30.11.05

trois cent soixante six

Pistill númer 366. Kannski fer að vera komið nóg.
Komin heim og í hvílíku jólaskapi að það hálfa væri nóg. Rétt rúmar tvær vikur í brottför, áttatíu jólakort að skrifa og ná að taka mynd þar sem fegurð barnanna næst vel án þess að myndin sé væmin og uppstillt og ná að prenta hana út í réttu formati og þetta hljómar áreiðanlega allt sem hin mesta kökusneið fyrir einhverja en er mikið mál fyrir mig. Ég hef ógurlega gaman að (eða var það af, nú er ég týnd í þessu gaman að - gaman af) fjölskyldumyndunum mínum og mig óar við þeirri tilhugsun að tapa albúmunum mínum. En ég er líklega ekki mjög góður myndasmiður, ég veit að ég hef lítið auga fyrir myndbyggingu og lélegt næmi fyrir litasamsetningum. Málið er að mínar eftirlætismyndir eru yfirleitt illa teknar, vantar neðan á fólk eða hliðina eða ofan á en mér er alveg sama því myndirnar mínar eru mín móment, mínar minningar sem ég er að frysta aðallega fyrir sjálfa mig. Ég hef nú samt ógurlega gaman af (eða að?) því að skoða annarra manna myndir líka, annarra manna móment og minningar hreyfa við mér. Ég þarf ekki einu sinni að þekkja fólkið á myndunum, mér finnst fáránlega gaman að horfa á gamlar uppstrílaðar konur í sófa með tertudisk í höndunum og landslagsmynd í bakgrunni. Ég hef enga skýringu á þessu og þarf enga skýringu. Kannski veitir þetta mér einhvers konar öryggistilfinningu. Ég er mikil fjölskyldumanneskja og mér finnst líka yfirleitt gaman að fara í fjölskylduboð. Ég er líka svo heppin að allar mínar fjölskyldur (móður-, föður- og tengdafjölskyldan) eru mátulega samheldnar og mátulega samsettar úr misskrýtnu og skemmtilegu fólki.
Og á sama hátt finnst mér ógurlega gaman að senda öllum jólakort. Ég sendi um 80 kort þegar mér tekst að ljúka listanum, þau urðu nú ekki nema 60 í fyrra. Ég sendi eftirlifandi vinkonum ömmu minnar, gömlum nágrönnum og alls konar fólki sem ég hitti nánast aldrei. Ég held að ég hafi fengið eitthvað í kringum 10 kort á pappír í fyrra. Ég tel tölvupóst ekki með, mér finnst tölvupóstur ekki geta komið í staðinn fyrir jólakortin sem ég opna við mikla seremóníu eftir að pakkarnir hafa verið opnaðir. Þá er hitað kaffi og konfekt dregið fram og jólakortin lesin í rólegheitunum, myndirnar skoðaðar og stundum hlegið dátt, hent að öllu gaman. Ég er náttúrulega alger jólaálfur og elska jólin og allt sem þeim viðkemur. Ég kemst við þegar bjöllurnar hringja í útvarpinu og get yfirleitt ekki sungið heims um ból án þess að klökkna. Hvaða játningablogg er þetta eiginlega? Best að hætta áður en ég fer út í viðkvæmari sálma.

Lifið í friði.

24.11.05

farin bless

Ég er að fara í vinnuferð. Kannski eins konar vísindaferð. Til Bournemouth. Vísindarannsóknin verður þó ekki þar heldur í Oxford. En það er of flókið að útskýra hvers vegna Bournemouth. Og nú er ég búin að skrifa þorpsheitið tvisvar án þess að vera alveg viss á stafsetningunni. Og nú kemur það í þriðja sinn: Ég fór einu sinni til Bournemouth. Við fjölskyldan vorum á ferð á eigin bíl þvert yfir Evrópu og áttum bátsferð heim frá Newcastle. Mamma mín lærði einu sinni fyrir löngu síðan ensku eitt sumar í Bournemouth og fékk ástarbréf frá þýskum aðdáanda lengi á eftir. Hún heimtaði pílagrímsferð þangað sem við og gerðum. Ég man eftir ágætlega skemmtilegri strönd þó ekki væri sólbaðsveður en strendur eru einmitt yfirleitt betri þannig. Og svo man ég að við gengum inn á fish and chips stað og maðurinn tilkynnti stoltur að í dag væri fiskurinn frá Íslandi. Hann trúði okkur held ég aldrei alveg þegar við reyndum að sannfæra hann um að það værum við líka. Tók okkur líklega fyrir megalómaníska Svía. Eða ekki.
En Bournemouth baby here I come. Með kampavín í töskunni! Því þó þetta sé vinnuferð er ekki á áætlun að vera neitt of þægur. Sem minnir mig á að ég átti alltaf eftir að segja ykkur að matardagbókin mín varð örsaga, ég komst fljótt að því að ég er mjög stabíl og borða reglulega þó bæði skorti morgunmat og kaffitíma of oft. En ég er ekki mikið að nasla á milli mála að öllu eðlilegu og borða úr öllum fæðuhringnum. Þetta var nóg fyrir mig, ferlega er leiðinlegt að skrifa allt svona niður. Og kannski sérstaklega þar sem vínbindindi okkar bóndans hefur snúist gersamlega upp í andhverfu sína.

Lifið í friði.

