31.7.07

gott og vont og svo gott

Það er gott vont að vera komin heim að heiman.

Gott að vera komin í rúmið sitt, vindsængur eru ágætar en ekki of lengi.
Gott að vera komin í allt litla smádótið sitt aftur, já, ég verð að játa það að mér þykir ógurlega vænt um dótið mitt en ég get líka sagt ykkur það að ég er með miklar áætlanir um að grynnka á dóti í íbúðinni núna í ágúst en nánar um það síðar.
Gott að engar kókosbollur fást hérna.

Vont að geta ekki kysst mömmu og pabba góðan dag og vont að vera komin langt í burtu frá öllum hinum.
Vont að komast ekki í almennilega sundlaug.
Vont að ekki fást kókosbollur hérna.

Við skiptum á íbúðum við fjölskyldu í Reykjavík. Eins og alltaf gekk það vonum framar, hér var allt eins og það á að vera og vonandi fannst þeim hinum það líka við heimkomu.
Ég mæli eindregið með þessum ferðamáta, það er vissulega dálítið vesen að skilja íbúðina sína eftir þannig að hún þoli glöggt auga gestsins, ýmislegt sem maður drífur í að taka í gegn og því dálítið meira brottfararstress en ella. Hins vegar er gaman að vera inni í annarra manna íbúð, skoða húsgögn og niðurröðun, skipulag, litaval og ímynda sér hvernig fólkið er. Fullkomið fyrir forvitna manneskju eins og mig.
Ég er svo vel upp alin að ég fer ekki að grúska í skápum og boxum, les engin gömul bréf eða neitt slíkt og treysti því að fólk geri það ekki hér hjá mér. Ef það gerir það siptir það ekki miklu máli, ég hef aldrei fengið bréf frá Jónínu Ben (né Gerald hvað hann nú heitir). Ég á reyndar bréfabunka frá fegurðardrottningu hverrar nafn sést reglulega á forsíðum glanstímarita og slúðurblaða en bréfin eru frá því við vorum tólf til fimmtán ára og líklega ekki neitt nógu sjokkerandi og spennandi í þeim fyrir slúðurblaðahaukana.

Gestirnir okkar höfðu hins vegar skilið eftir Marie Claire Maison, svona franskt hús og hýbýlablað. Ég fletti því hér í þreytutransi í gær og hneykslaðist ógurlega á verðlagi á hönnun. Hver í fjandanum kaupir sér sólstól á fjörtíuþúsud? Eða garðstól á hundraðþúsund? Ég er svo sem alveg á því að fólk sem slysast til að verða of ríkt, spanderi nógu andskoti miklu, finnst fátt ömurlegra en ríkt fólk sem tímir ekki að eyða peningum svo líklega er þetta bara allt í lagi. En samt er eitthvað skakkt við þetta, er það ekki?
En það var ekki um þetta sem ég ætlaði að skrifa, heldur rakst ég á "ægilega smart" ruslatunnu sem lítur nokkurn veginn út eins og allar þessar upparuslatunnur sem finnast í Habitat og fleiri hönnunarbúðum. Nema hvað að þessi tunna heitir hvorki meira né minna en því sjóðheita nafni REYKJAVÍK.
Þetta fannst mér gasalega fyndið og skemmtilegt og spennandi og skil ekkert í því að þessu hafi ekki verið slegið upp á forsíðum íslenskra dagblaða, en kannski var það búið og gert?

Svo í lokin má geta þess að allir beygja sig og bukta fyrir okkur hérna, því við teljumst hafa komið með góða veðrið með okkur. Sól, blíða og 25 stig. Er hægt að biðja um eitthvað meira?

Lifið í friði.

25.7.07

opinberun stínu litlu

Ég var klukkuð hér og þar af hinum og þessum, eins og sumir aðrir, held ég að ég hafi svarað svona áður en þar sem ég játa á mig ógurlega ánægju af því að lesa svona hjá öðrum skal ég vera með:

1. Mér finnst ógurlega gaman að lesa annarra manna svör við klukki á bloggum og líka svona stöðluð viðtöl í blöðunum við misfrægt fólk.

