16.7.08

Hætt, farin, nenni ekki að vera með í þessu leiðinlega leikriti

Ég er flutt hingað.

Vinsamlegast breytið tenglum ykkar á mig. Þessi síða verður þó uppi áfram, því ekki vil ég að hún lendi í klónum á illa þenkjandi kapítalistum og þó aðallega vegna þess að ég gat ekki flutt blessað halló'skan með. Allar athugasemdirnar eru því hér en ekki þar.

Lifið í friði.

París ókeypis - París ódýr

Ég var búin að setja inn kaflann Ókeypis í París inn á vefsíðuna mína fyrir löngu síðan.
Hins vegar á ég eftir að koma með kaflann Ódýrt í París, en hér kemur eitt atriði (kannski verður það eina atriðið, ég leita dyrum og dyngjum að ódýru í París, en erfitt er að finna slíkt):

Skoða París með venjulegan metró/strætómiða að vopni:
Á síðu Upplýsingamiðstöðvar Parísarborgar er að finna ábendingar á ensku um bestu strætisvagnaleiðirnar til að sjá helstu ferðamannastaði borgarinnar.
Farið í "maps and transports" og smellið á stóra mynd sem segir "explore paris on the bus". Þetta er slóðin beint þangað.

Svo gleymi ég alltaf að segja ykkur að það er víst mynd af mér hvíthærðri og uppstrílaðri í matarboði í nýjasta Gestgjafanum.

Lifið í friði.

sumarbúðir

Sólrún lagði af stað í þriggja daga ferðalag í morgun. Dálítið undarleg upplifun, að sjá hana þarna með litlu ferðatöskuna sína og svefnpokann innan um vinina, öll svolítið trekkt, blanda af spenningi og kvíða. Svo lítil en samt eitthvað svo stór.

Og foreldrarnir á nálum, ekki týna dótinu þínu, vertu kurteis, ekki vera hræddur á kvöldin... Amma nokkur hrópaði upp yfir sig þegar bíllinn lagði af stað: Og hún var bara ánægð með að fara! Og pabbinn svaraði: Já, núna er hún ánægð en í kvöld...
Hann veit að hann mun horfa á tómt rúmið hennar í kvöld og ímynda sér að hún sé að hugsa til hans, að hún sakni hans. Þegar mun líklegra er að hún verði alsæl í svefnskálanum með vinkonunum (strákar sér og stelpur sér, er ég ein um að finnast það dálítið undarlegt fyrir 6 ára?) og sé bara ekkert að hugsa heim. Held ég. Vona ég.

Ég fór nokkrum sinnum í Vindáshlíð í gamla daga. Mikið var það alltaf spennandi og skemmtilegt. Þó stundum erfitt líka, hópur af stelpum getur nú stundum breyst í skrímsli. En alltaf vildi ég aftur, fór m.a.s. einu sinni í unglingahóp, líklega 14 ára.

Og nú var ég mamman að vinka, alveg eins og mamma mín forðum. [andvarp]

Lifið í friði.

15.7.08

játning

Ég verð að játa það að ég fæ gæsahúð og grænar bólur eins og við sögðum alltaf í Breiðholtinu forðum, þegar ég heyri gaulið í Carla Bruni. Líklega væru viðbrögðin alls ekki svona hörð ef hún væri einhver önnur en hún er, þ.e. ef hún væri ekki konan hans Nicolas Sarkozy. Í raun færi ég andúð mína á honum algerlega yfir á hana. Er það óréttlátt eða eðlilegt?
Ef kona er gift fávita, er hún þá fáviti líka?

Svo er það náttúrulega magnað að hugsa til þess að fram að því að hún varð konan hans gat ég alltaf komist hjá því að heyra í henni. Þó ég horfi afar sjaldan á sjónvarpsútsendingar og hlusti frekar lítið á útvarp er ég allt í einu farin að heyra til hennar af og til. Síðast á RÚV, sem er til dæmis vettvangur sem hún hefði aldrei komist á öðruvísi en að vera frönsk forsetafrú.

Lifið í friði.

af hinu franska "ekki hægt" og hinu íslenska "þetta reddast"

Jæja já, þá er græni bíllinn farinn. Ekta frönsk uppákoma:
Góðan daginn, er þetta bíllinn?
Já.
Og hann fer ekki í gang?
Nei, eini lykillinn sem gat komið honum í gang er týndur og tröllum gefinn.
Og ertu ekki með annan lykil?
Nei, ég var látin senda hann til matsmannsins og var tjáð að hann yrði sendur til ykkar.
Merde, ég held að þetta verði ekki hægt. Nei, þetta er ekki hægt.
[hakan nudduð í smá stund, ekki það að þessum ungling væri farið að vaxa grön, hann bara lærði þetta í dráttarbílaskólanum].