þetta er ungt

og leikur sér
Við erum sem sagt að leita að íslenskum karli sem er í stjórnmálum og býr í litlu þorpi eigi allangt frá Reykjavík. Hann situr ekki í ríkisstjórn. Ekki Árni Sigfússon né Johnsen, ekki Stulli Bö og ekki Guðni Á (hvaða kallar eru þetta eiginlega sem fólk hélt að ég vissi að væru til???) Og koma svo!

Lifið í friði.

murder she wrote

Nágranninn er að horfa á það. Líklega af diskum. Ég á eftir að sakna hans, hann er búinn að selja íbúðina.

Lifið í friði.

fju

Jæja, ég er búin með þýðinguna. Ég veit ekki hvort þetta er í lagi en betur get ég ekki gert. Ég ferðaðist um lendur internetsins og leiddist inn á alls konar skemmtilegar síður eins og til dæmis síðuna hans Leós sem svarar spurningum og annað. Ég notfærði mér nú ekki þjónustu hans þar sem ég var með pabba og tvo aðra handymen við höndina. En Leó er afbragðsmaður og sýnir það sem fleiri sýna á vefnum: Það eru ekki allir með peninga í heila stað. Örlæti og brennandi áhugi mannsins smitast út frá síðunni hans. Svo fann ég skemmtilegri síður eins og marteinsson.is og lenti inn á kjarasamningi flugvirkja og fleira skemmtilegt. Ég er frekar lélegur gúgglari en mér hlýtur að hafa farið fram. Og ég dró fram þýðingu frá því fyrir nokkrum árum sem ég gerði alein í Montpellier með pabba í faxsambandi í lokin. Hvernig í déskotanum fór ég að? Netlaus að mestu. Skil það ekki núna. Margt hefur breyst síðan þá. Var einmitt að spá í hvað það er stutt síðan maður var að reyna að hringja í fólk og það var á tali tímunum saman af því einhver var á netinu. Feels like ages ago.
En merkilegast fannst mér að komast að því að það er ekki bara til food porn. Það er til VERKFÆRA porn. Og það versta er að ég er líklega smá verkfæraperri sjálf miðað við hvað mér finnst gaman að villast um í býkóbúðum. En bæklingar um bílaviðgerðarverkfæri ná nú samt ekki að hreyfa við mér. Ha? Er það ekki dálítið mikið dónó?
Jæja, nóttin er komin fyrir löngu og nú heyrist hljóð úr barnaherberginu. Best að koma sér í bólið.
Getraunin heldur áfram þó stjórnandinn sé pínu klúðrari.

Lifið í friði.

23.11.05

Innsýn í spennandi líf þýðenda

Sú lausn að þekja gafflana með snöggkælingu í vökva aðferðinni reyndist nauðsynleg gagnvart auka plasthlutum sem geta losnað og týnst í geymslu eða við tifærslu þjöppunnar á verkstæði eða þá við notkun gormaþjöppunnar.

Og nú er bara að snara þessu yfir á íslenska íslensku með smjöri og sultu eða þá með steiktum og hráum. Eða kók og pipp.
Og eins og í hvert skipti sem ég þýði bæklinga ritaða af markaðsviðurstyggðum lofa ég mér því að vera aldrei hneyksluð á lélegum þýðingum.

Og yfir í alvarlegri sálma:
Persónan er karl, af holdi og blóði, íslenskur, stjórnmálamaður, býr í litlu "þorpi" (ég nenni ekki að athuga hvaða stöðu þetta þorp hefur og dissa fólk bara eins og ÁJ gerir, ef ykkur líkar ekki reglurnar og villurnar, farið þá annað að leika ykkur) eigi allangt frá Reykjavík.

jól og leikir

Mér giskast helst til að fólk sé að upplifa jólin fyrirfram í boði kringlunnar og kókakóla í gegnum allar þessar getraunir út um alla bloggheima.
Spjallaði við konu í gær um að tíminn líður svona hratt vegna þessa áreitis um að hugsa og skipuleggja fram í tímann sem markaðsviðurstyggðirnar bjóða manni að gera. Það verða jólavörur á boðstólnum rétt fram í fyrstu viku af janúar og um leið og þeim verður rutt út á öskuhauga eða ofan í kjallara fram í næsta október verður farið að hlaða páskasúkkulaði, páskaskrauti og páskabjánalátadóti í hillurnar.
Ég er viss um að ég er ekki ein um að finnast nóvember hafa gengið í garð í fyrragær. Og nú er maður farinn að fá mánaðarmótakitlið í magann. Er þetta eðlilegt?
En ég ætla að gera eina getraun enn. Sú fyrri var auðveld, ég vissi það alveg enda er þessi getraun aðallega fyrir þær sem finnst þær vera utangátta í getraunum klára liðsins þarna hinum megin á blogghnettinum ógurlega.
Ég hugsa sem sagt um persónu og þið megið spyrja beinna spurninga (já og nei spurninga eins og það heitir hjá okkur kjánunum).

Lifið í friði.

úpps, hvern á ég að hugsa um????

22.11.05

SKILABOÐ FRÁ HRYSSU

Allir sem eiga dót eða peninga sem þarft væri að losna við fyrir jólin eiga að smella á fyrirsögnina og lesa.

