

gíanostal

Eina nostalgían í dag var að allt í einu koma sömu villuskilaboð þegar ég ætla að hlusta á upptökur á tímum. Alveg eins og þegar ég byrjaði í haust. Kom sér verulega illa fyrir vikuprógrammið sem er ansi stíft.

Í kvöld sat ég þó ekki og las mig í gegnum skólabækur eins og ég hefði svo sem getað gert. Nei, ég var með ömurlega mynd á sjónvarpsskjánum sem ég hlustaði á líklega eingöngu til að geta hnussað reglulega og svo leysti ég sudokuþraut á milli þess sem ég kíkti á blogg. Já, það verður ekki af mér skafin letin og sukklífernið. Skyldi Valdi skafari vita af þessu?

Nú ætla ég að leggjast undir sæng með Fönix í öskubakkanum. Hef verið að glugga í hana undanfarna daga og líkar sumt vel en sumt er nákvæmlega eins og ég hef alltaf sagt að ljóðin séu mér: framandi og óskiljanlegt.

Ég skellti þó upp úr a.m.k. einu sinni. Þó að hláturjóga sé ekki neitt fyrir mig (kjánhrollur) er góður uppúrskellur í einrúmi yfir ljóði, skáldsögu, blaðagrein, bloggpistli eða öðru sem kemur algerlega á óvart, eitthvað sem ég fíla vel. Og er örugglega stresslosandi og hollur í þokkabót.

Ég sé fyrir mér að gíanostal gætu verið litlar bleikar töflur, seldar undir borðið á diskótekum og útihátíðum en líka eftirsóttar af verðandi miðaldra húsmæðrum. Hvað ætti grammið að kosta?

Lifið í friði.

20.11.07

hringir vestur oft á dag

á gólfteppinu, eftir útvarpinu

og fá sér meira
port madeira

og húsin mjakast upp

hæ hó og dillidó

hátt enni breitt nef
heilar tennur fær aldrei kvef

Tónlistin ómar í höfði mér, sumt á ég á diskum, annað ekki. En ég þarf ekki einu sinni að setja þetta í tækið, nóg að rifja bara upp gamla góða tíma þegar dansað var við íslenska eðaltónlist í litfagurri íbúð í 8. hverfi. Þá var gaman að lifa og minningarnar ylja en ekki myndi ég þó vilja snúa til baka. Það hlýtur að vera gott að geta lifað með minningar án þess að kveljast í þrá og söknuði.
Auðvitað sakna ég sums og sé eftir öðru en ég leyfi mér ekki að kveljast vegna þess.

Það er samt eitthvað undarlegt nostalgíukast í gangi.

Lifið í friði.

19.11.07

Skelþunnur í skýlinu við Hlemm
á báðum áttum reykjandi LM
Situr unglingurinn í skóginum
með fyllingar í tönnunum
á leiðinni heim úr sollinum.

Ég endurupplifði fæðingu mína í dag þegar ég þurfti að troða mér út úr lestinni. Það hlýtur að vera hollt.

Á morgun ætla ég að vera heima með börnunum mínum og skal ekki hreyfa mig lengra en upp í almenningsgarð. Allsherjarverkfall í einn dag. Hvað er einn dagur á milli vina?
Eins gott að það er til fullt af nýju dóti. Svo er mér líklega boðið í vöfflur í eftirmiðdaginn.

Mig langar í Bráðabirgðarbúggí á diski, mig langar einmitt núna alveg hrikalega mikið að hlusta á Valda kalda með kúk í haldi bjóða Línu magapínu upp í dans.

Lifið í friði.

18.11.07

bleh

Í dag var haldið upp á afmæli Kára hjá ömmunni og afanum. Fullt af frænkum og frændum og þó allir hafi fengið skilaboð um að gjafir væru óþarfar komum við með þrjá fulla poka af dóti heim.
Meira dót. Einmitt það sem við þurfum inn í þessa 70 fermetra okkar.

