31.3.08

júbbí

á morgun má ég ljúga án þess að tíminn í hreinsunareldinum lengist

stuð

dóttir mín ætlar að fela slopp pabba síns, tilkynnti hún bæði mér og nágrannakonunni gömlu á jarðhæð með risaprakkaraglotti.

dálítið í líkingu við þessi glott

í dag er ég búin að blogga þrisvar, það er meira en margur annar, meiri ládeyðan sem ríkir í bloggheimi mínum, kannski er stuð hjá Stebba, spurning um að fara bara yfir á mogga og sanka að sér ofvirku liði sem hefur lítið að segja um ekkert, alveg eins og ég?

Lifið í friði.

reddað

Ég fór í hlýjan nærbol og svo tvær léttar rauðbleikar peysur með v-hálsmáli, gallabuxur og appelsínugula sokka, opna skó (reyndar svartir en sokkarnir vógu upp á móti þeirri staðreynd.
Ég þurfti ekki í úlpu, hér er skyndilega brostið á með bongóblíðu, maður ætlaði varla að tíma að fara inn.

Þetta er allt að koma.

Vorið er að koma.

En það þýðir reyndar líka vorpróf.

Lífið er fallegt.

Lifið í friði.

bleikt

Mér finnst eins og ég ætti að skarta bleiku þegar ég fer að ná í börnin á eftir. Það eru ekki raddir í höfði mínu sem segja mér það, heldur er þetta meira svona einhver tilfinning. Ég hef það sterklega á tilfinningunni að ég eigi að skella mér í snögga og lífvæna sturtu, láta rauðrunnate bruggast á meðan og klæða mig í sterka og glaðlega liti meðan það er drukkið áður en ég fer að sækja skarann. Ég get ekki útskýrt það, en mér finnst eins og það muni laga eitthvað.
Einu skærbleiku buxurnar mínar eru stuttar og úr hör. Það er enn dálítið kalt fyrir þær þó að sólin skíni reyndar af öllu sínu afli núna (stemmir, gerðist um leið og vélin fór í loftið með þá 20 Íslendinga sem ég lóðsaði um borg og sveitir um helgina í grenjandi rigningu og skítakulda).

Ég skil ekki bofs í verkefni miðvikudagsins. Alla vega ekki svona í fyrstu atrennu. Ég treysti því þó að ég muni átta mig betur á þessu í kvöld og á morgun en er það ekki tilætlunarsemi af kennara krefjast þess að við getum hugsað sjálfstætt?

Næst á óskalista: skærbleik lopapeysa.

Lifið í friði.

mánudagshádegi

Það sækir að mér kvíði. Ég veit ekki hvað ég á að gera, hvað ég á að velja, hvernig ég á að fara að hverju. Svo er maður bara magnvana gagnvart erfiðleikum og þrautum fólksins í kringum sig. Og svo er ég sársvöng en langar ekki í neitt. Og svo er dimmt hérna inni af því það er dimmt úti. Og svo er ekki hægt að hlusta á skólaupptökur síðustu viku.
Spurning hvort ég fari og plaffi niður neysluhyggjurottur í næsta molli, eða hvort ég leggist undir teppi með kakó og þykka kennslubók og dotti yfir henni. Já, kannski viturlegra það síðarnefnda. Börnin þurfa jú á móður sinni að halda eitthvað áfram. Ekki langar mig að verða viðfangsefni í uppáhaldssjónvarpsþáttunum mínum um undarlega glæpi.

Lifið í friði.

mánudagsmorgunn

Á mánudagsmorgni, í tímabrengli, getur verið hressandi að takast á við það að koma trylltu annarra manna barni inn í bílinn, binda það niður með valdi og aka svo að skólanum biðjandi til guðs að það hengi sig ekki í bílbeltinu sem það er búið að flækja sig rækilega í.

Nú eða þá að það getur látið þér líða eins og dagurinn hljóti bara að vera búinn, alla vega sért þú það.

Lifið í friði.

30.3.08

breyttir tímar

Tímabreytingin. Alltaf jafn erfið.

Lifið í friði.

28.3.08

kannski virkar þetta betur

Ég bjóst við hörðum umræðum um Kína og hvað ég væri naíf og vitlaus en... ekkert gerðist. Sama ládeyðan hér og vanalega. Ég ætla að prófa aðra yfirlýsingu í von um hörð viðbrögð:

Ég sef í nærbuxum og náttfötum, sofna oft í sokkum en sparka þeim þó af mér áður en ég vakna.

Lifið í friði.

Peking

Ég er alfarið á móti þeirri hugmynd að sniðganga Ólympíuleikana í Peking. Það er að segja, að íþróttafólkið verði ekki sent. Mér er alveg sama hvað verður svo um áhorfendafjölda á staðnum, en að feitur og frekur lýðurinn sitji og ætlist til þess að blessað íþróttafólkið sjái um að veita kínverskum stjórnvöldum rassskell finnst mér firra.
Ég hef aldrei stundað íþróttir sjálf í öðrum tilgangi en að halda sjálfri mér við. Ég hef aldrei keppt í neinu nema jú, dansaði einhvern tímann við Kool and the Gang en það er sem betur fer grafið og gleymt, var hvorki fest á filmu né talað um það í fjölmiðlum. Ég hef hins vegar umgengist íþróttafólk töluvert og veit því margt um blóðið, svitann og tárin. Alla sjálfboðavinnuna og ástríðuna sem þarf til að reka fólk áfram. Allt hið óeigingjarna starf sem unnið er neðan frá.
Mér er slétt sama um kapítalíska rammann, ég bið forláts, en ég á mjög auðvelt með að rífa hann frá hinum eiginlega atburði, því þegar ákveðin íþróttamanneskja fær að vita að hún komist, því þegar hún fær að vita hvort hún fær styrk til að komast eða hvort hún og fjölskyldan þurfi bara að blæða úr eigin vasa (sem fólk gerir vitanlega) og þegar hún svo stendur á vellinum með keppendum hvaðanæva sem hafa mismikið þurft fyrir því að hafa að vera þarna. Þetta eru hinir eiginlegu Ólympíuleikar og reyndar á þetta við alla stóra íþróttaviðburði. Auglýsingaskrum, skrautsýningar og kampavín í einkastúkum kemur því ekkert við þó það hafi verið skapað í kringum þetta af einhverjum bissnissgaurum.

Ef ykkur langar að veita kínverskum stjórnvöldum rassskell getið þið ákveðið með sjálfum ykkur að kaupa aldrei neitt sem er framleitt í Kína. Ef ykkur langar að veita þeim gott og gegnt aðhald, getið þið t.d. mætt fyrir utan kínverska sendiráðið sem mun vera á Víðimelnum og mótmælt óréttlætinu. Sístækkandi hópur fólks mætir þangað á hverjum laugardegi kl. 12. Það er flott. Hér er örlítil hugleiðing um hvað er flott við það.

Og húrra fyrir íþróttafólkinu okkar, þau eru frábær og eiga fyllilega skilið að fara á Ólympíuleikana, burtséð frá því hvar þeir eru haldnir.

27.3.08

börnin

Sólrún (6 síðan í febrúar) er að skrifa og Kári (4 síðan í nóvember) stafar fyrir hana. Hún teiknar alveg frábærar myndir, hermir eftir myndum úr bókum eða teiknar eftir hlutum og er alger listakona. Hins vegar hefur Kári ótrúlegan rithæfileika. Hún lætur okkur ennþá stafa allt ofan í sig en Kári tók sig til fyrir þó nokkrum mánuðum og skrifaði nöfn allrar fjölskyldunnar á blað án þess að nokkur aðstoðaði. Reyndar stóð Kritsín, en allt annað var rétt stafsett.
Börnin mín hafa sitt hvora snilligáfuna (foreldrar mega segja svona, hvernig á maður annars að þola það að þurfa að segja hengdu upp úlpuna þína, gakktu frá skónum þínum, farðu í skóna, ekki týna húfunni þinni, vertu róleg(ur), reyndu að borða yfir disknum þínum, vatnið á að vera ofan í baðinu, ekki naga fötin þín, puttana úr munninum, heilsaðu, kveddu, kysstu, sníttu þér, farðu á klósettið, ekki gleyma að sturta niður, þvoðirðu þér um hendurnar...trekk í trekk aftur og aftur alla daga allan ársins hring), verst að geta ekkert erft frá þeim, meðaljóninn sem ég er.

