27.2.05

ó, veður?

Fyrst yfirlýsing: Ég er algerlega sammála ryksjúgandi, syngjandi og prjónandi fótboltamanninum varðandi trúmál og börn. Sjá tengil í titli síðasta pistils.
Hér í Frakklandi hefur verið tekin alger trúleysisstefna hjá ríkinu til að koma í veg fyrir árekstra milli trúarhópa. Aðskilnaður ríkis og kirkju er í sjálfu sér alveg ágætur hlutur en það á samt ekki að leiða til þess að algerlega sé bannað að tala um trúmál á ákveðnum vettvangi. Mér leiðast þessir öfgar og finnst þeir oft draga athyglina frá mikilvægari málum. Til dæmis hefur ofurumræða um slæðubannið í menntaskólum dregið athyglina frá öðrum og stærri vandamálum stúlkna hér.

Hér hefur verið ískalt og snjóað við og við undanfarna daga. Þannig eru sums staðar örsmáir vísar að sköflum á gangstéttum í fáförnum götum hverfisins míns. Dóttir mín skoppar á milli þeirra, þetta eru kannski fimm sentimetra háar, 40 sentimetra langar og 20 sentimetra breiðar eyjur. Varla hægt að gera almennilegan snjóbolta úr þessu án þess að eyðileggja gersamlega "skaflinn". En það sindrar á götur og bíla á morgnana þegar sólin skín og ísköld golan bítur kinnarnar.
Þetta fárviðri hefur orðið til þess að búið er að loka öllum rólóum og görðum. Við vöfrum um göturnar með börnin okkar í fínu snjógöllunum og kuldaskónum sem keyptir voru á útsölu í Danmörku um áramótin en megum hvergi leika okkur. Frönsk börn sjást stundum á ferli, á leið út í búð eða í heimsókn til vina (það er vetrarfrí núna). Þau eru vitanlega ekki eins vel útbúin og hálfíslensku börnin mín, en það var sárt að sjá börnin hágrátandi við lögregluteipið sem hafði verið dregið utan um fína kastalann í garðinum í 10. hverfi sem við Agnes ætluðum í á föstudaginn. Það var hægt að komast inn í garðinn, en leiktækin voru sem sagt lokuð aðgangi, "fyrir öryggi barnanna". Í raun er ekki ætlast til að börnin séu úti. Þ.e.a.s. þessi vesalings börn sem fá ekki að fara í skíðafrí eins og megnið af fólki gerir hlýðið og gott í þessu vetrarfríi skólanna.

Alveg eins og mér finnst að allir Íslendingar eigi að búa a.m.k. eitt ár í útlöndum, finnst mér nú að allir Frakkar ættu að fara og búa eitt ár á Íslandi. Finna almennilega hvað VETUR er. Átta sig á því að það er ekki lengur ómögulegt að vera úti í kulda. Nútímatæknin hefur fært okkur gore-tex og flís og gamla góða ullin gerir einnig kraftaverk gegn kuldabola sem getur rétt svo nartað í kinnar á barni sem vel er klætt. Og hvað er fallegra en eldrauðar kinnar á hamingjusömu barni sem hoppar í snjó og rennir sér á svelli?

Ekki dettur borgaryfirvöldum í hug að fjárfesta í íslenskum kraftgöllum á garðverðina og láta þá skafa þennan litla snjó af tækjunum og bera sand á hálkublettina til að börnin geti notið útiveru í sól og stillufrosti. Nú væri tækifæri fyrir 66N að gera markaðsárás á frönsk yfirvöld. Eiga ekki allir að vera í útrás?

Lifið í friði.

25.2.05

lesið þetta

Þetta er áhugavert. Þyrfti að skrifa meira, en ég hef ekki tíma, hér er horft illu auga á mig fyrir að vera að þessu akkúrat núna.

Lifið í friði.

