28.2.06

ástarsorg

Ég gekk í gegnum ansi mörg sambönd og jafnmörg sambandsslit áður en ég fann þennan eina rétta. Stundum var það ég sem fékk nóg, stundum þeir. Stundum tók ég því af léttúð en stundum var þetta sárt lengi. Einum man ég sérstaklega eftir, við áttum stutt samband og það var fjarskiptasamband allan tímann. Ég í Frakklandi og hann í Þýskalandi. Hann sendi mér uppsagnarbréf og ég grét. Þetta var fyrir tíma tölvupóstsamskipta og sms. Svo kom ég í frí til Íslands og fór á bar með vinkonu minni. Hann gekk þar inn skömmu síðar og ég fór í kleinu og grenjaði alla leiðina heim í bílnum og alla nóttina. Djöfull fannst mér hann sætur og ég bara trúði því ekki að okkur væri ekki skapað að vera saman.
Mörgum árum seinna flutti ég til Íslands, fór í HÍ og vann með skólanum á vídeóleigu. Það var vissulega skref afturábak að einhverju leyti, að vera stelpa í sjoppu að nálgast þrítugsaldurinn, en þetta var skemmtilegur tími og ég sé alls ekki eftir neinu. Inn á vídeóleiguna gekk einn morguninn þessi fallegi maður. Það var sunnudagur og greinilega þynnka í gangi. Hann var með konunni sinni og þau voru í eins úlpum. Ég hef sjaldan læknast jafnundarlega hratt á söknuði eftir einhverju sem ég aldrei fékk.

Lifið í friði.

traduire c'est trahir

Ég bið aðdáendur mínar afsökunar á fjarverunni í gær. Ég var gubbandi allan daginn. Byrjaði fyrir níu um morguninn og hætti eftir níu um kvöldið. Man ekki eftir öðru eins og er þó gubbin mjög að eðlisfari. Uppsölunum fylgdi hiti og nú er bara að vona að aðrir fjölskyldumeðlimir fái ekki pestina. Ég get ekki hugsað þá hugsun til enda að horfa upp á krílin mín svona lasin.

Ég er varla nema hálf manneskja ennþá en fór samt hluta af bloggrúntinum áðan. Komst að því um daginn að Hvalur er byrjaður aftur að blogga. Það er gaman. Hnakkus er líka byrjaður aftur. Svona er þetta, fólk reynir að hætta og tekst kannski í smá tíma en svo er þetta bara of freistandi að básúna þessari skemmtilegu blöndu af einkalífi og pælingum yfir einhverja lesendur sem maður þekkir eða ekki.

Ég hef hnotið um það undanfarið hjá einhverjum bloggurum að þeir virðast hálf hræddir við þýðingar. Frakkarnir segja "traduire c'est trahir" sem er vitanlega illþýðanlegt á íslensku en táknar samt að þýðing er svik.
Þýðing er auðvitað alltaf túlkun, staðfæring og þar með svik við frumtextann. En ég skil samt ekki að fólk hiki við að vitna í t.d. frönsk eða þýsk gáfumenni á okkar ástkæra ylhýra, eigum við ekki ágæta þýðendur og er ekki alltaf betra að texti sem við viljum koma á framfæri skiljist af sem flestum? Þegar ég les þýskar tilvitnanir skil ég þær ekki, franskar tilvitnanir skil ég vitanlega en ég myndi ekki setja inn franskar tilvitnanir hér, nema með þýðingu, eins og ég gerði hér að ofan.
Ég myndi líklega skrifa langan og reiðan pistil um þetta ef ég væri búin að borða meira en nokkrar þurrar kexkökur í einn og hálfan sólarhring. Ég finn að ég get bara ekki setið við tölvuna lengur. Skriðin undir teppi, hlýtur að vera einhver hádegisleikur í sjónvarpinu þar sem ég get horft á fólk vinna 3000 evrurnar sem mig vantar svo núna.

Ef einhver á góða vídeóvél, þ.e.a.s. prófessíónal, og einhvern tíma aflögu fljótlega, er ég til í að gera portrettmyndir af múslímskum innflytjendum í "heitu" úthverfunum með hinni sömu.

Lifið í friði.

25.2.06

Hvithærði millinn, klækjakvendið og ljúfan

Fann þessar skemmtilegu myndir á dögunum og finnst við hæfi að þær verði hér til sýnis um helgina sem ég vona að verði ykkur öllum góð.
Það er fyrirsögnin sem er tengill.

Lifið í friði.

24.2.06

matur er góður

Allur matur á að fara upp í munn og ofan í maga.

Mér finnst næstum allt gott.
Ég forðast samt súrmat þó ég kunni vel að meta allt annað á þorrabakkanum, hákarlinn líka. Og kæst skata er namminamm.

Ég þorði aldrei að smakka steak tartare, hrátt nautahakk, þangað til mér var boðið í mat og það var á boðstólnum. Síðan þá fæ ég mér slíkt einu sinni á sumri. En ég get aldrei klárað af disknum. Allt í einu fæ ég nóg og ekki smuga að koma bita niður eftir það.