Svo byrjar hann á að koma dráttarbílnum á réttan stað, lætur pallinn síga niður, dregur út krók og festir í bílinn og dregur bílinn hægt og rólega upp á pallinn. Tók enga stund og gekk mjög vel.

Jæja, þetta gekk upp.
Já, svo sannarlega.
Ég hleypi þér þá út.
Já, bless frú. Njótið dagsins.
Takk, sömuleiðis.

Það er einmitt þetta í Frökkum sem getur gert þá dálítið þreytandi. Það er alltaf byrjað á að segja að þetta sé ekki hægt. Stundum er talað um það lengi lengi, stundum bara svona stutt og laggott og svo drifið í málunum eins og hér er lýst. En þetta getur stundum gert mig gráhærða af pirringi.
Má ég þá heldur biðja um "þetta reddast" à la islandaise. Þó það sé í raun öfgarnir í hina áttina og stundum þreytandi líka.

Lifið í friði.

14.7.08

þjóðhátíðardagurinn

Góður dagur í dag. Gott veður, góð börn, gott skap. Ekki samt hátíðarskap, bara létt lund.

Engin hersýning en flugeldasýning í gærkvöld og líklega aftur í kvöld. Flott að vera með útsýni yfir nokkur bæjarfélög, svei mér ef mér fannst ég ekki bara stödd á Íslandi á gamlárskvöld um tíma í gær.
Bastilludagurinn, ekki þekki ég einn einasta Frakka sem heldur upp á hann á einhvern þjóðlegan hátt, fæstir vilja gangast við því að hafa farið og séð hersýninguna á Champs Elysées. Hins vegar nota margar fjölskyldur tækifærið og hittast. En við vorum samt ansi mörg bara að dúlla með börnunum úti í almenningsgarði. Kannski langflest okkar innflytjendur og nógu illa aðlöguð eða (nógu vel aðlöguð?) til að standa á sama um daginn.
Reyndar spáði ég alvarlega í að skella mér á hersýninguna með krakkana. Ég hef einu sinni farið og er alveg á því að það sé þess virði að sjá þennan hrylling einu sinni, hvílík tæki og vélar, skriðdrekar eru stærri í alvörunni en í bíó. Og marsérandi hermenn er líka sjón að sjá. Takturinn kona. Svipleysið maður.
En þau eru kannski enn aðeins of ung til að skilja stríð og möguleikann á friði. Þó þau séu nógu stór til að baka pizzur.

Mér skilst að krúttleg bloggynja eigi afmæli. Skyldi það vera stórafmæli með tilheyrandi krísum? Hún fær alla vega faðm og knús frá Copavogure, Frans.

Lifið í friði.

13.7.08

pizzubakstur

Ég er alltaf að rembast við að vera góð mamma. Ég held að við sem eignumst börnin okkar svona seint séum mun meira að rembast við það en þær sem voru svo sniðugar að drífa í þessu áður en þær urðu fullorðnar. Alla vega finnst mér við vinkonurnar einhvern veginn allar taka þessari rullu alveg ógurlega alvarlega og getum rætt út í það óendanlega um börnin okkar, svefnvenjur, leikvenjur og þroska þeirra.
Kannski voru vinkonur mínar sem eru nú svo heppnar að vera komnar með stálpaða krakka líka svona, en ég var þá bara upptekin af því að vera námsmaður í París að ég missti af þeim í þessu ástandi. Eitthvað man ég eftir því að hafa gert stólpagrín að þeirri sem dreif í fyrsta barni tveimur árum áður en ég lauk stúdentsprófinu, vegna þess að erfrivörin á henni skalf alltaf þegar hún talaði um afkvæmið.

En ég er sem sagt núna tvisvar á skömmum tíma búin að prófa að baka pizzu með krökkunum. Hún var helmingi betri í dag en um daginn, en það er samt einhver herslumunur sem vantar upp á að botninn sé nógu góður. Því auglýsi ég hér með eftir fullkominni uppskrift að pizzubotni. Helst auðveldri, fljótlegri og barnvænni. Með fyrirfram þökkum.

Lifið í friði.

