30.8.06

desperate þið vitið hvað

Ég er alveg dottin í DH. Við erum búin að horfa á níu þætti. Þá höfðum við fengið lánaða á afriti, sem sagt stolið efni. Það er hlutur sem við hjónakornin höfum forðast enda hef ég alltaf sagt að ef ég stel einhvern tímann einhverju, verður það almennilegt og mun ég lifa í vellystingum eftir það ærulaus á einkaeyju með einkaþotu og allt það sem fylgir miklum stolnum auði. Að ræna sjónvarpsefni og kvikmyndum er kannski enginn stórglæpur þegar hugsað er út í allt sem framleiðendur græða en samt... glæpur.
Svo við keyptum seríuna á sértilboði, grænu verði, í Fnac. Og ég er farin að horfa. Og mér er alveg sama þó heimili mitt líti út fyrir að hafa verið tekið upp af risa og hrist rækilega til. Ég get alltaf falið mig á bakvið það að verandi tveggja barna útivinnandi móðir, er ekkert nema eðlilegt að maður eigi við smá time-management vandamál að stríða. Ha! Það er nú alltaf gaman að læra nýja og nothæfa frasa. Hver segir að bandarískt sjónvarpsefni sé rusl?

Lifið í friði.

er ég ég?

Hvert fór þá sólkonungurinn?

Fyrir nokkrum mánuðum síðan hófust miklar framkvæmdir á speglasalnum margfræga í Versölum. Þetta er einn af hápunktum heimsóknar í höllina, slær görðunum vissulega ekki við, en þessi salur er mikil listasmíð og dásamlega fagur í góðu veðri þegar sólin speglast í tjörnunum fyrir framan höllina og geislarnir endurkastast inn um gluggana, í speglana og þaðan í kristalinn og gullið sem nóg er af í þessum ágæta viðhafnarsal.
Viðgerðirnar taka sinn tíma en þau hafa komið vinnupöllum haganlega fyrir bak við þil. Pallarnir ná yfir hálfan salinn og á endana hafa verið settir speglar, hvað annað, þannig að þegar þú horfir inn salinn, virðist hann jafnlangur og vanalega, þú nærð svona að mestu leyti áhrifunum sem Loðvík 14. og arkitektinn hans ætluðu sér með hönnuninni.
En auðvitað er þetta samt ekki eins flott og gaman og þegar allt er opið og ekki má gleyma því að fyrir utan eru líka vinnupallar sem hylja helming fallegu 17. aldar framhliðarinnar út í garðana. Það er því alls ekki það sama að horfa upp til hallarinnar, sú sýn er mikið skemmd.
Þegar ég byrjaði að fara með fólk í heimsóknir til Versala fyrir nokkrum árum síðan ákvað ég strax að leggja meiri áherslu á garðana en höllina. Reka fólkið hratt og örugglega í gegnum aðalíbúðir konungs og drottningar, kíkja við hjá Napóleon og í stríðssigragalleríið þegar það var opið, en eyða svo góðum tíma í garðinum, borða nesti og skoða litlu hallirnar og enska garðinn hennar Marie-Antoinette og sveitaþorpið hennar þar. Lesa blóm og tré þegar einhver í hópnum getur það, ekki er ég mikil þekkingarkona jurtaríkisins, því er nú ver og miður, og bara njóta þessarar paradísar sem konungarnir bjuggu til meðan þeir tróðu á lýðnum, skattpíndu hann og leyfðu honum að deyja í hópum úr alls konar pestum og óþverra.
Ég hef alltaf litið svo á að ég hafi haft einhvers konar "pacte", samning, við sólkonunginn Loðvík 14. því það var alveg sama í hvaða suddaveðri höllin var skoðuð, það brást ekki að þegar gengið var út í garðinn, braust sólin fram og yfirleitt endaði göngutúrinn í því að hörðustu íslensku sóldýrkendurnir voru farnir að flýja hana og gengu heldur í skugga linditrjánna.
En síðan viðgerðir hófust á speglasalnum hefur þetta ekki gengið eftir. Skemmst er að minnast komu söngmannanna af Kjalarnesi, hvílík rigning buldi á okkur að við urðum að gerast hústökufólk og borða og syngja undir súlnagöngum Grand Trianon hallarinnar, afdreps sólkonungsins þegar hann varð þreyttur á því að vera fígúra í stóru höllinni og þó við næðum að borða vel og halda skemmtilega tónleika sem kættu bæði japanska túrista og kolsvartar krákur, endaði veislan á því að vörðurinn kom og sagði okkur að allt sem við hefðum verið að gera væri bannað. Þegar ég sagði honum að ég vissi það spurði hann mig hvaðan við værum eiginlega, svona stórskrýtið fólk að voga sér að gera svona og varð svo allur upptendraður yfir því að fá loksins að hitta fólk frá trúaðasta landi heimsins þar sem ekki þarf að læsa húsum eða bílum, svo lág er glæpatíðnin. Ég brosti mínu blíðasta og staðfesti þetta allt saman, við tókum saman föggur okkar og héldum syngjandi og rennblaut í rútuna.
Þetta var fyrsti hópur ársins 2006 og ég er næstum viss um að síðan hef ég næstum alltaf verið með fólk í frekar slæmu veðri fyrir utan þegar við frænkurnar fórum þangað í sól og blíðu í byrjun júní, en það er líklega því að þakka að móðir mín ferðast alltaf í góðu veðri.
Í gær gekk ég um garðana með konur góðar og ég get svarið að það stytti aldrei upp allan daginn. Við fórum að ræða þetta og ég kvartaði yfir fjarveru sólkonungsins og komumst við að þeirri niðurstöðu að hann hefði flúið vegna viðgerðanna á speglasalnum. Þá er spurningin bara sú sem ég bar upp í titli þessa pistils sem átti að vera þrjár línur og er að gera það að verkum að ég er að verða of sein í göngutúr í dag. Hvert fór hann?

Lifið í friði.

28.8.06

keðja

Þessi færsla kemur frá Heiðu (sjá tengil í listanum) sem fékk hana frá Elvari.