24.2.05

reykingar og bönn

Ég er eiginlega í tilvistarkreppu varðandi þetta frumvarp framsóknarflokksins um að banna reykingar á veitingahúsum.
Ég reyki ekki lengur sjálf og er mjög ánægð með það. Ég er alltaf mjög fegin þegar ég kem á reyklaus veitingahús. Ég vona innilega að reykingar eigi eftir að minnka mikið og kannski jafnvel verða að engu einn góðan veðurdag.
En ég á marga vini sem reykja og ég þoli alveg að sitja í reyk, ólíkt sumum sem eiga virkilega erfitt með það. Og mér finnst svona alhliða bönn alltaf dálítið óþægileg.
Grein Hnakkusar um málið er mjög góð. Hann minnist á "afvegaleidda frelsispostula". Ég hef stundum haft áhyggjur af því að ógeð mitt á lögum og reglum og boðum og bönnum geti rakið ættir sínar til frelsishyggjunnar sem hægrisinnaðir boða. Þetta hefur mér þótt flókið og vont að hugsa um og hef því ekki gert mikið af því. Bægt því frá mér.
Væri ekki hægt að hvetja veitingahúsin til að verða reyklaus, án þess þó að banna stöðum að leyfa reykingar? Væri til dæmis ekki hægt að hafa sömu reglur um reykingaleyfi eins og um áfengisleyfi. Sækja þyrfti sérstaklega um slíkt leyfi, vera með mjög öfluga loftræstingu og greiða einhvers konar skatt vegna mengunarinnar sem af reykingum og loftræstikerfi hlýst. Æ, ég veit ekki.
Það er í raun og veru út í hött hvað fáir staðir eru reyklausir á Íslandi. Mín reynsla af Íslendingum er sú að þeir eru reyklausir, með örfáum undantekningum. Samkvæmt skýrslu Sivjar reykja um 8 prósent gestanna, minnir mig. Hvaða leppalúðagangur er þetta í veitingahúsaeigendum?
Ég man að veitingahús Sigga Hall á Hótel Óðinsvéum var reyklaus staður og samt yfirfullur af gestum þegar ég borðaði þar, fyrir nokkrum árum. Hvers vegna fylgja hinir ekki í kjölfarið? Þarf virkilega stóra RÍKIÐ að koma og BANNA til að þróun eigi sér stað? Er fólk ekki fært um að sjá að hlutirnir eru að breytast, fólk er farið að lifa heilbrigðara lífi, orðið meðvitaðra um krabbameinsvaldandi hluti og reynir að draga úr þeim efnum í kringum sig.
Það er reyndar ansi margt í okkar nútímalegu lifnaðarháttum sem mengar umhverfi okkar og gerir það verra. Ódýr húsgögn úr spónaplötum eru mjög mengandi, mörg efni sem við notum til þrifa, sjampó og aðrar hreinlætisvörur svo eitthvað sé nefnt. Þá vil ég enn og aftur benda á ofnotkun of stórra bíla í borginni. Það er krabbameinsvaldandi og umhverfinu hættulegt en einhverra hluta vegna vilja Íslendingar ekki hugsa mikið út í það. Ef okkur tekst að útrýma sígó, skyldi þá vera hægt að virkja Þorgrím Þráinsson í að útrýma stórum spúandi einkabílum?
Ef allir taka sér tak og reyna að menga eins lítið og hægt er, hafa virkilega fyrir því að breyta hlutum í lífi sínu þannig að minna fari af efnum út í náttúruna munum við kannski ná að kaupa okkur örlítið lengri tíma á jörðinni. Af hverju getum við ekki bara gert þetta sjálf? Af hverju þurfa stjórnmálamenn eilíft að hafa vitið fyrir okkur? Af hverju hættir fólk ekki að sækja reykstaðina og smátt og smátt munu þeir verða reyklausir staðir?

Lifið í friði.

gaman

Það er sól og allt hvítt ennþá. Mér finnst þetta alveg frábært. Ég ætlast ekki til að fólkið sem hefur vaðið snjó í allan vetur og þreifað sig í gegnum þoku þessa viku skilji mig. En ég skil mig. Það er nóg.
Í gær fór ég í tölvubúð og stóðst prófraunina. Ég beið lengi í Apple-horninu meðan sölumaðurinn var í einhverjum kappakstursleik á risastórum fallegum flötum hvítum skjá. Hvílík misnotkun á vesalings tölvunni. Hver fann upp tölvuleiki? Ætti að hengja þann mann í hæsta gálga. Ekkert eins heimskulegt á svipinn og fullorðinn maður að handfjatla stýripinna. En ég beið þolinmóð þar til leikurinn var búinn. Þá sneri hann sér að mér: Mademoiselle? Ég fyrirgaf honum að vera kjáni, brosti mínu fegursta og rakti honum raunir mínar. Mig langaði svo í Mac Os X. Hann fann fyrir mig 512 megabita minniskort á 105 evrur sem ég keypti. Svo fæ ég lánaða uppsetningardiska hjá Jean Marc og gamli jálkurinn mun breytast í þykjustunni glænýja tölvu. Þá ætti ég að geta sett upp MSN, sýnt myndir úr nýju fínu myndavélinni og alls konar fleira skemmtilegt. Svo þarf maður náttúrulega að fá vefmyndavél, air-port, ljósmyndaprentara og ýmislegt fleira sá ég þarna sem mig bráðvantar. Þessi ferð gekk mun betur en síðast, þegar ég fylltist einhverri vanmáttarkennd og gekk út úr búðinni með tárin í augunum.
Ég var m.a.s. svo örugg með mig að ég skipti minniskortinu sjálf út í gærkvöldi. Alveg ein og á eigin spýtur. Kannski ég geti sjálf uppfært tölvuna? Ég held það. Ég held það nú!
Maður á alltaf að gera það sem mann langar til. Maður á aldrei að hugsa sem svo að maður sé kannski ekki nógu góður. Kannski verður maður hugrakkari við að ala upp börn? Fyrst maður getur það, getur maður allt annað? Ég veit það ekki, en ég er full af einhverjum framkvæmdakrafti í dag. Full af orku. Nú er bara að nota hana á réttan hátt.

Smá ferðamannaupplýsingar: Besta tölvubúðin í París heitir Surcouf, sem er nafnið á frægum sjóræningja frá 17. öld. Hún er nú komin á tvo staði í París:

Surcouf, 139, avenue Daumesnil, 75012 Paris.
Opið má-lau kl. 10-19.

Surcouf, 21, boulevard Haussmann, 75009 Paris
Opið má-lau kl. 10-20, fim til kl. 22.

Þarna fæst allt milli himins og jarðar sem tengist tölvum, myndavélum og farsímum. Oft góð tilboð í gangi. Var upphaflega byggt upp sem markaður, básar sem minni sölumenn leigðu, en mér sýnist það hafa breyst, þó ekki viss.
Þeir eru með tölvutöskur með Eiffel-turninum á. Myndi kaupa mér eina slíka ef ég ætti fartölvu. Netsíðan er www.surcouf.com

Annað var það ekki í bili. Lifið í friði.