Ég myndi helst ekki vilja lenda í matarboði þar sem skordýr eða mannakjöt væri á matseðlinum. Ég veit ekki hvort ég gæti borðað maura eða flugur, finnst samt ólíklegt að ég myndi ekki kúgast. Mannakjöt vil ég helst ekki prófa, né rottukjöt. Vil þó að það sé á hreinu að ef ég er dauð á fjalli má hver sem er leggja mig sér til munns til að bjarga lífi sínu. Og hirða gullið úr tönnunum í leiðinni ef vill.

Ég borða alla osta, alla ávexti, allt grænmeti, allt krydd finnst mér gott, ég er mikið fyrir steikur og fugl og finnst framandi matur eins og kálfsheili eða vambir gott. Ég borða lifur, hjörtu og nýru, líka úr litlum dýrum. Allt sem kemur upp úr sjónum finnst mér gott, líka litlar rækjur sem borðaðar eru með öllu, og minna dálítið á skordýr.

Mér finnst allar súpur góðar, bæði tærar og rjómalagaðar.

Ég er mikil desertakona, súkkulaði er uppáhaldið, en allt sætt er gott. Íslenskur rjómi er bestur.

Það sem mér dettur í hug er kjöt úr dós, svona aularéttir eins og ravioli í "tómat"sósu eða aðrir tilbúnir niðursoðnir réttir. Það kaupi ég aldrei. Nema náttúrulega andakjöt sem er lostæti soðið niður i fitu.
Hins vegar á ég yfirleitt eitthvað tilbúið í frystinum, því það koma sannarlega dagar sem mig langar ekki vitund að elda kvöldmat.

Þar hafið þið það. Ég er búin að vera orðlaus yfir því sem bloggarar eru að telja upp og geta ekki borðað. Ég held ég hafi aldrei verið sérlega matvönd, þó ég muni eftir mér vælandi yfir soðnum fiski á einhverju tímabili. Ég hef alltaf borðað hafragraut og aldrei sykraðan, bara eins og hann kemur úr kúnni.


Lifið í friði.

fætur

Þegar ég var barn að læra að tala var því hamrað inn í höfuð mitt að fætur væri karlkynsorð. Margir fætur, langir fætur.
Þegar ég heyri konuna syngja á barnaplötunni úr smiðju Siggu Beinteins að Óli prik sé með langar fætur verð ég svo pirruð að mig langar mest til að rífa diskinn úr tækinu og brjóta hann. Á ekki að sekta fólk fyrir svona villur sem munu prentast inn í börnin okkar? Á ekki að láta hana innkalla diskana?
Pirrar þetta engan nema mig? Hlustar kannski enginn á barnalög úr skólanum hennar Siggu?

Lifið í friði.

ég myndi sko fara

fyrirsögnin er tengill allir að drífa sig

hani í víni

Nú er fuglakjöt hætt að seljast út af hysteríu þó að fjölmiðlar hafi neyðst til að sjá að sér og séu hættir hræðsluáróðri. Landbúnaðarráðherra mætti víst til Denisot á Canal plus í gær og borðaði kjúkling í beinni útsendingu.
Ég er mjög ánægð með verðhrun á fuglakjöti, mér finnst það svo gott og er ekki vitund hrædd um að ég deyi úr fuglaflensu. Kannski óþarflega óhrædd, veit það ekki, en ég bara get ekki haft áhyggjur af þessu. Hef áhyggjur fyrir hönd vesalings fugla um heim allan og auðvitað miklar áhyggjur af bændum, sérstaklega þeim sem ala hamingjusama kjúlla á lífvænu fæði, þeir verða verst úti því þeir eru með fuglana úti og það er dýrt dæmi fyrir þá að koma fuglunum sínum í skjól. Þeir munu tapa miklum peningum og kannski aleigunni, komist flensa í fiðurfé þeirra. Eitthvað er Evrópubandalagið að lofa fjárhagsaðstoð.

Í gær byrjaði ég daginn á því að elda kvöldmatinn. það var mjög góð hugmynd hjá mér. Eldaði stóran pott af coq au vin, sem mér skilst einmitt að hafi verið uppskrift af í Gestgjafanum nýlega. Mín uppskrift er úr frönsku biblíunni minni, stór og þykk bók með engum myndum sem ég nota mjög mikið við að elda upp úr og jafnvel til lestrar mér til ánægju (food porn, þið munið) og yndisauka. Alltaf jafn gaman að lesa uppskriftir og þessi bók sannar að það þarf ekki glansandi pappír og fínar myndir til að gera góða matreiðslubók. Þessi góða bók heitir Mon bouquin de cuisine og er eftir franska Nönnu sem heitir Francoise Burgaud.