Á morgun losna ég líklega ekki við að fara niður í metró. Mér hefur tekist að forðast það hingað til en ég er komin með óbeit á bílnum, finnst ég síkeyrandi. Í látunum í dag tókst mér að villast hrottalega á leið sem ég hef farið þúsund sinnum og leiddi það af sér heilmikinn krók og villur og komum við of seint í afmælisveisluna. Einmitt það sem við þurftum.

Það er ógeðslega kalt hérna, rakur og vondur meginlandskuldi, sem er einmitt það sem við þurfum þegar metró er í verkfalli.

Neikvæð? Ég? Nei, nei, alltaf í góðu skapi. Og nota bene, gjafirnar eru flottar og fínar, púsluspil, bækur, litir, playmo... ferlega flott og fallegt allt saman.

Lifið í friði.

17.11.07

kurl

Ég er með verk í hjartanu. Var að kveðja mömmu og pabba og nú er eitthvað svo áþreifanlegt að ég fer ekki heim um jólin. Tvenn jól í röð í Frakklandi. Það er í raun algert svindl.
Nú er ljóst að ég fer í próf 11. og 12. desember. Ég held ég fari ekki með fleipur, jólakortin verða að vera lögð af stað fyrir þann tíma. Í fyrra náði ég ekki að senda öll sem mig langaði, en sendi samt 70 kort ef ég man rétt. Ég þarf a.m.k. þrjár langar og góðar kvöldstundir fyrir þetta. Og ég þarf að skila ritgerð þann 3. des. Og ég þarf að lesa næstum allt pensúmið, hef gluggað í bækur hér og þar, þennan og hinn kaflann, reddað mér fyrir horn í verkefnavinnunni og les alltaf í metró og á kvöldin. En nú þarf ég að setjast niður og lesa og lesa og lesa. Milli þess sem ég vinn og vinn og vinn.
Ég er að drepast úr löngun að fara inn á Uglu og skrá mig úr kúrsunum, prófkvíðinn er þannig að ég fæ ógleðitilfinningu bara við að skrifa um þetta. En ég hef aldrei koxað á prófi, og, að mig minnir, aldrei fallið á prófi heldur. Ég hef staðið mig þrykkjuilla stundum og t.d. er ein prófminning þannig að ég eiginlega hefði heldur viljað falla, svo léleg var einkunnin. Þá panikeraði ég algerlega, heilinn lamaðist, ég kófsvitnaði, skalf og titraði og skilaði ömurlegum svörum og bjóst alls ekki við að ná. Það var vont.
Oftar hefur þó komið gamla góða keppnisskapið í komið upp í mér í prófi, þrátt fyrir kvíða á undan. Þá hef ég stundum brillerað þannig að ég hef komið sjálfri mér á óvart með nýrri sýn á efnið, skilað svörum sem ég var að rifna úr monti yfir og um leið hundsvekkt að hafa ekki getað komið þeim á framfæri í tíma. Það er fjör.

Ég er að sækja um að taka próf í Sendiráðinu, hvernig ætli það verði? Panikk eða kúlheit?

Annars komu kurl til grafar í erfiðu máli í dag. Þegar maðurinn minn kom frá Íslandi á dögunum, beið stór blómvöndur við dyrnar hjá okkur. Og ekkert kort. Hann spurði mig, spurði hina og þessa nágranna en enginn kannaðist við neitt. Við höfum horft undarlega hvort á annað síðan, spurt okkur í sífellu hvort okkar það sé sem eigi leyndan aðdáanda, ásakanir hafa gengið á víxl um framhjáhald og svikar.
Í dag kom svo gamli heyrnalausi karlinn á þriðju/fjórðu hæð upp og játaði að hafa skilið eftir vöndinn í þakklætisskyni fyrir internetaðstoð sem ég veitti honum í síðasta mánuði.
Ekkert spennandi, enginn drami, allir bara tryggir eins og hundar hérna á heimilinu.