Lifið í friði.

veðrið, landið, miðin og heilsan - það mætti halda að ég væri á elliheimilinu

Veðrið hér er rysjótt og leiðinlegt, kalt og rignir oft þó sólin glenni sig inn á milli. Ég er farin að þrá sumar og sól af miklum alvöruþunga, ég er næstum viss um að þegar hann hlýnar, munu áhyggjur mínur hverfa. Ekki að þær séu dögg en þær hafa einhverja sameiginlega þætti með dögg, þær hverfa fyrir sólu.

Í dag, þegar ég var búin að vakna upp af doða í lestri um hljóðkerfisfræði við að allt í einu var farið að tala um ferðamálafræði sem reyndist svo þegar sellurnar vöknuðu og lásu rétt úr stafarununni vera ferils... jæja, ekki ferðamálafræði, fór ég í bað með bleikri froðu.
Ég á góðar vinkonur sem hafa þann ágæta sið að gefa mér gott í baðið í afmælisgjöf. Ég held ég geti sagt með sanni að slíkar vinkonur eru guðsgjöf.

Annars kom svo í ljós hjá lækninum að dóttir mín er með hálsríg eftir fallið um daginn. Ekki hafði móðurinni dottið sá möguleiki í hug en sífellt kvart um verki í eyrum og þar niður (eftir hálsinum sé ég nú, ég var alltaf að hugsa um holin, ekki vöðvana) rak hana með barnið til sérfróðrar manneskju. Svona er það nú stundum til einhvers að kíkja til læknis.

Lifið í friði.

Athugasemdirnar hér fengu mig til að svelgjast verulega á hafragrautnum.
On s'amuse dans la basse cour, hein?

Annars gekk stefnumótið vel í gær, við vorum sammála um að við hefðum hvorugar breyst, bara elst samtaka en báðar svipaðar týpur og áður. Stephanie var í sömu stuttu víðu mussunni sinni og þröngum síðari bol undir sem náði vel yfir víðar buxur sem voru hálfgirtar ofan í háæluð stígvél.
Við ræddum aðeins brottför hennar og hún sagði mér ýmislegt. Minningar um það þegar ég kom og frétti að hún væri farin kviknuðu í huga mér og hvernig þau sátu alveg gáttuð á þessu fólkið sem hafði komið sér fyrir á heimilinu, alveg hissa á að hún sagði ekki einu sinni bless um leið og þau lýstu því að hún hefði m.a.s. skrúfað niður hillur yfir sófanum þar sem tvö (eða fleiri) sváfu. Ég vissi náttúrulega hvers vegna þau sváfu slíkar aðfarir af sér, en þau virtust ekki tengja þetta neinu öðru en argasta dónaskap í henni. Fólk er... já...

Nú á ég heimboð í lítið hús í Svíþjóð. Þar vaxa plómur og ferskjur í garðinum. Þar er köttur og tveir ljóshærðir síðhærðir drengir. Og þar er hún Stephanie sem býr til jurtaseyði sem eru ýmissa meina bót. Mig langar. Ég hef reyndar lengi verið á leið til Svíþjóðar og á ansi marga til að heimsækja þar. Og vitanlega er græni kjóllinn hennar Liv einhvers staðar þarna, bíðandi eftir mér pressaður á herðatré.

En þangað til verður það lestur og ráf um völundarhús íslenskra orða á milli þess sem ég vel matseðla, panta miða og geng frá ýmsum lausum endum.

Lifið í friði.

26.3.08

tengill dagsins

er þessi ósköp

Lifið í friði.

minningar

Ég er búin með Minnisbók og stóð við það að byrja strax á henni aftur. Sé ekki eftir því.

En auðvitað les ég í litlum skömmtum því mitt helsta lestrarefni þessa dagana fjallar um morfem og fónem, eða myndön og hljóðön, sem mér finnst falleg orð og reyni að nota, en það er samt ótrúlega erfitt.

Ég er komin í hálfgert panikástand varðandi prófin. Það er stutt í þau, nú senda kennarar manni m.a.s. æfingaverkefni fyrir lokapróf og alls konar annað stöff sem fær magann hreinlega til að snúast við. Prófskrekkur er mættur. Og apríl ansi bissí mánuður í vinnu þar að auki.
Ég verð að ná þessu. Svo er ég byrjuð að búa til umsókn um framhaldsnám, M.A.-nám í þýðingarfræðum. Samt veit ég ekkert hvort eitthvað verður af því eða hvort ég verð bara orðin stöndug bissnesskelling áður en ég næ að snúa mér við. Eða dauð úr prófskrekk?
Ég skil ekki hvernig Sigurður Pálsson náði að lesa allt þetta sem hann las fyrir utan almennt námsefni.

Best að reyna að klúðra út úr sér verkefni dagsins, dagurinn styttist aðeins óforvarendis hjá mér í gær svo ekki varð því lokið.
Ég get nefninlega alls ekki sleppt stefnumótinu sem ég á í eftirmiðdaginn. Þá fer ég að hitta hana Stephanie Simon sem leigði með mér í París fyrir margt löngu síðan. Svo flutti ég út og stuttu síðar flutti hún út um miðja nótt eftir að hafa safnað saman dótinu sínu klofandi yfir fylleríisdauðar manneskjur sem lágu á víð og dreif um blessað fyrrverandi heimili mitt. Hún bara hvarf og spurðist ekkert til hennar fyrr en að hún fann mig á blogginu fyrir nokkru síðan. Hún er þýsk, bjó í Englandi þegar hún fann mig en er nú flutt til Svíþjóðar með mann og 2 stráka. Ég hlakka mikið til að fá að hitta hana aftur. Spennandi verður að sjá hvort við eigum eftir að rifja upp gömul minningarbrot eða hvernig spinnst úr samtalinu.
Hún á alnöfnu sem er söngkona í Las Vegas og því réð Google aldrei við að finna hana fyrir mig. Kristín Jónsdóttir gúgglast hins vegar helvíti vel.

Lifið í friði.

Lifið í friði.

25.3.08

kjánaprik

eruð þið, haldið þið í alvöru talað að ég fari að kalla einhverja konu sem ég veit ekki hvernig lítur út (nema náttúrulega að hún er einfætt), hvað þá að ég viti eitthvað um hennar persónuleika, norn? Ég er nú orðin nógu gömul og lífsreynd til að A) trúa varlega skilnaðarsögum, B) trúa varlega því sem sagt er um fólk í fjölmiðlum og C) vantreysta dómgreind dómara.

Og mér er slétt sama um Heather Mills (sem ég hefði ekki vitað hvað heitir ef hún hefði ekki verið nefnd hér í athugasemd) og Paul McCartney, svona sem fólk meina ég og hef ekki nokkra einustu skoðun á því hvort þeirra er pakk, eða hvort þau séu nokkuð pakk yfirhöfuð.

Nornin sem mig dreymdi er ALVÖRU norn og ég var að hugsa til hennar út af ákveðnum hlut sem ég var að spá í hvort ég ætti að láta galdra fyrir mig.

En nú er það blessaður skólinn og vinnan á ný eftir erfiða helgi. Og kannski smá galdur, en fyrst þarf ég að átta mig á nokkrum atriðum í sambandi við það mál allt saman.

Lifið í friði.

24.3.08

nornadraumur

Mig dreymdi norn í nótt. Líklega vegna þess að ég var að hugsa til hennar í gær.

Lifið í friði.

beinagrind

Fyrstu viðbrögð: Ah, loksins verður Geirfinnsmálið leyst.
Síðan: Er Arnaldur farinn að skrifa á mbl.is?

Mér þætti það reyndar ágæt hugmynd að láta Arnald skrifa blöðin.

Í gær hlustaði ég á alla útkomna þætti í spurningakeppni fjölmiðlanna og er því vitrari en áður. Ekki veit ég þó hvað únsa er þung, en Ævar Örn er með fjári fínan tónlistarsmekk og góða útvarpsrödd. Svo skrifar hann líka góðar glæpasögur og hefði svo sem alveg getað verið nefndur í stað Arnaldar hér að ofan. En Arnaldur er líklega ómarkaða gildið í glæpasagnarithöfundaliði Íslands.

Lifið í friði.

22.3.08

stundum

Stundum, þegar ég villist inn á alvarleg blogg um lífsgildi og svoleiðis, fæ ég smá samviskubit yfir að vera léttúðug. Ég á víst að segja að lífið sé skítt, að Íslendingar séu materíalískir plebbar og allt það. Eða...?