12.7.08

jómfrúarferð og vond hótel

Ég gat heldur betur prófað bílinn minn í dag í góðverki dagsins - sem ég fæ reyndar eitthvað greitt fyrir. Fór upp á völl og fann mann með lyklakippu. Hann spurði mig hvort þetta væru virkilega lykar að Porche. Ég hló við fót, enda vissi ég betur. Bara lyklar að íbúð í París. En kippan var Porche. Veit nú reyndar ekki hvort er dýrara, læt mig dreyma um hvorugt.
Ég bauð manninum með kippuna far með henni inn í miðbæ. Hann þáði það. Ég þorði ekki að spyrja hann að aldri, fannst ég verða eitthvað gömul við það. Við ræddum um heima og geima, ferðalög og París, söfn og raðamenningu þjóða, en ekki um neitt sem máli skiptir. Og það skiptir engu máli. Við erum sammála um að ferðalög án hótelpantana fyrirfram eru best. Samt var ég eitthvað að reyna að gauka að honum upplýsingum um hvar hægt væri að finna ódýr hótel í París. Gat ekki alveg haldið í mér. Eins og mér finnst sjálfri æðislegt að koma í borg og ganga á vit örlaganna. Sem næstum alltaf hafa virkað ótrúlega vel. Ég stoppaði mig af, eða var það hann?
Hann stökk út á horni, greip töskuna sína úr skottinu og öskraði bæ. Ég öskraði bæ og góða ferð.
Kannski hitti ég hann aldrei aftur. Kannski hittumst við einhvern tímann og hlæjum að þessum skyndikynnum. Kannski nikkar hann til mín í Bónus eftir tvö ár og ég pæli í því í tvo mánuði hvaðan í ósköpunum ég þekki hann.

Versta hótel sem ég hef nokkurn tímann gist á, var í fyrstu Parísarferðinni. Þá komum við galvösk á farfuglaheimilið og var hlegið að okkur, það þurfti að panta með minnst tveggja mánaða fyrirvara. En maðurinn í móttökunni talað sænsku og sagði okkur frá hóteli í nágrenninu. Hann bað okkur þó að segja ekki frá því hvar við hefðum fengið upplýsingar um hótelið. Við fundum það, gengum inn í myrka móttöku og báðum um herbergi. Vorum strax spurð um það hvernig við hefðum fundið þau. Settum upp sakleysissvip og sögðumst bara koma fyrir tilviljun inn af götunni. Fengum þriggja manna herbergi með sturtu sem var beint yfir klósetti og vaski (allt þrennt inni í litlum sturtuklefa). Lökin voru alsett "hreinum" blóðslettum (búið að þvo, en blettir ekki farið). Við ákváðum strax að strategían væri að fara út fyrir sólarupprás og koma inn eftir sólarlag og vorum þarna áfram, nenntum ekki hótelveseni í borginni.
Ég hef oft leitað að þessu hóteli, en aldrei fundið.

Lifið í friði.

enn og aftur

get ég verið ég montin af frænda. Hann er ansi góður.

Það er víða pottur brotinn í "heilbrigðis"málum á Íslandi. Heilbrigðiskerfið ber nafn með rentu því það er fínt fyrir þá sem eru heilbrigðir. Hins vegar virkar það nú orðið afar illa fyrir þá sem sjúkir eru.

Lifið í friði.

Græna bannsvæðið

Gatan sem ég bý í er nokkuð blómleg, við íbúar nokkurra blokka deilum með okkur kostnaði við húsvörð sem sér m.a. um öll beðin og þennan litla reit sem er hér rétt við innganginn okkar. Eitthvað hefur verið rætt á húsfundum að kannski ætti að setja bekk og hafa einhverja aðstöðu fyrir íbúana en það hefur alltaf verið fellt og gildir reglan að "ekki er ætlast til" að reiturinn sé notaður. Bekkur er talinn geta dregið að sér unglinga og aðra ódáma.
Okkur var tilkynnt strax og við fluttum inn að reiturinn væri ekki leiksvæði, en ég brýt þó við og við þessa fáránlegu reglu, kem mér þarna fyrir og leyfi krökkunum að skottast um. Aldrei hefur neinn komið til að reka okkur í burtu.
Það er frekar stutt í mjög skemmtilegan garð með góðu leiksvæði, en það tekur þó um 10 mínútur að ganga þangað og stundum er hvorki tími né nenna til þess.
Hér eru nokkrar myndir, vegna þess að rósarunninn vakti áhuga nokkurra lesenda á dögunum.


Kári í flugvél.


Hluti af svæðinu.


Brekkan græna í baksýn er svo ágætt grænt svæði sem er reyndar ráðið frá að fara inn á, vegna þess að þar er hætta á trjáhruni og ótryggðar námur undir. Fáránlegt inn í miðju íbúðahverfi og svæðið er mikið notað þvert á aðvaranir.


Hvaða tré er þetta? Eitthvað silfurgrænt greni.

Lifið í friði.