Hamingjusamur lífvænn kjúklingur soðinn í rauðvíni og kúklingasoði með gulrótum, púrrulauk, hvítlauk, skalottlauk og bara lauk með bouquet garni og smá tómatpúrru. MMMmmmm heppnast alltaf jafnvel hjá mér. Við vorum í sæluvímu í gærkvöld yfir matnum.
En ég er ekki eins hress í dag enda langur og vel rauðvínsleginn dagurinn í gær.

Hvar er Hjörtur með kvikmyndagetraunina?

Lifið í friði.

22.2.06

í lestinni

Þegar ég er í neðanjarðarlestinni man ég alltaf svo vel alls konar smáatriði sem ég þarf að gera, ganga frá, muna seinna. Svo man ég þau aftur næst í lestinni og hef ekki leyst úr þeim.
Núna ætla ég að leysa eitt sem hefur bagað mig. Svara Rustukusu tveimur spurningum sem hún bar fram í athugasemdakerfinu mínu einhvern tímann fyrir löngu:
Ég hef ekki hugmynd um hvað bókin um húsmæðurnar heitir, né eftir hvern hún er. Það kemur út ógrynni af svona bókum í Frakklandi og ég vissi það þegar ég las umsögnina um hana að ég myndi aldrei nenna að lesa alla bókina. Þess vegna skrifaði ég það hvergi hjá mér.
Gulrótarsúpan sem ég fékk mér um daginn var nú bara úr flösku keyptri í búð. Hér er hægt að kaupa góðar og ferskar súpur í glerflöskum sem geymast ekki lengi í kæli og stundum geri ég það, sérstaklega ef mér finnst ég vanta vítamínbúst en veit að ég nenni ekki að elda. Annars er mjög auðvelt að gera grænmetissúpur, maður bara sker gulrætur í sneiðar og sýður með einhverju kryddi (bouquet garni), sjávarsalti, svörtum pipar, sellerí, paprikur, laukur eða hvað sem þér dettur í hug með. Svo má sjóða lengi lengi og mauka með gaffli eða í vél eða með töfrasprota. Eða borða með léttsoðnum bitunum. Eða eitthvað. Bregst aldrei svona súpuseyði. Alltaf gott.

Voilà. Þungu fargi af mér létt.

Farin inn að lesa bréfin hennar Guðrúnar Borgfjörð til Finns bróður.

Lifið í friði.

ekkert gerist einmitt núna

Það er ekki laust við að maður sé uppgefinn eftir lestur á "rök"ræðu um Myndbirtingamálið Mikla hjá honum Stefáni Kaninku. Er ég með hann í tenglasafni? Man það ekki, ég les hann alltaf í gegnum Mikka en er ekki viss um að hafa sett hann í safnið sjálft.
Persónulega er ég algerlega sammála Rafauganu nafnlausa ógurlega. Einhvern tímann man ég nú eftir að hafa séð nafnið hans á hans eigin bloggi, minnir mig. En ég ætla ekki að gefa það upp, enda ekki uppljóstraratýpa í mér. En Rafaugað birti eina sterkustu færslu um þetta allt saman sem ég hef séð, hvort sem er á íslenskum eða frönskum bloggum. Hann var reyndar töluvert misskilinn, enda spar á orðin og stundum dálítið erfitt að vera viss um hvað hann er að fara.
Fyrrnefndur Stefán er líka með svipað hugarfar gagnvart þessu og ég (eða við Rafauga og margir fleiri). Hvað er þetta með fullorðna (hvað eru þeir annars gamlir?) menn sem sjá einhvers konar islamska ógn koma yfir okkur vestræn þjóðfélög? Ég er kjaftstopp þegar ég sé svona þvælu á netprenti. Hef persónulega meiri áhyggjur af yfirgangi Bush og félaga.

Það er að koma út mynd um óeirðirnar hérna í nóvember sl. Kannski eru flestir búnir að gleyma því að hér í Frakklandi brunnu slatti af bílum eftir að tveir ungir menn brunnu á háspennukapli á flótta undan lögreglunni (sem er að vísu ekki búið að úrskurða með dómi að hafi verið ástæðan). Það verður spennandi að sjá þessa mynd, og ég ætla líka að lesa bók sem lögfræðingar fjölskyldna hinna látnu voru að skrifa og deilir á réttarkerfið. Enn annað mál sem sýnir vankanta réttarkerfisins hérna. Varla á það bætandi, Outreau-málið (þið getið séð nýlega umfjöllun um það hjá Þórdísi, hún er í tenglalistanum) er svo sem alveg nóg til að sýna hversu auðvelt er að verða saklaust fórnarlamb og sitja í fangelsi og missa börnin sín og lífið úr höndunum. Því það kom Þórdís ekki inn á að a.m.k. ein kona hefur ekki getað fengið börnin sín til baka frá fósturfjölskyldunni, þau hata móður sína og neita að koma til hennar aftur. Þetta mál er óendanlega óhugnalegt og var uppspuni og mistök í offorsi lögreglu og dómara frá upphafi. Líklega eiga fjölmiðlar einhvern þátt í þessu offorsi og vitleysu. Læt ykkur vita hvernig bókin er. Hún heitir Morts pour rien, fyrir þá frönskumælandi lesendur sem gætu haft áhuga á að finna hana.
Ég hlakka til þegar myndbirtingarmálið hættir að vera æsingamál, fær að sjatna, og einhver góður rannsóknarblaðamaður (er ekki einmitt ein mjög góð og verðlaunuð á Fréttablaðinu) fer af stað og safnar viðtölum, upplýsingum og staðreyndum saman og býr til góða bók úr því. Þannig á þetta að vera. Það er allt í lagi að ræða málin meðan þau eru að gerast, en það má ekki gleyma því að það gerist aldrei neitt fyrr en eftir á.
Sannleikurinn er ekki til. Ekki í nútíðinni. Allt er að gerast en ekkert á sér stað. Eða eitthvað svoleiðis. Eða ekki.