Annars er það helst í fréttum að mér er boðið í SINGSTAR partý í kvöld. ÚJÉ. Loksins, loksins, segi ég nú bara.

Lifið í friði.

blind stefnumót

Ég fer að vissu leyti á blint stefnumót í hvert skipti sem ég fer í vinnuna.
Auðvitað hitta allir sem stunda einhvers konar þjónustustörf nýtt fólk mjög reglulega en trúið mér það er annað að standa í verslun eða á veitingahúsi og afgreiða heldur en að mæta eins og ég geri í anddyri hótels eða á ákveðið götuhorn og heilsa fólki og ætla að hafa ofan af fyrir því í nokkra klukkutíma. Það er nákvæmlega enginn "múr", ekkert afgreiðsluborð, ekkert starfsmannasvæði, ég er bara með fólkinu og verð að vera hluti af hópnum og þau hluti af mér.
En ég man í alvörunni ekki til þess að hafa hitt einhvern sem ekki var hægt að "tækla", ég hef vitanlega lent í fólki sem var erfiðara en sumir aðrir, en aldrei hef ég verið í aðstæðum þar sem ég hef virkilega óskað mér á brott.
Og oftast er ég bara sérlega heppin. Í dag var t.d. sagt við mig í kveðjuskyni að ég gæti fengið sumarbústað lánaðan ef ég ætti leið heim líkt og einhvern tímann var mér tjáð að hringja ef mig vantaði bíl, hann ætti nóg af þeim.
Ég hef reyndar oft sagt að þó margt megi segja um Íslendinga, þeir eru kannski stundum sveitó og plebbó og hjarðsveinar og undirgefnir og vinnusjúkir og materíalistar, en það sem bjargar langflestum þessara Íslendinga er að þeir eru í alvörunni góðir, það er einhver systrakærleikur milli kvenna og kumpánalegur kærleikur milli kvenna og karla. Er þetta bara nostalgía í mér? Er þetta kannski bara af því að ÉG er svo frábær? Nei, í alvöru, er þetta ekki rétt hjá mér? Eru Íslendingar ekki upp til hópa gott fólk? Er málið kannski að FÓLK er upp til hópa gott fólk?

Og svo má heldur ekki gleyma því hvað Íslendingar geta verið með góðan húmor. Stundum er ég flissandi í marga klukkutíma eftir að hafa kvatt hópa.

Sagði ég ekki að lífið væri skemmtilegt? Jú, ég sagði það.

Lifið í friði.

andvaka

og nenni ekki fram að búa til te

ég sem ætlaði að vaka alla nóttina á morgun í þrítugsafmælinu

lifið í friði

21.3.08

íslenskt altari

Í dag fór ég með hópinn stillta í eina af elstu kirkjum Parísar, á rue de Bagnolet, litlu gömlu þorpskirkjuna í Charonne.
Síðast þegar ég kom þangað voru heilmiklar viðgerðarframkvæmdir. Það duttu örlítið af okkur andlitin þegar við sáum nýja altarið, engu líkara en íslenskur trendí innanhússhönnuður hafi verið hafður með í ráðum. Eins og ég sagði, var ég ekki með myndavél á mér en þið getið áreiðanlega ímyndað ykkur útlitið, hönnunina.

Lifið í friði.

óveður

Ég sé talað um kyrrð í Reykjavík en hér fýkur yfir hæðir.

Lenti í hinu ómögulega í dag, kirkjugarðurinn stóri var lokaður vegna veðurs. Hópurinn tók fréttunum með stillingu og við tókum bara smá krók um hverfið í staðinn. Jú, jú, það blæs en ekki finnst manni nú vera óveður.
Í plöntugarðinum var hins vegar allt galopið og fólk naut ilmsins frá blómstrandi trjánum. Ég þarf virkilega að fara að venja mig á að ganga með myndavélina á mér.

Ég hlakka til helgarinnar, súkkulaði er gott.

Ég kvíði framtíðinni, gengið er slæmt, ég er hrædd um að það hafi slæm áhrif á mitt gengi.

Lifið í friði.

20.3.08

bátur kona sími póstur

Hér er ekkert páskafrí, nema á mánudeginum. Í dag er enginn skírdagur, á morgun ekki langur dagur, bara venjulegir vinnu- og skóladagar. Ég er dugleg en aldrei nógu dugleg, virðist vera. Dagurinn í dag fór ekki í neitt mál- eða hljóðfræðistagl, því miður. Bara dagskrárgerð og annað stapp sem fylgir svoleiðis púsluspili. Og reyndar um 3 klukkustundir af blaðri í síma við vinkonur.

Í gær fór ég á tvö stefnumót, fyrst við bátaeiganda og bátinn hans, skrifa um það síðar, svo við íslenska konu og áttum við spennandi spjall til hálfeitt um nóttina, rauðvín og sígó fylgdu með.

Þó ég eigi í raun allt of marga vini, sem ég næ ekki að sinna sem skyldi, er alltaf gaman að kynnast meira af góðu fólki.

Lífið er stuð.

Lifið í friði.

19.3.08

Beverly og skúta

Mér datt einmitt Beverly Gray í hug. Þær bækur á ég ekki, því mamma átti þær ekki og ég fékk þær lánaðar hjá vinkonu hennar. Sú átti ekki til orð þegar ég skilaði þeim aftur, las allan flokkinn á einhverjum undravert skömmum tíma.

Jú, ég held að stutt sé í getraunaáhugann, er bara eitthvað svo þreytt og bissí að mér fannst eins og þetta hreyfði ekkert við mér.

Nú ætla ég að hafa mig til og fara París þvera og endilanga til að skoða skútu. Ég lifi nefninlega svo spennandi lífi, je ræt.

Lifið í friði.

gisk

Ég ætla að giska á Möttu-Maju.

Það er mér samt áhyggjuefni hvað ég hef lítinn áhuga á getraunum þessa dagana. Ekki smuga að ég nenni að standa upp og renna yfir bókaskápinn til að finna hverri af sögupersónunum sem ég á til gæti hafa verið lýst svona.

Lifið í friði.

sárið



Svona lítur litla stúlkan út í dag. Hún ber sig vel, er komin á stigið: Jess, það kom eitthvað hræðilegt fyrir mig og ég get sagt öllum frá því. Strax byrjuð að spá í það hvað krakkarnir segja í skólanum á morgun.
Hún sendi kærastanum sínum fyrsta tölvupóstinn núna rétt áðan. Það er mjög sætt bréf en birting hér væri líklega brot á trúnaði.

Kamillublómin bíða enn, ég sofnaði í sófanum áður en rauðvínsglasið var tómt, maðurinn minn segir að erfitt hafi verið að koma mér í rúmið, ég trúi honum en man lítið eftir því. Svefn er betri en andvaka.

Lifið í friði.

18.3.08

taugarnar móðurinnar

Mín fór í hlaupagallann eftir smáhik því kuldinn hérna er ekkert eðlilegur. Taldi mig nú bara hafa gott af smá svita.
Börnin drifin í skóna og yfir til grannans í pössun. Sólrún stekkur inn um leið og hurðin er opnuð, tekur eitthvað óútskýranlegt stökk í loftinu (líklega tvöfaldur axel) og skellur beint á ennið í neðstu tröppu stigagangsins. Ég heyrði dynkinn og stekk til og ætla ekki að reyna að lýsa taugaþenslunni þegar ég sé fokking holuna í enninu. Í smástund fannst mér höfuðkúpan vera opin. Öskrin róuðu mig þó og stefnan var tekin á slysó. Ég gef þeim núll í einkunn fyrir mannlegu hliðina en við þurftum ekki að bíða mjög lengi, líklega bara í rétt rúman hálftíma. Hún er með stóra rifu á enninu sem var límd saman. Ég hálfsé eftir að hafa ekki heimtað saum, er nokkuð viss um að örið gæti orðið dálítið áberandi. Á miðju enninu.

Svitinn í kvöld var því eingöngu í formi stresss (?) og nú sit ég hér með rauðvín í glasi og er enn eins og hengd upp á þráð. Kamillublómin bíða þess að verða sett í sjóðandi vatn, í nótt skal ég sofa.

Lífið er svo skemmtilegt því maður veit bara hreinlega aldrei hvað bíður mann handan hornsins.

Lifið í friði.

flökkusaga eða ekki?

Viljiði plís segja mér hvort þetta er flökkusaga eða sannleikurinn sjálfur? Mér finnst þetta alveg geta verið möguleiki sem orð sem hafa verið látin falla en á erfitt með að trúa því að þetta hafi verið prentað inn í boðskort.
Ég hef heyrt þessa sögu áður, líklega í fyrra.