23.2.05

Hvít París

Hér kyngir niður snjó. Þetta er ótrúlegt. Þegar maður leit út í morgun var allt hvítt og snjóaði og nú, tveimur tímum seinna snjóar enn jafnmikið.
Það er dásamlega gaman að sjá útlendingana koma út úr húsunum dúðaða, stíga ofurvarlega niður og renna aðeins til. Sjá jakkafatakallana róta lengi í skottinu og finna loksins sköfuna sem var keypt í skíðafríi í Ölpunum fyrir nokkrum árum síðan og skafa svo vandlega allar rúður. Mér dettur ekki í hug að hreyfa bílinn í dag. Parísarbúar kunna ekki að aka í snjó. Það má bóka það að árekstrar verða á öðru hverju horni með tilheyrandi öskrum og jafnvel handalögmálum.
Ég ætla samt í bæinn, þarf að þræða tölvubúðir því nú er kominn tími til að stækka þessa tölvu eitthvað svo ég geti notað nýju fínu stafrænu myndavélina sem ég freistaðist til að kaupa í fríhöfninni. Kannski ég taki myndavélina með og taki snjómyndir fyrir fyrrverandi Parísarbúa?
Það er gaman í París þegar náttúran sýnir sig svona harkalega. Lífið gengur ekki sinn vanagang, það myndast einhvers konar hópstemning eins og þegar fólk er veðurteppt í skíðaskála á Íslandi. Allir fara að tala saman um ósköpin. Ég skal hengja mig upp á að nú verða rifjaðar upp sögur af skíðafólki á Trocadéro snjóveturinn mikla 96 á öllum kaffihúsum borgarinnar.

En svo kannski hættir bara að snjóa innan skamms og allt verður horfið á hádegi.

Lifið í friði.

22.2.05

mardi

Mardi er þriðjudagur. Á frönsku.
Um leið og ég þakka uppörvandi orðabelgi og hugmyndir að stórgróða, bið ég lesendur mína afsökunar á leiðindabloggi í gær. Mér líður miklu betur núna, takk fyrir mig.

Tvennt hnaut ég um í íslenskum fjölmiðlum um daginn á Íslandi og hef alltaf gleymt að vekja athygli á:

1. Fyrst var verið að tala um mótmæli í París, sem höfðu átt sér stað á fimmtudeginum áður en ég fór. Hér eru alltaf gefnar upp tvær tölur um fjölda þáttakenda, þarna var sagt að lögreglan hefði talið 3.000, þrjú þúsund manns en að skipuleggjendur hefðu talið 15.000, fimmtán þúsund. Þetta er ekkert óeðlilegt og maður er orðinn vanur að leggja saman og deila í tvennt og fær þá nokkuð góða mynd af stærð mótmælafundarins, ef maður hefur þá nokkra möguleika á að ímynda sér hvernig 9.000 manna hópur lítur út. (Sem ég t.d. hef ekki).
Á Íslandi var minnst eitthvað á þessi mótmæli í útvarpsfréttum og þar var sagt að 300, þrjú hundruð manns hefðu mótmælt í París!
300 manna mótmæli í París er ekki neitt, en það sem truflar mig mest er að þarna datt eitt núll af LÖGREGLUTÖLUNNI. Þ.e.a.s. fréttaskeytið hefur væntanlega gefið eingöngu þá tölu, ekki tölu skipuleggjenda. Hvaða fréttastofa var það? Les RUV kannski bara óhikað obinber skeyti frá skrifstofu yfirvalda? Án þess að athuga fjölmiðla viðkomandi lands og önnur sjónarmið? Mér er alveg sama um núllið, enda held ég að við Íslendingar séum almennt ekki fær um að ímynda okkur muninn á 300 og 3000 manns. Bæði er stórt í okkar hugum og okkur er slétt sama um þáttöku í mótmælagöngu í París líka. Mér finnst samt merkilegt að hugsa um það hvernig erlendar fréttir berast til Íslands og hvernig þær eru reiddar fram.

2. Á léttmetissíðum Morgunblaðsins, þar sem kvikmyndahúsin auglýsa myndirnar með titli og sýningartíma, án þess að geta leikstjóra og sjaldan leikara (ímyndið ykkur að Listasafnið auglýsti: Komið og sjáið frábæru málverkin Esjan, Vornótt í Reykjavík, Bátur við bryggju o. fl.), var um daginn viðtal við kvikmyndagerðarmann sem hefur tekist að ná samningum við Guillaume Depardieu um að leika í mynd fyrir sig og mun faðirinn Gérard einnig vera að hugsa sig um. Þetta finnst mér frábærar fréttir, en það sem furðaði mig var að talað er um að Guillaume sé að ná sér eftir slys sem hann varð fyrir. Málið er að Guillaume mun aldrei verða samur eftir þetta hræðilega slys.
Guillaume var, fyrir nokkrum árum, ungur flottur sonur rétts manns á hraðri leið upp á stjörnuhimininn. Eins og allir vita fylgir frægðinni alltaf einhvers konar örvænting og vandamál sem við litla fólkið getum ornað okkur við að þurfa ekki að burðast með þegar við lesum um hrakfarir fræga og ríka fólksins á fyrrnefndum síðum Moggans eða í öðrum sérhæfðari tímaritum eins og Séð og heyrt. Guillaume fór fullur og dópaður út að keyra á mótorhjólinu sínu, datt og slasaði sig á hné. Í aðgerðinni kom sýking í sárið og endaði þetta með þeim ósköpum að læknarnir neyddust til að taka af honum fótinn við hné.
það hefur alltaf vafist fyrir mér hvort ég á að tala um vin minn hommann sem hommann í hvert skipti sem ég segi frá honum. Eða hvort maður þurfi alltaf að taka fram að manneskjan var svört þegar maður segir frá samskiptum sínum við svarta manneskju. Ég hef verið að æfa mig í því að gera það ekki, að tala bara um fólkið sem fólk almennt nema það skipti virkilega máli í sögunni.
Samt fannst mér þessi saga sem ekki var sögð í fréttinni um að Guillaume hefði misst fótinn hreinlega öskra á að vera með. Maðurinn er leikari, notar líkamann til tjáningar, og nú er hann gerbreyttur maður. Einfættur. Auðvitað er hann kominn með flottustu tegund af gervifæti og kannski á hann að leika tvífættann mann í myndinni íslensku og allt gott um það að segja. En það var bara svo greinilegt að blaðamaðurinn hafði ekki hugmynd um þetta atriði og mér finnst það reyndar dálítið smart hjá íslenska kvikmyndagerðarmanninum að gefa blaðamanninum þetta ekki, fyrst blaðamaðurinn spurði ekki nánar út í slysið sem kvikmyndagerðarmaðurinn nefndi.
Þetta er dálítið flókið allt saman. Á maður núna alltaf að tala um Guillaume einfætta eða á maður að sleppa því að nefna það að hann missti fótinn?
Ætlaði Guillaume kannski að ná frægð og frama á Íslandi í trausti þess að enginn vissi þar að hann er einfættur? Hér í Frakklandi vakti þetta vitanlega gífurlega athygli og ekki síður uppgjör feðganna sem fóru fram í hinum ýmsu viðtalsþáttum sjónvarpsstöðvanna. Fyrst fúkyrði og afneitun hvor á öðrum og síðar sættirnar.
Er ég nú búin að skemma þetta allt saman fyrir honum? Vonandi ekki.