Keðjufærsla

Ef þú lest þessa færslu og rekur bloggsíðu skaltu koppí/peista hana þangað. Annars gerist eitthvað ömurlegt:
Siggi var starfsmaður í kýsilvinnslunni við Mývatn. Hann sá þessa færslu en fygldi ekki fyrirmælum og nú hefur vinnslunni verið lokað og nú er hann atvinnulaus fáviti.
Katrín er einstæð móðir frá Hveragerði. Hún rak jólaþorpið-hveragerði við mikinn hagnað. Hún sá þessa færslu og rétt eins og Siggi þá fygldi hún ekki fyrirmælum. Nú er ekkert jólaþorp í hveragerði. Hún fékk vinnu í tývolíinu til skamms tíma en nú hefur því verið lokað. Sigga er núna aumingi.
Hannes starfaði sem prentsmiður hjá Prenntsmiðju suðurlands. Hannes fylgdi fyrirmælum, en ekki allveg. Hann leiðrétti stafsetningarvillur áður en hann ýtti á "publish" takkann. Vikublaðið Selfossfréttir er nú algerlega unnið á stafrænan hátt. Hannes kann ekkert á tölvur og eyddi sínum lífdögum þaðan af sem fáráðlingur. Þegar hann dó fór hann til helvítis.

27.8.06

Kárahnjúkavirkjun og trú

Ég er hætt að geta hugsað um þetta virkjunarmál allt saman. Hætt að botna almennilega í þessu. Ég er hrikalega illa að mér í öllu sem viðkemur að sjá og skilja HAG þjóðarinnar, þjóðarbúsins, heimsins, með orðið HAG í peningalegu tilliti.
Þannig finnst mér það hljóti að vera hagur heimsins (og þá um leið Íslands) að vernda náttúruna. En kannski ekki peningalegur hagur. Peningalegur hagur hlýtur að vera að framleiða, framleiða og framleiða og hvetja neytendur með öllum tilteknum ráðum til að neyta, njóta, þurfa, neyta meira, vilja stærra, meira, betra.
En náttúran er orðin verðmæti sem auðvelt er að selja, það sé ég mjög vel hér í Frakklandi sem er ofurbyggt og ofurræktað land, troðfullt af fólki sem leitar stöðugt að möguleikum til að komast í ósnerta náttúru.
Frakkar sem koma upp á hálendi Íslands eiga ekki orð. Þau trúa því ekki að til sé allt þetta flæmi án nokkurra hótela, veitingahúsa, búða og annars sem tilheyrir menningunni og daglegu lífi. Og að ekki sé búið að finna eitthvað notagildi, ræktun eða iðnað til að nýta svæðið til peningagróða. Ég veit um tvö dæmi þar sem Frakki fékk skelfingarkast, froðufelldi og öskraði og æpti og þurfti í öðru tilfellinu að fá þyrlu með lækni til að sprauta konu niður sem varð svo yfirkomin af tilfinningum í öllu þessu tómi að henni fannst lífnauðsynlegt að komast í hraðbanka NÚNA.
Þegar ekið er um hið fagra og gróna Suður-Frakkland er maður sjaldan meira en tíu mínútur milli þorpa og öruggt er að öll leiðin liggur gegnum ræktaða akra sem tilheyra einhverjum og eru hluti af lífsafkomu þeirra hinna sömu. Þessir akrar eru því augnayndi en harðbannað er að fara og leggjast í þá.
HAGkerfi peninganna fer illilega í taugarnar á mér og berst ég með öllum tiltækum ráðum gegn því að verða auglýsingagerviþarfagrýlunni að bráð. Það er alls ekki alltaf auðvelt, ég er líklega alveg ágætis neytandi og neyti ýmis konar óþarfa munaðarvöru án þess að blikna.
En ég er líka einhvers konar rómantíker, blómabarn, aflóga kommi eða hvað annað sem ég hef séð notað um "fólk eins og mig" í blöðum og á bloggum undanfarið. Ég trúi því að virkjunarframkvæmdir til stóriðju séu tímaskekkja og hægt sé að finna aðrar lausnir til að tryggja fólki örugga lífsafkomu. Ég trúi því að hægt sé að selja náttúruna þó það fari í taugarnar á mér að nota það orðalag. Ég get samt alls ekki reiknað út fyrir hvað mikið við getum selt hana, hvort meiri gróði sé af því en af virkjun og stóriðju. Ég get ekki borið fyrir mig nein almennileg rök, og alls ekki betri en þau sem t.d. Andri Snær Magnason setur fram í bókinni um Draumalandið. Í raun er þetta bara trú, eitthvað í litla vöðvanum þarna í vinstra brjósti og ekkert meira en það. Eitthvað sem mér bara FINNST.
Ég skil alveg fólkið sem talar með þessu, skil að þeim finnist við hin ekki skilja neitt. En mér virðist öll umræða komin í einhvers konar hnút og nú sé bara málið að vera í öðru hvoru trúfélaganna. MEÐ eða Á MÓTI virkjun og stóriðju. Stóriðjutrú eða náttúrutrú. Báðir hóparnir nota hræðsluáróður til að fá fylgismenn. Virkjunin brestur, fólkið flýr. Mér leiðist svona tal. Virkjunin brestur-umræðan er næstum nóg til að ég skrái mig úr trúfélaginu. En hvert á ég að leita? Því þó ég sé blómabarn er ég samt allt of meðvituð til að vera utan trúfélaga og án skoðana.

Lifið í friði.

26.8.06

Spænskt þema

Í gær var spænskt þema. Fór í Bercy Village sem er eiginlega eins og útlönd í París, a.m.k. eins og maður sé kominn út í sveit á einhvern sumardvalastað. Veðrið var í besta lagi, óforvarendis varð frekar hlýtt og hægt að sitja úti. Fengum okkur gazpacho og salat og hrátt kjöt, ég skinku, vinkona mín naut. Drukkum spænskt vín með. Svo fórum við að sjá Volver eftir góðvin minn Pedro Almodovar.
Penelope er ekki af þessum heimi, hún er svo falleg. Við vinkonurnar vorum í vímu eftir myndina og töluðum varla um annað en fegurð hennar og fullkomleika. Hvað í fjandanum voru konur eins og hún og Nicole að gera með Tom Cruise?

Í dag er grátt, rigning og sól til skiptis, frekar svalt og ég er í vondu skapi. Ein með börnin í allan dag og það er bara hreinlega leiðinlegt þegar veðrið er svona og allir fúlir.
En vonandi lagast það í kvöld. Ég ætla að prófa að horfa á DH með kallinum mínum. Við erum spennt að vita hvort við fílum þetta illa eins og SIC eða vel eins og F.

Lifið í friði.

25.8.06

hvad er det for noget?