Lifið í friði.

p.s. ef það eru peningar má svo sem alveg eins leggja á reikninginn minn...

ekki farin

en svolítið búin að vera...
Þetta er dálítið magnað að hafa of mikið að gera til að geta bloggað. Ég læt nefninlega tímann sem fer ekki í að sitja fyrir framan tölvuna við þýðingar fara í að hugsa um börnin mín og heimilið. Röng forgangsröðun? Er bloggið mikilvægara en börnin? Veit ekki... alla vega sakna ég pistlanna minna mikið. Gott að einhver saknar mín. Nú skil ég betur að vera týndur í vinnu. Að tapa sér. Já. En reyndar er þetta alls ekki í fyrsta sinn á minni ævi sem ég fæ að kynnast því að vera að kafna í vinnu. Ónei. Þetta kemur nú fyrir endrum og sinnum hjá mér þrátt fyrir meðvitaða ákvörðun um að vinna ekki of mikið.

Það eru margar skemmtilegar getraunir í gangi. Málbein er með bókmenntagetraun og síðast þegar ég vissi var sú sem ég benti á um daginn enn á fullu. Ég hef ekki getað svarað neinu nema einni tónlistarspurningu hjá Tobba Tenór. En það var gúgglsvindl og mér finnst það ekki eins skemmtilegt. Ég get ímyndað mér að fleiri séu í mínum sporum, finnist þeir hálfútundan í þessum yfirmáta erfiðu bókmennta- og tónlistargetraunum. Því ætla ég að hefja laufléttan leik fyrir okkur hin. Ég hugsa um persónu og þið megið spyrja já eða nei spurninga.
Hefst þá leikurinn.

Lifið í friði.

18.11.05

asni

Ég hlýt að vera asni. Ég er síklifandi á því að peningar skipti ekki máli, að peningar eigi ekki að stjórna lífi manns og samt tek ég að mér fáránlega erfitt verkefni bara út af peningum. Verkefni sem ég er að kafna í, kafna svo hrikalega að ég hringdi í konuna sem réð mig og sagði henni að ég væri að gefast upp. Hún gaf mér lengri frest. Ég þorði ekki að segja henni að ég væri hætt. Ég er bæði asni og auli.
Ef einhver þekkir einhvern sem kann bæði íslensku og frönsku og er vel að sér í töngum og lyklum (topplyklum, skrúflyklum, skrall lyklum o.s.frv.) og skrúfjárnum og öllum mögulegum og ómögulegum tólum má sá hinn sami koma mér í samband við þann snilling.
Ef einhver veit um góðan verkfæralista á netinu vil ég fá slóðina. Helst með myndum. Nauðsynlega með myndum.

En ég er asni. Og auli. Og hef ekkert haft tíma til að taka þátt í þessum þrælskemmtilegu getraunum sem vaða uppi út um alla netheima. Mér finnst Viktors bestur en Tobbi tenór er líka með skemmtilegan leik. Ég m.a.s. fékk stig í gær hjá honum út á gúgglhæfileika mína á frönsku. Algert svindlstig, en Tobbi er harður í horn að taka.
Gaman að þessu. Sko, bara að fara að skrifa um eitthvað annað kom smá brosi á andlit mitt. Ég sver það að ég var með grátstafinn í kverkunum þegar ég hringdi í konuna áðan. Eins og lítil týnd stelpa. Sem tók að sér of erfitt verkefni. Eins og ég sé ekki endalaust að blöffa mig í gegnum alls konar verkefni. T.d. móðurhlutverkið. Og leiðsögustarfið. Og lífið sjálft. Lífskúnstner hvað? Hálfviti. Jæja, komin niður aftur. Niður á jörðina þar sem topplyklar og hnoðhamrar hafa meiningu.

Í morgun talaði ég við veika manneskju. Það er magnað með nútímaþjóðfélögin, velferðarríkin Frakkland og Ísland, hvað þau eru vond þeim sem minna mega sín. Ég er oft spurð hvort almannatryggingakerfið sé gott hérna. Ég hef ekki yfir neinu að kvarta, ekki of dýrt að kíkja með börnin í sína reglulegu skoðun og fá sprauturnar fyrir þau. En hér gildir sama lögmálið og heima: Fínt ef þú ert heilbrigður. Ömurlegt. Ömurlegt að vera veikur og fá ekki nauðsynlega meðferð og bíða eftir afgreiðslu mála sinna vikum, jafnvel mánuðum, saman. Vera ósyndur fugl á flugi yfir endalausum sjó.

Lifið í friði.

friður í sjónmáli?

Ég veit ekki hvort fréttin um líffæragjöf milli palestínsks líks og gyðingasjúklings bárust ykkur. Er ekki friður í sjónmáli? Eins og Eric Hazan og fleiri "sjálfhatandi" gyðingar vilja meina? Er ekki fólkið í landinu orðið þreytt á brölti og hefndargirni stjórnmálamanna og stríðsrekstrarviðbjóðskarla sem eiga kannski og líklega hagsmuna að gæta?
Það er orðiði allt of langt síðan ég setti þetta á síðuna:
Þið megið kalla mig draumóramann. En ég er ekki ein. Ég vona að dag einn munið þið ganga í lið með mér. Og heimurinn verður sem einn.

Lifið í friði en ekki í firði.

16.11.05

merde

Tók að mér þýðingu um helgina. Og verð með túrista á laugardeginum. Og heilt fjölskylduboð fyrir franska hlutann (þeim íslenska væri boðið...). Þetta er alltaf svona. Alltaf allt í einu í þessum frílansabransa. Og aldrei má maður kvarta, því svona koma péningarnir, blessaðir péningarnir í kassann.