Það er myrkur og kuldi. Mig langar í rautt te, en nenni ekki að standa upp til að brugga það. Hvað á að hafa í matinn á rólegheita laugardagskvöldi?

Lifið í friði.

15.11.07

alltaf að læra

Ég lærði heilmikið af The Queen í gær. Ég vissi t.d. ekki að Díana hefði dáið... nei, djók, en ég vissi ekki að drottningin væri gift. Vissuð þið hin það?
Það eina sem ég hef út á Stephen Frears að setja, er að hann er alltaf eitthvað svo óaðfinnanlegur. Það er eitthvað sem truflar mig við þetta átakalausa, léttfyndna, léttalvarlega, léttkryddaða form sem hann notar í hvert einasta skipti. Þyrfti að endurskoða My Beautyful Laundrette, var hún líka svona?

Annars urðu samgönguverkföll til þess að kellingin dreif sig í gær með hjól hjónanna í viðgerð. Hjól kallsins var búið að vera að drabbast niður í mörg ár, kellingunni til mikillar armæðu, hjól kellingarinnar sjálfrar var með sprungið dekk síðan fyrir ca 4 vikum (eða eitthvað, ég hef ekki snefil af tímaskyni, er í alvöru talað kominn miður nóvember?). Allt var lagað og pumpað og rétt af í stóru íþróttabúðinni og ég pínd til að vera þar í hálftíma að skoða íþróttadót og vitanlega kaupaði ég mér eitt par hlaupaskó! Ég fékk þá á 26 evrur, stóðst vitanlega ekki mátið. Nú er að sjá hvort ég hlunkist fleiri hringi, þetta verður erfitt, 3ja vikna hlé, gat náttúrulega ekki mætt á þriðjudaginn með æluna í hálsinum.
Hlaupaskór. 38 ára kelling að skrifa ritgerð fyrir skólann og kaupa sér hlaupaskó. Ætli það sé ÉG sem er komin með gráa fiðringinn?

Lifið í friði.

14.11.07

maðurinn minn

er svo hrikalega sætur þegar hann segir Guð minn góður með norskum hreim (alveg óvart) að honum fyrirgefst allt. Í bili.

Ég ætlaði að reyna að læra í kvöld en sé að The Queen er í kassanum. Í version originale. Held ég falli heldur fyrir því en Introduction to a language.

Sonur minn varð fjögurra ára í dag, deilir afmælisdegi með Astrid Lindgren og Surtsey. Hann, ólíkt þeim hinum, fer stækkandi.

Lifið í friði.

glaðlyndið sem var

Ég er ný manneskja, vildi bara láta ykkur vita svo þið gætuð beint orku ykkar að öðru. Takk fyrir mig.

Gubbupest er ógeð. Svo grennist maður ekki einu sinni því eina sem kemst ofan í mann er sykur og hvítt hveiti og eins og allir vita er þetta tvennt versta eitur sem maðurinn hefur komist í, slæmt fyrir heilsuna og holdafarið, ánetjandi hroðbjóður. En svo gott þegar maginn er í hnút.

Hins vegar veit ég ekki hvort ég á nokkurn tímann eftir að geta rætt það við manninn minn að í gærmorgun fékk hann sér egg og beikon í morgunmat. Hann fær sér aldrei egg og beikon í morgunmat, en ákveður að gera það daginn sem konan hans liggur sárlasin á milli þess sem hún hleypur á salernið og selur upp.

Ætli það séu komnir brestir í sambandið? Var þetta viljandi? Það er nefninlega annað líka sem ég hef ekki þorað að ræða: Um daginn kom ég heim úr Versalaferð, eins og vanalega með kerruna mína og leifar af nestinu. Og hann kom ekki hlaupandi niður stigana til að hjálpa mér. Eins og hann gerir alltaf. Eða gerði alltaf?
Við erum búin að vera saman síðan 1998, gift síðan... m... 2004. Er kominn einhver vendipunktur? Blossinn farinn og héðan í frá hversdagslíf með frumskógarlögmálinu virku?