Lifið í friði.

21.2.05

hví?

Af hverju hringir ekki einhver í mig og tilkynnir mér lát fjarskylds forríks ættingja sem hafi arfleitt mig að stóru setri við sjó einhvers staðar þar sem alltaf er hlýtt og gott að vera?
Af hverju á ég ekki flugvél?
Af hverju á ég ekki kokk og vinnuhjú?
Af hverju má maður ekki drekka kampavín daginn út og inn þegar maður er húsmóðir og alein heima með börnin?
Af hverju? Akkurru? Murru? Turru? Surru? Lurru?

Lifið.

lundi II

Langt síðan ég hef upplifað eins mánudagslegan mánudag. Reyndar snjóar ekki, heldur er þetta fína gluggaveður, sól og allt. En Kári hóstar ljótum hósta og svaf lítið, það er einhver mjög skrýtin lykt í eldhúsinu og ég finn ekki upptökin, mér líður eins og ég sé í sykurfallli en súkkulaðiát breytti engu, líður verr ef eitthvað er, mig langar bara að liggja uppi í rúmi með bók þó að mest langi mig til að vera að vinna og fá laun, ég er að springa úr alls konar hugmyndum og hef svo aldrei tækifæri til að vinna almennilega úr neinu.
Mánudagur, monday, lundi, mandag...
mánudagur til mæðu, til slæðu, til hræðu, bræðu, fræðu, glæðu...

Lifið í friði.

lundi

Lundi þýðir mánudagur á frönsku.
Skrýtnir þessir Frakkar.
Veðurspá: 3ja stiga hiti og snjókoma.
Kári er með grænt hor.
Af hverju er ekki on/off takki á börnum og hægt að slökkva á þeim við og við?
Af hverju?
AAAAARRRRGGGGHHHHHH!
Best að fara og fá sér hafragraut.
Elda hann í plasti í örbylgjunni en ekki í kastarholu á gashellunni.

Lifið í friði.

20.2.05

nýjar myndir

Eyddi öllum morgninum í að setja inn myndir af diskum. Þeir sem hafa áhuga geta smellt á titilinn hér að ofan. Öðrum er algerlega fyrirgefið að nenna ekki að skoða myndir af annarra manna börnum.

Annars var ég að ljúka við að lesa Villibirtu eftir Lizu Marklund, sem ég keypti mér í fríhöfninni. Undarleg þýðing. Finnst hún mun verri en Paradís þó að þýðandinn sú sá sama. Hún getur ekki búið á Íslandi, því hún veit ekki einu sinni hvað "Viltu vinna milljón?" heitir á íslensku. Kallar það Hver vill verða milljónamæringur. Bara smáatriði í sjálfu sér, en truflar samt lesturinn.
Einnig hnaut ég um orðið kastarhola. Hann setti karföflurnar í kastarholuna. Býst við að þetta sé íslenskun á orðinu casserole (svona er það skrifað á frönsku) en á mínu heimili eru kartöflurnar einfaldlega settar í pottinn.
Nokkrir aðrir hlutir þarna sem mætti athuga.
Þýðingar eru mjög erfitt verk og vandasamt og auðvelt að gera mistök. En ef vel er lesið yfir af öðrum og ritstjórinn vinnur sitt verk, ætti að vera hægt að komast hjá miklu klúðri. Er kannski ekki lesið yfir þýðingar? Eru ekki ritstjórar sem gagnrýna verkin áður en þau eru prentuð?
En Villibirta er samt hin fínasta afþreying og manni þykir verst að lesa ekki sænskuna. Ætli það sé ekki búið að kvikmynda þessar bækur?