Lifið í friði.

ragna fróða

Gleymdi alveg að plögga þetta, en geri það nú:

Kæri viðskiptavinur,
 
Út febrúar er 30% afsláttartilboð á öllum peysum og bolum
frá Path of Love.
Kjörið tækifæri til að gera góð kaup!
Endilega láttu þá vita sem gætu haft áhuga.
 
Vertu velkomin á Laugaveg 28
mán - fös kl 10- 18 og Lau kl 11-16
 
Hlakka til að sjá þig,
 
Ragna Fróða

21.2.06

bókin á náttborðinu er einsaga

Þessa dagana er ég að lesa sýnisbók íslenskrar alþýðumenningar 3, bréf frá 19. öld. Það er gaman. Stundum reyndar dálítið um endurtekningar en mikið er þetta samt skemmtileg reynsla að koma svona beint og óséð inn í 19. aldar raunveruleika á Íslandi.
Ég þarf að birta hérna nokkra eftirlætisúrdrætti. En ég er ekki hálfnuð svo það verður ekki strax.
En hvað er EINSAGA á útlensku? Monographie eða micro-histoire?

hundaveður

Eins og ég hef skrifað í þá fjörtíu tölvupósta (bókmenntalegar ýkjur) sem ég hef ritað í morgun, er ömurlegt veður hérna. Bæði kalt og rigning. Það á ekki saman. Kuldi á að vera sólríkur og rigning á að vera hlýr úði. Þá er gaman að vera til. En ekki í dag.
Þess vegna ætla ég í bæinn á kaffihús með vinkonu minni sem er heimspekimenntuð og er að skrifa doktorsritgerð um konur. Hún er það eitt af því fáa sem getur bjargað svona andskotans niðurrífandi helvítis veðurfari sem gerir það að verkum að mann langar mest af öllu að skreppa á vídjóleigu og leigja alla fyrstu seríuna af Dynasty. Dynasti var góður heimur. Þar voru engir arabar, bara fullkomin femme fatale með langar neglur og lakkaðar og önnur rosalega góð. Báðar ríkar. Og engir arabar.

Lifið í friði.

20.2.06

sundurlausir punktar

Í gær var PLANTU í sjónvarpsþættinum mínum, Arrêt sur images. Það er hægt að sjá hann á vef France 5.
Plantu er líklega einn þekktasti og virtasti skopmyndalistamaður Frakklands. Hann teiknar á forsíðu Le Monde sem er eitt af stærstu vinstrisinnuðu (en um það má óneitanlega deila hversu mikið það er til vinstri eins og alls staðar í okkar frjálsa skítakapítalíska heimi) dagblöðunum í Frakklandi.

Plantu er að nálgast sextugt en hefur alltaf haldið sínu strákslega yfirbragði sem ég tengi oft við góða geðheilsu og fallegt hugarfar. Hann er nýlega búinn að sitja fund með Kofi Annan þar sem þeir lögðu á ráðin með að láta skopmyndalistamenn hvaðanæva úr heiminum hittast og ræða málin og bera saman bækur sínar. Plantu segir að skopmyndir eigi að vera ádeila, eigi stundum að fara niður fyrir beltisstað, eigi að trufla, æsa, ögra og reita til reiði, en hann varar þó við því að láta þessa listgrein stjónast af hatri. Hatrið er það versta, samkvæmt honum.
Persónulega finnst mér myndin sem hann teiknaði af Múhameð sú besta af þeim sem ég hef séð undanfarið. Það sem er skrifað er: Ég má ekki teikna Múhameð.

Plantu bendir á að skopmyndir geta haft tvö mismunandi hlutverk: Vera fyndnar eða túlka hneykslun eða vanþóknun. Þannig er t.d. mynd af presti að leita á lítið barn ekki ætlað að vera fyndin, heldur sýna hneykslun teiknarans (og almennings) á barnaníðingum í prestastéttinni og að kirkjan skuli voga sér að hylma yfir með þeim.
Þetta var málið með margar myndanna í Jyllandsposten. Þær voru ekki fyndnar, tákna eingöngu vanþóknun.