Fylgist spennt með mér breytast úr glaðlyndri eiginkonu í bitra húsmóður.

Lifið í friði.

13.11.07

óráð ekki góð ráð

maður lýsir hér þjáningum og sjúkdómum og ætti skilið að fá hið eðlilega athugasemdatrítment, batnaðarkveðjur og pepp. En nei, æpandi þögnin ríkir á þessari síðu.
Og ég er ömurleg, klukkuna vantar tuttugu mínútur í tólf og ég er enn lasin og get ekki sett neitt ofan í mig nema vatn. Maðurinn minn skellti reyndar maltdós í ísskápinn í morgun, en ég keypti tvær slíkar til að eiga á jólunum.

Mig langar til Svíþjóðar. Ekki það að það komi neinu við, bara datt það allt í einu í hug í sambandi við hugsanatengsl við jólin. Var að heyra að Malmö væri heitasti staðurinn í dag. Kannski ég flytji þangað, ekki getur maður flutt á klakann eins og verðlagið er þar. Annars langar mig mest að búa í litlu hvítu og svörtu skökku húsi á Normandí. Í Honfleur gekk kona um með fólk frá einhverju austantjaldslandanna og sagði sögur, ætli ég gæti orðið Honfleurdaman?

Í svefnrofunum hér áðan mundi ég eftir því að hafa séð afar litla sánuklefa sem hægt er að pota nánast hvar sem er, en mundi ekki alveg strax hvar. Svo kom það, þeir voru meðal sýningargripa á Salon Gay, Lesbienne et friendly (skemmtilega tvítyngt nafn á sýningu) sem ég kíkti á í Louvre um daginn. Þar var Icelandair með bás, hægt að smakka vodka, skoða bláalónsvörurnar, jeppaferðakynning o.m.fl.
En á sýningunni var deild sem vakti athygli mína öðrum fremur. Hún hét PLAISIRS og þar sá ég hluti sem ég er ekki alveg enn búin að átta mig á hvort voru raunverulegir eða grín. Ég breyttist í ömmu mína heitna, svoooo hneyksluð að ég náði ekki upp í nefið á mér og þurfti að hafa mig alla við að vera með ægilega kúl og slakan svip meðan á skjám upp um alla veggi léku sér ungir drengir saman. Og tækin sem hægt var að skoða og kaupa! Hvað í ósköpunum er hægt að þurfa stóra? Ha? What happendend in Mokka, stays in Mokka. Þið fáið því ekki að vita stærðirnar.

Líklega er best að fá sér malt. Jólin byrja kannski í desember en ég þarf að hreysta útlit mitt örlítið.

Lifið í friði.

normandí

Ég fór með mömmu og pabba (og börnin og kallinn reyndar líka) til Normandí um helgina. Þar á ég aðgang að yndislegu húsi sem ég skal sýna ykkur á mynd bráðum. Gamalt og lúið, skakkt og skælt, hvítt með svartri trégrind sem sést. Svarthvít kisa kúrir í gluggakistunni. Útsýnið úr stofunni er yfir dal sem fyllist af þoku á morgnana og kýr jórtra spaklegar í haga. Stutt að ganga niður að ánni og skoða gömlu stífluna, minning um stóriðju sem þykir ekki stór á íslenskan mælikvarða í dag.
Stutt að aka að skógarjöðrum eða niður að strönd og þorpin í Normandí eru hvert öðru fallegri þrátt fyrir að þarna hafi töluvert verið sprengt og skemmt í stríðinu.
Mér hefur alltaf þótt vænt um þetta hérað og alltaf langað til að sýna mömmu og pabba Honfleur. Þau urðu svo eftir og ætla líklega niður á Omaha beach í dag, ef þau nenna og liggja ekki bara og hvíla sig, prjónandi og lesandi við arininn.