11.7.08

litli blái bíllinn

Ég er orðin stoltur eigandi fagurblárrar Citroën Xsara. Þegar ég ók henni heim, fann ég að hún er dálítið meiri kassabíll en mér fannst þegar ég prufukeyrði um daginn. Maður verður kannski vandlátari þegar búið er að reiða fram 2.800 evrur.
En hún er samt alveg akkúrat það sem ég þarf. Kraftlítil og smá rispuð, glansandi fín með útvarp og kassettutæki, loftkælingu og vökvastýri, loftpúðum og einhverjum öryggisbremsum (það var gamall karl sem átti hana á undan mér).
Ég er aðallega dauðfegin að þetta mál er í höfn. Djöfull er leiðinlegt að hringja í gaura sem auglýsa bíla til sölu.

Hvað er annars að frétta af Paul Ramses? Ætla yfirvöld ekki að gera neitt í málinu? Ætlar Ingibjörg Sólrún ekki að redda þessu?

Og hvernig stendur á því að ég fékk ekki sjúkdómspælingakomment hér á undan? Er öllum skítsama um að ég sé á grafarbakkanum?

Ég er farin í bæinn.

Lifið í friði.

10.7.08

Aftur og nýbúin

Aftur til Versala í dag. Skárra að hafa einn dag á milli, einhvern tímann í júní gerðist það að ég fór tvo daga í röð. Það var þrekvirki. Kannski er það ekki alveg eðlilegt hvað ég er þreytt eftir þessar ferðir til Loðvíks og Maríu (þeir voru þrír, þær voru þrjár). Í fyrradag gat ég varla borðað kvöldmat, mér var hálfóglatt af þreytu og sofnaði í sófanum korter yfir níu. Þetta er um 10 km ganga og vitanlega tala ég svo til allan tímann. Ég ek af stað héðan um níuleytið, kom síðast heim rétt fyrir átta. Þetta eru því langir dagar og stressandi.
En kannski er þetta tengt einhverjum hryllilegum sjúkdómi sem blundar í mér. Kannski eru öll þessi einkenni sem ég hef (þreyta, verkstol, illt í hælnum (nýtt síðan í fyrradag), suð í eyrum, vöðvabólga, höfuðverkir (betra eftir 2 osteóferðir) tengd saman. Já, ég var líklega ekki búin að segja ykkur það, ég er að horfa á Dr. House þessa dagana.

Lifið í friði.

9.7.08

rjómatoffí

Mig langar ennþá í rjómatoffí. Er það til?

Lifið í friði.

geðlæknir hafði samband

við síðuritara og tjáði henni að verkstol ER sjúkdómur, eða a.m.k. eitt af einkennum þunglyndis.
Það tilkynnist hins vegar að ég hef lokið fyrsta uppkasti og sent til yfirlesturs hjá mínum einkayfirlesara. Hvort þýðingin er góð veit ég ekki, enda vafamál hvort hægt sé að gera góða þýðingu úr hálfþýðingarlausum frumtexta. Þetta er vandamál sem ég gæti reifað í náminu næsta vetur. Spennandi tímar framundan.

Og nú hleyp ég út í sólina að sækja börnin mín fallegu. Hér er mynd af stúlku sem er búin að missa 4 tennur, tvær voru þegar komnar með nýja fulltrúa, hinar tvær skilja hins vegar eftir sig mikið gap:




Lifið í friði.

berlín eða kúpi

Það er ekki mjög hentugt að hafa mikið að gera þegar maður situr sveittur við þýðingu á illskiljanlegum skjölum.
Til dæmis er það ekki uppörvandi að vera eins og bjáni þegar hringt er í tryggingarnar út af "nýja bílnum" og geta ekki svarað grundvallarspurningu eins og þeirri hvort þetta er berline eða coupé. Ég veit alla vega að þetta er ekki break. Bílar eru tiltölulega leiðinleg fyrirbrigði, mengandi, hættulegir og dýrir. En samt svo nauðsynlegir. Held ég.

Ég hef ekki tíma til að hafa ekki tíma í þetta mál því það væri svo gott að vera laus við að þurfa að hugsa um þetta. Þarf hvort eð er að gerast.

Djöfull er ég leiðinleg. Farið út að leika. Mig langar í rjómatoffí.

Lifið í friði.

heimþrá

Mig langar alveg hrottalega mikið að vera heima á Íslandi í góða veðrinu.

Mig verkjar í sálina.

Lifið í friði.

makalaust

Makalaust hvað það getur verið erfitt að koma sér að verki þegar það er bara svona verkefni að vinna heima í tölvunni. Ég flakka stefnulaust um netið, svara tölvupóstum og dúlla mér við að taka til. Allt nema að setjast niður og vinna.
Verkstol hlýtur að geta talist örorka.

Lifið í friði.

8.7.08

lekandi

Fukum dálítið til í nestispásunni en annars var þetta fínt. Regnkápan er þúsund, alveg eins og ég sagði. Ég fékk öfundaraugnaráð frá samferðafólkinu. Alveg eins og ég vissi.