2. Ég er svo hrikalega ómannglögg að ég kalla þetta andlitsblindu. Ég hef setið við borð og blaðrað við manneskju heilt kvöld en ekki þekkt hana á klósettinu á staðnum það sama kvöld. Ég fór daglega á framköllunarstofu eitt sumarið og skipti þar við hresst ungt fólk og var oft mikið gantast og hlegið. Ég þekkti þau svo ekki á förnum vegi þetta sama sumar, lenti í því með a.m.k. tvö þeirra að neyðast til að spyrja þó inni í mér vissi ég að ég vissi nákvæmlega hver þau voru.

3. Mér finnst kókosbollur hrikalega góðar og fæ mér alltaf nokkrar þegar ég er á Íslandi.

4. Ég fæ mér líka alltaf einn gleymmérei borgara á Vitabar sem er líklega orðin besta hamborgarabúlla landsins síðan reykingarbannið tók gildi.

5. Ég fæ mér líka alltaf Hlöllabát hjá Hlölla sjálfum, hann á ennþá búlluna uppi á Höfða. Hinar seldi hann og klikkaði eitthvað á því að nafnið fór með. Hlöllabátarnir uppi á Höfða eru frábærir, ég fæ mér reyndar alltaf þann sama og ég fékk mér fyrst, Línubát.

6. Ég er með þá áráttu að ég verð að klára ALLT tannkremið úr tannkremstúbum, ALLT sjampóið úr sjampóbrúsum o.s.frv. Um leið finnst mér óþolandi að til séu tvær túbur að óþörfu og þjáist því alltaf aðeins tímann sem líður milli þess sem ég kaupi nýja því hin er að verða búin og svo þess að ég næ ekki að kreista millimeter í viðbót af tannkremi upp úr túbunni. Já, það er stundum erfitt að vera ég.

7. Ég tel mig nokkuð góða í mannlegum samskiptum en er þó meðvituð um að þörfin fyrir að öllum líki vel við mig er líklega sjúkleg. Reyndar veit ég um nokkra sem líkar ekki við mig og sem mér er skítsama um að geri það ekki. Það var stórsigur og mikið þroskaskref þegar mér tókst að ná því að verða sama.

8. Ég endurnýjaði kynnin við eina af örfáum manneskjum sem ég hafði misst sem vinkonu núna í sumar. Við höfðum ekki sést síðan, hvað sagði hún mér? 1993? Okkur sinnaðist eftir mjög slæma hegðun mína árið 1990.
Mér varð mikið um að eiga með henni stuttan eftirmiðdag, hún á yndislegar dætur og er náttúrulega toppkona. Ég vona innilega að kynnin haldist núna. Samt hringdi ég ekkert aftur í hana enda hef ég ekki hringt í neinn eða næstum því svo til eiginlega...

Voru þetta ekki bara átta klukkatriði í þetta sinn? Ég ætla ekki að klukka neinn.

Lifið í friði.

24.7.07

la vie - oh folle été

Ég hef í rauninni ekkert að segja, en það er snilldin við eigin bloggsíðu, hér get ég látið móðan mása um ekki neitt og enginn getur bannað mér það.

Þegar ég kem til Íslands virðist ég breytast í jarðálf, missa allt samband við mannfólkið og renna saman við náttúruna og fjölskylduna mína, jarðálfana, og, það verður að játast, ekki verða fúl, ég sakna mannfólksins ekki neitt.

Sólin hefur verið sleikt, Snæfellsnesið sótt heim, kafað í sundlaugar hér og þar, Mosfellsbæjarlaugin er efst á óskalista barnanna alla daga, ég verð að játa að sturtur sem stoppa á mínútu fresti trufla mig svo ógurlega ásamt hilluleysinu í mínímalismanum í búningsklefunum, að ég fer ekki þangað alltaf með jafnglöðu geði og í aðrar laugar.
Rennibrautirnar eru hins vegar snilld og þó að samskeytin meiði mig dálítið, finnst mér ekkert smá gaman að þeytast niður þá appelsínugulu og kastast á fleygiferð út í vatnið. Ég er sem sagt þessi litla rúnnaða kerling sem ýtti börnunum til hliðar og frekjaðist fremst í röðina hvað eftir annað í sólinni á dögunum.