Það er brjálað partý í húsinu. Sem er bara fínt nema að ég er andvaka og heyri því lætin. Myndi væntanlega geta sofið þau af mér, hefði ég sofnað þegar ég ætlaði. En núna fara þessi læti í liðinu í taugarnar á mér. Ég vildi að William Shatner og Nick Cave væru hérna hjá mér og gætu sungið mig í svefninn. Góðir gaurar með þægilegar raddir.
En það er ekki á allt kosið í lífinu. Ég er alla vega ekki að óttast loftárásir eða annan viðbjóð.

Hef það því væntanlega bara gott.

Bara. Þreytt.

Lifið í friði.

24.8.06

karma fokkið mikla

Ég er að heyra Karma Cameleon í 100. skipti núna. Þetta eyðileggur gersamlega fyrir mér fatakaupakaflann, hann verður ekki kláraður í dag. Best að drulla sér út að ná í gleraugun.
Ég er búin að komast að þeirri niðurstöðu að þetta er gamla góða útgáfan, mér fannst hún bara eitthvað undarleg. En hvað er eiginlega að hjá þessu fólki sem endurspilar sama lagið aftur og aftur? Ókei, þetta er frábært lag en fyrr má nú aldeilis fyrrvera.

Lifið í friði.

venjulegt fólk

Í gær heyrði ég í útvarpinu í bílnum alveg ferlega góða útgáfu af Common People með Pulp og einhverjum karli sem mér heyrðist geta verið Hr. Cash og í lokin kom þarna heill barnakór við sögu. Ég fékk gæsahúð og allt við hlustunina, fannst ég bara þeytast yfir á unglingsárin á ný.
Svo heyri ég núna, úr íbúðinni við hliðina, hið bráðfína lag Karma Cameleon í einhverri nýrri útgáfu, flatri og ljótri nema veggirnir séu að breyta sándinu eitthvað, veit ekki alveg. Ég þeytist aftur yfir á unglingsárin í smá stund en það er bara ekki nærri því eins gott og í gær. Fékk meira svona óþægindaminningar um ömurlega aðstöðu í Seljaskóla og ömurlegt lið sem ég er svo fegin að þurfa ekki að hitta lengur.

Það er greinilega betra að finnast maður vera unglingur með nýlegu efni unglingsins í dag en gömlu endurteknu efni unglingsins í skóginum.

Lifið í friði.

rifnaði úr monti

Rétt í þessu rifnaði ég úr monti. Vonandi næ ég að sauma mig saman aftur, ef ekki mun ég sækja um að fá að leika í næstu mynd herra Cronenberg.

Montið er yfir því að ég lagaði Haloscan alveg alveg sjálf. Ég fór inn í haloscan og í staðinn fyrir að velja sjálfvirku uppsetninguna fór ég í handvirku uppsetninguna og afritaði og límdi allar html-skipanirnar sjálf inn í módelið mitt (ég er alls ekki með íslenskan orðaforða yfir þetta sem ég var að gera, fyrirgefið mér ef þetta er illskiljanlegt, ég er að reyna, módel er slangur úr frönsku sem mér finnst betra en templeit sem er slangur úr ensku og þýðir nákvæmlega ekki neitt á íslensku).

Nú er ég að reyna að setja inn nýja mynd af mér, en það gengur ekki enn. Já, ég á að vera að vinna í innkaupaleiðbeiningunum en bara datt óvart í þetta í staðinn og það kemur engum nema sjálfri mér við, enda á ég mig sjálf.

Lifið í friði.

ókeypis í París og frelsun undan áruánauð

Á síðunni minni um París eru komnir tveir nýjir kaflar. Annar fjallar um ókeypis staði í París sem vert er að heimsækja og hinn segir frá Giverny, hvar hægt er að skoða hús og garð impressjónistans Claude Monet.
Að auki er ég að smíða betri kafla um fatakaup í París, með "eitthvað fyrir alla" að leiðarljósi, þar verður kafli um notuð föt, annar um nýja hönnuði og dýru þekktu merkin fá sinn stað.
Kaflinn um börnin er einnig í smíðum en gengur ekkert sérlega vel, hann er enn svo til eingöngu til sem krot á notuðum umslögum.
Ég virðist samt vera að losna undan oki örþreytunnar sem hefur hrjáð mig undanfarna mánuði. Ég hef alveg ráðið við lífið, ráðið við að gefa börnunum að borða og aðstoða fólk á leið til Parísar og bara held ég hafi alltaf staðið undir daglegum kröfum umhverfisins. En ég átti ekki snefil af orku í að gera neitt annað en þetta nauðsynlega og oft þegar ég hafði eftirmiðdaga hér ein heima, lagðist ég bara niður í sófa með bók í staðinn fyrir að taka til eða setjast við tölvuna og skrifa allt þetta sem brýst um í mínum fagra kolli.
Þegar ég var síðast á Íslandi, um jólin, hitti ég tvær vinkonur sem höfðu einhvern veginn gerbreyst síðan síðast. Báðar grennst og voru bara miklu kátari og kröftuglegri að sjá. Einhver nýr, skemmtilegur og þægilegur þokki sem þær báru með sér. Við ræddum þetta og þær voru sammála um að þegar yngstu börnin verða þriggja ára breytist margt. Það er víst sagt í fræðunum sem svo margir hata, svona árufræðum eða slíku, að ára barnsins sé samtvinnuð áru móðurinnar fyrstu þrjú árin. Ég ætla ekki að tjá mig um mína skoðun á árutilvist þar sem ég á svo marga vini í hvorum hóp, þeim sem hata svona fyrirbrigði og þeim sem lifa samkvæmt þessum fræðum að ég hef fyrir löngu lært að vera bara sveigjanleg og ber jafnmikla virðingu fyrir öllum vinum mínum hvort sem þeir hafa árur eða hata árur.
Hins vegar held ég að margt geti verið til í þessu þriggja ára tímabili sem barnið hangir meira utan í móðurinni og held m.a.s. að þar sé bæði móðirin með ákveðnar áhyggjur og verndunarþörf gagnvart barninu og svo barnið með meiri þörf fyrir vernd og umhyggju áður en það tekur sig til og ákveður að breytast úr barni (bébé) í krakka (enfant).
Þessi stökkbreyting tekur vitanlega ákveðinn tíma og stundum er barnið með sömu flækjur og unglingurinn, veit ekki hvort það á að vera barn eða krakki við ákveðnar aðstæður og bregst við með hysteríukasti eða fýlu. Kári er á þessu tímabili núna. Hann hefur sem sagt lært að pissa og kúka í klósett og við það breytist ýmislegt og hann finnur það alveg. Hann getur verið óþolandi, grenjaði og vældi stöðugt í klukkutíma í gær og talaði eingöngu barnamál, gagagagúgú. Ég var að verða alveg ga ga og um leið og maðurinn minn kom heim lokaði ég mig inni í herbergi með bók. Tíu mínútur dugðu mér til að ná úr mér pirringnum en það er alveg með ólíkindum hvað börn geta tekið á taugar manns. Ég veit ekki hvað hefði gerst ef maðurinn minn hefði ekki komið heim þarna, líklega hefði ég nú haldið í mér og ekki framið ódæðisverk en ég lofa ykkur því að þarna fannst mér mjög erfitt að halda aftur af mér.
En hluti af þessari breytingu sem ég finn á sjálfri mér (vonandi er þetta ekki bara þriggja daga maníukast sem bráir síðan af mér og aftur verð ég dauðyfli) kemur fram í því að í gær fórum við í Villette-garðinn og þar léku börnin sér út um allan barnagarðinn án þess að ég væri alltaf með augun á þeim. Ég gat setið og gónað út í loftið og gleymdi mér stundum alveg. Þetta er í fyrsta sinn, held ég örugglega, sem ég geri þetta í almenningsgarði. Yfirleitt vil ég alltaf vita nákvæmlega hvar þau eru stödd og bæði sjá þau og heyra. Þarna vaknaði ég upp af dagdraumum við það að þau voru komin í önnur tæki og öllu erfiðari til klifurs og ég stóð ekki einu sinni upp til að hjálpa þeim, ákvað bara að sitja kyrr og bíða og sjá hvort Kári gæti þetta ekki bara alveg. Sem hann og reyndist geta.
Næst vaknaði ég upp af dagdraumum við að pabbi fór að banna barni sínu að afklæða sig og sá þá að Kári var kominn úr buxunum sínum og hljóp alsæll um á nærbrók og bol. Lítill kútur vildi gera slíkt hið sama en pabbinn vildi það ekki. Ég fór og náði í buxur Kára sem hann hafði raðað snyrtilega í skemmtilega hrúgu á miðjum leikvellinum og leyfði honum að skottast á naríunum, enda eru þessar buxur ómögulegar og flækjast fyrir honum.
Það verður spennandi að sjá hvort nú fari ég aftur að hekla, skrifa meira, út að hjóla og taki kannski til í fleiri skápum. Hvort áran mín ef hún er þarna sé loksins laus úr viðjum áru Kára míns ef hann er með slíkt.
Mér líður a.m.k. vel í dag. Hress og kát. Kát og glöð.