Lifið í friði.

í nótt

Stress er ekki gott svefnmeðal.

Í nótt las ég svo til alla Minnisbók Sigurðar Pálssonar. Hún er góð. Stundum verkjaði mig af þrá eftir þessum tíma, tímanum þegar maður uppgötvar París, Parísarbúana, kaffihúsalífið, söfnin, Polly Maggoo...

Ég fékk einu sinni símskeyti, það var á tvítugsafmælinu mínu og var hringt inn til au-pair fjölskyldunnar, heimilisfaðirinn tók við því og skrifaði á lítinn bréfmiða sem ég á ennþá:

I litlu horni i hjarta thinu ertu alltaf tvitug

Ég hef notað þetta sem möntru en stundum finn ég óþyrmilega vel fyrir því að ég er ekki tvítug lengur.

Mér tekst ansi oft að ná að spjalla við ókunnuga, en það er ekki lengur fólk með dapurt augnaráð á kaffihúsi. Dapra augnaráðið á kaffihúsum er mest spennandi viðmælandinn. Ég er meira að eiga stuttar samræður við kerlingar í búðinni. Ekki nærri því eins... nýtt... finn ekki orðið, skrifaði fyrst dulúðugt en það er ekki það.

Sigurður notar orðið mjóstræti, það er fallegt orð sem ég kann en kann þó ekki að nota. Prófa í næsta göngutúr að koma því að.

Sigurður skrifar ótrúlega fallega til konunnar sinnar, sem hann kallar KJ, en ég er líka KJ og einu sinni var hringt í mig þegar ég bjó á Íslandi og ég áttaði mig á því um leið að leitað var að konu Sigurðar.

Ég er alveg að verða búin með bókina og ég ætla að lesa hana strax aftur, áður en ég skila henni.

Lifið í friði.

17.3.08

Madame Snævarr

þegar orðin voru gersamlega farin að öskra í höfðinu á mér ákvað ég að horfa á Sigríði Snævarr rabba við Evu Maríu. Það var góð hugmynd. Mér líður ögn betur. Ögn. Þetta verður á netinu út þessa viku.

Ef þið hafið horft, eða ætlið að horfa: Ísjakinn var ÆÐI.

Sigríður er ótrúlega flott kona og merkileg.

Lifið í friði.

verkstol

Yfir mig hellist einhvers konar angistartilfinning. Þreyta og vonleysi. Upptökur á beyg og morði eru óáreiðanlegar, heyri sumt ekki allt. Skil ekki neitt, þannig lagað séð. Eða skil ekki hvað það er sem ég á að skilja. Engin einkunn komin fyrir síðasta verkefni og engin einkunn komin fyrir miðsvetrarverkefnið sem ég vann uppi í fjalli. Líður eins og ég ætti kannski að segja mig úr kúrsinum til að komast hjá allsherjarniðurlægingu en samt er það svo innilega gegn minni sannfæringu að hlaupast undan verkefnum. Verkefni eru til þess að sigrast á þeim, ekki til að flýja undan. Ég tel slíka hegðun bera vott um almennan aumingjagang og hvern sigur á slíkri löngun sem nýjan stein í minn andlega sigurboga.

Svo þyrfti ég að vinna töluvert en ég bara ætlaði að nýta daginn í dag í námið. Það var planið. Ekki það að mín innri sannfæring segi mér að ég verði að fara eftir plönum, en þetta er í raun eini dagurinn í þessari viku sem ég hef heilan og óskertan fyrir mig. Aðra daga eru börnin heima eða ég að vinna. Ég geri ansi oft plön sem ég raska og tel það bera vott um aðlögunarhæfni.

Kannski hefði ég ekki átt að fá mér tveggja mínútna grænt te, of örvandi á taugarnar? Þær eru þandar, vel þandar. Ég tel það bera vott um taugaþenslu [sic]. Þið verðið að fyrirgefa mér, mér líður í alvörunni ekki vel.

Best að fara og brugga fjögurra mínútna skammt til að róa mig niður. Er nokkuð hættulegt að leika sér með upp og niður skammta af grænu tei? Ég tel ekki að svo sé.

Te-i?

Lifið í friði.

í dag á morgun

Í dag væri ég til í að grúfa mig yfir niðurstöður greinanna tveggja í Lesbókinni um Mónu Lísu og Cörlu Bruni sem segja hvoruga vera til eða a.m.k. ósýnilegar.

Í dag væri ég til í að grúfa mig yfir setningu sem ég fann á netinu um niðurrif gettóanna í Mið-Evrópu og það látið líta út fyrir að vera hin rökrétta aðgerð, húmanísk og eðlileg þróun. Þar er aðeins hálf sagan sögð. Blaðakonan spyr sig ekki hvert íbúarnir eru sendir og þögnin um það leyfir manni kannski að trúa því í smá stund að í stað risablokkanna hafi verið byggðar litlar resídensur, sem hún kallar fjölbýlishús, mann- og lífvænlegri. Ó, að heimurinn væri svo fagur.

Í dag væri ég til í að taka fram hjólið mitt og hjóla niður í búðina sem selur lífvænar vörur og kaupa mér þurrkaða ávexti og ýmislegt fleira góðgæti.

Í dag grúfi ég mig yfir skólabækurnar, reyni að hlusta á beygs- og morðtímana í stolinni PC-tölvu og reyni að komast áfram í lesefninu sem ég skil ekki.
Eins gott að vera dugleg í dag, á morgun er geymslustofnun barnanna nefninlega lokuð, enn eitt verkfallið boðað hjá langþreyttri kennarastéttinni. Á morgun mun ég ekki heldur grúfa mig yfir greinar úr Lesbók eða af netinu. Og líklega hvorki hinn né hinn.

Lifið í friði.

16.3.08

lygaralubbi deyr

Það er lítið að gerast á blogginu. Er þetta alltaf svona á sunnudögum?
Ég var að horfa á enn einn þáttinn um sönn sakamál. Í þetta sinn var fórnarlambið alsírskur opinber starfsmaður sem hvarf og auðvitað miðaðist rannsóknin í upphafi við það að um pólitískt mál væri að ræða. Fljótlega átta lögreglumenn og eiginkona sig þó á því að maðurinn lifði tvöföldu lífi og að hann hefði misst hjákonuna í skotárás brjálæðings nokkrum mánuðum fyrr. Því máli man ég mjög vel eftir, maður sem stóð upp á bæjarstjórnarfundi og plaffaði niður fólk og tókst svo að henda sér út af fjórðu hæð í gæsluvarðhaldi svo enginn veit hvað fyrir honum vakti. Eftir þessar uppgötvanir kemur svo í ljós að hann var búinn að "endurtvöfalda" líf sitt, þ.e. trúlofaður í þriðja sinn.
Þá fer löggimann að gruna að kallinn gæti nú hafa horfið fyrir annað en að vera að vinna í alsírskum málum í Frakklandi.

Og þegar líkið finnst í skotti bíls hans og farið er að rannsaka símanotkun hans og svo fjölskyldu konu nr. 2 sem hafði séð hann síðust þegar hann kom í heimsókn að kyssa litlu 4 ára stelpuna sína, var nokkuð ljóst að þau gætu ekki verið með alveg hreint mjöl í pokahorninu.

Það eina sem þær mæðgur sem réðust á hann og börðu til bana vissu, var að hann var að skíta út minningu dóttur og systur með því að koma með aðra konu inn á heimili þeirra og sofa í rúminu þeirra með henni. Þær vissu ekkert um fyrstu eiginkonuna og börnin fjögur, né að faðir hans væri enn á lífi (dauði hans var fyrri afsökun fyrir frestun á brúðkaupi).

En hann hafði reyndar saurgað minningu dóttur og systur með því að segja þeim að hún hefði ekki einu sinni verið hrein mey þegar hann kynntist henni og klykkt út með því að hóta þeim að hann væri að fara að taka dóttur sína af þeim og fara með hana til Alsír.