Í gær vissi ég svo að nú þýðir ekkert hálfkák lengur, nú verð ég að hysja upp um mig og kasta mér af alefli út í námið ef ég ætla að ná þessum prófum í desember, sem ég ætla mér að gera.
En í morgun vaknaði ég um sexleytið og var skrýtin í maganum. Hef ég nú skilað öllu innihaldi hans í tvær áttir og ekki komið munnbita niður.
Ég veit ekki hvort þetta er eitthvað sem ég borðaði, hvort þetta er kuldinn sem sótti að mér í gærmorgun á torginu í Rouen þar sem Jóhanna af Örk var brennd á báli eða hvort þetta er einhver umgangspest sem aðrir á heimilinu fá svo í kjölfarið.
Mér líður hörmulega, hiti, skjálfti og ógleði við minnstu hreyfingu eða tal. Þetta verður að vera búið á fimmtudag, vinna framundan sem ekki verður svikist um, þ.e.a.s. ef verkföllin sem verið er að hóta stöðva ekki alla umferð og allt líf í París á næstu dögum.

Lifið í friði.

11.11.07

krísa

Ég er í krísu. Mér hefur liðið mjög undarlega síðan ég horfði á kalla standa og prísa vélina sem fór í gang. Lýsingin á nýja árfarvegi Jöklu svo kaldranaleg og hlutlaus. Spenningurinn í rödd verkstjórans eða hvað hann nú er þessi vesalings þræll sem talaði fyrir hönd risans.
Ég þakka fyrir að til er fólk sem frýs ekki heldur lætur í sér heyra.
Ég er frosin sjálf.
Frosin.
Ég kann afar illa við ljótu hugsanirnar sem skjóta upp kolli í mínu fagra höfði.
Ég er friðarsinni og tel að allir geti verið vinir.
Hversu barnalegt og fáránlegt sem það kann að hljóma.
Farðu úr huga mínum vonda hugsun.

Ég óska þess innilega að Náttúruvaktin, Saving Iceland og Framtíðarlandið nái að vinna saman, leggja saman krafta sína og koma í veg fyrir frekari framkvæmdir.

Ég þakka öllum sem eru að gera eitthvað til að vinna gegn þessu. Hvernig sem þau fara að því. Engin ein aðferð er rétt. Allt er hluti af réttu átaki.

Lifið í friði.

8.11.07

mokkaskýrsla

Þar sem sumir virðast fattlausari en aðrir verður að koma fram í sérfærslu að jú, það komu nokkrir og jú, þið hin misstuð af miklu.
Ekki sást furðuvera með dökk sólgleraugu og lambúshettu, Hildigunnur sat sem sagt hjá. En Gvendarbrunnur, Baun, Elías og Addý mættu galvösk og áttum við notalega stund saman, svei mér þá. Addý, óvirk Parísardama, er ekki bloggari en á það til að setja athugasemdir. Hin eru nógu þekkt til að ég þurfi ekki að föndra tengla á þau.

Í dag er síðasti dagurinn minn á Íslandi í gvuð veit hvað langan tíma. Það eru tímar í fögunum mínum en mér sýnist sem svo að ég muni missa af þeim, náði bara að mæta einu sinni. Ég fór og sótti ljóðabókina um fönixinn í gær, en hef ekki náð að hafa samband við annan mann sem hefur skrifað bækur og hjá hverjum ég var búin að panta tvær fyrir vitalöngu síðan og hef aldrei sótt, né greitt. Ef sá les þetta, má hann vita að ég hugsa til hans og ætla mér að ná í bækurnar einn góðan veðurdag. Kannski í dag? síminn hér er fimm sex sjö núll núll fjórir sjö, ef þú vilt hafa samband sjálfur.