Lifið í friði.

22.8.06

blendnar tilfinningar gleraugnagláms

Það vekur hjá manni blendnar tilfinningar að lesa um sjálfboðaliða í tíu vikna tjaldbúðum á Íslandi við að laga ýmislegt í umhverfinu, t.d. göngustíginn upp á Esjuna.
Annars vegar skömmustutilfinning. Erum við ekki nógu rík til að greiða fólki laun sem vinnur í okkar þágu? Þurfum við virkilega á ölmusu góðhjartaðra útlendinga að halda?
Hins vegar gleðitilfinning. Mikið er til gott fólk í heiminum sem gerir góða hluti fyrir ekki neitt. Vonandi geta einhverjir lært af þeim að það er líka hægt að lifa án þess að hugsa í sífellu um peninga og gróða, að suma hluti er bara hreinlega ekki hægt að verðleggja, svo mikils virði eru þeir.

Annars eru helstar fréttirnar af mér að ég fór í gær og valdi mér gleraugu. Ég hef ekki hætt að dáðst að sjálfri mér síðan. Í fyrsta lagi að hafa drifið mig út í gleraugnabúðina með uppáskriftina frá í janúar síðastliðnum og í öðru lagi að ég valdi gleraugun alveg sjálf, án þess að henda mér nokkru sinni í gólfið grenjandi. Bara stóð föstum fótum og mátaði og mátaði og mátaði aftur og valdi svo eitt par sem ég held að hljóti bara að verða fínt á mér. Sjáið þið mig í anda með Chanel gleraugu? Nei, ekki ég heldur en ef þið hefðuð komið með mér í gær hefðuð þið getað séð slíka dýrð á nefi mínu. Það þyrfti nú samt að borga mér stóran aur fyrir að ganga með c-in tvö, steinum skreytt, á gjörðinni. Ég er allt of snobbuð fyrir svona fansí merkingar. Mátaði meira að segja Gucci sem fóru mér vel en þar er merkið líka allt of áberandi svo þau voru útilokuð. Hins vegar eru þau sem urðu fyrir valinu líka voða fínt og þekkt merki en það sést hvergi utanfrá sem mér finnst mun smartara og meira klassí.
Það var 50 prósent afsláttur í búðinni og sú staðreynd hjálpaði vissulega til þess að þrekvirkið var unnið. Þegar tryggingarnar hafa greitt sinn hluta standa eftir 34 evrur sem ég greiði sjálf. Vel sloppið? Ég greiði 100 evrur á mánuði í blessaðar tryggingarnar svo þetta er sossum ekki neitt þannig lagað séð ókeypis.

Lifið í friði.

21.8.06

svona er þetta undarlegt

Á föstudaginn kvaldist ég allan daginn yfir því að vera versta mamma í heimi. Kári pissaði fjórum sinnum niður, m.a. í sófann og var þetta mjög niðurlægjandi fyrir hann allt saman.
Á laugardeginum pissaði hann allan daginn í klósett og kúkaði í koppinn. Hann hrópar og klappar fyrir sjálfum sér og virðist hækka um nokkra sentímetra, svo rogginn er hann. Mikil seremónía er orðin úr því að sturta niður og þvo sér um hendurnar og er harðbannað að hjálpa honum nokkurn skapaðan hlut með þetta.
Eitt slys varð í gær, en ég get að vissu leyti sjálfri mér um kennt, hann var of spenntur í leik til að vilja viðurkenna að hann þyrfti að fara á klósettið og ég hefði átt að gabba hann til þess. En öll hin skiptin pissaði hann í klósettið og kúkaði svo í koppinn. Pissaði m.a.s. einu sinni úti í garði og var það lítið mál.
Það rifjaðist upp fyrir mér að portúgölsk kona sagði mér að þar í landi hættu börn yfirleitt um 1 og hálfs árs á bleiju. Hún væri einfaldlega tekin af þeim og yfirleitt tæki þetta stuttan tíma og þessar portúgölsku hlæja að vandræðaganginum í frönskum mömmum sem fara eftir einhverjum sjónvarpssálfræðingum sem græða múltípening á að skrifa bækur og eru jafnvel styrktir af bleijusölum, hvað veit maður, sem náttúrulega myndu tapa stórfé ef öll börn hættu 18 mánaða á bleiju.
Mér fannst hún ægilegt hörkutól og er yfirleitt nokkuð sátt við að láta barnið ráða ferðinni með það hvað það er tilbúið að gera.
En alla helgina er ég mikið búin að hugsa um þetta með að sinn er siður í landi hverju, að það sem einum þykir sjálfsagt þykir öðrum fjarstæða og hvernig getur maður opnað huga sinn algerlega og reynt að skilja hina?
Þess vegna var gaman að lenda á greininni hennar Eyju um gagnkvæman skilning og tillitsemi og fleira. Hún er á Múrnum, nýleg, stutt og laggóð.
Maður verður að plögga hana fyrst hún gerir það ekki sjálf!