Móðirin trylltist og fór í slag við hann, dóttirin skerst í leikinn og grípur pönnu og slær hann aftur og aftur. Móðirin fór svo og náði í hníf og rak í gegnum hjarta hans, en þá var hann reyndar dauður eftir högg á hálsinn sem kæfði hann.
Þetta er a.m.k. atburðarásin sem fór fyrir rétt, ekki mun ég gleyma lögmanninum í bráð sem segir að hann viti nákvæmlega hver gerði hvað og hvernig og gæti hafa verið að gefa í skyn að opinbera útgáfan sé ekki sú rétta. Það voru tvær aðrar systur til og önnur þeirra og einn frændi voru stödd á heimilinu þegar morðið var framið.
Dóttirin fékk tólf ára dóm sem var styttur í níu í Hæstarétti, móðirin fékk tvö ár, stytt í 18 mánuði, afplánaði 11 mánuði og býr áfram í húsinu sem glæpurinn var framinn í.

Ekkert kom fram um hvað varð um dótturina, eitt aðalfórnarlambið í þessari sögu, missir móður sína í tilgangslausri skotárás brjálæðings og svo myrða móðursystir og amma pabbann. Hún gæti kannski orðið frægur rithöfundur þegar hún verður stór.

Já já, það er alltaf upplífgandi að horfa á svona sakamálaþætti. Og voðalega gott að hugsa til þess hvað maður lifir fábrotnu og eðlilegu lífi án lyga og svika. Eða...?

Lifið í friði.

úlfakreppa

Sólrúnu langar út að hjóla. Í rokinu og rigningunni. Kári vill vera inni. Í hlýjunni.

Ég get ekki skipt mér í tvennt. Ég get ekki ákveðið hver á að ráða. Það væri voða gott að skreppa út að viðra sig áður en afi og amma koma í kaffi. Það væri voða kósí að vera bara inni í þessu leiðindaveðri.

Ég get þetta ekki.

Lifið í friði.

ef ég væri Guðni Kolbeinsson

myndi ég líklega segja af mér núna

en ég er bara Kristín óforskammaða og svara fullum hálsi að þeir sem gera aldrei villur eru þeir sem gera aldrei neitt

ég lagaði villuna líka og kannski sá þetta enginn

hér er rigning og rok og eiginlega niðamyrkur

ég kaus kommúníska flokkinn í 2. umferð bæjarstjórnarkosninganna

Lifið í friði.

ég óska mér friðar í heiminum

Ég mæli með að þið lesið ávarp Steinunnar Rögnvaldsdóttur. Og ég mæli líka með því að þið sjáið myndina Redacted, þó að ég hafi bölvað henni eitthvað um daginn. Hún situr í mér, þetta situr allt saman í mér enn sterkar en áður og ég held að það sé hollt.
Hins vegar veit ég ekki neitt um það hvernig ég get snúið mér í því að stöðva þennan ósóma. Er nóg að hafa meðvitund þegar aksjónin er engin?

Lifið í friði.

15.3.08

Upplifið franska stemningu á Íslandi

Það verður kannski hægt í dag, og líkurnar margfaldast ef þú leggur þitt af mörkum:

Stríðinu í Írak mótmælt,

á útifundi á Ingólfstorgi (það er gamla Hallærisplanið),

kl. 13.


Ég verð ekki þar en ég hef góða afsökun eins og vanalega.

Lifið í friði.

14.3.08

Ítölsku Parísardömurnar

Það eru ítalskar Parísardömur út um alla Lesbók.

Lifið í friði.

ávísun

Ég veit aldrei hvort ég á að skammast mín eða kætast þegar ég þarf að útskýra fyrir íslenskum ferðalöngum að stórfyrirtæki nokkuð sem ég hef töluvert þurft að skipta við fyrir hópa, samþykkir aðeins eitt greiðsluform: Ávísanir.

Lifið í friði.

hlaup

Nú fer ég út að hlaupa. Hljóp í spik í gær með litla skóladrengnum frá LU, hleyp það af mér í dag. Hvað kallaði Málbein þetta? Sukkjöfnuður, var það ekki?

Lifið í friði.

13.3.08

val

Um stund var ég komin að því að draga fram hlaupagallann og skóna en í staðinn fékk ég mér súkkulaðikex og mjólk. Það virkaði. Kannski hefðu hlaupin virkað líka en það verður þó aldrei sannað eða afsannað svo eins gott er bara að hætta að hugsa um það.

Lifið í friði.

þessi dagur

hefði nú alveg mátt missa sín, að minnsta kosti það sem af honum er, bölvað stapp, ruglingur, sorg og vesen, en honum er ekki öllum lokið.

Í upptalningu í gær vantaði alveg súkkulaðikökuna sem ég bakaði fyrir afmælisveislu dóttur minnar í skólanum í dag. Ég var búin að baka aðra köku fyrir löngu síðan en afmælishaldi var frestað vegna gubbupestarinnar (ég vona að enginn smitist af því að lesa orðið, gubbupestin er gleymd og grafin hér).

Lifið í friði.

amma pönk og hvítvínsglasið

Ég fékk bréf frá konu í morgun sem er alls ekki amma mín en ég kalla hana stundum ömmu pönk. Hún hefði kannski átt að fá kafla um sig í ömmukaflanum fyrir það, en ég lít frekar á hana sem eftirlætis tengdamömmu mína en ömmu svo það passar líklega ekki alveg. Kannski geri ég einhvern tímann lýsingu á henni þó ég sé afar hikandi við að lýsa fólki sem ég veit að les mig en amma pönk er einn af mínum dyggustu lesendum. Að hennar beiðni lagaði ég setningu um hafragraut og slátur og við yfirlesturinn lagaði ég dálítið annað sem mér finnst nauðsynlegt að þið sjáið, það var alls ekki ljóst hvað hvítvínsglasið var fyndið:

Amma kom og hélt upp á áttræðisafmælið sitt í París. Ég gleymi því ekki að þegar ég þurfti að hlaupa heim eftir tungurótartöflunum, skildi ég hana og mömmu eftir við kaffihús og kenndi þeim að biðja um kaffi kremm. Þegar ég kom til baka sátu þær með hvítvín í glasi, glottið sem ömmu tókst ekki að leyna er ein af mínum eftirlætisminningum um hana. Klukkan var um níu að morgni, glottið var blanda af skammar- og prakkarasvip.

Lifið í friði.

12.3.08

Miðvikudagar eiga það til að hverfa út í vindinn, vera bara samverustund með börnunum án þess að nokkuð sé gert "af viti", því auðvitað teljast samverustundir með börnunum bara rugl og tímasóun á free-lance heimili eins og okkar.
En í dag byrjaði ég á því að skutla vinkonu út á völl, skaust heim og náði í vinkonu Sólrúnar og skutlaði þeim í tónlistarskólann, skaust í búðina á meðan þær slógu trumbur og sungu, settist svo niður eftir hádegismatinn og rúllaði blessuðu verkefninu upp á minn hátt (get ekki gert það á neinn annan hátt, það gefur auga leið), skaust svo með manninum mínum í tækjabúðina þar sem við létum skoða blessaða jólagjöfina sem við gáfum okkur saman, harða diskinn sem á að taka við allri tónlistinni og losa pláss í íbúðinni. Hann hefur aldrei virkað. Á fjörtíu mínútum var málið leyst, eitthvað format-vesen svo nú verður vonandi sett í spíttgírinn og diskum hlaðið inn svo ég fái pláss fyrir skóladótið mitt. Og nú ligg ég hér að hvíla mig aðeins og reyni að gera það upp við mig hvort ég á að senda verkefnið eða hvort ég á að reyna að gera betur. Eftir tíu mínútur hoppa ég í gellugallan og skutlast niður í bæ að hitta nokkrar góðar konur. Ég held ég fái mér kampavínsglas, svei mér þá ef ég á það ekki drulluskilið. Ég ætla að setja á mig varalit en hef ekki enn ákveðið hvort ég fer á hælum eða ekki.

Lifið í friði.

11.3.08

galli

Það er einn stór galli við heimaverkefnið: ég þarf að hugsa. Og einbeita mér.

Ef svo væri ekki, væri ég löngu búin að rúlla því upp.

Lifið í friði.

10.3.08

ömmurnar

í morgun var ég að hugsa um afa minn, einhver hugrenningartengsl að verki. Ég átti bara einn afa sem ég þekkti almennilega. Hann var fósturfaðir pabba míns. Ég hitti og man vel eftir móðurafa mínum, blóðföður mömmu, en hann var aldrei alvöru afi, hafði ekki alið mömmu upp og var bara einhver svona spennandi fjarlæg týpa. Það sem var mest spennandi við hann voru allar dætur hans sem ég er einmitt búin að ná að kynnast nokkuð vel nýlega.