Bíllinn fékk athugsemd um að það væri olía utan á mótor sem benti til leka. Bílakauparáðgjafinn minn segir að það sé eðlilegt. Þetta er jú Citroën. Ég kaupi hann víst samt.

Lifið í friði.

spá og galdrar

Spáin segir skúrir með köflum.
Galdrakonan segir að Sólkonungurinn svíki hana ekki í dag (þó að hann hafi átt það til að vera fjarverandi þegar ég heimsæki hann).

Reyndar á ég fína regnkápu, verst að ég hálfskammast mín alltaf þegar ég er þúsund sinnum betur búin en ferðalangarnir sem fylgja mér. Því regnkápan mín er þúsund í það minnsta.

Blár Citroën fer í skoðun í dag svo hægt verði að ganga frá kaupum. Ég held að ég verði að teljast snillingur en segi ykkur betur frá því seinna. Farin að taka til rauðvín og osta. Þetta verður góður dagur. Þetta verður góður dagur. Þetta verður góður dagur.

Lifið í friði.

5.7.08

þið munuð öll...

deyja!

Nei nei, engin svartsýni, bara raunsæi og iPod.

Lifið í friði.

bók eða youtube, sá á kvölina...

Á kvöldin eftir mat er siður að mamman les bók með krökkunum og svo segir pabbinn sögu um litla álfinn sem varð til í fyrstu tjaldútilegunni þegar krakkarnir voru mjög óöruggir með sig og myrkrið of mikið til að skoða bók.
Stundum er pabbinn ekki heima og þá er litli álfurinn ekki heldur heima, mamman lætur sér ekki detta í hug að reyna að koma í staðinn fyrir pabbann í þeirri spunasögu sem þau eiga þrjú sín á milli.
Stundum er mamman ekki heima og fljótlega fór pabbinn að flakka með krökkunum á youtube í sófanum þar sem vaninn var að lesa bók. Og núna þarf mamman stundum að láta eftir þeim að skoða frekar tölvuna heldur en að lesa bók, enda getur ferðalag um þessa undraheima stundum alveg verið lítillar sögustundar virði - þó mamman haldi vitanlega í hvert skipti stutta ræðu um mikilvægi þess að lesa.
Í gær og fyrradag höfum við skoðað myndbönd Bjarkar og hefur Sólrún tilkynnt að hún sé hætt við að vera blómadrottningin í næsta afmælinu sínu og ætli að vera Björk í staðinn. Og hún er líka búin að biðja um að fá að komast á tónleika eða "spectacle" (sýningu) með Björk hvernig sem hún fór að því að skilja að Björk væri stundum með sýningar eða tónleika. Henni hefur nú verið lofað því að koma með á næstu tónleika Bjarkar í París.
Síðast þegar ég reyndi að komast á tónleika með Björk var í Reykjavík 1998 eða 1999, hávetur, Þjóðleikhúsið, löng röð, skítafokkingkuldi, hurðin opnast, miðar uppseldir fimm mínútum síðar. Fór sneypt og blá af kulda heim.
Hins vegar er ein af bestu tónleikaminningum mínum líklega þessi: Ég var 13 ára og mætti að til sjá Purrk Pillnikk (viðbót: ÉG MEINA VITANLEGA TAPPA TÍKARRASS) í Fellahelli. Eftir gott stuð í nokkra stund tilkynnti Einar í míkrófón að allt væri búið. Þau ætluðu í smá pásu en hann er svoddan húmoristi að svona var það sett fram. Við vinkonurnar stóðum þarna fremst og færðumst ekki úr stað þó hljómsveitin gengi niður af sviðinu. Hins vegar tæmdist salurinn og þegar hljómsveitin steig aftur á svið kom í ljós að allir höfðu farið heim fyrir utan okkur tvær og kannski tvo til fjóra í viðbót (kannski vorum við 10, en í minningunni vorum við bara tvær svo ég fer milliveginn). Frekar undarleg aðstaða en þau ákváðu bara að skemmta okkur hræðunum sem höfðum fattað undarlegan húmor Einars, héldu áfram og allt fór á mjög persónulegar nótur, settumst öll niður og hljómsveitarmeðlimir spreyttu sig á ýmsum spunaverkum o.s.frv.
Svo lauk tónleikunum og á leiðinni út hafði ég mig upp í að biðja þau um eiginhandaráritun þar sem við vorum nú öll búin að vera að blaðra saman. Það var auðfengið og ég held að ég eigi einhvers staðar ennþá þetta pínulitla umslag sem ég hafði í vasanum og þau skrifuðu öll nöfnin sín á og sem hékk svo á heiðursstað á korktöflunni minni öll unglingsárin. Björk var að skrifa þegar mamma vinkonu minnar kom að sækja okkur og Björk fór þá öll í hnút, fannst hún eitthvað hallærisleg þarna að skrifa nafnið sitt fyrir framan fullorðna manneskju.
Mér finnst Björk alltaf alveg frábær, flottur tónlistarmaður og aðdáunarvert hvernig hún hefur náð að komast á toppinn, ég meina, gerið þið ykkur grein fyrir því að ég hef hitt háaldraðar franskar þurrpumpulegar búrgeisakerlingar sem hafa farið að tala um Björk? Það er engin leið að ímynda sér hvað hún hefur í raun náð til margra.