Lifið í friði.

19.8.06

ég elska þig

Á gönguferð minni um Montmartre fjallið er komið við undir vegg þar sem "ég elska þig" stendur á ýmsum tungumálum, kannski öllum eða kannski er ekkert til sem heitir öll tungumál?
Ég man að þegar ég var einhvern tímann fengin til að fara með íslenskuna fyrir einhvern CD-Rom sem átti að innihalda öll heimsins mál neyddist ég til að hryggja þau með því að á listann vantaði færeyskuna. Þau reyndu að þræta fyrir það að til væri tungumálið færeyska og ekki nennti ég að gera nokkuð í því að sanna mitt mál en ráðlagði þeim að hafa samband við danska sendiráðið.

Ef einhver getur skrifað fyrir mig "ég elska þig" á færeysku get ég athugað hvort hún fékk að vera með á þessum vegg.

Fyrir ofan ástarjátningarnar hefur annar götulistamaður límt upp fagra konu í eggjandi stellingu og leggur henni eftirfarandi setnignu í munn: Verum raunsæ, krefjumst hins ómögulega.
Þetta er, ég held ég fari ekki með fleipur, slagorð sem vinnuhópur sem barðist gegn fátækt, heimilisleysi og hungurdauða fyrir nokkrum árum í Frakklandi, notaði.
Þetta á sérlega vel við í dag þegar verið er að reyna að koma fleiri heimilislausum inn á hótel þar sem tjöldin sem þau fengu úthlutað í vetur þykja allt of áberandi í skúmaskotum borgarinnar og fleiri og fleiri gera því athugasemdir við þennan óvelkomna hóp. Borgaryfirvöld eru því á fullu núna að reyna að sigra hið ómögulega, að koma öllum í skjól. Næsta verkefni verður þá væntanlega: matur fyrir alla.

Slagorðið er alla vega mjög gott:
Verum raunsæ, krefjumst hins ómögulega.

Lifið í friði.

18.8.06

fínn afli

í HogM. Haldiði ekki bara að daufa skapilla konan hafi ekki fundið sér haustjakka? Ég ætti náttúrulega alls ekki að gefa upp þá örmu staðreynd að hann var í BB deildinni og ætla ekki að gefa þeim sem ekki vita hvað BB stendur fyrir, útskýringu á því.
En rauður er hann, jamm og já.
Og svo þarf ég náttúrulega að bretta upp á ermarnar af því það eigum við Barbie vaxtarlega sameiginlegt að við erum báðar afar armstuttar, en svo vel vill til að fóðrið er skrautlegt sem náttúrulega kætti mig mikið og sætti mig við uppábrotið um leið.

Við þetta komst ég í svona kaupvímu og keypti 6 nærbuxur á vesalings Kára til að pissa í, 2 köngulóarmannsboli því þó köngulóarmannslínan fáist eingöngu í drengjadeildinni langar dóttur mína líka í svoleiðis bol, 2 köngulóarmannsregnhlífar því þó Kári hafi aldrei lagst í götuna og sagt mér snöktandi að hann hafi aldrei átt regnhlíf (eins og Sólrún gerði í hitabylgjunni í júlí) þá veit ég að ekki þýðir að gefa öðru en ekki hinu þegar um dót er að ræða og ekki reyna að koma með þá lausn að hann hefði getað fengið bolinn og hún regnhlífina, ó nei, virkar ekki þannig, trefil og húfu á Sólrúnu og vettlinga handa mér (í barnadeildinni líka, stuttir handleggir, stuttir fingur). Ætlaði að kaupa trefil og húfu á Kára, en viti menn, bara til Köngulóarmannshúfur og treflar og einhvern veginn var ég komin með upp í kok af þeim gaur þegar þarna var komið sögu og reyndar komin með nett upp í kok af búðinni og grenjandi krökkum líka svo ég lét þetta duga en þykir þetta góður afli.

Byrjuð að kaupa haustvörur, manni finnst það frekar ógeðfellt en eins og ég sagði ykkur í fyrra er sko eins gott að vera snemma í því ef maður vill ná í þetta ódýra og góða hjá vinum okkar Svíunum í HogM. Jamm og jæja. Og læt ég nú þetta raus mitt duga og bið ykkur að...

... lifa í friði.

helv...

bannað að blóta

ég er asni

svo sem ekkert nýtt

Best að fara út, kannski ég skreppi í HogM í hughreystingarinnkaup? Sem gætu náttúrulega endað í gvuðogégerlíkasvofeit niðurlægingartilfinningaklemmu. Mig langar svo í kjól. Hippaþægileganmjúkanhversdagskjól.

Ég færi út í garð að róla ef ég væri einmitt ekki með of feitan rass í þessar helv... frönsku rólur. Og út að hjóla ef það væri ekki helv... íslenskur hryssingur hérna núna.

Kannski ég fari bara og drekki mér í hylnum. Eða fái mér í glas. Eða sæki Sólrúnu og við förum og kaupum regnhlíf með köngulóarmanninum handa henni. Í HogM. Strunsa bara gegnum fullorðinsdeildina og máta ekki neitt og beint í barnadeildina í köngulóarmannsrekkann. Þá er það ákveðið.