Annars eyddi ég eftirmiðdeginum með börnunum í La Villette, vísindasafninu. Það er svo frábær staður fyrir börn og minnti mig óþyrmilega á uppkastið að barnakaflanum á netsíðuna sem er hér til skrifað á bréfpoka og geymt ofan í skúffu. Ég ætla að redda því á fínu kjöltutölvunni (er það ekki annars íslenska orðið?) um jólin að læra sjálf að bæta inn á netsíðuna mína. Þá get ég kannski deilt með ykkur nokkrum góðum veitingastöðum sem uppgötvuðust í sumar og margt fleira.

Lifið í friði.

Bókmenntagetraun

Eins og vanalega er það fyrirsögnin sem er tengill. Í þetta sinn er hún tengill á afar skemmtilega bókmenntagetraun. Ég mæli með þessu, gaman að lesa gamlar spurningar og svör, maður lærir ýmislegt í gúggltækni. Er komið íslenskt orð fyrir gúggl? Ekki segja vefleit eða eitthvað álíka óskemmtilegt. Þarf að vera eitthvað jafnskemmtilegt og gúggl er. Kannski er gúggl bara nógu gott í íslenskuna?
Gúggledígúggl. Já, virkar. Þetta er pottþétt leið til að athuga orð á íslensku. Ef hægt er að edía þau, virka þau.
Vá þetta kenýakaffi er alveg að virka eins og sumir myndu orða það.

Lifið í friði.

15.11.05

hræðsla

Mér finnst Bush mjög óhugnalegur maður. Ég vissi ekki hvert ég ætlaði þegar ég sá hann tilkynna það að hann ætlaði að biðja fyrir fórnarlömbunum, þegnum sínum, í New Orléans. En að vera hrædd við öfgalið sem kannski ræður einhverju í einhverjum skóla í einhverju úthverfi í einhverju fylki fyrir það að kenna krökkunum að þyngdarlögmálið sé ekki til og að þróunarkenningin standist ekki? Nei, ég er ekki hrædd við það. Er ég heimsk fyrir það?
Mér finnst gaman að spá í það að kannski sé þróunarkenningin vitleysa. Mér finnst gaman að spá í það að kannski sé líf á öðrum hnöttum. Ég veit í raun ekki mikið um vísindi, hætti fyrir löngu að drekka í mig fróðleik og efni um þesslags. Fór að stússast í hversdagslífinu og að koma upp fjölskyldu og svona.
Mér finnst allt í lagi að einhverjir segi að Guð ýti hlutunum niður að jörðunni og að þess vegna komi boltinn niður til þín aftur. Guð ýtir honum til þín. Mér finnst þetta krúttíleg tilhugsun og skemmtileg. Ég get ekki sannað hana og ég hef ekki græna glóru um það hvort virkilega er búið að sanna þróunarkenninguna, hvort ekki sé möguleiki að finna gloppur í henni. Mér þætti það ýkt spennandi.
Mér finnst heimurinn skrýtinn staður og hef valið að gera hann sjálfri mér eins skemmtilegan og hægt er. Ég efast um hluti mér til skemmtunar. Og hef gaman af fólki sem efast um það sem "allir vita". Af hverju þurfum við öll að vita það sama? Mega ekki einhverjir vita það að Guð ýtir okkur, heldur okkur við hnöttinn?
Mér fannst það einna skemmtilegasti hlutinn í Friends þegar Phoebe tók Ross á taugum með svona hluti. Yfirnáttúrulegt eða konkret. Hvort er skemmtilegra?
Mér finnst að fólk eigi ekki að taka heiminum of alvarlega. Ég er ekki að meina að alvarlegir hlutir séu ekki að gerast og að auðvitað þarf ýmislegt háalvarlegt að eiga sér stað á hverjum degi út um allt. En hlægjum líka. Og hættiði að horfa á sjónvarpið sem dælir eintómri lygi og mikið af hræðslu yfir ykkur. Auðvitað megið þið öll horfa á sjónvarpið, ekki misskilja mig, þegar ég kem með svona setningar ætlast ég engan veginn til þess að þið hlýðið mér í blindni. Og þætti það fáránlegt. Lífið er fallegt og skemmtilegt. Ef við viljum það.

Lifið í friði.

14.11.05

vúúú

Ég held að ég sé alveg að eignast óvin í bloggheimum. Það finnst mér skrýtið. Og óþægilegt.

Lifið í friði.

ó-óeirðir

gua spyr sig í orðabelg við færsluna hér fyrir neðan hvort vera RUV manna hér í París sé ekki sóun á almannafé.

Ég svara: Alger sóun. Ég er búin að veltast um af hlátri að horfa á þá í fréttunum heima.
Ég á heima í 93 sýslunni, á lítinn ljótan bíl með númeraplötum þaðan. Ef þeir hefðu haft vit á að hringja í mig hefðum við getað farið örugg í næturrúnt um hverfin og þeir séð með eigin augum hvernig þeir þrjóskast við að halda áfram að ljúga, af því allir hinir gera það. Þetta er ótrúlegt mál allt saman og verður spennandi að gera það allt upp þegar hægt verður.
Það að Fox skuli líkja þessu við Katarínu er hreinlega ósómi og lygi. Það hafa afar fáir dáið, lítið orðið vart við vopn og af því að einhver grýtti keiluspilkúlu ofan úr einhverri blokk einhvers staðar einu sinni eru nú sýndar myndir af lögreglumönnum þrammandi um með hjálma eins og von sé á keiluspilskúluregni hvað og hverju. Á þessu máli öllusaman sést svo ógurlega vel hvernig allt sem við sjáum í fréttunum er matreitt og soðið eftir löngun fréttamannanna og það er hreint ótrúlegt að fyljgast með því hvað fáir fjölmiðlar þora að segja sannleikann: Það er allt í rólegheitum hér í Frakklandi, líka í úthverfum Parísar, í dag. Það bara hljómar svo illa þvi rólegheit eru jú eins og allir vita ekki fréttnæmt fyrirbrigði.

