29.6.07

allt með lj

Ég skil ekki hvernig einhver getur sagt hvað þá skrifað að orðið ljóð sé ekki gott.

Ljóð, fljóð, jóð, sljó, elja, hylja, elja, ljá, hljóð, ljós, ljóður, ljót, ljóður, rjóður, frjó, grjón, brjóta...

orð sem innihalda LJ eru einfaldlega falleg

falleg og bragðgóð

Ljóðin sem eru gefin út eða flutt þér:
sum eru ljóð og þá finnurðu eitthvað lifna innan í þér
sum eru bara ekki neitt
þá lifnar ekki neitt og allt deyr

Ekki svo einfalt, að vita hvort er, alltaf

ég held samt að þau þurfi öll að vera þarna, orðin, ljóðin, ó-ljóðin, til að þrífast

Sammála hreinu hjartahlýju rafauganu um að varla er hægt að trúa því að fólk sé í alvöru pirrað og reitt. Kannski bara soldið svekkt, jú, sérstaklega þegar fólk er dissað dögum, vikum, mánuðum saman. Jú, trúi því.
En kommon.
Öndum öll að okkur helíum; verum fyndin og elskumst.

Lifið í friði.

26.6.07

lopi

Ég er búin að fylla eina ferðatösku. Í henni eru skíðaföt, ullarpeysur, ullarnærföt, húfur, treflar, vettlingar og lopasokkar. Inn á milli fer áreiðanlega ein vínflaska. Ég þarf að muna að fara í búð. En skyndilega er ég farin að drullusjá eftir því að vera á leið til Íslands en ekki í sólarferð til Suður-Frakklands. Fór að rifja upp tjaldferðina okkar í fyrra, hitann og rólegheitin. Nenni ekki í rigningartjaldferð á Íslandi. Viljið þið lofa mér að það verði gott veður í júlí á Íslandi?
Ég ætla a.m.k. að vera ofsalega jákvæð líka og setja niður stuttbuxur, stuttermaboli og næfurþunna kjóla.

Stöng eða hankar? Stöngin er að vinna á, ég sá einmitt fína tvöfalda tréstöng í Ikeabæklingnum sem mér datt í hug að hægt væri að mála í skrautlegum lit, þetta baðherbergi er orðið ansi hvítt, nú þarf að koma litum að. Hingað inn skal minimalisminn aldrei koma.

Lifið í friði.

bora

Búin að bora tvær holur í gegnum flísar og festa upp spegil með hillu, þrjár holur í svínslega þéttar hurðir, helvítis elsku Ikea, djöfull er nú gott í þessu og þar eru komnir hnúðar (hurðahúnar? snúast húnar ekki alltaf?)
Búin að missa borinn ofan á stóru tána, þessa sem var ekki með bláu mari vitanlega, og hoppaði hér um með grátstafinn í kverkunum en gólaði samt ekki. Og nei, ég er ekki í vinnuskóm með stáltá. Ég er á náttfötunum og berfætt.

Búin að koma stóra ryðgaða gamla skápnum hennar Pauline heitinnar fram á gang. Ferlega mun ég ekki sakna hans þó alltaf sakni ég Pauline. Hún var 94 ára, minnir mig, þegar hún dó í september 2001 í miðri setningu þar sem hún lýsti því yfir að hún hefði miklar áhyggjur af því hvernig Bush myndi bregðast við þessari árás á tvíburaturnana. En þetta var útúrdúr.

Búin að ákveða að festa ekki upp skápa heldur saga út hillu, það var ákveðinn léttir en samt er ég efins og þó ekki viss.

Búin að koma ferðatöskunum hingað upp í íbúð og byrjuð að týna til farangur í þær.
Búin að tæma þvottakörfuna sem þó byrjaði strax að fyllast aftur, gangur lífsins, gangur lífsins.
Búin að sumu, margt eftir.

Hvernig handklæðahengi á að fá sér á nýtt baðherbergi? Hanka á vegginn, eða tvöfalda stöng? Meirihlutinn mun ráða, ég hef hreinlega ekki græna glóru. Verið nú svo góð að gefa mér álit ykkar.

Alveg tek ég til mín hrós frá Hermanni Stefánssyni sem segir að konur séu betri bloggarar, beittari, lúmskari, fyndnari og ég man ekki hvað. Þessi pistill er til marks um að það get ég hiklaust gert.


Lifið í friði.