Lifið í friði.

gleymdi nöfnu minni

Gleymdi að þakka nöfnu minni Ómarsdóttur fyrir titilinn á síðustu færslu. Titill á skáldsögu eftir hana sem ég hef ekki lesið en alltaf langað til þess út af titlinum.
Á gúgglinu komst ég að því núna áðan að bókin er til á frönsku, T'es pas la seule à être morte! Útgefandi Idées reçues og fæst bókin í öllum betri bókabúðum, m.a. Fnac en líka hinum fjölmörgu litlu búðum út um alla borg. Og fáist hún ekki er auðvelt að láta panta hana.
Ég veit þá a.m.k. núna hvað ég ætla að gefa tengdamömmu í jólagjöf. Hún á eitthvað erfitt með La cloche d'Islande, kannski er Kristín auðmeltari. Tengdamamma er reyndar orðin mikill aðdáandi glæpasagnahöfundarins okkar sem er akkúrat núna stolið úr mér hvað heitir. Ha, nú er ég komin með sniðuga keðju. Byrja næstu færslu á nafni hans og tala svo um eitthvað... nei, þarna kom það: Arnaldur Indriða heitir hann eins og þið vissuð líklega öll langt á undan mér en samt ekki þar sem ég er ekki enn búin að publisha færslunni svo þið hafið ekki enn lesið hana en samt núna. Hm. Nú fæ ég höfuðverk.

Lifið í friði.

elskan mín, ég dey

úr hlátri þegar ég les upphaf greinar Björns Björnssonar sem fer yfir starfslýsingu Guðna Elíssonar í einni af Lesbókargreinunum um kalt stríð og umræðuhefð. Hann talar um að Guðni kenni um hrollvekjuhefð og fleira og maður hreinlega finnur hrollinn á baki Björns við lesturinn, háðið yfir þessu brölti Guðna í draslheimi bókmenntanna á að láta lesandann skilja að svona mönnum sé hreinlega ekki mark takandi á.
Kemur upp um helvítis gamla kallinn í sér hann Bjössi.

Viðbót:
Þökk sé Hönnu litlu, bý ég nú yfir slóð að senda ykkur á. Þar er grein og umfjöllunin um Guðna er í 2. kafla, eftir feita millifyrirsögn.

Lifið í friði.

16.8.06

þung

Þung í höfðinu, þung í maganum og þung á vigtinni.
Lofa mér líkamsræktarátaki en ekki alveg strax. Verð að fara að hætta reykfikti en ekki alveg strax.
Verð að fara að setjast niður og vinna skipulegar og það strax.

Fyrsti dagurinn í langan tíma að mér virðist sem ég er ein með börnin og það er mikið fjör hjá okkur. Kári sefur næstum aldrei þegar ég er ein með þau, þrjóskast algerlega við, svo gaman að vera með mömmu og svo er hann ómögulegur um kvöldið en sofnar þá yfirleitt snemma sem er kostur. Hvað er ég að röfla hérna? Ferlega hlýtur lesendum að leiðast svona sjálfhverft bull.

Annars vantar mig ráð til að fá hann til að hætta með bleiju eða bleiu eða hvernig sem þið viljið skrifa þetta, það er frjálst. Ég tek hana oft af honum og set hann í nærbuxur og hann pissar í kopp einu sinni en pissar svo niður í næsta skipti. Þetta hefur gerst mörgum sinnum og það finnst mér svo leiðinlegt að ég freistast alltaf til að setja aftur á hann bleijuna. Mér leiðast pissublaut föt og pissupollar á gólfum.
Þetta verður að gerast. Ég get ekki beðið mikið lengur, skólinn byrjar 4. september og ekki verður tekið við honum ef hann er ekki þurr og bleijulaus.
Þannig er það.

Djöfull er ég þung. Þung og þung og þung. Best að drífa liðið í einhver föt og fara út áður en mitt fagra höfuð springur endanlega.

Ef einhver getur hjálpað mér að koma haloscan í lag aftur er það líka vel þegið. Mér skilst að fólk sé jafnvel hætt að sjá nokkuð þarna fyrir neðan, eins og ég hafi tekið kommentakerfið út, en það var ekki ætlun mín.

Mikið vona ég að vopnahlé haldist í Líban(on). Mér finnst Líban fallegra en Líbanon. Af hverju er þetta on í ensku og á íslensku?
Samt er sagt líbanskur, er það ekki?

Lifið í friði.

15.8.06

þétting byggðar

Ef ég skil grein Landsvirkjunarmannsins um Kárahnjúkavirkjun er fyrirtækið hans nú að vinna gott starf í þéttingu byggðar... hjá heiðargæsum.
Er kannski málið að mynda eitt stykki góða almennilega stóra tjörn í Reykjavík, sökkva húsum í Kvosinni og sjá hvort fólkið tekur sér ekki bara bólfestu aðeins þéttar umhverfis nýja stærri og betri tjörn?

Það sem ég skil alls ekki í greininni er hvort Dettifoss er í minnstu hættu eða hvort það er bara helber lygi og alls ekki á dagskrá að hann hverfi.

Og varðandi næstsíðasta pistil: Ég man ekki hvort ég sá Wag the Dog. Bara get ekki munað það. Sem hlýtur að þýða að ég sá hana ekki. Man samt vel eftir plakatinu og er vön að bera mig eftir myndum með De Niro. Þess vegna er ég á báðum áttum.

Lifið í friði.

14.8.06

nakin í flug

Mér finnst að þeir eigi bara að ganga alla leið og láta alla fara nakta um borð.
Ekki myndi skemma að fluffurnar yrðu líka nakin, fullt af strákum komnir í þetta starf og yfirleitt hvílíkt huggulegir.

Annars var helgin skemmtileg en veðrið hér er alíslenskt, rok og rigning. Góður dagur í dag, engin rigning, náðum báðum málsverðunm úti. Vitanlega grillað en það var nú líka gert í rigningu og roki. Við erum nú ekki íslenskar fyrir ekki neitt, við Bibba.

Lifið í friði.

11.8.06

þannig er nú það

Ég bara ræð ekki við það, en ég held að þessir "stórviðburðir" með tilheyrandi flugvallarlokunum og hræðsluáróðri sé uppspuni. Kannski hef ég rangt fyrir mér, en kannski ekki. Hef nú áður lýst yfir vantrú minni á æsilegum fréttum sem reyndust lygi. Þó ég geri mér fulla grein fyrir að þessi lygi mun líklega aldrei verða afhjúpuð.
Bara get ekki treyst þessu liði sem er að segja okkur þetta.

Lifið í friði.

10.8.06

Árni Tryggvason

er maður dagsins hjá mér.

Hann er aðalpersónan í lítilli heimildarmynd í þáttaröð um hefðbundna matargerð sem Arte ætlar að sýna bráðlega með frönskum texta. Hann reykir og drekkur brennivín, veiðir fiska og sleppir þeim litlu. Hann dansar við konuna sína sem elskar hann greinilega. Hann syngur í heitum potti með útsýni út á haf og skálar við gamlan vin.