Nú er sunnudagur og svo verður sunnudagur aftur eftir viku (þannig er það bara börnin mín) og mánudagurinn þar á eftir er síðasti dagurinn í febrúar. Sem þýðir að mars kemur á þriðjudaginn eftir viku og tvo daga. Tíminn líður kannski of hratt, en það er a.m.k. hægt að ylja sér við að þetta er allt mjög lógískt og hefðbundið. Nema náttúrulega þegar hlaupár kemur og ruglar mann algerlega. En það er ekki núna svo ég hef engar áhyggjur.

Lifið í friði.

18.2.05

botn fenginn í málið?

Þennan fyrripart var mér att út í að botna:

"Firna nærir fjarlægðin
föðurlandsástina vel."

Mér þótti verkið erfitt og sóttist það seint en hér kemur svarið:

Hégómi þótti heimsfrægðin
Heim rauk Sæm'á sel.

Ég viðurkenni það að heim og heim þarna tvisvar er ekki það sem best verður á kosið. En dóttir mín er að sturlast úr sambandsleysi mínu. Nú mega aðrir njóta sín, betri skáld en ég.

Lifið í friði. Lifi ljóðið.

17.2.05

Hvers vegna hér en ekki þar?

Við börn vestræns hluta jarðarinnar árið 2005 eigum því láni að fagna að geta flakkað nokkuð frjáls um vestrænan heim og getum m.a.s. líka heimsótt stóran hluta hrjárðra heimsálfa sem voru svo óheppnar að skríða undan ís eða hafi á röngum stað á kúlunni. Þá erum við kannski aðeins minna örugg með okkur, dálítið kvíðin og stressuð og bólusett en eigum þó oftast því láni að fagna að geta veitt okkur stjörnuhótel sem framreiða dýrindis hreinan mat og margir fara um borgir og sveitir fjarlægra landa í loftkældum rútum með skotheldum glerjum í útsýnisgluggunum.
Ég, Kristín, er ein af mörgum jarðbúum sem einhverra hluta vegna varð að fara og búa annars staðar en í landinu þar sem ég fæddist. Landið mitt er svo gott land. Þegar ég fór á vit æskudrauma gat ég sagt við fólkið sem gapti af undrun yfir því hvað ég kom langt að: Á Íslandi er enginn her fyrir utan varnarlið frá Ameríku sem við erum að reyna að losa okkur við. Á Íslandi eru lögreglumennirnir m.a.s. óvopnaðir. Á Íslandi skilur maður hurðina eftir ólæsta ef maður finnur ekki lykilinn sinn. Á Íslandi læsir maður aldrei bílnum sínum. Á Íslandi eru engin hóruhús og engir nektardansstaðir. Á Íslandi ríkir jafnrétti. Á Íslandi er loftið hreint og tært, besti fiskur í heimi kemur úr sjónum okkar hreina og enginn er atvinnulaus nema nokkrir geðsjúklingar sem geta ekki unnið og fá bætur því við erum rík og getum séð um okkar minni máttar. Á Íslandi býr enginn í kassa undir brú. Á Íslandi er ekki hægt að byggja lestarkerfi því jörðin er á stöðugri hreyfingu og stundum gjósa eldfjöllin okkar hingað og þangað um landið. Á Íslandi hafa allir það gott. Á Íslandi rennur heitt vatn ókeypis um húsin og sundlaugarnar eru eins og bestu laugar við dýrustu hótelin hérna og ódýrt í þær og öllum aðgengilegar.
Sumar þessara fullyrðinga voru líklega rangar strax þarna 1989 meðan ég fór þæg með þær eins og ég hafði lært að gera, hver sem það var nú sem kenndi mér þetta. Sumar voru hins vegar hárréttar þá, en eru það ekki lengur. Heimsvæðing og markaðsviðurstyggðin hefur komið krumlu sinni um háls okkar og heldur okkur í kverkataki framfara á öllum sviðum. Sumt var og er rétt.
Það var ekkert af því ég vildi forðast ofsóknir, volæði eða almenn leiðindi sem ég fór.
Þetta byrjaði allt þegar ég var rétt um fimm ára, að mig minnir. Þá sagði ég einhvern tímann við mömmu og pabba að ég ætlaði til Frakklands. Þau hlógu góðlátlega að mér og spurðu mig hvort ég vissi hvað Frakkland var.
Ég er ekki alveg viss um að þessi saga sé rétt munuð hjá mér, kannski bjó ég hana til í minningarnar alveg sjálf. Gleymi alltaf að spyrja foreldra mína um þetta.
Annað er öruggt, að þegar ég var 10 ára átti ég litla vasabók sem ég hafði tekið upp þegar við fjölskyldan horfðum á franska mynd í sjónvarpinu og skrifað í nokkur orð ásamt orðskýringum. Það var pabbi sem nýtti sér minningar úr frönskutímum í lærða skólanum og útskýrði m.a. fyrir mér muninn á poison og poisson sem eru næstum sama orðið en þýða alls ekki það sama, eitur og fiskur. Einhver fleiri orð hafði ég skráð þarna inn, vandað mig ógurlega, skrifað stóra prentstafi með blýanti. Þessa bók átti ég lengi en nú hef ég ekki fundið hana í nokkur ár. Er alltaf að kíkja eftir henni en veit ekki hvað varð um hana. Líklega týnst í einum af mínum 400 flutningum fullorðinsáranna.