22.6.07

sjóklæðaveður

Skyldi Sjóklæðagerðin vera með útibú í Mýrinni? Það rignir eldi og brennisteini segi ég og skrifa. Og spáð rigningu alla (fokking) helgina sem er náttúrulega eingöngu því að kenna að ákveðið var að færa 17. júní yfir á 24. júní. Djöfulsins vesen á þessu liði, annars hefði ringt síðustu helgi eins og vera bar og veðrið væri fínt núna.

Túristar hringdu áðan skelfdir í mig til að spyrja um spána næstu daga. Ég gat ekki annað en snúið hnífnum í sárinu enda heiðarleg með afbrigðum. Þau stóðu undir Sigurboganum, Napóleon veitti þeim sem sagt skjól.

Helvíti að eiga ekki góðan regngalla. Á reyndar einn sem er eitthvað ægilega fínn og dýr úr skátabúðinni eftir hönnuðinn þarna fræga, Gore Tex minnir mig að hann heiti, en sá var keyptur þegar ég var 48 kíló. Það er ég ekki lengur. Hann myndi örugglega detta niður um mig og ég á engin axlabönd.

Ég vil að allir vorkenni mér fyrir að þurfa að fara í útivinnu í dag. Takk.

Lifið í friði.

Raus, ekki fyrir viðkvæma og ljóðelska

Ég er illa haldin verkstoli eða verkkvíða. Reyndar eru tveir hlutir sem ég þarf að gera svo ógnvekjandi að ég held að ég muni fresta því fram á mánudag. Þá get ég líka haft kvíðahnút í maganum yfir þeim alla helgina. Æði.
Best að halda áfram að fletta bloggsíðum og gera mislukkaðar tilraunir til að hlusta á útvarpið. Það er einmitt mjög gott fyrir geðheilsuna að hlusta fimm sinnum á byrjun á hugleiðingu sem slitnar svo alltaf á nýjum og nýjum stað, stundum aðeins fyrr en áðan, stundum aðeins seinna. Alveg til að gera fyrir manni daginn. Vitandi að hlustunin er í raun tímasóun. Sóun. Fróun samt væri það ef ekki væri fyrir slitrótta netsambandið.

Vika í brottför. Íbúð þarf að vera fullkomin fyrir skiptigestina, gluggarnir, gluggakarmarnir, loftristarnar, ofan á skápum og hillum, baðherbergið er ein rúst, hvar er kraftmikil borvél?, passa að hafa hreint á rúmin og hrein handklæði, raða helv. pappírsflóðinu snyrtilega í möppur, væri ekki ráð að koma skikki á myndir og þessháttar líka?, alla vega þarf hrúgan að hverfa eitthvert, en hvert?, pönnur og pottar eru húsnæðislaus út af smá kranavandamáli, hvað er málið með krana sem lekur stundum en ekki alltaf?, setja föt sem eiga að fara með ofan í töskur, hin fötin í IKEAgeymslupoka og niður í geymslu...

Sjúkrasamlagið er með stæla. Á ég að redda því eða humma fram af mér?

Eftir rétt rúma viku er ég svo bara komin upp í flugvél og í frí! OUI!

Hvernig er það annars, verður ekki hlýtt á Íslandi í júlí?

Á ég að gera eitthvað í líkamshárum áður en ég fer að fara daglega í sund?

Get ég fengið frí í vinnunni, get ég fengið að fara fyrr heim í dag?

Lifið í friði.

21.6.07

bara fyrir Ármann

Brouhaha:
origine inconnue, peut-être altér. onomat. de l'hébreux barukh habba "béni soit celui qui vient".

Ég náði ekki að setja strik yfir a-in í hebreskunni. Finn kannski út úr því seinna en nú er ég farin í klippingu.

Lifðu í friði.

Hús og skápur er merki mitt merki farandverkamanna

Ég sá hús og nú vantar mig nokkrar millur.

Best að fara í klippingu. Spurning hvort ég fari á hjóli eða í lest. Hendur mínar eru máttlausar eftir uppsetningu á seinni hluta baðinnréttingar. Nú er bara lokahnykkurinn eftir, mig vantar kraftmikla borvél. Ef karl fylgir með má hann halda á ryksugunni. Ég held ég fari í lest.

Lifið í friði.

20.6.07

les lectrice

Cherchez l'erreur!

Það fer óendanlega mikið í taugarnar á mér að Edda skuli senda frá sér heilsíðuauglýsingu með stafsetningarvillu. Þó villan sé á frönsku. Eiga þeir enga þýðendur úr frönsku sem geta prófarkarlesið svona hluti?