En ég átti margar ömmur og fór að hugsa til þeirra vegna spurningar Nönnu um það hvað ömmur gera.
Amma Helga og Amma Kristín voru konurnar sem ólu foreldra mína upp og eru því "aðalömmurnar". Amma Helga var blóðmóðir pabba og amma Kristín var fósturmóðir mömmu.

Amma Helga átti mörg börn og enn fleiri barnabörn. Hún átti ekki mikið af peningum en hún var mikil listakona, prjónaði, saumaði, óf og teiknaði og málaði. Það liggja ótrúlega falleg verk eftir hana og stundum sakna ég hennar svo mikið að mig verkjar um allan líkamann. Ég á eina lopapeysu eftir hana og svart pils sem hún saumaði á mig úr þjóðbúningaefni. Ég passa reyndar ekki í það lengur en geymi það handa Sólrúnu. Hún sýndi mér teiknibækur og kenndi mér ýmislegt í teikningu, lét mig prjóna og bakaði flatkökur á prímus úti á grasflöt í Kjósinni. Þar eyddi ég mörgum sumrum, með henni og afa og frændsystkinum í góðu yfirlæti, kannski ekki neinu ofurhreinlæti en vel nærð andlega og líkamlega.

Amma Kristín var ólík Helgu, fínni frú, meira umhugað um að hafa sig til. Hún lét mig líka prjóna, keypti píanóið og greiddi fyrir píanótímana, fór með mig í Þjóðleikhúsið og Iðnó og hún átti spennandi háaloft sem hún leyfði okkur stundum að koma með sér upp á. Þar voru rauðköflóttar töskur með vel samanbrotnum fötum, mikið af þeim gat ég notað sem táningur. Ég á tvö hekluð teppi eftir hana, annað þeirra er úr þrílitum dúllum, allar eins og átti að verða kjóll á mömmu. Fagurlega útprjónaðar peysur hennar vöktu oft mikla athygli.
Amma kom og hélt upp á áttræðisafmælið sitt í París. Ég gleymi því ekki að þegar ég þurfti að hlaupa heim eftir tungurótartöflunum, skildi ég hana og mömmu eftir við kaffihús og kenndi þeim að biðja um kaffi kremm. Þegar ég kom til baka sátu þær með hvítvín í glasi, glottið sem ömmu tókst ekki að leyna er ein af mínum eftirlætisminningum um hana. Klukkan var um níu að morgni, glottið var blanda af skammar- og prakkarasvip.

En svo var til amma Lauga sem var móðursystir blóðföður pabba. Hún fékk pabba mikið til sín sem barn, hann var hennar eini arfur eftir systursoninn sem hún hafði alið upp. Lauga kom stundum til okkar í blokkina í Arahólum, mamma var á nálum og allir þurftu að beygja sig undir hennar reglur. Þjóðlegi rétturinn hafragrautur með slátri er sterklega tengdur minningum um hana, mér þykir það ennþá góður réttur. Lauga kenndi mér margt um hjátrú og sagði spennandi sögur úr sveitinni. Hún las mikið og jólapakkinn var alltaf bók og par af þykkum fastprjónuðum ullarsokkum, oft marglitir því hún gerði vitanlega við hæla og tær og notaði þá aðra liti. Ég á ennþá sokka frá henni. Lauga var ekki amma mín en hún var mjög sterk ömmufígúra í lífi mínu.

Amma Magga var í raun bara kölluð amma Magga en hafði engin svona ömmuáhrif á mig. Hún var tíguleg og flott en hún var fjarlæg, við hittum hana einu sinni á ári, á Þorláksmessu. Hún var kona afa Finns þessa sem var líka fjarlægur og dularfullur, hún var móðir allra frábæru kvennanna sem ég minntist á hér að ofan. Amma Magga gaf alltaf hljómplötu í jólagjöf. Sú mikilvægasta var án nokkurs vafa Lög unga fólksins, en hana hlustaði ég á fram og til baka alla leið upp í Menntó.

Amma Hermína er enn á lífi. Hún var í Ameríku en býr nú á Íslandi, við þekkjumst í raun lítið og þó hún sé blóðamma mín, hef ég ekki miklar barnabarnstilfinningar gagnvart henni. Gaman að hitta hana og spjalla en hún hefur svo sem aldrei þóst vera í neinum ömmuleik við okkur, aldrei rembst við að "gera það sem ömmur eiga að gera". Hún er meira svona bara að bjóða manni í glas og ræða um Brad Pitt. Hún kallar Arnaud Arnold og er eina manneskjan úr fjölskyldunni sem nennir að spjalla almennilega og lengi við hann á ensku. Enda er hún svag fyrir frönskum mönnum.

Allar þessar konur reyndu mikið, lifðu sannarlega tímana tvenna. Það var/er töggur í þeim og ég get ekki annað en ímyndað mér að eigin sjálfsmynd væri öðruvísi ef þær hefðu ekki fylgt mér, úr fjarlægð eða nálægð, takmarkalaus kærleikur "aðal ammanna" er sérstaklega eitthvað sem ég hugsa oft um og gerir það að verkum að stundum vona ég að Sólrún verði táningamamma svo ég nái að fá að verða almennilega lengi amma.

Lifið í friði.

yfir og út

Það er ömurlegt veður, spáð stormi aftur seinnipartinn.

Það er verið að malbika götuna mína. Með látum.

Ég hef þúsundir lítilla og stórra verkefna á minni könnu.

Sumt er tengt hugsjóninni, eins og t.d. auglýsingabréfið sem ég sendi út í morgun. Það tekur mig að minnsta kosti hálftíma í hvert skipti. Sem betur fer fékk ég svo fallegar þakkir og hrós fyrir að senda svona auglýsingar út um daginn að það bætir upp undarlegu bréfin sem ég fæ þar sem er hvorki ávarp á undan né kveðja í lokin, bara auglýsing og ég á bara að vita hvað ég á að gera við hana. Sumt fólk er undarlega lélegt í almennum samskiptum. Ég hef aldrei hent slíkum bréfum. Kannski er einhver akkur í þessu fyrir mig, ég minni á þjónustufyrirtækið mitt, en aðallega geri ég þetta vegna þess að mér finnst það eigi að vera samskiptaleið milli Íslendinga og Íslandsvina í Frakklandi. Og fyrst enginn annar gerir það, geri ég það bara sjálf.

Annað er tengt vinnunni, finna hótel, finna tónleikastað, finna veitingahús, semja dagskrá, semja tilboð, finna hvað það er nákvæmlega sem fólk óskar eftir, reyna að skilja hvað það vill. Hringja nokkur símtöl, senda ávísun, leggja inn ávísun...
Svo þarf ég að gera ýmislegt upp við mig, ákveða hvernig ég hef þetta í sumar, hver verður forgangsröðun, á ég að hækka verðið eða ekki? (SVAR ÓSKAST).

Síðast en síður en svo síst er það námið. Leysa verkefni fyrir miðvikudag, hlusta á tímana frá því í síðustu viku, reyna að lesa meira í bókunum, það er samt sama hvað ég les kaflana oft, þeir eru obskjúr og erfiðir áfram. Oft hef ég lent í að lesa eitthvað sem virkar óskiljanlegt en verður skiljanlegt með því að hjakka á því. Það virðist ekki eiga við í þetta sinn. Kannski þarf ég að lesa setningarnar þrjátíu sinnum í stað þrisvar áður? Kannski er þetta aldurinn?

Er það nokkuð undarlegt að það sem mig langar mest akkúrat núna, er að leggjast undir teppi, hausinn líka, loka augunum og hreyfa mig ekki fyrr en þarf að sækja börnin í skólann? Mér finnst það mjög eðlilegt. En það verður ekkert svoleiðis í gangi. Best að skella höfrunum í pott og hefja þennan dag af alvöru. Ég er alltént búin að senda auglýsingarnar, get hætt að hafa magapínu yfir þeim þar til næsta auglýsing berst mér.

Lifið í friði.

9.3.08

vinstri snú

Frakkland virðist vera að nota þessar bæjarstjórnarkosningar til að lýsa endanlegu frati á Sarkozy. Það gæti a.m.k. verið ein skýring á góðu gengi vinstriflokkanna í mörgum stærri borgum. Ekkert var talað um smábæina og mér hefur ekkert tekist að finna um Copavogure. Ekki það að ég sé að deyja úr spenningi. Hér keppa bara vinstriöfl og hafa gert áratugum saman. Verst að þau ná ekki almennilegri sátt og eyða kröftum í að bítast á í staðinn fyrir að stjórna hér af reisn.