Síðustu daga hef ég svo aðstoðað gamla settið við að mála lítið hús á stóru landi fyrir austan fjall. Húsið þykir ekki merkilegur pappír í flotta sumarbústaðarlandinu, eigendurnir eru yfirleitt spurð strax að því hvenær þau ætli svo að byggja "almennilegt" hús á lóðinni. Allt í kringum þau rísa upp mis ofurhannaðar hallir og hamagangurinn í sumum með stórvirkar vélar til að vinna á móanum minnir á ambisjónir Le Nôtre, garðyrkjumeistara Loðvíks 14.
Mér finnst litli græni kofinn indæll en ég er líklega hálfur álfur, svo kannski er ekkert að marka.

Í vor innritaði ég mig í íslensku í HÍ. Ég er búin að fá leið á því að vera að gera allt í lífinu sem amatör, nú verður stefnt á stóra hluti en byrjað á réttum reit, ekkert svindl fram fyrir röðina hér. Verst að ég ætlaði að kaupa námsefnið en það kemur ekki fram á neinum haustkúrsanna og var mér tjáð að þetta væri eðlilegt ástand. Frekar svekkjandi.
Ég keypti mér nú samt nokkra doðranta í bríaríi því ég var í afar góðu skapi þegar ég kom inn á bóksöluna að spyrjast fyrir.
Öll ráð varðandi málfræðibækur og annað efni tengt íslenskunámi er vel þegið.

Nú á ég þriðjudag og miðvikudag í hinni björtu borg villuljósanna, spurning hvernig þeim verður eytt, ég hef svikið öll loforð um kaffisamsætismætingar, tónleikaferðir og annað sem ég hélt ég ætlaði að ná að gera í þessari ferð. Ég ætlaði að segja að ég væri ekki með samviskubit en þá fann ég það nísta mig tvöfalt. Ég er alltaf rifin í tvennt þegar fer að líða að brottför.
Á morgun fer ég að öllum líkindum í húsdýragarðinn að segja bless við selina.
Ættum við kannski að plana bloggpikknikk á miðvikudag? Hvernig er spáin? Sól á Klambratúni klukkan fjögur?

Þessi júlímánuður er náttúrulega búinn að vera stórkostlegur, sjáiði bara hvað það er nú heppilegt að hafa svona rammgöldróttan sóldýrkanda á landinu.
Eru ekki allir í stuði?

Lifið í friði.

6.7.07

ó reykjavík ó reykjavík þú yndislega borg

ég er í fríi
ég fer í sund
ég fer niður að tjörn, brauðlaus reyndar
fáir bekkir, fáar ruslatunnur, mikið af rusli á götunum, mikið af útlendingum, mikið af ís, mikið gaman

sólrúnu tókst þó að verða lasin, enda er þessi veðurblíða lævís á sinn íslenska hátt. því hefur innivera verið stíllinn í tvo daga.

í dag skal útréttast og genginn einn Laugavegur áður en farið verður í sund ef stúlkan snótin meyjan er enn hitalaus

um helgina verða þjóðvegir svo kannaðir en hvert leið mun liggja er enn óljóst, ætli opel geti ratað réttar leiðir líkt og fákarnir forðum?

Eru þulurnar í sjónvarpinu ekki alveg að fara að verða einum of fornaldarlegt fyrirbrigði?

HVAÐ ER SVO AÐ ÍSLENSKU DÓMSKERFI? Nauðgun er ekki ofbeldi??? Ef einhver ganga verður farin í dag, einhvers konar mótmæli, skal ég mæta. Ég er með farsímanúmer átta sex þrír, fjórir sjö, níu sex.

Lifið í friði.