En það er gaman að því að þessi verðlaun lesanda/lesenda ELLE fóru alveg framhjá mér. Hins vegar náði ég að undrast, á rölti mínu um bókabúð á dögunum, hvað Indriðason var mikið erlendis og í forgrunni í þokkabót í erlendunni. Og náði að verða pínu montin innan í mér. Svona Arnaldur, strákurinn okkar, er alveg að meika það fílíngur. Útrás. Markaðssókn. Flott.

Lifið í friði.

19.6.07

bleik

Í dag var ég í bleikum hörbuxum. Í Champagne var fullt af konum með bleikan varalit og kampavínið flaut, engin þeirra var þó að fagna kosningarétti íslenskra kvenna. Ekki ég heldur þannig lagað séð. Ég var þó meðvituð í morgun um að það væri alveg við hæfi að vígja einmitt í dag þessar dásamlega flúorbleiku hörbuxur sem ég fjárfesti í á dögunum.

Ég er þrisvar sinnum búin að reyna að lesa grein Hermanns um ljóð og nýjungar í Lesbókinni en mér gengur ekkert með hana. Ég er búin að prófa að byrja aftast (eins og ég geri næstum því undantekningalaust), í miðjunni og m.a.s. þæg og góð fremst. Þá náði ég inn í rúmlega miðja grein svo líklega er ég búin að lesa hana næstum því alla. Ekki það að greinin sé illa skrifuð eða óskiljanleg, heilinn á mér er bara í overload, líklega.
Ætli ég grípi hana ekki bara með mér í sumarfríið sem hefst eftir tæpar tvær vikur og er það sem heldur mér á lífi þessa dagana?

Henning Mankell virkar hins vegar fínt, ferlega er morðinginn í bókinni sem ég er að lesa krípí. Hvað ætli bókin heiti á íslensku? Hún heitir Einræni stríðsmaðurinn á frönsku, einrænn, er það ekki annars orð?
Ég sé tvöfalt.

Lifið í friði.

16.6.07

lyst á list

Ég hef lengi trúað því að það sé einhvers konar sjálfsagt réttlæti til í heiminum, að þú fáir það sem þú átt skilið, að allt sem þú gefur komi til baka. Einhvern tímann var mér sagt að svona hugsun héti boomerang-kenningin, það fannst mér ágæt líking.

Á þessu ári hafa hrúgast að mér listaverk frá höfundunum sjálfum. Ég fékk málverk eftir góða vinkonu, ljósmynd eftir forstjóra Uppglenningur Group , grafíkmynd bíður eftir mér á Akureyri eftir Sveinbjörgu Svartfugl.is og í gær barst mér tölvuunnin ljósmynd eftir Elmu sem ég lóðsaði um París í kringum aldamótin ásamt tugum annarra kvenna og einhverra hluta vegna héldum við sambandi sem hefur haldist þrátt fyrir að við höfum aldrei sést aftur og þoldi m.a. tölvu"crash" sem olli mikilli grisjun í netfangalista mínum.
Ég veit ekki hvað ég hef gert til að eiga þetta skilið. En ég er þakklát og stolt af öllum þessum verkum sem ég á (ég taldi eingöngu upp verk þessa árs, mörg önnur hafa komið til mín í gegnum tíðina og prýða mitt menningarlega heimili í dag).
Nú er aðalspurningin hvort ég þurfi ekki að kaupa mér fleiri veggi, það er nokkuð ljóst að hér fer að verða þröng á þingi á veggjum, en það er nú svo sem kannski enginn skaði, kannski einmitt smart og minnir á veggina á heimilum listaverkasafnara og menningarvita Parísar í byrjun tuttugustu aldar?

Lifið í friði.

11.6.07

rassskellingar

Ég er að rifna úr monti yfir tveimur konum sem eru að ljúka doktorsritgerðum.
Ég er að rifna úr monti yfir vinkonum sem eru orðnar hvílíkar karríergellur að það hálfa væri nóg.
Ég er að rifna úr monti yfir hinu og þessu hjá hinum og þessum.

Ég er að rifna úr monti OG hlátri yfir henni Evu sem setti smáaauglýsingu í Fréttablaðið 8. júní síðastliðinn.

Eva, ég skal borga með í laununum, ekki spurning. Hefur þú fengið svör?

Lifið í friði.

