13.1.06

tíminn og sjónvarpið

Um daginn horfði ég að venju á upptöku frá sunnudeginum af þættinum "Arrêt sur Image" sem tekur fyrir málefni og kryfur til mergjar hvernig farið er með þau í sjónvarpinu. Þetta er mjög vandaður og góður þáttur, stýrt af Daniel Schneiderman sem alveg er hægt að byrja að tala illa um því stundum er hann svolítill lýðskrumari og auðvitað dettur stundum út úr honum eitthvað sem pirrar. Hann er blaðamaður og var rekinn frá Le Monde með hávaða og látum fyrir nokkrum árum. Varð svona "enfant terrible" sem Frakkar elska að elska. En ég ætlaði nú ekki að tala um hann hérna heldur það sem kom fram í þættinum síðasta sunnudag.
Þátturinn fjallaði um tsunamiharmleikinn á ársafmælinu. Farið var yfir sjónvarpsmeðferð flóðbylgjunnar frá upphafi fram á vora daga. Þar kom fram að í byrjun voru fjölmiðlar uppfullir af sorg og harmi og óhugnalegum myndum og göluðu hver í kapp við annan að nú yrði að hjálpa og senda pening og fólkið greip það á lofti. Ekki sakaði að stöðvarnar sjálfar og allir þekktir sjónvarpskallar (já, það eru afar fáar konur í einhverjum stjórnendastöðum hér, þær eru bimbóar að segja veðurfréttir eða bimbóar að skreyta umhverfið í kringum sjónvarpskallinn) gáfu pening og svona. Í það minnsta söfnuðust meiri peningar en hafa nokkurn tímann safnast eftir náttúruhamfarir. Rauði krossinn og allar hinar hjálparstofnanirnar tóku við peningnum og byrjuðu björgunarstarfið af fullum krafti. Mikla athygli vakti þegar "Médecins sans frontieres" (læknar án landamæra) báðust undan meiri pening. Þeir væru komnir með of mikið. Þetta þótti fréttamönnum og þar með fólkinu í landinu, mesti hroki og voru fúlir út í þá og leyfðu þeim ekki lengur að vera með í nokkru sjónvarpsefni. Og peningarnir streymdu inn.
Svo kom janúar og þar á eftir febrúar og heimurinn fór að snúa sér að öðrum hugðarefnum en vesöld í öðrum heimshornum.
Svo í maí, júní, byrjar aftur sjónvarpsáhugi á Asíu og tsunsami-afleiðingunum. Þá var komið annað hljóð í strokkinn. Þá var viðkvæðið: Peningarnir ykkar liggja í banka á reikningum með vöxtum. Og ekki var gleðihljómur í rödd fréttamannsins yfir þessu heldur mikil vandlæting og hneykslan. Hann fór og fann þorp sem var ekki enn búið að byggja upp. Hann sýndi fram á að Secours Populaires (hjálparstofnun) vissi ekki um konuna sem var þar frá þeim og beið eftir aðstoð við að byggja á landinu sem hún var búin að fá afhent. Mikil umræða fór í gang um það að aldrei er hægt að vita hvað verður um peningana okkar þegar við gefum þá til svona stofnana. Rauði krossinn reyndi að bera í bætifláka og útskýra fyrir sjónvarpinu að hjálparstarfið byggðist ekki upp á nokkrum vikum heldur ættu þeir þarna margra ára starf fyrir höndum.
En sjónvarpið hlustar ekki á svoleiðis vitleysu. Í sjónvarpinu er tímapressa. Allt þarf að gerast á 26 eða 52 mínútum. Ein til tvær mínúta er langur tími í fréttum. Þetta geta hjálparstofnanir reynt að berjast við með álíka árangri og Don Kíkóti barðist við vindmyllurnar. En sem betur fer fór sjónvarpinu að leiðast að fjalla um þetta og fólkinu var snúið að öðrum hugðarefnum.
Líður og bíður og allt í einu er kominn nóvember. Farið að nálgast eins árs afmælið. Hvað er að gerast þarna niðurfrá? Þá kemur í ljós að allt er í fína, hjálparstofnanir hafa með þinni, ÞINNI, hjálp náð að byggja ótrúlega hratt upp nýja paradís fyrir þig. Komdu í heimsókn.

Tvennt truflar mig ógurlega í þessu öllu saman:
A. Þegar peningar safnast inn fyrir ákveðið málefni má alls ekki nota þá í annað málefni. Þess vegna sátu hjálparstofnanirnar með stútfulla reikninga á vöxtum og horfðu á afleiðingar jarðskjálftans í Pakistan og gátu ekki gert nokkurn skapaðan hlut því viðbrögð fólks á Vesturlöndum voru ekki nógu sterk. Sjónvarpið sýndi þessu lítinn áhuga, enda voru þarna engir túristar, engar ljóshærðar litlar stúlkur krambúleraðar búnar að týna mömmu, engar stórstjörnur í hættu. Þetta finnst mér alveg að mætti endurskoða.

B. Fólkið í heiminum er líklega farið að lifa í takt við sjónvarpið. Þess vegna finnst okkur tíminn líða hraðar en áður. Í sjónvarpinu þarf allt að gerast hratt, vera taktur í því, málið er reifað, bla bla bla, niðurstaða fengin, snúum okkur að öðru.
Er það kannski þess vegna sem við höfum ekki lengur tíma til að sauma fötin okkar, baka smákökur, hitta fólk fyrir jólin, hitta fólk á öðrum árstímum, fara í leikhús...?
Mér var t.d. bent á aðferðir supernanny sem þykir stundum heldur hörð við börnin þegar hún rífur af þeim pela og hendir í ruslið með barnið organdi í baksýn. Supernanny myndi aldrei gera svona á leikskóla. Hún tæki nokkra daga í að útskýra fyrir barninu að nú væri kominn tími á að losa sig við pelann og á endanum er það barnið sjálft sem hendir pelanum stolt með bros á vör. Sjónvarpið leyfir ekki slíkt vegna tímans, taktsins.

Ég vildi óska þess að fólk hætti að horfa á sjónvarp og færi að lifa meira eftir eigin takti. Heimurinn yrði áreiðanlega betri.

p.s. þetta var skrifað í dálitlum flýti, vonandi læsilegt en ég hef ekki tíma til að athuga það núna og ætla að henda þessu inn því ég hef týnt pistlum sem ég hef geymt sem uppkast.

Lifið í friði.