Fjölmiðlar hömuðust við að sýna reiði og mótmæli og bera okkur fréttir af brennandi sendiráðum og konsúlötum. Það hefur alveg gleymst að leggja áherslu á það að margir mótmælenda voru að mótmæla mynd af belgískum trúð í svínsbúningi sem þeir töldu vera mynd úr Jyllandsposten.
Það hefur alveg gleymst að leggja áherslu á það að mörg mótmælanna voru um það bil 30 manns að öskra saman. Ég hef séð slík micro-mótmæli á götum Parísar og get lofað ykkur því að það er bara fyndið, enginn kraftur í slíkum fámennum fundi. Sömu áhrif og maður á kassa að básúna endalok heimsins. En lítið mál að draga inn linsuna og gera þetta áhrifamikið á mynd. Það er list sem fréttamenn stunda óspart.
Það hefur alveg gleymst að leggja áherslu á að fæst Arabaríki banna myndir af Múhameð, þetta bann á eingöngu við um öfgastjórnir eins og þá sem stjórnar Ameríkuvinunum í Sádí-Arabíu.

Það er mjög áhugavert að þegar múslimskur öfgasinni öskrar er það Allah "að kenna", en þegar kristinn öfgasinni boðar að jörðin er flöt eða að þyngdarlögmálið sé lygi er það hann sem er bilaður. Ekki Guð.
Allah ber ábyrgð á öllum fávitunum sem þykjast lesa hatur, sadisma og hefndargirni úr kóraninum.
Guð er alsaklaus af öllum feitu og freku fávitunum sem níðast á stórum hluta jarðarinnar, bæði fólki, dýrum og náttúruaðlindum.

Lifið í friði.

19.2.06

lífrænt er lífvænt

Þetta er fín grein. Stutt og laggóð og segir það sem þarf. Ég er reyndar frekar til í að losa okkur við orðið lífrænt og setja lífvænt í staðinn. Eða eitthvað annað ef einhver kemur með betra orð. Nota lífvænt þangað til.
Vinkona mín sem rekur lífvæna kaffihúsið Optimistann í Óðinsvéum sagði mér um daginn að lífvænar vörur kosti þrisvar sinnum meira á Íslandi en í Danmörku. Það er hneisa. Ég veit að allt matvöruverð er hneisa á Íslandi en það er samt ekki svona slæmt, er það?

Annars er ég að bilast, mig langar svo mikið í nóakropp að ég myndi borga fjögurþúsundkall fyrir poka einmitt núna. Ef maður með klaufir og horn berði að dyrum og byði mér poka, gæfi ég honum sál mína. Hún er líklega sirkabát fjögurþúsundkalls virði, blettótt og auvirðileg sem hún er.

Lifið í friði.

18.2.06

ísuppskera

Fór á ágætis afþreyingu í bíó, The Ice Harvest. John Cusack og Billy Bob Thornton í formi eins og vanalega. Ramis góður að vanda. Og danska femme fatale-in stendur fyrir sínu.
Nú er ég líklega búin að sjá jafnmargar myndir í bíó á tveimur vikum eins og ég sá á öllu síðasta ári. Fín frammistaða.

Hins vegar erum við hjónin barnlaus og ættum að vera einhvers staðar úti í stórborginni og ljósunum með kokkteil í glasi og dansandi fólk í kringum okkur en sitjum þess í stað, ég við tölvuna og hann yfir fótboltaþætti í sjónvarpinu. Bæði hálflasin ennþá. Frekar svona lamað barnlaust kvöld en samt í alla staði þægilegt.

Horfðum á Marche de l'Empereur í sjónvarpinu áðan sem stóðst nú ekki samanburðinn við bíóferðina, tónlistin allt of tískuleg en samt skemmtileg mynd.
Ég hef alltaf verið svag fyrir mörgæsum. Og sé nú að Kári sonur minn er líklega mörgæsarungi í eðli sínu. Ég hélt alltaf að hann væri að reyna að komast aftur til baka þaðan sem hann kom, en nú sé ég að hann er bara að skýla sér milli fóta mér þegar hann er feiminn eða líður illa. Mörgæs.

Lifið í friði.

17.2.06

best

Ég er langbest í föstudagsgetraun Hjartar. Eins og ég klúðraði alltaf bókmenntagetraununum og náði aldrei að vinna neitt (og trúið mér, ég eyddi stundum heilu dögunum í að giska, var stundum að tryllast). En Hirti tekst ekki að láta mig engjast svo mikið, þó stundum hafi föstudagarnir verið erfiðari en þessi og mig minnir að síðast hafi ég grátklökk ásakað hann um að vera að skemma fyrir mér helgina, enda var ég náttúrulega lengi mikil kvikmyndaáhugakerling og lærði m.a.s. kvikmyndagerð. Svo slokknaði eldurinn í hjarta mér sem er nauðsynlegur til að hanga í svona listiðnaðarómannvænu fagi og siðan hef ég aldrei almennilega vitað hvort ég ætlaði að verða eitthvað þegar ég yrði stór. Parisardaman.com er vissulega einhvers konar starfsferill en ég verð að sjá til hvort ég muni geta lifað af því. Ég vona það svo sannarlega því fátt er skemmtilegra en að sýna Íslendingum París.