Ef einhver kvikmyndagerðar- eða sjónvarpsmaður les mig og langar til að koma og taka alvöru myndir af þessum hverfum er ég glöð að fylgja þeim um. Við gætum gert góða alvöru heimildarmynd fyrir lítinn pening. Ég er til. Ég er komin með ógeð á lyginni sem fólk er matað með og hvet sem flesta til að fara nú að slökkva meira á sjónvarpinu og horfa betur á lífið í kringum sig.

Lifið í friði.

hikandi andi andi á mig

Mig langar svo að blogga því mig langar í samskipti. Er alein hérna á mánudagsmorgni og þarf að gera þúsund hluti áður en sonurinn, tveggja ára í dag kemur heim en langar meira að hanga í tölvunni og langar að tala um svo margt misgáfulegt og samt er ég hrædd um að færslan verði étin.
Í gær héldum við upp á afmæli Kára fyrir vinina, hér voru 6 börn og 10 fullorðnir og mikið gekk á. Ég vígði vöfflujárn ömmu minnar sem hefur setið ásakandi uppi í skáp í áraraðir. Það er svo auðvelt að gera vöffludeig að ég sárskammast mín og mun héðan í frá baka vöfflur mun reglulegar. Eða ekki. En vöfflur eru góðar, svínvirkaði í börnin, djöfull er ég fegin að hafa ekki farið út í flóknar kökur sem litu út eins og bílar. Bara rice krispies kökur í muffins formum, nokkur mogm og vöfflur. Djús með og allir alsælir.
Kári var stóískur, sposkur á svip og neitaði að blása á kertin en fylgdist með þegar það var gert án svipbrigða, kannski vottaði fyrir glotti. Hann er klár en flinkur að líta út fyrir að vera það ekki. Tungan hálf út og engin viðbrögð við tilraunum fullorðinna til að kæta hann og gleðja. Hann er alsæll með pakkana, bílar og göng og púsluspil og bílar. Blívur.
Næstu helgi kemur svo franska fjölskyldan. Það verður meira stress fyrir húsmóðurina mig. Allt þarf að vera óaðfinnanlegt og helst þarf íbúðin að líta út fyrir að vera stærri þó hún verði yfirfull af fólki. Einhver ráð? Vala, ertu þarna? Les Vala Matt mig ekki? Stór spegill á skáphurðina í anddyri/stofunni er á dagskrá en ekki á næstunni því það kostar of mikið. Held við verðum fyrst að kaupa sófa. Skirflið okkar er, sýnist mér, farið að mygla. Ég reyndi að þrífa hann með einhvers konar sófasjampói en gerði bara illt verra. Mig vantar sófa. Hef verið að bíða lengi eftir að vera boðinn gefins sófi. Þannig hef ég eignast öll húsgögnin hér inni sem koma ekki upp úr flatpökkum frá Ikea frænku. Hjá henni er nú gerfileðursófi á rokna tilboði en ég held að hann sé ekki nógu góður. Og ekki svefnsófi sem er nauðsynlegt hér. Mig langar í leðursófa því þá er hægt að þvo með tusku. Sem er óneitanlega kostur fyrir barnafólk sem sjálft borðar súkkulaði í sófanum á kvöldin.

Ég kannast við einn edduverðlaunahafa frá í gær. En ég skil ekki af hverju þetta er árlegt á Íslandi. Líklega partýþráin sem hvetur til þess. Gaman að fara í frægafólkspartý.

Annars horfði ég aftur á þennan eina þátt sem ég horfi nú á í frönsku sjónvarpi, Arrêt sur Images eða "Fryst á mynd". Aftur fjallaði þátturinn um óeirðirnar hérna en nú um umfjöllun í erlendu sjónvarpi. Fox news sögðu Katarínu vera hjóm í samanburði. Þeir eru óhugnalega heimskir, lygnir og viðurstyggilegir. Manni verður um og ó að hugsa til þess að einhverjir horfi á þetta bull í góðri trú um að þarna fari sannleikur.
Einnig var "sniðugt" að sjá rússana tala illa um múslimi með tengingum í Tjétjéníu. Mín reynsla af íslenskum fjölmiðlum er sú að þeir vildu ekki vitna í mig af því ég vildi ekki segja það sem þeir vildu heyra. Að allt væri logandi. Hér var ekki allt logandi. Örlítill hluti af örlitlum hverfum hér og þar loguðu kannski og fólk var reitt og spennt en afar fáir lentu í miðjum átökum. Afar fáir og ÞAÐ er sannleikurinn sem hentar ekki fjölmiðlunum sem eru á kafi í spektakúlarinu. Fyrirgefið mér en ég finn ekkert íslenskt orð. Skemmtigildinu. Ekki alveg það sem ég meina. Sjóinu. Ekkert betra orð, frekar orðleysa, en nær aðeins meiningunni. Fyrirgefið mér og yður mun fyrirgefið vera.