Mig langar heim í heiðardalinn.

En í staðinn ætla ég að fara í göngutúr um París með ferðalanga í 21 stiga hita. Veðrið er alveg stórkostlegt og París í ágúst er svo þægileg þar sem mun minna er af bílum og Parísarbúum sem eru að stressa sig. Meira svona rólegheit og frístemning og þegar veðrið er svona mátulegt þá eru allir kátir og sérstaklega ég.

Lifið í friði.

7.8.06

hetja helgarinnar

Ég treysti því að verða ofarlega á lista í vali Rásar 2 á hetju helgarinnar.
Ég fór í þrjá göngutúra með íslenska ferðalanga sem völdu sannarlega rétta áfangastaðinn veðurlega séð, en hér er 24 stiga hiti, smá ský og létt gola. Fullkomið ferðaveður.
Ég er búin að fara í sund með börnin, þvo öll fötin úr ferðalaginu OG brjóta allt saman, sækja netbox OG setja það upp, elda fisk í raspi og fleira góðgæti og er nú að lesa yfir ferðasöguna sem mun birtast einhvers staðar einhvern tímann og kannski hjálpa Íslendingum að skipuleggja skemmtilega ferð um franskar sveitir.
Ég er hetja.

Svo er náttúrulega spurning um að kjósa Villta tryllta Villa sem kláraði tvær viskíflöskur í gær og er langt kominn með aðra í dag enda svo kúl að hann ætlar sko að mæta fullur í vinnuna á morgun.

Lifið í friði.

Bara varð

að prófa að blogga liggjandi eins og klessa í stofusófanum. Gaman að vera þráðlaus. Og mér skilst að ég sé komin með óteljandi nýjar sjónvarpsstöðvar, m.a. AL Jazeera barnastöðina, allar héraðsstöðvar Frakklands, GOD TV og eitthvað álíka krassandi.
Á listanum voru líka BBC og fleiri spennandi stöðvar, en fyrir þær þarf að greiða svo þær komu gráar en ekki svartar á listanum á skjánum okkar.

Ég ligg sem sagt hér eins og klessa búin að redda þráðlausa netinu, en þori ekki fyrir mitt litla líf að prófa að kveikja á sjónvarpinu, fjarstýringin virkar mjög flókin og fjandsamleg. Kallinn minn var að stilla þetta áðan og þá sá ég þessi spennandi nöfn þarna. Kannski gæti ég núna verið að horfa á skemmtilega messu hjá sértrúarsöfnuði? Hvílíkur missir!

Kannski ég prenti ferðasöguna út og renni yfir hana. Er einhver sjálfboðaliði í yfirlestur?

Annars er ég reglulega svekkt yfir því að enginn kom með íslenskt orð yfir antiamericanisation, sem ég skrifaði antíameríkanísasjón og finnst gersamlega ómögulegt orð. Andbandaríkjun? And-bna-væðing? Andameríkuvæðing? Andnorðurameríkuvæðing? Andlaus.

Lifið í friði.

mokka reið á vaðið

Ég hef alltaf verið klofin varðandi reykingabann á veitingahúsum. Mér finnst sjálfri ekkert mál að skreppa út fyrir til að reykja en óþolandi að koma heim og þurfa að þvo öll föt og sjálfa mig líka eftir setu á kaffihúsi. Þess vegna hef ég frekar aðhyllst bannið. Best hefði mér þó þótt að íslenskir veitingamenn tækju það upp hjá sjálfum sér að banna reykingar enda eru Íslendingar almennt frekar reyklausir, a.m.k. miðað við Dani og Frakka, og þó margir fái sér sígó á fylleríi er það frekar frelsun fyrir þá að hreinlega mega það ekki.
Það var mér mikil ánægja að frétta það hjá Dr. Gunna að Mokka er orðinn reyklaus staður, áður en reykingabannið tekur gildi. Þetta er einmitt kaffihúsið sem maður hafði mestar áhyggjur af, Mokka og sígó er alveg fullkomin blanda ef maður er að fá sér kaffi. Sígó passar hins vegar ekki við kakó og vöfflur sem er vitanlega það lang lang besta sem Mokka býður upp á fyrir utan góða staðsetningu, fallegar innréttingar og skemmtilegan kúnnahóp. Og einhvern veginn er ég viss um að reykjandi kúnnarnir fara bara út eða nota tækifærið og hætta fyrst þeir mega ekki reykja á staðnum sínum. Eða er ég rómantíker og naíf að halda það? Breytist Mokka núna bara í vöfflustað fyrir hlunkana úr úthverfunum?
Annars er pistill Dr. Gunna áhugaverður fyrir fleira en reykleysið á Mokka. Þarna er gott dæmi um það hvernig veitingamenn geta notfært sér góða aðstöðu og samkeppnislseysi til að lækka standardinn allverulega. Einmitt stórvandamál hér í París á helstu túristasvæðunum þar sem þjónustan er oft til vandræða og lélegar veitingar bornar fram í skjóli þess að fullt af fólki mun samt villast þarna inn og sennilega gleyma að vara hina túristana við.
Ég get nú samt ekki verið sammála Gunna um Viðey sjálfa. Mér finnst hún falleg. En burt strax með lélega veitingamenn!

Lifið í friði.

6.8.06

mótmælandi

Er andi í glasinu?

Hvernig er það, er einhvers staðar hægt að lesa eitthvað almennilegt um Kárahnjúkamótmælin?

