22.8.05

ulla bjakk

Ég hef svo sem alltaf vitað að Íslendingar eru sérlega hræddir við múslimi, af einhverjum undarlegum orsökum sem ég tengi helst við að þeir hlusta á bullið sem Bush og félagar hans hafa að segja um þennan trúarhóp og gleyma því að það sem kemur frá þeim er flatt út og gefur skakka mynd af raunveruleikanum. Allir sáu það til dæmis þegar Oprah tók sig til og málaði mynd af Íslandi í þættinum sínum. En gleyma því um leið að þar með geti þeir sagt sér að allt sem þessir bandarísku þættir sýna okkur er bagað af sama vandamáli og að allt sem sagt er um araba og múslimi er bjagað viljandi í bandarísku sjónvarpi. Því að í bandarísku sjónvarpi er bara til hvítt og svart og af peningalegum orsökum er arabi og múslimi svart fyrirbrigði.
Ég hef svo sem alltaf vitað þetta en mér blöskraði samt þegar mér var sagt í gær að samkvæmt einhverri könnun sem ég reyndar man ekki hver gerði fyrir hvern, vildu 25 prósent Íslendinga helst ekki búa við hliðina á múslima! Ha? Ég skil þetta ekki.
Ég skil það örlítið betur að sumir hiki við tilhugsunina um að búa við hliðina á geðfötluðum einstaklingum, sem 22 prósent (færri en hinir) vilja víst ekki. Það getur verið vandasamt að umgangast manneskjur sem eru óútreiknanlegar, og óþægilegt t.d. að heyra í manni sem býr einn öskra og æpa á djöfulinn heilu kvöldin eins og ein vinkona mín lendir stundum í. Ég skil að vissu leyti fordóma, byggða á hræðslu, gagnvart geðsjúkum. Það er í alvörunni oft mjög skrýtið fólk, geðskjúklingarnir. Og oft verður maður óöruggur þegar maður veit ekki alveg hvernig maður á að koma fram við fólk, þegar maður er hræddur um að þau geti verið ofbeldishneigð. Sem ég persónulega óttast mun meira af fólki sem ég veit að notar eiturlyf en af geðfötluðu fólki. Og geðfatlað fólk getur veitt manni svo skemmtilega sýn á heiminn með "bullinu" sínu og undarlegum athöfnum.
En múslimir??? Hvað heldur fólk eiginlega að múslimir séu að gera á daginn? Og kvöldin? Allir að búa til sprengjur og berja konurnar sínar? Eða er vond lykt af þeim? Eru þeir kannski enn að hita upp húsin sín með kindum?

Mikið er ég fegin að búa ekki nálægt neinum Íslendingum. Helvítis hávaði í þeim, síglápandi á sjónvarpið og tillitslausir gagnvart náunganum. Hvernig haldið þið að gatan mín væri ef litlu bílskrjóðunum sem komast allir haganlega fyrir væri skipt út fyrir risajeppa? Rosalega er ég heppin.

Lifið í friði.