Það var gaman að fara að kjósa. Ég fór óundirbúin, vissi ekki í hvað ég var að ana og þau halda líklega að ég sé misþroska. Ég átti að taka A4 blað fyrir hvern framboðslista og brjóta svo þann sem ég vildi kjósa saman og setja í örlítið upplitað umslag merkt franska lýðveldinu sem var með gersamlega ónýtu lími. Ég henti hinum blöðunum í ruslapoka inni í kjörklefanum, fáránlega erfitt fyrir mig að þola svona pappírseyðslu en ég þorði ómögulega að koma með listana aftur fram, þá væru þetta ekki leynilegar kosningar. Ég hefði víst getað sleppt að taka alla listana í upphafi, bara valið einhverja þrjá og passað að sá sem ég ætlaði að kjósa væri með.
Þegar ég henti áðurnefndum afgangslistum, henti ég líka blaði sem þau höfðu rétt mér með nafni mínu krotuðu á, ásamt kjörnúmeri. Svo að ég kom þarna fram og fór fyrir mennina þrjá sem sátu við kjörkassann og þurfti að játa það að hafa hent aðalskjalinu, þessu sem nr. 1 átti að stimpla áður en nr. 2 læsi hátt og skýrt nafnið mitt og nr. 3 hrópaði HEFUR KOSIÐ! um leið og ég styngi kjörseðlinum í kassann.

Ég þurfti að fara aftur inn í kjörklefann, róta í ruslapokanum og finna skjalið. Þá kom í ljós sú undarlega staðreynd að ég var á venjulega kjörlistanum en ekki á Evrópusambandslistanum sem ég átti víst að vera á, burtséð frá þeirri staðreynd að Ísland er ekki í Evrópusambandinu. Það var haldinn smá fundur með konunni sem hafði hleypt mér inn upphaflega (sem hafði einmitt tuldrað að ég væri á röngum lista) og mér var hleypt í gegn, við gátum loksins leikið leikritið okkar:

nr. 1: [púmm] (þetta er hljóðið sem heyrist þegar mikilvægt skjal er stimplað)
nr. 2: dzjonzdoutí kristen
nr. 3: A VOTÉ! (þarna þurfti hann að hvísla að mér að ég ætti að troða miðanum ofan í gatið sem hann hélt opnu með lítilli sveif um leið og hann kallaði þetta hátt og skýrt).

Þetta hefði kannski verið minna áberandi ef allir hinir starfsmennirnir á kjörstað hefðu verið ægilega uppteknir við að halda röðum í skefjum, koma fleiri umslögum fyrir á borðinu og leita uppi kjósendur í bókunum, en það var enginn inni þegar ég kom og enginn annar kjósandi kom allan þann tíma sem þetta tók mig.

Ég er hins vegar enn ákveðnari í því en áður að nú drulla ég mér í að sækja um ríkisborgararétt svo ég geti tekið þátt í forseta- og þingkosningum. Það er gaman að kjósa. Stuð.

A VOTÉ!

Lifið í friði.

kjósa

Ég er með kosningarétt hér í Copavogure.

Það er fyrri umferð á morgun.

Ég veit að ég vil ekki kjósa þau sem eru við völd núna. (einhvers konar altermondíalistavinstriblanda sem hefur ekki staðið sig nógu vel)

Ég veit að ég vil ekki kjósa þau sem voru við völd áður. (kommúnistar sem hafa verið allt of lengi við völd hér í 93 og eru slakir/daufir/sljóir)

Ég veit að hinir eru ekki sérlega góður kostur (hægri hægri hægri snú nema snú er bara lengra til hægri).

Hvar er nú bæjarfógetinn Bastían? Eða héraÐstubbur? (hér með lýsi ég yfir þörf á góðum bakara í Copavogure)

Delanoë er borgarstjóri í París, ég vona innilega að hann verði það áfram en mitt atkvæði mun engu breyta þar um. Ég er úthverfarotta. En ég er með kosningarétt. Verður maður ekki að nýta slíkt fyrirbrigði í úttlandinu?

Lifið í friði.

metró

Eftir langan vinnudag var ég óþreyjufull að komast heim hvar beið mín fagra fjölskylda að viðbættri góðri vinkonu sem stóð í eldamennsku. Upp hafa komið ýmsar hugsanlegar leiðir til að fangelsa hana hér, selja íbúðina hennar í Reykjavík (sem hún segir skuldsetta) og lifa betra lífi með eldabusku sem borgar með sér á heimilinu.

En fólkið í metró var eitthvað svo spennandi að minnstu munaði að ég gleymdi að fara út á réttri stöð.
Konan sem þusaði um það hvað hún hefði unnið mikið og ætti því rétt á því að vera bara komin heim - var líklega að krefjast fjarflutninga af borgarstjórn - var kannski ekki skemmtilegust, en er mér minnisstæðust einmitt núna. Ég áttaði mig ekki á því hvort glottandi karlinn við hlið hennar væri með henni eða hvort hann var bara hlutlaus samferðamaður í lestinni eins og ég.
Stúlkan sem stóð með stóra pokann fullan af frönskum kartöflum og reyndi að vera svipbrigðalaus meðan fólk gantaðist með "ilminn" var ansi hreint gott gaman líka.
Svo var eitthvað fleira sem gaman var að fylgjast með en sem hefur runnið út úr heila mínum við að melta góða máltíð og samverustund. Ég hoppaði út úr lestinni þegar hurðirnar voru að skellast saman (það er harðbannað). Metró er alveg hægt að defínera með vondri lykt og óþægilegri nærveru en að sama skapi líka með fullt af spennandi senum sem fáir ná að fanga án þess að bæta við: þú hefðir þurft að vera á staðnum.

Lifið í friði.

7.3.08

hljóð eða hávaði

Ég læt börnin mín sitja og glápa meðan ég reyni að leysa beygs- og morðþraut dagsins. Búin að melta þetta verkefni í þrjá daga. Ég get alveg sett orðin upp í töflu og sagt hvað ég á að nota í þáttagreininguna. Það sem vefst fyrir mér er eitt lítið orð í lokin: RÆÐIÐ. Nú sit ég hér og reyni að ræða. Ræða. Já, einmitt.
Fyrst horfðu börnin á einhverja mynd, líklega framhaldið um Litlu hafmeyjuna úr verksmiðju Disney, ég þori ekki að fara með það en mér finnst ég hafa heyrt óm af lokalaginu áðan. Svo var Latibær settur í tækið. Hljóðin eru skyndilega yfirþyrmandi óþægileg og truflandi. Þessir þættir eru virkilega agressífir, a.m.k. fyrir þá sem eru jafn viðkvæmir gagnvart áreiti og ég er.

Lifið í friði.

4.3.08

og önnur öfund

Hin öfundin er bókamarkaðurinn. Reyndar er ástandið á bankareikningum fjölskyldunnar líkt og grafið hafi verið heljarinnar snjóhús í þá en samt fæ ég fiðring þegar ég les montblogg um ferðir þangað. Ha? Ég að lesa blogg? Ó, nei, ég er að skoða lágmarkspör, afbrigði og ýmislegt fleira spennandi, alveg einbeitt og dugleg svo ég komist nú í sveitina til barnanna á eftir.

Ógn og skelfing er þó að grípa um sig í huga mér varðandi lítinn hóp sem ég þarf að koma fyrir á hóteli, fæ tómar neitanir og er farin að sjá fram á að þau verði bara að gista hér hjá mér. En eins og sonur Baunarinnar sagði: Sátt mega þröngir sitja.

Lifið í friði.

skyr

Þetta gerir mig næstum tryllta úr öfund. Skyndilega líður mér eins og ég verði að fá skyr núna, NÚNA!

Af hverju ekki í París? Er London eitthvað skyrvænlegri en París?

Var reyndar að skrifa tölvupóst til vinkonu í London í gær og segja henni að kannski ég bara drattaðist bráðum í heimsókn. Nú hafa líkurnar á því að ég láti af því verða, margfaldast.

Lifið í friði.

3.3.08

kyndug slóð

Ég skoðaði lista yfir umsækjendur um landvarðarstöðu í Mogganum og þekkti ekkert af nöfnunum.
Þegar ég skoða umsækjendalista yfir störf sem tengjast starfsmannastjórnun eða almannatengslum þekki ég oftast þrjá eða fleiri.

Af hvaða kynslóð er ég?