Einu sinni þegar ég var ung og saklaus hélt ég að ég myndi ferðast mikið. Núna er ég í þannig klemmu að ég ferðast svo til eingöngu milli Reykjavíkur og Parísar. Báðar borgirnar eru góðar svo sem. Sem betur fer er ég ekki föst á þræði milli, tjah, nú dettur mér engin nógu drulluleiðinleg borg í hug. Jú, ég skal játa að mér datt Bremen í hug og svo Las Vegas. Látum þær því standa. Sem betur fer skiptist líf mitt og hjarta ekki milli Bremen og Las Vegas.
En stjúpdóttir systur minnar, tvítug falleg yngismær, er nú á mínu langþráða flakki um S-Ameríku. Og þar sem ég er svo langt í burtu frá fjölskyldunni gleymdist alveg að segja mér að hún bloggar. Hún fer í tengil sem Sigurbjörg á eftir. Ef ég gleymi henni ekki. Annars á morgun. Sigurbörg er bæði klár og skemmtileg en það verður að játast að stundum finnst mér heil kynslóð á milli okkar, t.d. þegar hún segir að "pleisið rúli". Samt er hún tvítug. Er ég ekki annars tvítug?

Og ég verð náttúrulega að setja inn annan tengil. Það eru systur móður minnar sem ætla að koma til mín til Parísar í vor ásamt kvenkyns afkomendum yfir 18 ára. Þær eru vissulega snilldarkonur eins og flestar, ef ekki allar, íslenskar konur eru, og eru komnar með upphitunar-hópeflisblogg sem systir mín stjórnar. Systir mín íþróttakonan sem mér varð svo innilega hugsað til í morgun þegar ég sat föst á biðstofu með Ólympíuleikana yfir mér í sjónvarpi. Og gerði allt sem ég gat til að hvorki sjá né heyra. Ég bara skil ekki íþróttir og íþróttaáhuga. Skil það ekki. Systir mín var, að mig minnir, í öllum boltaíþróttum þar til hún féll á prófi og var látin velja og hafna. Hún er í landsliðinu í fótbolta. Hún er flott. Og hún er eina ástæðan fyrir því að til mín hefur sést og heyrst á fótboltaleikjum. ÁFRAM KR! En núna er það víst Breiðablik. Ég gleymi því alltaf því ég hef ekki komist á leik með henni lengi lengi.

Lifið í friði.

16.2.06

tanudey i Odense


tanudey i Odense
Originally uploaded by parisardaman.

Optimistinn er á Brogade 3 í Óðinsvéum.

15.2.06

merkilegt

Fyrirsögnin er tengill í frétt.

Mér finnst þetta mjög merkilegt og áhugavert allt saman.
Það er alveg satt sem kemur þarna fram að það er orðið þreytandi hvernig allt í þjóðfélaginu er farið að túlkast sem verslun og viðskipti. M.a.s. nemendur líta á kennara sem einhvers konar þjónustuaðila og álíta að léleg kennslustund sé fjárhagslegt tap.

Mér leiðist verslun og viðskipti og það er það eina sem truflar mig við parisardaman.com vinnuna mína. Ég veit ekkert erfiðara en að verðleggja mig og er alltaf jafn hikandi og hikstandi þegar ég geri tilboð. Ég skammast mín þó ekkert fyrir að taka greiðslu fyrir vinnuna mína, þjóðfélagið býður því miður ekki annan kost. Ég bara er alltaf hikandi um það hvers virði ég er í peningum. Ein af eftirlætis kenningum mínum er sú að konur eigi erfitt með að verðleggja sig og semja um laun vegna eilífrar klifunar á hórdómi þeirra áður fyrr. Elsta starfsgreinin og lengi sú eina sem konur fengu greitt fyrir. Ég trúi þessari klisju ekki en held að okkur konum finnist við alltaf vera í vændi þegar að peningum kemur.

Annað í sama dúr var greinin frá Sigurði A. Magnússyni í Lesbókinni á dögunum (ekki síðast heldur þarsíðast). Merkilegt. Lásuð þið hana? Ef ekki, drífið þá í því, þið verðið örugglega jafn hissa og ég var.

Lifið í friði.

Lína Langsokkur


Lína Langsokkur
Originally uploaded by parisardaman.

Ég bið forláts á þessu myndabloggi en þar sem bloggið virðist einnig vera samband mitt við fjölskylduna (þá sem nenna að lesa þetta vinstribull mitt) nota ég það stundum í stað tölvupósts. Þið hin verðið bara að bíða spennt eftir næstu ofurnæmu hugleiðingu um pólitík, mannleg samskipti og annað sem skiptir máli.
En litlar stelpur sem teikna Línu skipta náttúrulega miklu máli. A.m.k. fyrir mömmuna sem er að rifna úr monti.