Ég hefði sannarlega farið þangað ef ég hefði getað, mér finnst að allir sem á annað borð eru á móti þessum afdönkuðu leiðum til að finna vinnu handa fólki eigi að taka þátt en geri mér grein fyrir því að flestir Íslendingar sjá svona aðgerðir sem kjánalæti aflóga miðstéttar"hippa". Það þykir mér leitt og hef séð ýmislegt klisjukennt um þetta á ferðalagi mínu um netheima í dag.
Mig langar að vita:
Er það rétt sem Siggi Pönk segir, að lögregla stöðvi bíla og hefti flutning vista á svæðið? Það getur varla verið löglegt svo lengi sem fólkið er ekki að brjóta lög með því að tjalda þarna. Sem er einmitt önnur spurning: Er verið að brjóta einhver lög?
Ég er svo sem alveg á því að viðurkenna að stundum þurfi að brjóta lög til að ná áheyrn og ber ákveðna virðingu fyrir fólki sem fórnar eigin frelsi fyrir málstað sem það trúir á. En skemmdarverk á vinnusvæðinu á Kárahnjúkum er ég ekki alveg viss um að geta stutt, mótmælendur verða að muna HVAR er verið að mótmæla, muna það að Íslendingar skilja ekki svona aðferðir og geta því aldrei annað en fordæmt slíka hegðun. Og það er málstaðnum alls ekki til góða.
En ég endurtek samt aftur: Þið sem eruð á móti þessu áttuð að sjálfsögðu að sýna samstöðu í verki og mæta á svæðið í friðsamlegar fjölskyldubúðir eins og planað var að yrðu þarna. Ef þessar friðsamlegu búðir hafa breyst í ólátasvæði fyrir reiða altermondíalista og aflóga pönkara (finnst það betri lýsing en hippi á manneskju með lokka í andliti o.fl.) er það ver og miður og getum við sem ekki mættum í raun og veru ekki kennt neinum um en okkur sjálfum.

Lifið í friði.

5.8.06

vonandi skemmtið'ykkur vel...

Já, ég man eftir mér unglingi í Þjórsárdalnum og finnst einhvern veginn eins og lagið um fulla krakka að leita að tjaldinu sínu hafi verið til þá en þeir sem komu fram voru HLH með Siggu Beinteins á kasettu því hún var örugglega í Galtalæk og Skriðjöklar þvældust líka berrassaðir um sviðið um tíma og skemmtu sér vel.
Mikið vorum við vinkonurnar fegnar þegar mamma og pabbi komu að sækja okkur degi of snemma enda orðnar hundblautar og frekar þreyttar á fullu fólki. Það kvöldið fórum við einmitt í bíó að sjá goðið okkar Bowie á tónleikum og lentum í fínni stemningu með hinum hræðunum í salnum og ég hét því að ég myndi fremja sjálfsmorð ef einhvern tímann mér tækist að komast á alvöru tónleika með honum og nú hef ég farið hva... þrisvar? Og dettur þó ekki í hug að ég hafi enn prófað allt sem þess virði er að prófa en maður hugsaði náttúrulega öðruvísi þegar maður var unglingur í skóginum með fyllingar í tönnunum.

Mér þykir leitt að hitabylgju skyldi hafa verið lofað og ekki staðið við og vona að þið munið að kjósa rétt næst.

Býst við að margir séu á Innipúkanum.

Og nenni ekki meiru nema að ég verð auðvitað að segja ykkur frá því, svo þið hættið að vorkenna mér, að ég er aftur komin með háhraðanettengingu. Og bráðum get ég tekið við Canal plús í version originale og horft á bíómyndir og þætti ótalsett. Það verður sko lúxus.

Lifið í friði.

2.8.06

600

Þessi pistill er númer 600. Ákvað að setja hann inn strax því ég myndi áreiðanlega gleyma því á morgun að hann er númer 600.

Lifið í friði.

um skilning og vanskilning o.fl.

Enn er ég netlaus og sit hér í myrkri í yfirgefinni íbúð vinafólks okkar og nágranna og nota þeirra wifi.
Og mig langaði svooo mikið til að blogga ditten og datten í allan dag og nú sem ég sit hérna dettur mér ekkert snjallt í hug. Jú, ég las grein um Event Horizon í Lesbók og nú langar mig mikið að vita: Last þú þessa grein? Ef svo er, skildir þú hana? Og ef svo er ber ég mikla virðingu fyrir þér... eða ekki.
Las líka nokrar aðrar alveg nægilega gáfulegar og sumar ansi lúnknar (mikið er þetta nú skemmtilegt orð) og skildi þær alveg og sló mér stundum á lær og hló við fót.
Til dæmis fannst mér stóra ástarjátning rithöfundar til konunnar sinnar á heilli opnu alveg met.
Og grein sem bar yfirskriftina Kæra ungfrú Garbo var mjög skemmtileg. Hins vegar nenni ég ómögulega að lesa um kalda stríðið og á enn eftir að lesa um umhverfisvernd til hægri og vinstri. Það eru nú takmörk fyrir greinalestri á einum degi.

Í síðustu viku fórum við hjónin í sannkallaða lebenferð til lebenvina úti á Normandí. Þar var meðal margs annars rætt yfir kampavíni um það hvað orðið ECONOMIE þýðir í huga manns. Það mátti ekki svara neinu sem vísaði til pólitíkur. Bara skilninginn á hugtakinu. Til að gera langa sögu stutta (á tímabili hótaði einn að fara og koma aldrei aftur en það var aðallega af því honum var farið að leiðast hnoðið í okkur, já langa sögu stutta sagði ég) komumst við að því að orðið economie hefur nákvæmlega enga þýðingu fyrir okkur. Merkilegt? Ekki finnst mér það.
Við borðuðum líbanskan mat undir fána hizbollah. Ljúffengur matur og mikið var hressandi að rakka niður amerískun heimsins þó alltaf sé það minna hressandi þegar allir eru sammála. En við ákváðum alla vega að það væri sko alveg hægt að vera antí-ameríkanísasjónisti án þess að vera antiameríkanisti. Munurinn felst sem sagt í að vera á móti því að allir verði eins og þeir þó maður sé ekkert á móti manneskju fyrir það að vera þaðan. Þetta hlýtur að skiljast og lýsi ég nú eftir íslenskum þýðingum á þessum skemmtilegu hugtökum þar sem ég get ómögulega upphugsað þau svona alein hérna í myrkrinu án orðabóka og annarra hjálpartækja.

Ég er í brjálæðislega góðu skapi enda tók ég íbúðina í gegn í dag og tók m.a.s. til í heilum SKÁP líka og börnin mín koma heim á morgun. Ég hlakka svo til að ég titra. Í gær var allt í einu kominn barnavagn niðri í innganginum og er hann fyrir litla barnið sem fer að fæðast á næstu dögum. Ég sá hann og... ég veit ekki hvort ég á að segja frá þessu en ég fór að grenja smá. Fékk svona sting í augun og kökk í hálsinn. Ég vona að ég eigi eftir að halda mér á mottunni þegar ég hitti barnið, að ekki þurfi að fá nálgunarbann á mig. Það er eitthvað hormónarugl í mér, það hlýtur að vera, ég er svo væmin gagnvart börnum og bumbum að það hálfa væri yfirdrifið eins og sumir sögðu alltaf.

Og nú bið ég ykkur bara allra náðarsamlegast um að lifa í friði.