Svo langar mig ógeðslega viðbjóðslega mikið í Minnisbók Sigga Páls, er spennt að vita hvort hann dregur upp sömu mynd af djamminu í París og þjónninn gamli á Select sem gat sagt mér nokkrar djúsí sögur af Íslendingum. En ég tími eiginlega ekki að kaupa bókina á fullu verði. Mér finnst í raun að Parísardama eigi að fá svona bók senda, svo getur hún auglýst hana á netinu. Eða hvað? Ég auglýsti reyndar aðra bók heillengi en fékk aldrei eintak af henni sent. Ég er bara ekki í menningarelítu og skipti svo sem ekki miklu máli í heildarmynd markaðarins ógurlega. (Og nú gæti alveg komið broskall, þetta er ekki biturð, ekki lesa slíkt úr þessu, ég bara get ekki fengið af mér að nota broskalla.)

Ég er stressuð og mér er illt í bakinu.

Ég ætla að vera í sundi, líklega í Árbæjarlaug, um kl. 17 í dag. Þið megið alveg koma en ég get samt ekki lofað þessu. Ég hata daginn fyrir brottför dagana.

Lifið í friði.

5.11.07

mokka

Ég ætla að reyna að vera á Mokka frá kl. 17 á morgun. Verð agalega glöð ef einhvern langar að hitta mig, en fyrirgef ykkur ef ykkur langar það ekki neitt. Ég er strax farin að slefa yfir tilhugsun um vöfflu og súkkulaði.

Lifið í friði.

3.11.07

1010

Ég missti algerlega af því þegar ég skrifaði pistil númer 1000. Það hlýtur að hafa verið fyrir löngu, ég er ekki í bloggham þessa dagana. Þessi er númeraður sérstaklega í fyrirsögn og í kvöld skal skálað fyrir áfanganum.

Ég er ekki í ham þessa dagana.

Vinna, læra, fljúga, sofa. Var í flugvél í gær og fer aftur ekki á morgun heldur hinn og svo aftur á föstudaginn. Mér finnst þetta ekki líf og skil nú öllu betur þjáningu mannanna sem gera þetta reglulega og skil betur að þeir skuli níðast á lýðnum til að græða meira, þetta er ekkert nema flugþreyta. Ef þú ert lögmaður geturðu skráð þetta hjá þér og notað fyrir rétti, sjái einhvern tímann ríkisómyndin ástæðu til að fara í alvöru mál við þessa gaga.

En mér tókst að fara í bíó áðan að sjá nýjasta Woody Allen og mikið er ég glöð yfir að tilheyra þeim helmingi (ofdekraða vestræna) mannkyns sem skilur Mr. Allen. Líklega hefði ég ekki þrifist í Frakklandi annars. Hann er góður.

Ég er með kenningu: Hann var kominn á fremsta hlunn með að myrða þann sem afhjúpaði samband hans við sjúpdóttur sína og spyr sig nú stöðugt hvort hann hefði átt að velja hinn kostinn (þ.e. þann að myrða vitnið) af þessum tveimur sem hann hafði.
En þetta er bara kenning og ég hef ekkert fyrir mér í henni annað en efni Match Point og þessarar myndar sem ég sá í kvöld, Cassandra's Dream. Því miður hef ég aldrei setið á djassbúllunni hans og spjallað við hann eftir lokun og ekki heldur rekist á hann á litlum sóðalegum bar í París og farið með hann niður á Pont des Arts að dansa í sólarupprásinni. Dreymir mig um það? Já, núna eftir að mér datt þessi möguleiki í hug. Kannski ég síkreti þetta bara og samkvæmt lögmálinu mun ég sem sagt dansa á Pont des Arts við Woody Allen fyrr en síðar. Er þér boðið? Nehei.

Lifið í friði.

p.s. sögnin að síkreta er sú nýjasta í mínum orðaforða og mun verða notuð óspart á næstunni.