Lifið í friði.

11.11.05

athugið II

Ég komst að því mér til mikillar furðu að einn lesandi og náin vinkona mín að auki hafði fengið þá flugu í höfuðið að ég gæti orðið ánægð með ákveðin úrslit á ákveðnu prófkjöri sem átti sér stað á dögunum. Til að forðast allan misskilning hafði ég engan, ENGAN, áhuga á þessu tiltekna prófkjöri. Hins vegar ákvað ég snemma á bloggferlinum að hafa reglulega svona hanntókíhendin'áméreinusinni þema og misnotaði þannig þetta títtnefnda prófkjör og einn þáttakenda í því.
En mér hefur reyndar gengið mjög illa að koma stjörnuhittingum að í blogginu því auðvitað verður það að tengjast einhverju, má ekki vera bara: "Hey, ég þekki hann!" óp út í loftið, það væri lamað.
Því nota ég tækifærið núna til að segja ykkur að ég var í árgangi með Hilmi leikara og Danna söngvara og hékk í sama hóp og þeir og þáverandi reykingavarnarkona og síðar háttsett SUSa kallaði hópinn menningarsnobbklíkuna OG ég hef setið í bíl á leið í rokna sundlaugarpartý í Avignon með leikaranum sem leikur fósturpabbann í Langi sunnudagstrúlofunardagurinn eða hvað sem myndin hét á íslensku og hann hefur reyndar leikið í öllum Jeunet myndunum, byrjaði sem einmana trúður í Delicatessen, eruð þið ekki búin að sjá hana? Skamm skamm, drífa í því, langtum besta myndin, fyrst og ferskust, og svo lék hann afbrýðisama gaurinn í Amelíu, þann sem hún lætur verða ástfanginn af tóbakssölukonunni óhamingjusömu. Bíllinn var skutbíll og þar sem við vorum mjög mörg voru minnstu konurnar settar í skottið, það var sem sagt dvergurinn ég og smávaxna leikkonan Maria de Almeidos sem lék Anaïs Nin í Henry and June. Við hossuðumst um sveitavegi Suður Frakklands í fanginu hvor á annarri.
Ha! Ef þetta er ekki hanntókíhendin'á mér OG heilsaðimér blogg með afbrigðum vel heppnað þá veit ég ekki hvað það er. Og ef blogger étur þennan pistil, hætti ég að blogga!

Lifið í friði.

helvítis blogger og maður verður að vera með windows til að geta bloggað með word

10.11.05

The Real Me - Svala Björgvins... var það þá hálf lygi?

og héðan í frá mun eingöngu verða bloggað fyrirsögnum

athugið

9.11.05

elling

Svangir Frakkar

Á föstudaginn tók ég metró yfir í 15. hverfi þvert yfir alla París. Þetta eru um 30 stöðvar og tekur ferðin slétta klukkustund.
Þar kom ég inn í sjónvarpsframleiðslufyrirtæki eitt sem gerir ýmsa þætti, m.a. röð um sjónvarp hvaðanæva úr heiminum. Þeir voru á Íslandi fyrir nokkru og mitt hlutverk er að þýða viðtöl og fréttaefni sem þeir fengu heima.
Á ofurilla skipulögðu skrifborðinu fyrir framan mig rak Íslendingurinn beint augun í bréf utan af Einu setti. Því vissi ég strax að þau höfðu uppgötvað það sem skiptir máli á landinu, sjoppumenninguna. Þegar ég spurði þau hvernig hefði gengið, létu þau vel af dvölinni. Keli fixari stóð sig með prýði, landið er fallegt, fólkið er skemmtilegt. En það hefði nú samt verið gott að geta borðað eitthvað. Eftir veitingahúsaferð fyrsta kvöldið var allur peningur sem áætlaður var í mat búinn. Því lifðu þau á sjoppufæði það sem eftir var. Og þetta stendur illa í þeim, öll mikið mataráhugafólk hef ég skilið eftir þrjá daga í vinnu með þeim, hafa gaman af eldamennsku og góðum veitingahúsum og því voru þetta mikil vonbrigði. Þau hafa mikið verið að spyrja mig um það hvernig fólk lifi á Íslandi. Ég á alltaf mjög erfitt með að svara því. Ég skil það nefninlega ekki sjálf. Ég skil ekki hvers vegna matvöruverð er svona hátt. Ég skil ekki hvers vegna fólkið sættir sig við það. Ég skil ekki hvernig fólk fer að því að vera með heita máltíð á hverju kvöldi en samt eiga pening fyrir stóru húsnæði vel upplýstu, tónlistarskólum, sundferðum, útlandaferðum, jeppaferðum, hreinræktuðum hundum eða köttum og ís um helgar. Ef einhver hefur svarið er það vel þegið... helst á frönsku því ég er komin með ofnæmi fyrir þýðingum.
Síðustu þrjá virku daga hef ég sem sagt setið í litlu heitu herbergi með skjá og takka og horft á viðtöl við fólk sem ég vissi að var til og fólk sem ég vissi ekki að var til. Jón Ásgeir, Sigmundur Ernir og fleiri hafa bunað út úr sér misgáfulegum útskýringum á sínum málum og sínum stöðvum. Lögfræðingar hafa hótað, saksóknarar tuldrað og mitt í öllu þessu fékk ég loksins að sjá Strákana klæða sig í dekk og rúlla niður Arnarhólinn. Sem var hressandi og þægilegt innskot í allt kjaftæðið.
Þó ég hafi þýtt og þýtt í þrjá daga er ekki búið að þýða nærri allt efnið. Nú ætlar leikstjórinn ásamt klippara að vinsa úr og byrja að hráklippa og svo held ég áfram að þýða á laugardaginn og fæ ekki krónu í viðbót fyrir það. Svona er bransinn.