Það er líka áreiðanlegt að ég leit mikið upp til frænku minnar sem fór og lærði í Nice í nokkur ár. Ég skrifaði henni reglulega og hún svaraði mér og ég var alltaf með kitl í maganum út af þessu, að hún skyldi búa í Frakklandi. Þetta var líka í kringum tíu ára aldur minn, að mig minnir. Kannski var ég orðin tólf?
Að minnsta kosti var ég alltaf sólgin í að læra frönskuna þó framan af gengi það ekki vel. Fyrst komst ég í námsflokkana tólf ára, hlunkaðist með strætó niður í miðbæjarskóla á kvöldin og var svo sótt eftir að hafa setið á skólabekk með nokkrum gömlum konum og einum karli sem náðu aldrei að fara af síðu eitt í bókinni (sem var ekki la rue est grise et triste bókin sem Þórdís minntist á um daginn heldur lítið kver sem ég henti síðar í einhverjum flutningaham). Þetta voru mikil vonbrigði fyrir mig að mæta þarna viku eftir viku og þurfa alltaf að rifja upp síðu eitt áður en lengra yrði haldið. Líklega eini tossabekkurinn sem ég lenti í um ævina.
Í níunda bekk máttum við svo velja frönsku, en þá kallaði skólastjórinn í mig og tilkynnti mér og Glúmi að við gætum farið í námsflokkana ef við vildum. Ekki yrði haldið út kennara fyrir okkur tvö. Minnug hrakfaranna úr námsflokkunum samþykkti ég að taka eitt ár í þýsku. Sem gagnaðist mér furðuvel á ferðalaginu núna um jólin. En sannfærði mig um að þýskan öskrar ekki á mig á sama hátt og franskan gerir. Eins og Bjarni Bjarnason útskýrir þegar hann reyndi að skrifa á ensku: Hann fékk ekki blóðbragð í munninn. Eða eins og einhver metrógæi í sjónvarpinu myndi segja: Þýskan var bara ekki að gera það fyrir mig.
Það var svo loksins í MR sem hlutirnir fóru að gerast. Fyrst með Rögnu sem var alveg frábær, nýkomin heim frá Frakklandi eftir 17 ár í París og smitaði okkur stelpurnar í 3.A. af sögum af rónum og öðrum skemmtilegheitum út í eitt. La rue est grise et triste. Mais, où est Pascal? Pas de Pascal. Ragna var líklega eini kennarinn sem hélt okkur ofurgellunum tiltölulega áhugasömum án þess að vera með heraga eins og Ólöf Ben og Jón Gúmm.
Næsta ár kenndi Héðinn mér og var hann líka frábær og síðustu tvö árin Sigga franska sem var líka stórfín. Auðvitað fannst mér frönskukennararnir bestir þar sem mér fannst frönskutímarnir skemmtilegastir. Ekki má gleyma að ég var í náttúrufræðideild I sem er leiðinleg og erfið deild og alltaf var gaman að sleppa úr bekknum og hitta hina útlagana úr stærðfræðibekkjunum til að vera í frönsku uppi í fundarsal.
Þó ég hafi verið ánægð með kennarana í frönskunni leið mér nú samt dálítið eins og ég væri lent í röngu landi þegar ég kom hér fyrst á flugvöllinn, alein og nítján ára að verða tvítug.
Það tók mig rúmt ár að byrja að geta tjáð mig nokkuð örugg á frönskunni. Fyrsta rifrildið sem ég sigraði í var í bankanum mínum eftir eitt og hálft ár. Áður hafði ég stundum reynt að standa fyrir máli mínu og gegn þungu og erfiðu kerfinu en endaði alltaf á því að hlaupa út grátandi af pirringi yfir að fá mig ekki skilda.
Ég vildi óska að ég gæti heyrt í mér tala frönskuna þá.
Stundum á ég tvö "heima". Frakkland og Ísland. Stundum líður mér eins og ég eigi hvergi heima, er með gestsaugað á Íslandi, brottflutta konan, "orðin svo frönsk" en er svo auðvitað eilífur útlendingur hér. Næ aldrei hreimnum almennilega, er feitlagin og þannig lagað séð sátt við það, ekki í eilífum dúkkulísuleik eins og svo margar franskar konur. Er öðruvísi þar og öðruvísi hér. Ég er rifin í tvennt. En ég valdi þetta og er alls ekki að kvarta. Langaði bara að athuga hvort einhverjar útskýringar væru á þessu. Fann enga. En ég VERÐ að finna vasabókina góðu. Vonandi henti ég henni ekki.