Og nú eru krakkarnir að horfa á youtube með pabbanum því hann hitti þau svo lítið í dag. Hann er að sýna þeim Marilyn Monroe. Sénsinn að Sólrún fái að vera hún í afmælinu sínu!

Og nú er ég alveg orðin svona youtube iPod gella, bara svo þið vitið hvað þið eruð að eiga við hérna.

Og mér fannst ég þurfa að hefja þriðju málsgrein á Og, annars gæti fjölskyldan mín farist.

Lifið í friði.

hátt enni beint nef

Íslenska mamman á mjög bágt með sig þegar 4 og 1/2 árs drengur furðar sig á því að ekki skuli koma neitt f í Joseph, mest langar hana að segja honum að frönsk stafsetning sé bull og vitleysa en í staðinn býður hún hann bara velkominn í frumskóginn. Það er alveg magnað hvað hann er duglegur að skrifa alls konar orð eftir hljóðum, systir hans nennir þessu ekki.

Í gær vígði ég iPod sem maðurinn minn gaf mér í próflokagjöf. Hann er búinn að liggja í tækjakörfunni síðan í maí, því ég var ekki með neina tónlist í tölvunni minni. En í gær hlóð ég inn nokkrum diskum og fór í vinnuna með íslenska tónlist í eyrum. Það var hálfundarleg tilfinning að hlusta á Bubba, Þursana og Todmobile í metró. Ég er reyndar bara ekki viss um að ég kunni vel við að vera svona einangruð frá umhverfinu. Hins vegar mun tækið nýtast mér í hjólatúrum meðfram skipaskurðinum og í skokkinu.

Á heimleið áttaði ég mig á því að það er mjög undarlegt að ég skyldi ekki byrja á því að hlaða Bowie inn, líklega er það heimþráin, ég þrái það að sitja í íslenskum móa með fuglahljóð í eyrum, svalan andvara og miðnætursól. Ég dauðsé eftir því að hafa ekki ákveðið að koma heim en um leið er ég mjög sátt við að ætla að eiga 10 daga úti á Normandí og hlakka til.
Rifin í tvennt. Það var ágætt að átta sig á því að þannig yrði þetta alltaf, en samt er það stundum dálítið sársaukafullt. Ég get þó alltaf huggað mig við að þetta er val, bæði íslensk og frönsk stjórnvöld láta mig í friði og vilja leyfa mér að vera. Ég er þakklát fyrir það.

Lifið í friði.

4.7.08

meme

Fædd á Fróni, í Frakklandi róni.

Lifið í friði.

3.7.08

mótmælastaða á morgun

Á morgun, 4. júlí á milli 12:00 og 13:00, verða mótmæli fyrir utan dómsmálaráðuneytið í Skuggasundi. Þar verður þess krafist að Pauli Ramses verði snúið aftur til Íslands og fjallað um mál hans hér. Mætið og látið í ykkur heyra. Tekið af síðu Arngríms.

Ef rétt er farið með, sótti Paul Ramses um pólitískt hæli á Íslandi í kringum áramótin, en fékk aldrei svar. Það hlýtur að vera skýlaus krafa að lýðræðisríki láti svo lítið að svara umsóknum með rökstuðningi. Hvort sem beiðni er samþykkt eða neitað, hlýtur hver einasta manneskja að eiga rétt á eðlilegum samskiptum við yfirvöld.
Hér í Frakklandi er alla vega reynt að sjá til þess að allir flóttamenn sæki um hæli og fái svar áður en þeim er vísað úr landi. Einnig hafa margir þeirra (þori ekki að fjölyrða um hvort það á við um alla) tíma til að áfrýja niðurstöðu og veit ég að tengdafaðir minn hefur átt við eitthvað af slíkum málum í Conseil d'Etat, Ríkisráðinu, sem er lögfræðiráð sem ver stjórnarskrárbundinn rétt manna og gefur lögfræðiálit í málum sem talin eru brjóta gegn henni.
Mér virðist stundum ríkja einhvers konar forneskjuleg trú að á Íslandi þurfi ekki alltaf að fara eftir öllum reglunum, sérstaklega ekki ef um útlendinga er að ræða. Ég minni t.d. á fangelsun Miriam Rose í haust.
Málið er að megnið af þessum reglum koma frá alþjóðlegum samþykktum og mannréttindi eru hvorki né eiga að vera bundin við ákveðinn þjóðflokk eða ríkisfang á ákveðnum stað.

