10.5.05

ditten og datten

Ég var loksins loksins að setja tengil á myndasíðu Uppglennings. Hann hefur verið að taka myndir af borginni minni í vetur og mæli ég með því að þið heimsækið síðuna hans. Dálítið naskur pilturinn.

Svo þarf ég áfram að pirra mig á listaumræðu hér á vefnum: Ég SKIL ekki hvers vegna bókmenntaáhugafólk vill hafa bókmenntaþætti í sjónvarpinu. Hvað í fjandanum hefur umræða um bók að gera í sjónvarpið? Þar eiga sjónlistirnar heima og bókmenntirnar blómstra, og fá að blómstra, í útvarpinu. Er það ekki annars? Eða er alltaf verið að fjalla um myndlist í útvarpinu líka? Það er reyndar alveg magnað (og hluti af því sem Einar uppglenningur (ég er ekki með hann á heilanum, þetta er alger tilviljun) benti á í kommentum við grein Gvendabrunns um listir að Íslendingar kunna ekki að horfa á list) að þeim finnst allt í lagi að megnið af íslensku sjónvarpsefni myndi sóma sér jafn vel í úbartinu. Engin krafa er gerð um sjónrænt gildi sjónvarpsefnis. Þarna sitja bara einhverjir karlar í jakkafötum sem fara þeim illa og ræða um pólitík eða annað skemmtilegt og allir eru bara sáttir við að svona fari íslensk dagskrárgerð að mestu leyti fram. Húmbúkk. Oh, hvað það er gott að eiga bloggsíðu til að pirra sig á þegar maður er svona aleinn heima með börnin.

Síðast en ekki sist eigið þið að lesa grein eftir Egil Helgason. Hann ber saman skipulag borgarinnar minnar sem er svo frábær og Reykjavíkur sem er svo ömurleg. Hana getið þið til dæmis fundið í gegnum uppglenningstengilinn minn í blogglistanum. Já, ókei, ég er með uppglenning á heilanum í dag. Eða er ofsótt af honum. Annað hvort. Eða hvorugt. Eða ykkur kemur það ekki við.

En það var meira: Ég fór ekki á Mugison í gær. Komst ekki því amman vildi ekki passa. Var að passa í tvo daga meðan ég fór og fannst nóg komið í bili. Kallinn var að vinna. Hef ekkert heyrt um tónleikana því enginn talar aldrei við mig. Halló! Er einhver þarna?

Og meira: Ég ætla að fara á opnun á sýningu Nínu Gauta í kvöld. Með börnin þar sem kallinn er að vinna og ég er í fýlu út í ömmuna og ætla ekki að spyrja aftur, fyrr en eftir nokkra daga.

Og eitt enn og nú er það það síðasta: Einu sinni fór ég í bíó á Íslandi og Egill Helgason var þar með konunni sinni. Magnað?

Lifið í friði.