Lifið í friði.

hinsegin aperó

Litli frændi er að auglýsa hinsegin kvikmyndahátíð.
Þetta hljómar allt saman ljómandi vel. Ég væri til dæmis mikið til í að sjá bangsann spænska enda er ég mjög hrifin af bangsahommum eftir að þeir tóku mig í fóstur á Gay Pride eða La Marche de la Fierté eins og málfarsfasistarnir frönsku vilja hafa það (Íslendingarnir eru ekki þeir einu sem eru hræddir við enskuna, þeir eru bara einir um að telja sig hafa fullt vald á henni).
Ég var á Gay Pride ólétt með vinkonu minni og litlu dóttur hennar. Við urðum dálítið þreyttar ég og litla dúllan og fengum að setjast hjá böngsunum sem gáfu okkur blöðrur og bangsa. Síðan þá hef ég alltaf verið veik fyrir þessari manngerð enda voru þeir með afbrigðum ljúfir og elskulegir þó þeir væru þarna leður- og lítið klæddir til að sýna vel bringuhár og frjálslegan vöxtinn.
Vinkonan hafði áhyggjur af brenglaðri mynd dótturinnar af karlmönnum eftir þetta en hún man lítið eftir þessum degi í dag, skilst mér. Eftir á að hyggja komumst við að þeirri niðurstöðu að við fengum mikla og jákvæða athygli þarna í göngunni því fólk dró eigin ályktanir of fljótt og stimplaði okkur sem lesbískt par með annað barnið á leiðinni. Við vorum mjög sáttar við þann stimpil og tölum stundum um þennan dag sem daginn sem við náðum saman. Og fáum nostalgískan sæluhroll.

Svo líst mér líka vel á indversku útgáfuna af Cyrano de Bergerac. Spennandi.

Og ferlega finnst mér það flott hjá hátíðarnefnd að undirbjóða ameríska ruslið. Svona á að gera þetta! Þeir vilja samkeppni, verði þeim að því.

Lifið í friði.

14.2.06

hjólað í vincennes


hjólað í vincennes
Originally uploaded by parisardaman.

ívar og Sólrún eru dugleg að hjóla. Kári líka en úthaldið samt ekki eins gott.

Kári með hári


Kári með hári
Originally uploaded by parisardaman.

4 ára


4 ára
Originally uploaded by parisardaman.

drikke menu


drikke menu
Originally uploaded by parisardaman.

Allir til Óðinsvéa! Þar er gott að vera.
Optimisten er á Brogade 3.

Bendi á tvær skemmtilegar greinar á Hugsandi: AFREKIN "OKKAR" og EFNISHYGGJA Í EYÐIMÖRKINNI. Svo eru áreiðanlega fleiri skemmtilegar greinar, hef bara ekki haft tíma til að skoða meira. Jú, um daginn las ég ágæta hugleiðingu um verslunarmiðstöðvar.

Mér finnst alltaf óendanlega spennandi að lesa um Afríku. Bæði svörtu Afríku og Norður-Afríku, en svarta Afríka heillar mig samt meira. Mig langar mikið til að koma þangað, en það sem gerir mér erfitt fyrir er að mig langar að koma þangað og upplifa hana eins og hún var þegar ég bjó þar. Ég var nefninlega fyrir löngu síðan kolbikasvört akfeit kerling og bjó þarna ásamt Emblu vinkonu sem hefur haldið svertingjakerlingarsál sinni mun betur en ég.
Þó hún sé snjakahvít og búi í Danmörku er engum blöðum um það að fletta að þar fer svertingjakerling.
Svertingjakerlingar eru líklega skemmtilegasta fólkið í heiminum ef maður má alhæfa.
Glaðlyndar, hjálpsamar og tengdar við náttúruna.
Skítsama um almenningsálit og stoltar af uppruna sínum.
Þetta eru alhæfingar og þær eru alltaf rangar en samt er þetta satt.
Mig langar til Afríku en ég er hrædd við að sjá Afríku ónýta og fulla af svöngu fólki. Og rusli. Vinkona mín var mikið í Afríku á síðasta ári vinnunnar vegna og hún sagði mér að hún ætlaði aldrei, ALDREI, að fara þangað aftur. Ruslið er að kæfa fólkið þar. Rotnandi ruslahaugar á hverju götuhorni. Rusl. Úrgangur. Rotnun. Afríka nútímans.

Lifið í friði.