Lifið í friði.

Paul

Ég efast um að ég þurfi að taka afstöðu mína í máli Paul Ramses fram.
Stundum efast ég um að rétt sé að ala börnin mín upp annars staðar en á Íslandi en stundum er ég óþyrmilega minnt á að það breytir í raun engu. Alls staðar sama pakkið við völd.
Héðan fer a.m.k. breiðþota á dag til einhverra af stríðs- og/eða hungurhrjáðu löndunum með fólk sem segist líklega munu deyja ef það verður skilið þar eftir. Hér eru stór skýli við flugvellina sem geyma fólk jafnvel vikum saman þar til þau komast upp í vél. Þetta er í raun orðið svo óhugnalegt ástand að maður ræður ekki við að hugsa um það.
Ég er í það minnsta ánægð með að Paul Ramses virðist ná að kveikja bál á Íslandi þó hann sé hvorki Lúkas né ísbjörn eins og hér er bent á.

Lifið í friði.

au revoir, la citroën verte

Ég er búin að ganga frá því að bíllinn minn verður líklega seldur í parta. Ég mun aldrei viðurkenna að ég beri tilfinningar til bílsins, en hann hefur þjónað okkur eins og þurft hefur í rúm 4 ár og það kann ég vel að meta.

Þegar ég tók ákvörðun um að kaupa mér bíl á sínum tíma var það til að tryggja að ég einangraðist ekki í úthverfinu með tvö pínulítil börn og enga gæslumöguleika. Ég hef, að ég held, staðið mig ágætlega í að ofnota hann ekki, um leið og börnin fóru að geta gengið sjálf upp og niður stiga fór ég að fara allra minna ferða með þau um París í metró eins og ég geri þegar ég er ein. Bíllinn hefur aðallega gegnt hlutverki skólabíls og verið nýttur í stærri innkaupaferðir.
Svo hef ég stundum stolist til að fara með ferðalanga á honum til Versala og var einhvern tímann sagt að bílferðin hefði verið hápunktur Frakklandsferðarinnar, þeim fannst þau alveg komast í fótspor innfæddra þegar ég steytti hnefa úti á hraðbraut.
Dálítið skemmtileg tilhugsun að síðasti farþeginn í Versalaferð var íslensk stórstjarna sem hefur m.a. fengið umfjöllun í fjölmiðlum út á bílaáhugann.

Undanfarna daga hef ég dálítið spáð í það að verða bíllaus á ný en það er samt of freistandi að hafa blikkbelju áfram á heimilinu. Ég get ekki hugsað mér að þurfa endalaust að vera að biðja vini um lán á bíl, að komast ekki í Ikea eða Carrefour þegar mér finnst ég þurfa (og hef tíma) og auðvitað er ómetanlegt að geta hent tjaldi og svefnpokum í skottið og rokið upp í sveit þegar þráin gerir vart við sig (og tíminn leyfir).

Svo nú er ég að skoða auglýsingar og er vitanlega kominn með einhvern undarlegan verk í bakið, einfaldlega af stressi yfir því að þurfa að fara að hafa samband við fólk sem er að selja bíla sem ég get ómögulega vitað hvort eru góðir eða ekki. Ég fæ aðstoð við að sigta út spennandi auglýsingar og kannski getur aðstoðarmaðurinn komið og litið á tækin með mér í næstu viku en eins og er finnst mér ég dálítið ein í þessu máli.

Ég vorkenni mér þó ekki neitt voðalega mikið því ég er fullkomlega meðvituð um að þetta er lúxusvandamál og óverulegt miðað við ýmislegt sem aðrir í kringum mig þurfa að glíma við.

Lifið í friði.

2.7.08

myndband

Ég fékk sendan tengil frá íslensku tengdamóður minni og mig langar að deila þessu með ykkur:



Ég hef mikið spáð í það undanfarið hvernig fólk lendir í hinum undarlegustu aðstæðum, hvað lagt er á suma og hversu misjafnlega gengur að vinna sig upp úr erfiðleikum. Þetta myndband vekur hjá mér von, minnir mig á að það er næstum alltaf hægt að komast yfir erfiða hjalla, rísa upp eftir áföll.
Ég fór að gráta þegar ég horfði á það í annað sinn.