Lifið í friði.

15.2.05

vika á Íslandinu góða

Þá er maður kominn heim aftur, fyrirvaralaust, með kramið hjarta að venju, vegna allra þeirra sem maður saknar alltaf hérna úti, en nær svo ekki að hitta þó ekki væri nema í hálftíma meðan maður er staddur á skerinu.
Afsökunin er tvíþætt að þessu sinni: Helv... pestin sem vill ekki fara og er um það bil að gera út af við geðheilsuna og stutt dvöl í þetta sinn.
Vika. Vika er eins og hálfur dagur var í gamla daga. Þess vegna nær húsmóðirin í dag ekki að sauma fötin á börnin, gera slátur, elda svikinn héra og aðra flókna rétti oft í viku, þrífa heimilið hátt og lágt reglulega, vera í saumaklúbb, kvenfélaginu og kór, heimsækja gamlar frænkur og frændur á elliheimilin víðs vegar um borgina, sjá um heimilisbókhaldið og og og... En svo segja sumir manni að þetta með tímann og hraðann hafi eitthvað með aldurinn að gera. Tíminn líður ekki hratt af því að nú er gervihnattaöld heldur af því maður er alltaf að eldast.
En þó hjarta mitt sé kramið af eftirsjá eftir að hafa ekki hitt marga, þá náði ég að gera eitt sem ég ætlaði mér að gera á Fróni núna. Ég gerði óvísindalega könnun á gæðum blaðanna tveggja sem koma heim til ma og pa, Morgunblaðinu og Fréttablaðinu. Ég komst að þeirri niðurstöðu að blaðamennska á Íslandi er ömurleg. Mér finnst það gersamlega óþolandi hvernig blaðamenn misnota orð eins og hryðjuverk án þess að blikna. Orð og orðnotkun skiptir miklu máli og þegar menn eru að skrifa nútímasöguna í blöðin eiga þeir að vanda orðaval, fara varlega og leggja metnað sinn í að sýna rökhugsun. Andspyrnuhreyfingin í Palestínu er enn hryðjuverkasamtök eins og andpyrnuhreyfingin í Írak. Hvers vegna? Svarið er einfalt: Vegna þess að Rumsfeld segir það.
Ég nenni síðan ekki að ræða um allar "fréttirnar" sem fylla síðurnar og fjalla um að þriggja manna fyrirtæki í Síðumúla er lokað vegna flensu eða ær sem bera í febrúar. Þetta á kannski heima í héraðsfréttum og hverfisblöðum en ekki í fjölmiðlum sem eiga að bera okkur heimsfréttirnar. Megnið af erlendum fréttum eru þýddar og reiddar fram án nokkurrar íslenskrar viðbótar, án þess að blaðamaðurinn reyni á nokkurn hátt að koma með skýringar eða pælingar um það sem sagt er frá.
Á leiðinni út keypti ég hið arma blað Séð og heyrt. Ég biðst fyrirfram afsökunar, en ég gerði það til að gleðja eina vinkonu mína hérna sem elskar þetta blað og mér finnst fólk alveg mega elska svona blöð ef þeim sýnist svo. Ég hef reyndar aldrei gert þetta áður, en hún er alltaf svo glöð þegar hún fær þetta blað í hendurnar að ég ákvað núna að sýna þetta ótakmarkaða örlæti og gæsku. Blaðið las ég svo í flugvélinni þar sem dóttir mín ákvað að vera vakandi alla leiðina í þetta sinn. Ritstjórnarspjallið fjallar um það að með harðari samkeppni milli dagblaðanna á Íslandi, hafi blöðin orðið innhverfari og segi minna frá því sem er að gerast úti í hinum stóra heimi. Merkilegt. Kannski rétt.
Annað sem ég komst að núna í þessari dvöl minni á Fróni er að mér finnst einhvers konar hræðsla í fólki. Mér finnst stórhugurinn sem landið byggðist á og sem hefur alltaf verið hluti af okkar sjálfsmynd hafa skroppið saman og sé að verða að engu. Loftið er farið úr blöðrunni. Við erum að vísu að fylgjast spennt með nokkrum stórlöxum í ÚTRÁS, en mér fannst ég heyra það of oft að íslenskur markaður væri svo lítill að hitt og þetta þýddi ekki. Líklega kemur þetta til af þessari frægu útrás okkar og allri þessari alheimsvæðingu. Við erum farin að miða okkur of mikið og of auðveldlega við stóru þjóðirnar og heimsmarkaðinn og erum því að missa trú á okkar litla fína markaði heima. Ég auglýsi hér með aftur eftir stórhuga Íslendingum.
Annars var ég mest að njóta sundlauganna (í óþökk flestra þar sem ég hóstaði og snýtti mér út í eitt allan tímann - sundlaugarnar eru bara of góðar til að sleppa þeim) og að vera með fjölskyldunni. Karlarnir tveir á íslenska heimilinu hjálpuðu mér við vefsíðugerð og verður afraksturinn auglýstur fljótlega.
Ég er ánægð með dvölina heima og snjóinn en alltaf jafn óánægð með matvörubúðirnar, lélegt úrval ferskvöru, verð og verðmerkingar. Sumt virðist ekki eiga að breytast.

Ég er ánægð með að vera komin heim aftur og saknaði karlanna minna hér alveg ógurlega mikið. Og mikið er gaman að koma aftur í bloggheiminn. Hlakka til að kíkja á vini mína og sjá hvað hefur á daga þeirra drifið í fjarveru minni. Ekki það að það séu ekki 5 eða 6 tölvur heima hjá ma og pa. Bara tveir skjáir og tíminn við tryllitækin fór allur í vefsíðugerð. Ekkert blogghangs neitt!

Lifið í friði.

6.2.05

Heilsan er ekki komin í lag, hitastigið rauk upp seinni partinn í gær og ég er enn slöpp í dag. Er þó eiginlega alveg viss um að ég sé hitalaus.
En þar sem horið er allar holur að fylla, átti ég mjög erfitt með svefn í nótt. Vakti frá 3 til 7 í morgun. Alltaf auðveldara að sofna þegar börnin byrja að rumska.
Ég fór að flakka um netheima, las fullt af greinum á Múrnum, nokkur blogg, fullt af ljóðum á ljóð.is ásamt umsögnum um ljóðabækur. Ég lagði ekki í að blogga því ég vildi ekki vekja neinn með slætti á lyklaborð. Klikkaði mig bara áfram í gegnum áhugaverða hluti með músinni hljóðlátu.
Svo fór ég inn í rúm og lauk við Andlit eftir Bjarna Bjarnason sem ég var að lesa í annað sinn og reyndist bókin standast allar minningar og vel það. Frábær bók sem ég hvet alla til að lesa. Yndislegar sögur í henni um fólk sem við þekkjum og fólk sem við þekkjum ekki neitt. Fín lýsing á því hvernig maður verður neðanjarðarskáld án þess að átta sig alveg á því. Engin tilgerð. Engin plön um það að vera á skjön. Allt í einu áttar hann sig bara á því að í staðinn fyrir að sitja með fögrum fljóðum á kaffihúsi Þjóðarbókhlöðunnar, situr hann alltaf með mesta sérvitringnum, þessum skrýtnasta. Er hann þá einn af þeim?
Enn og aftur: Lesið þessa bók.