Ég uppgötvaði Baugsmálið. Ég held að þetta sé stríð milli valdamikilla manna og svo illa vill til að báðir eiga fjölmiðla sem þeir nota óspart til að tala saman. Ég held að fólkið sem kaupir þessa fjölmiðla lesi ekki eða ákaflega illa allt sem bullað er í Baugsmálinu. Ég tek það fram að ég veit þetta ekki, ég held þetta bara. Þessir menn ættu að sjá sóma sinn í að hætta að misnota fjölmiðlana sína, gera landsmönnum þann greiða að taka upp gamlar og góðar leiðir eins og fundi eða bréfaskriftir sín á milli.

Varðandi skemmtiefni sjónvarpsins... hm... Strákarnir virðast ágætlega fyndnir en ekki var flugið þó hátt í þessum eina þætti sem ég sá. Ég á alveg eftir að sjá Sylvíu Nótt, þeir frönsku eru afar hrifnir af henni sem og fjölskyldan sem talað var við um sjónvarp almennt. Hlakka mikið til að sjá hana. Var að leita að henni í netsjónvarpinu en fann hana ekki. Þið megið segja mér hvar hún er núna. Kallacafé. Æ. Segi ekkert meir. Ekki neitt hægt að segja. Fékk ekki að sjá Stelpurnar sem ég vona að sé verið að taka upp fyrir mig því vinur minn nýbúinn Bruno galdrakarl er eitthvað að leika í honum þessa dagana held ég.
Ég hef ekki verið dugleg að fylgjast með íslensku sjónvarpi í gegnum árin enda með mjög góða afsökun, ég bý ekki á Íslandi. Í heildina virðist mér af þessu stutta glápi sjónvarpið vera á sömu erfiðu braut og aðrir fjölmiðlar landsins, það má aldrei verða of gáfulegur. Það er magnað að sjá í viðtölunum að um leið og fólkið snertir eitthvað djúpt, finnur einhvers konar greiningu, analýsu, skilur eitthvað, upp rennur ljós, að þá byrjar það alltaf að gretta sig. Þau gera þetta öll. Nema náttúrulega æfðu viðtalskallarnir sem voru hvort eð er bara að fara með utanbókarlærðar þulur.
Ég hlakka svo mikið til að koma heim um jólin. Mér finnst svo margt hallærislegt og þreytandi á Íslandi (úpps braut ég bloggreglu, aldrei tala illa um Ísland) en það sem bjargar þessu landi er hvað fólk er skemmtilegt og djassað og hreinskiptið og gott. Og það skiptir vissulega meira máli en að kunna greiningu og rökhugsun. Er það ekki annars?

Lifið í friði.

8.11.05

skuld

Ég suklda ykukr bolgg en ekki i kovld.

Liifð í firði.

6.11.05

prufa

íslenskt sjónvarp í frönsku

3.11.05

bla bla bla - jólakaka

Þetta sögðum við krakkarnir í blokkinni þegar við vildum dissa einhvern. Arfalélegt rím.
Bryn vinkona skildi eftir þrjú Hús og Hýbýli blöð hjá mér og í þeim þyrfti ég að telja orðin sem byrja á arfa. Einhverri blaðakonunni þykir þetta greinilega smart, lekkert, nýtilegt og vel hannað forskeyti. Svo er greinilegt að í blaðamannaskólanum læra blaðamenn að setja tvö lýsingarorð í myndatexta. Þannig er stofan björt og falleg, hlý og björt eða nýtískuleg og rúmgóð. Í einum textanum bregst bogalistin þó þegar matreiðslubók verður óvenjuleg og sérstök. Afsakið, hver er munurinn? Vanda sig!
Í hvert skipti sem ég fletti blöðunum er engum blöðum um það að fletta að ég les þessi blöð mjög illa. Ég sé alltaf eitthvað nýtt (þó ekkert endilega skemmtilegt og smart) sem ég hafði ekki tekið eftir í síðustu flettingu. Ég geri mér ekki grein fyrir því hvort eins fer fyrir blessuðum laugardagsmogganum sem ég fæ sendan, þykir það þó líklegt þar sem ég lendi oftast í að hraðfletta honum á leið í endurvinnslutunnuna. Tékka svona til öryggis hvort nokkuð sé mynd af einhverjum sem ég þekki eða eitthvað svoleiðis. Mjög léleg nýting á því blaði. En Lesbókina geymi ég og les yfirleitt þó stundum líði langur tími frá útgáfudegi að lestri.
Fletti samt rólega síðasta laugardagsmogga í gærkvöld og rak þar augun í rokna töffaramynd af Helga Björns og textinn undir segir að hann sé laus úr töffaraviðjunum eða eitthvað álíka. Ha? Jú, svo sá ég hann syngja í Kastljósþætti í morgun og ég er ekki frá því að textinn sé sannur. Sakna kyntröllsins sem hann var.
Mér finnst ekkert erfitt að eldast sjálfri, enda er ég með afbrigðum ungleg eins og kom fram hér fyrir skömmu. Hins vegar finnst mér oft erfitt að sjá æskugoðin verða að körlum og kerlingum. Verð hrygg. Hrygg og súr svo við höldum okkur við blaðamannastílinn.
Á mánudag hringdi blaðakona í mig til að spyrja mig út í "óeirðirnar í París". Ég er mjög upp með mér að hringt skuli hafa verið í mig, kominn tími til að einhver myndi eftir mér hérna úti. Hins vegar varð ég að staðfesta það sem blaðakonan hafði heyrt annars staðar frá: Hér er ekkert um að vera. Læti í nokkrum unglingum í úthverfi sem er jafnlangt frá París og Keflavík er frá Reykjavík eru blásin upp í fréttum vegna þess að ekkert annað er að gerast og auðvitað (sem ég gleymdi að benda blaðakonunni á) vegna þess að það hentar Sarkozy mjög vel að geta notað orð eins og racaille (lýður) um úthverfaaumingjana sem hann vill hrekja á brott eða klófesta og loka inni.
Fer ótrúlega í taugarnar á mér að sjá fréttirnar á íslensku vefjunum um þetta mál. Enn og aftur éta íslenskir blaðamenn tilreiddar fréttir án þess að leita staðfestingar eða nýs sjónarhorns.