Lifið í friði.

afsök og orleiðing

Ég svaf eins og steinn í alla nótt, sofnaði tiltölulega snemma og vaknaði eftir klukkan átta (sem sagt svaf út) en ég er samt að hníga niður úr þreytu núna.

Lifið í friði.

2.3.08

ekki fyrir viðkæmar sálir

Ekki fara á þessa mynd, Redacted, nema þið hafið stáltaugar. Ég er miður mín. Eins gott að það er til vín í húsinu, ég þarf líklega að drekka í mig kjark til að þora að fara að sofa.
Og líka eins gott að Barnaby er í sjónvarpinu í kvöld, þar eru morðingjarnir alla vega síviliseraðar dömur með hatta eða velmegandi karlar í pokabuxum. Miklu betra en hrár raunveruleikinn í stríðshrjáða landinu.

Lifið í friði.

hann deyr örugglega í lokin... eða hún

Lýsing á reglubundnum venslum milli merkingargreinandi einda málsins.

Svona setningar þarf ég ekki eingöngu að lesa heldur einnig skilja. Er það nema von að einbeitningin sé ekkert gífurleg á þessum sunnudegi? Ekki það að veðrið sé boðlegt til annars en að liggja undir teppi með tebolla og bók (eða tölvu) í hönd en einhvern veginn næ ég ekki að lesa neitt af viti.

Við ætlum að hætta okkur út í rokið og fara að sjá nýjustu De Palma sem ég hef ekki hugmynd um hvað heitir né hver leikur í henni. Mér finnst best að fara þannig í bíó, vita sem minnst hverju ég á von á. Ef það er eitthvað sem ég þoli ekki er það þegar fólk byrjar að útskýra fyrir manni söguþráð og svo þoli ég ekki heldur þegar allir eru samdóma um snilld verka, þá fer ég í öfugsnúning og býst við hinu versta, sem reynist oft rétt afstaða.

Sem betur fer tókum við langan göngutúr í París í gær og kíktum m.a. á sögusafnið þar sem við skoðuðum hinar ýmsu myndir af París í gegnum tíðina og spáðum í myndræn götuskilti sem voru gerð fyrir ólæst fólk.

Ég er örþreytt og löt í dag, örþreytt en sæl. Ekki einu sinni merkingargreinandi eindir geta eytt sælutilfinningunni. Skíðaferðir eru góðar, um það bil þúsund sinnum betri en sólarfrí, reiknast mér til.

Kannski getur þó svar við fyrirspurn sem ég sá fyrst í dag, varðandi blessað miðannarverkefnið sem ég skilaði ofan úr fjalli aðeins slegið skugga á daginn, mín úrlausn er rétt rúmlega tvær síður en kennarinn talar um að þrjár til fjórar séu eðlileg lengd! Ég vona að ég hafi ekki verið algerlega úti að sk... ég sem fórnaði þremur morgnum á skíðum í brölt við að þröngva mér í gegnum þessar þrautir, var ég svo að misskilja eitthvað, átti þetta að vera ritgerð? Ég bara svaraði skýrt og skorinort með mínum knappa stíl sem þið lesendur hljótið að kannast svo vel við hjá mér, engar málalengingar eða útúrdúrar hér, ha?

Lifið í friði.

skíða skeið skiðum skiðið

Skíðafríi lokið, það er gott vont eins og vanalega. Gott að koma heim. Vont að fara úr fjallaloftinu, snjónum, ostunum og hvítvíninu.
Ferðin niðureftir var púl, allt of mikið af bílum á vegunum, en börnin fjögur eru svo vel upp alin og skemmtileg að það fór nú allt á besta veg. Það lá þó við að bílstjóranum yrði hent út þegar hún ætlaði að syngja Tíu grænar flöskur niður á við líka. Sumt fólk kann ekki að meta góðar heilaæfingar og hefur gleymt því hvað þetta var spennandi þegar maður var barn.

Margmennið í fjöllunum truflaði nákvæmlega ekki neitt, þetta er svo stórt svæði að það gleypti allt innihald bílanna og lestanna og dreifði því svo vel að sjaldan þurfti að bíða lengi eftir lyftum. Og brekkurnar eru meiriháttar þarna.

Veðrið var eins og best verður á kosið, sól suma dagana, köflótt stundum og svo grenjandi rigning daginn sem við fórum heim. Fíla það alltaf vel og þess vegna heppilegt fyrir mig að oftast er ég að fara burt frá Íslandi svo langoftast fæ ég að fara í rigningu.

Hnéð á mér lét ekkert á sér kræla, skíðaði eins og drottningin sem ég er án þess að þurfa nokkru sinni að hafa áhyggjur af mínum ársgömlu meiðslum. Fór ekki í pílagrímsferð í brekkuna ógurlegu, sökudólginn.

Maturinn í fjöllunum tryggir að þrátt fyrir góða hreyfingu tapast ekki eitt einasta gramm af fögrum líkama skíðaiðkenda. Ostar, pylsur og vín fljóta þarna um og gvuð mín góð hvað það er allt saman gott á bragðið. En mikið var nú gott að fá sér þistilhjörtu, maríneraða tómata og linsubaunasalat í gær.

Fjölskyldan mín er flott fólk, ekkert vesen, ekkert rifrildi, allir glaðir, kátir, sáttir og þakklátir.

Ég sá blindan mann skíða niður bratta (rauða fyrir innvígða) brekku, hélt í hendina á sjáandi konu.

Ég sá fjölfatlaða konu skíða niður í sérstökum skíðastól sem ýtt var af heilbrigðri konu.

Ég sá tvo drengi á táningsaldrinum koma skíðandi niður á stuttbuxum og hélt annar þeirra á bjórkassa á öxlinni.

Ég sá karlmann missa sig við dóttur sína því hún hafði gleymt vettlingunum sínum heima. Mamman fór úr sínum vettlingum og lét snótina fá. Pabbinn hnussaði að alltaf væri þetta eins. Þar hitti hann naglann á höfuðið.

Ég sá reyndar marga foreldra æsa sig hástöfum við börnin sín og það kom fyrir mig fyrstu tvo dagana að verða dálítið pirruð þegar þau létu sig lyppast niður í snjóinn með skíðin í kross og gerðu ekkert til að hjálpa til við að komast aftur á réttan kjöl (er þessi notkun viðeigandi?). Þau eru nefninlega slatta þung með hjálmana og á skíðunum og þar sem maður stífnar allur upp við að reyna að hjálpa þeim, verður maður ósjálfrátt einhvern veginn æstur þegar þau gera sig að slyttum. En ég ákvað meðvitað að hætta að láta þetta fara í taugarnar á mér, þökk sé æsta liðinu í kringum okkur og eftir það gekk allt mun betur.

Sólrún, Ívar og Soffía skíða um allt og kunna að beygja og bremsa.
Kári fór bara einu sinni upp í stóru brekkurnar og stóð á milli fóta minna niður, fyrst stífur og hræddur, svo losnaði um málbeinið og fékk ég þá að heyra ýmsar sögur af varúlfum og öðrum skógardýrum, gat því miður ekki tekið hann upp.

Ferðin heim gekk eins og í sögu, lentum aldrei í umferðarhnútum og náðum að stoppa bara einu sinni ef ekki er talið með skiptið þegar ég tók við stýrinu af Gullu en þá renndum við inn á afreinina og víxluðum á sætum meðan bíllinn rann áfram (þetta eru bókmenntalegar ýkjur) og töpuðum bara 30 sekúndum.

Ég er búin að lesa slatta af bloggum og bið forláts á því að hafa náð að smita einhverja af skíta- og gubbupestum. Ég á enn slatta eftir, klukkan er 8.32 á sunnudagsmorgni, ég vaknaði klukkan 7.30, fékk dásamlega gott kaffi í bolla og ligg með tölvuna uppi í rúmi. Börnin fóru beint upp í sveit með foreldrum drengsins sem við höfðum með okkur á skíði, við erum því hér barnlaus og eirðarlaus foreldrarnir en finnum okkur áreiðanlega eitthvað skemmtilegt að gera, til dæmis þarf ég að fara í gegnum marga tugi tölvupósta, gera svo sem eins og eitt skólaverkefni og hlusta á tíma síðustu viku og svo á ég að vera að vinna í dag. Stefni á að rjúka í sveitina strax á þriðjudag ef mögulegt er.

Hér er grátt og móskulegt og 12 stiga hiti. Mannmergðin í París er þéttari og agressívari en sú í fjöllunum.

Lifið í friði.