9.6.07

saturday night fever

Ég á mjög auðvelt með að rifna úr monti yfir afrekum annarra. Í alvöru talað. Ég held að þetta sé dálítið sjúkt. En kannski er þetta bara allt í lagi og tengist því að ég er alltumlykjandi móðir alls.

Ég er svo þreytt að ég er að leka niður, það er ekkert í sjónvarpinu, börnin sofnuð og ég get alveg skriðið upp í rúm. Vandamálið er að maðurinn minn er á rugby-leik og ég get ekki sofnað þegar hann er ekki heima. Sem betur fer á hann ekki við þetta vandamál að stríða enda kemur það oftar fyrir að ég skrepp út á lífið án hans og stundum er ég ógurlega seint á ferðinni.
Hann er svona týpa sem sofnar áður en hann leggur höfuðið á koddann. Ég er svona týpa sem ligg og velti mér með hann hrjótandi við hlið mér (og viðurkenni fúslega að stundum langar mig að meiða hann). Svo verð ég ógurlega myrkfælin þegar hann er ekki heima að vernda mig (þá væntanlega með hrotum sínum).

Lifið í friði.

7.6.07

um ákvörðunina

Já, varðandi ákvörðunina sem ég bað um aðstoð við að taka í fyrradag, eru allir, hvort sem þau vita hvað um er rætt eða skjóti út í loftið, sammála um að ég eigi. Svo ég mun. Ég get varla annað.

Lifið í friði.

allt að verða vitlaust

Það er aldrei friður.
Í dag ætti ég að vera að fara í gegnum tölvupósta, taka til í öllu þessu flóði fyrirspurna og pantana svo ég fari nú ekki að klikka á einhverjum stefnumótum. Fékk hvílíka martröð í nótt um einmitt svoleiðis aðstæður. Fæ þannig mjög reglulega en hef, sjö, níu, þrettán, ekki enn lent í miklum vandræðum, a.m.k. ekki þegar ég hef skipulagt dæmið sjálf.
Ég var að vísu einu sinni send með hóp í lokaða Versali. Nóttina fyrir ferðina dreymdi mig að ég kom og höllin var lokuð en það dugði ekki til að ég færi og athugaði málið. Ég hlýddi stúlkunni sem hafði sett upp ferðina lokuð inni á kontór á Ísalandinu góða, í blindni. Lærði mikið af þessari hrottalegu lífsreynslu sem ég reddaði með því að hlaupa með tvo aðstoðarmenn út í búð og kaupa fullt, fullt af áfengi. Garðarnir voru jú opnir og veðrið hið besta. Það glaðnaði örlítið yfir hópnum við það að sitja í garðinum og skála, en ég fæ enn hjartslátt þegar ég hugsa um þetta.
En í staðinn fyrir að geta komið skipulagi á líf mitt sem forstjóri, ritari, símastúlka, sendill, innkaupastjóri, fararstjóri, bílstjóri og gjaldkeri, sit ég hér sveitt og þýði dómsskjöl sem ég skil ekki.
Ég er klikkuð. Vona að ég sé ekki líka að klikka.

Nú verð ég að minna mig reglulega á að taka EKKERT verkefni í júlí. EKKERT!

Lifið í friði.

6.6.07

Bíðið hér

"Bíðið hér eftir kalli gjaldkera" stendur á skiltum á staurum í Landsbankanum í Mjódd. Eða stóð.
Þetta kætti mig alltaf innan í mér, hvar er kallinn þinn? hefði ég getað spurt gjaldkerann. En ég vissi líka að þetta var einum of mikill aulahúmor til að geta sagt hann upphátt.
Stundum næ ég að halda í mér.
Ekki alltaf.

Lifið í friði.

4.6.07

ókei krakkar

á ég, eða á ég ekki?
Ég verð að fá hjálp, get ekki ákveðið mig sjálf.

Lifið í friði.

góðar helgar

Góðar helgar verða einhvern veginn betri þegar þær koma óforvarendis. Það var búið að spá drulluveðri, rigningu og roki en í staðinn var sól og hlýtt án þess að vera of heitt.
Laugardagurinn var fínn, flóamarkaður og stúss og göngutúr í "skóginum okkar".
Á sunnudeginum létum við ekkert koma okkur á óvart, drifum allan tiltækan mat í nestiskörfu og rukum í alvöru skóginn í Vincennes. Þar lágum við á teppi með vín og osta, börnin hjóluðu, fótboltuðust, frisbíuðust og gáfu öndunum örlítið af dýra fína sveitabrauðinu okkar.