Í dag vaknaði ég um áttaleytið og gerði huglægan lista um allt sem ég ætlaði að gera í dag. Mála hurðina, fara í sturtu og út í Fnac með filmuna og koma við í byggingavöruverslun og koma heim fyrir hádegi og halda áfram að vinna og taka til. Nú er klukkan 12.03. Ég er búin að mála hurðina síðustu umferðina. Punktur. Ekki farin út, ekki búin að gera neitt af hinu. Og nenni því ómögulega. Fimmtudagar eru, ásamt þriðjudögum (ekki þó þessa vikuna því þri var frídagur) lúxusdagar því þá eru bæði börnin í geymslu. Þá mamman að nota tækifærið og gera alla þessa hluti sem þarf að gera og aldrei er hægt að gera með börnin hangandi í pilsfaldinum. En ég er svoooo þreytt. Mig langar svoooo að liggja hér uppi í sófa og lesa bókina sem ég er að lesa eða hekla smá sem ég hef ekki gert svo lengi og jafnvel glápa á sjónvarp sem ég hef ekki gert lengi lengi.
Var búin að skrifa langan kafla um ástæður fyrir því að mig langar að laga og betrumbæta íbúðina en það var svo leiðinlegt að ég strokaði það út og heimta þakkir fyrir.

Lifið í friði.

2.11.05

Ég kann


Kann alveg að klæða mig sjálfur!
Originally uploaded by parisardaman.

Alveg eins og stelpan systir hans finnst Kára frábært að fá ný föt. Og hann kann alveg að klæða sig sjálfur.

jæja

Þá hafið þið örlítið greinilegri myndir af nokkrum hillanna. Allar athugasemdir eru vel þegnar. Líka neikvæðar. Sem betur fer hafa ekki allir sama smekk. Til dæmis hikar móðir mín epalstílskonan ekki við að segja mér hvað henni finnst og kann ég henni þakkir fyrir.
Gaman væri líka að þið slægjuð á verð. Hvað finnst ykkur réttlátt að borga fyrir svona dót? Eru til sambærilegar vörur í Reykjavík. Ég veit af búðinni við Virku, en þar er á ferðinni nýsmíði svo það er ekki alveg það sama. Eða hvað?
Well, veit ekki hvað ég er að dæla þessu yfir ykkur, get ekki sagt að athugasemdum hafi ringt yfir mig í gær... frekar erfitt fyrir egóið en það mátti nú svo sem alveg við smá hnjaski.

Gvuuuð hvað ég hló annars yfir því að vera skömmuð yfir því að láta mig dreyma um að hafa fagurlega skapaða karlmenn í vinnu. Hey, má maður ekki bulla á eigin bloggi? Ég svaraði því til (og það er reyndar hreina satt) að ég hef alltaf látið mig dreyma um að vera gömul kerling með unga menn í vinnu sem ég get áreitt kynferðislega. Ég hélt að ég yrði bareigandi, en kannski verð ég smiðjueigandi í staðinn. Með aflitað hár og mikið af skartgripum og koníak í skúffunni. Tíminn mun leiða það í ljós.

Lifið í friði.

Sólrún á Allraheilagramessu


Lína Sólrún langsokkur
Originally uploaded by parisardaman.

Tók ekki annað í mál en að vera sænsk galdrastelpa.

Skápurinn


Skápurinn
Originally uploaded by parisardaman.

Þessi er ekki tilbúinn en er orðinn einlitur grængrár. Veit ekki hvernig hann endar. Við tókum illa farna lista af hliðunum uppi og lista framan á honum niðri. Ein hilla inni í honum og hann verður líklega fóðraður með rósóttu hilluplasti... eða ekki...

Önnur hvít


Önnur hvít
Originally uploaded by parisardaman.

Hvítt


Hvítt
Originally uploaded by parisardaman.

Eldhús eða bað...


Eldhús eða bað...
Originally uploaded by parisardaman.

Stelpuhilla


Stelpuhilla
Originally uploaded by parisardaman.

Fyndin þóttu mér viðbrögð mannsins míns sem stóð andaktugur yfir hjörtunum. Trúði því varla að við hefðum gert þetta sjálfar! Hann þekkir ekki pochoir-aðferðina...