Lifið í friði.

skotin með sexhleypu

vinna ást börn vín stress tölva

Baunin fagra skaut mig, ég tók því eins og (her)maður og skýt á Unni, Evu og Eyju, ef hún er á lífi. Þær eiga sem sagt að resúmera líf sitt í sex orðum.

Lifið í friði.

1.7.08

vellíðan í vanlíðan

Mér líður dálítið eins og ég hafi stolist til að kaupa mér einhverja lúxusvöru. Samt er þetta góð tilfinning og ekkert samviskubit sem ég hefði pottþétt ef ég hefði splæst í ofmetið glingur úr tískubransanum. Í raun og veru var ég einmitt að reyna að kaupa lúxusvöru sem mig langar til að gefa heiminum, gefa þér, með því að leggja smá pening inn á reikning Saving Iceland.
Ef þig langar að gera það líka, getur þú haft samband við mig eða þau sjálf á netfangið savingiceland hja riseup.net til að fá reikningsnúmerið gefið upp.

Ég hef stundum velt þessu fyrir mér með muninn á aðgerðum sem felast í borgaralegri óhlýðni sem ríkisvaldið tekur að sér að refsa fyrir með dómum upp á sektir eða fangelsisvist og mjúkum aðferðum sem felast í ljóðalestri eða tónleikahaldi.

Ég dáist að fólki sem tekur það að sér fyrir mig og þig að taka áhættuna sem felst í aðgerðum. Sjálf er ég hrottalega hrædd við tilhugsunina um handtöku og fangelsisvist. Ég held að ég myndi grenja og pissa í buxurnar ef ég lenti í handjárnun, yfirheyrslum, skýrslutökum, setu í fangaklefa... ég er ein af þeim sem refsikerfið virkar stórfínt á.
En ég er ekkert stolt af því og ég get alveg gefið út þá yfirlýsingu hér og nú að ef yfirvöld halda áfram að sýna réttinum til að mótmæla ámóta vanvirðingu og hingað til mun ég líklega brjóta niður þessa hræðslu í sjálfri mér og rísa upp. Enda veit ég, líkt og flestir og yfirvöld líka, að styrkurinn mun einmitt felast í því að nógu andskoti margir mæti og mótmæli, hlekki sig við vélar, stöðvi umferð og sýni með öllum tiltækum ráðum óánægju sína með framkvæmdirnar. Ef við erum tvö þúsund, hvernig ætti lögreglan þá að fara að því að handjárna okkur öll, geyma okkur og yfirheyra og draga svo fyrir dóm?
Sjálf er ég í raun og veru meira svona týpan sem færi og læsi ljóð og blési sápukúlur út í vindinn til að sýna óánægju mína. En það hlýtur að vera hrottalega frústrerandi tilhugsun að hafa haldið alls konar uppákomur og gjörninga og sjá svo bara vinnuvélarnar mæta og ryðja sviðinu í burtu. Það hlýtur að bærast efi í brjósti þeirra hjá Sól á Suðurlandi um að kannski hefðu þau átt að vera harðari. Hvernig er það, eru framkvæmdir annars hafnar við Þjórsá?

Ég skammast mín fyrir íslenskt réttarkerfi. Hvað finnst þér um þennan dóm?

Lifið í friði.

auðkennislykillinn

Ég er búin að leita að auðkennislyklinum í nokkra daga. Hef ekki fengið af mér að játa að ég hafði líka týnt honum, fyrr en núna, að hann er fundinn. Bíllyklarnir eru hins vegar tröllum gefnir og búið að dæma í því máli á þann veg að bíllinn verður seldur tryggingafélaginu í bílaparta. Of mikið mál að koma honum aftur á götuna, of mikill kostnaður. Svo nú þarf ég að fara að leita að nýjum bíl, þ.e.a.s. gömlum bíl sem ég hef efni á.
En nú þegar auðkennislykillinn er fundinn, liggur vefur Landsbankans niðri. Það finnst mér óþægilegt og vænisýkin vellur upp í mér. Þá gæti grunað hvert ég ætla að senda peninga.

Hér er 30 stiga hiti og alblár himinn. Ég þarf að fara á markaðinn og kaupa fullt af grænmeti og ávöxtum og svo ætla ég að skipta á rúmunum, um að gera að nota svona þurrkdag til að þurrka lök og ver.

Þegar öllu þessu er lokið er það næsta sem ég gjöri að fara út í garð með bók og jafnvel með tölvuna, er ekki alveg búin að ákveða það. Ég ætla að reyna að vinna aðeins í síðunni minni og fá smá lit á loðnar lappirnar í leiðinni. Ég er aftur að glíma við sömu spurningu og í fyrra, raka eða ekki að raka?

Lifið í friði.