Sólrún hjólar án hjálpardekkja en tókst að detta svo rækilega á hausinn að hún er með svöðusár á fótum og höndum. Lítur allt mjög illa út og mikið var grátið. Sem betur fer voru mömmur með betri útbúnað en ég, hún fékk bæði spritt og plástur á bágtið strax. Það tekur alltaf smá tíma að komast upp á lagið með skógarferðirnar á vorin. Samt á ég lista, sem ég hef dundað mér við að gera í tölvunni, ég bara kíki ekki á hann í látunum við undirbúning.

Ég gerði fæst af því sem ég ætlaði mér þessa helgi, en naut hennar hins vegar til hins ítrasta. Svo það er ekki einu sinni vottur af samviskubiti. En nú eru ermar uppbrettar, vatn í glasi, te á brúsa, ljúfir tónar Kvennakórsins í tækinu og nú skal svara meilum, ganga frá pöntunum, redda málunum. Búin að þvo bílinn og ryksjúga, hann er því tilbúinn í Versalaferðina á morgun.
Hey, ég er alveg eins og launaþrælarnir núna: Mánudagur í vinnunni! Gaman að því svona stundum.

Lifið í friði.

2.6.07

brilljant hugmynd takist strax til athugunar af nefnd

Sjómannadagurinn er alvöru hátíð í mínum huga. Samt er ég næstum fædd og algerlega uppalin í Breiðholtinu af tótal borgarfólki sem aldrei meig í saltan sjó nema kannski einhver af höfninni (íðí) til að geta sagst hafa gert það.
Nú á þessum síðustu og verstu tímum er alls konar viti borið fólk að setja spurningarmerki við frídaga sem tengjast hátíðum kirkjunnar. Það er gott og gilt, en hafandi verið illa launaður ríkisstarfsmaður get ég borið vitni um, og býst við að flestir séu sammála, að frídagar eru góðir dagar, burtséð frá því undan hvaða rifjum þeir renna.
Ég spyr mig, væri möguleiki á að færa sjómannadaginn yfir á virkan dag og sleppa í staðinn einum af kirkjuhátíðunum?

Lifið í friði.

p.s. Niður með útgerðarmenn á Akureyri, megi sjómannadagurinn valda þeim vindgangi og lesi þeir sem flest Moggablogg.

Svar - júnígáta

Á númer þrettán, í sömu götu og ég, í sama húsi og ég.


Ég verandi vitanlega Mr. Arinbjarnarson, Sturla.

Lifið í friði

1.6.07

brosað gegnum tár

Fátt jafnast á við kvöldstund í góðra vina hópi. Ekki verra þegar vertinn er listakokkur og ber eingöngu fram eðalvín. Ég verð nú samt að játa að ég er dálítið mikið þreytt í dag, ég er bara alveg hætt að þola sumbl og blaður fram eftir á kvöldin, dett helst út af upp úr tíu. Aldurinn?

Í dag hófst fasta dagskráin mín. Enginn skráði sig í gönguferð og þess vegna er ég heima að vinna í tölvunni. En það streyma inn bréf og fyrirspurnir fyrir næstu vikur svo ég brosi bara í gegnum tárin eins og hver önnur fegurðardrottning.

Sem minnir mig á að um daginn sá ég krýningu á einhverri japanskri stúlku sem var gerð að Ungfrú heimur eða geimur eða hvað veit ég. Hún skalf og titraði og reyndi að brosa en það gekk ekki neitt hjá blessuðu barninu, svo yfirkomin var hún af tilfinningum. Ég er sannfærð um að það var ekki eingöngu gleði, þær hljóta líka að vera dauðhræddar þegar þetta er tilkynnt.
Ég vorkenni alltaf svona fegurðardísum, eiginlega vorkenni ég þeim á nákvæmlega sama hátt og ég vorkenni prinsessum. Það er ekkert grín að þurfa að leika svona hlutverk, held ég. Ekki það að ég hafi nokkurn tímann þurft að óttast það, verandi ekki nema helmingur af lengdarstaðli fegurðardísar hefur umsóknum mínum um þátttöku í fegurðarsamkeppnum, módelkeppnum og gátuleikjum með prins í vinning, alltaf verið hafnað.

Ég vorkenni sjálfri mér og ykkur hinum líka dálítið í dag vegna niðurrifs Múrsins. Hvað á það að fyrirstilla?

Lifið í friði.