En nú verð ég að hætta, herskarinn kominn heim úr labbitúr og allir þreyttir og pabbinn skipar mér að koma og hjálpa. Veikindafríið greinilega búið! Ég hefði átt að barma mér aðeins meira í morgun...

Lifið í friði.

5.2.05

upprisa

Jæja, þá er maður risinn úr rekkju á ný eftir þá verstu flensu sem maður hefur nokkrun tímann fengið. Kvalafull, uppköst, hósti og hár hiti. Oj barasta. Enn smá hiti, en líðanin mun skárri. Mér skilst að megnið af Frakklandi liggi og það sama sé uppi á teningnum á Íslandi. Dálítið óhugnalegt að sjá hversu hratt og auðveldlega svona ósómi breiðist út. Hér er alltaf fylgst mjög vel með þessu, fyrst sér maður kort af Frakklandi í fréttunum þar sem rauði bletturinn er aðallega yfir Alsace og Norðurhéruðunum, og svo sér maður í gegnum vikuna hvernig rauði bletturinn stækkar og stráfellir íbúana.
Annars veit ég svo sem ekkert hvað ég á að rausa um, langaði bara svo að taka upp þráðinn aftur eftir langt hlé. Á ég að tala um hershöfðingjann sem sagði að það væri svo gaman að kála þessum aröbum sem hafa lamið konur? Eða viðbrögð Rumsfeld, sem er eiginlega blaðafulltrúi heimsins vegna þess að svo margar fréttastofur eru hættar að senda blaðamenn út af gislatökum, sem sagðist ekkert geta sagt þar sem hann hefði ekki lesið þetta? Á ég að tala um Bush sem lét móður látins hermanns fallast í faðma við Íraska konu sem kaus? Bíddu, er þetta allt í einu orðin kvenréttindabarátta? Er Bush femínisti?
Femínisti. Af hverju er fólk hrætt við orðið? Sumir virðast setja það í sama flokk og rasisti. Að það að vera femínisti, þýði að maður vilji algert kvenvald, karlarnir geti étið það sem úti frýs. Eigi varla tilverurétt. Sem er alls ekki minn skilningur á femínisma. Ég skil femínisma sem jafnréttisbaráttu, að allir séu jafnir. Að konur fái sjálfkrafa sömu laun og karlar fyrir sömu störf, að álíka hlutfall karla og kvenna sé í háum stöðum þjóðfélagsins. Æ, ég nenni samt ekki að tala um þetta. Ég finn fyrir svona vonleysislegri þreytu þegar ég þarf að minna mig á að konur eru enn lægra settar en karlar í vestrænu þjóðfélagi. Að konur eru lamdar, þeim er nauðgað, þær fá lægri laun. Svona eins og vinur minn homminn sem yppti öxlum og sagðist ekki nenna að ræða þetta,honum fyndist svo fáránlegt að fólk væri enn að efast um réttindi homma og lesbía til að geta gift sig (sem er nauðsynlegt í okkar "nútíma"þjóðfélagi til að tryggja erfðarétt o.fl.).
Við erum alltaf að reyna að sannfæra okkur um að líf okkar sé svo framúrstefnulegt og miði að velferð allra. Málið er að velferðin er bara fárra, við eigum bara svo auðvelt með að loka augunum og þykjast ekki sjá allt hitt.
Ni putes, ni soumises (Ekki hórur, ekki undirgefnar) eru samtök sem voru stofnuð í úthverfum Parísar af nokkrum konum og körlum í kjölfarið á hrottalegu morði í einu af þessum hræðilegu blokkarhverfum sem eru hér sums staðar í útjaðri borgarinnar. Sohane, stúlka um tvítugt var tekin og brennd lifandi af nokkrum strákum sem voru að refsa henni fyrir að hafa staðið í hárinu á þeim, hafa vogað sér að neita að gangast undir þeirra lög og reglur í hverfinu. Ég man alltaf hvernig talað var um Breiðholtið í fréttum í gamla daga, og ég man að ég var dálítið hrædd við stráka eins og Tussus, en það voru ekki hópnauðganir, alvarlegar barsmíðar og hvað þá morð eins og gerist stundum hér.
Systir Sohane og fleira fólk kom hreyfingunni af stað. Hún var fljótt og örugglega tekin upp á arma pólitíkusanna, Sósíalistar eigna sér hreyfinguna dálítið, styrkja hana vel og hafa komið henni upp á landsmælikvarða, nú eru útibú um allt Frakkland.
Þarna er barist fyrir rétti stúlkna til að klæða sig eins og þær vilja og gera það sem þær vilja. Mjög þarft starf sem þarna er unnið og hefur vakið upp umræðu og velt upp flötum sem ekki allir gerðu sér grein fyrir áður. En spáiði í það að í dag, 2005, skuli þetta þurfa að vera baráttumálið. Að stelpur megi vera í pilsi og það geri þær ekki að hórum. Það er þessi afturför nútímaþjóðfélagsins sem mér finnst óhuggulegust og gerir mig svo þreytta.

En nú er ég búin að fá nóg. Er enn frekar máttfarin greinilega. Maður verður að vera orðinn hress fyrir mánudag,en þá ætla ég að taka æslandervél heim á Frón.

Lifið í friði.