13.2.06

supprimer ce blog

Ég var að breyta svolitlu áðan og var næstum því búin að ýta á "supprimer ce blog" í staðinn fyrir "enregistrer les modifications". Þá hefði ég eytt blogginu út af alnetinu í staðinn fyrir að staðfesta breytinguna smáu.
Sem mér þótti mjög undarlegt þar sem ég er búin að hugsa oft í dag að nú sé ég hætt.
Af hverju blogga?
Vandamál mitt er að mig langar svo til að ígrunda betur nokkur hugðarefni og skrifa svo um þau almennilega og kannski á vitrænan hátt (eða þá afar heimskulegan hátt, það kæmi þá bara í ljós og næði ekki lengra).
Mig langar að velta fyrir mér FRÉTTUM, vondum og góðum og hvernig fréttatímarnir eru notaðir sem tæki til að blinda okkur í staðinn fyrir að upplýsa okkur.
Mig langar til að pæla meira í trúmálum og hvers vegna svo margir vilja alltaf tengja trú öfgum þegar trú er eitthvað, kannski bara dóp, en kannski eitthvað miklu meira og "guðlegra", hvað veit ég og hvað veist þú? Mig langar að pæla í því sem kannski er ekki pælandi í, ég veit það ekki.
Svo er það jafnréttið og ýmislegt fleira sem er sífellt og ævinlega að veltast um í kolli mínum. Sem ég held heilu ræðurnar um í kolli mínum þegar ég næ stund með sjálfri mér sem er farið að verða afar sjaldgæf gullímundstund í mínu lífi, a.m.k. það sem af er þessu fróma ári. Helst kannski þegar ég er að keyra, sem ég geri sem betur fer afar sjaldan.
En þá get ég þrumað í höfði mínu alls konar útlistanir, teóríur, hypótesur og dæmi sem komast svo aldrei neitt lengra af því þegar ég sest við tölvuna eyði ég löngum tíma í að lesa annarra manna blogg og svo þruma ég einhverju smotteríi sem mér finnst stundum sjálfri hunddjöfulli leiðinlegt en læt samt standa, kannski í einhverri undarlegri trú á því að ég sé að standa einhverja pligt gagnvart einhverjum lesendum.
BúAH.
Þreytt.
Þreytt á að vera alltaf að gera helminginn af öllu. Kafa aldrei alla leið. Þreytt á medíókrunni.

En ég er gersamlega háð þessu bloggstandi í augnablikinu. Og mun ekkert hætta. Er ekki að biðja um 20 komment um það að ég eigi ekki að gera það. Bara að spekúlera. Spá. Velkjast í vafa með sjálfa mig og allt sem ég er að gera. Og það má.

Mér finnst reyndar einn helsti kostur blogganna vera að það er einhvers konar styrkur falinn í því að lesa um daglegt amstur eða vafstur og pælingar annarra. Að sjá að þrátt fyrir fréttir af stríðum og óréttlæti, auknum glæpum og sjúkdómum, útrás og fjárfestum og öðru sem fær mann til að langa til að ganga fram af næsta kletti, sé heimurinn bara blindhaugafullur af skítsæmilegu fólki eins og mér. Listelskandi, hjartagóðu, temmilega gagnrýnu og bitru stundum (annars er maður nú bara púra leiðinlegur), og að þetta fólk er ekkert endilega að pæla nákvæmlega sömu hluti og ég en þau eru þarna úti og nú veit ég af þeim. Og ég hef alltaf trú á því að þessi heimur sé bara að fara batnandi. Þrátt fyrir allt.

Lifið í friði.

hann

Hann er mjög hávaxinn og þrekinn.
Hann er í svakalegum frakka með miklum axlapúðum sem virðist héðan af 5. hæð vera úr einhverju skinni, en ég giska samt á að þetta sé gerviefni.
Hann er í snjakahvítum íþróttabuxum með rauðum röndum á hliðum og íþróttaskóm frá einhverjum risanna á markaðnum.
Á höfðinu er hann með svarta mjög einfalda prjónahúfu, eflaust 100% akrýl.
Hann er kolbikasvartur og lítur helst út fyrir að vera dópbarón frá New York, a.m.k. eins og okkur eru sýndir þeir í bandarískum bíómyndum og sjónvarpsþáttum.

Hann er búinn að vappa upp og niður götuna mína í grenjandi rigningunni í hálftíma núna, mundandi lítinn málmhlut í annarri hendi. Gvuð, ég vona að það sé farsími.

Ég verð að finna mér eitthvað að gera.

Lifið í friði.

Viðbætur korteri síðar:
Asnaðist til að fara að setja í þvottavél og ganga frá hreinum þvotti og missti því af því hvað varð um manninn sem nú er horfinn. Fór hann upp í bíl til vinar? Kálaði hann einhverjum nágranna minna og tók bílinn hans? Þurfti hann að hoppa upp í strætó? Er hann núna með strætisvagn og farþega í gíslingu?
Ég sakna hans.
RIP

Ég sá ekki heimildamyndina sem sýnd var á Íslandi í síðustu viku um afskipti hersins af Hollívúdd. Hins vegar hef ég lesið nokkrar hugleiðingar á bloggum eftir fólk sem sá hana. Ég held að enginn sem ég las hafi tengt yfir í grínmyndirnar af spámanninum.

Eins og ég sagði á föstudaginn er frelsi fölsk tilfinning.

Málfrelsi, ritfrelsi, prentfrelsi. Afstæð hugtök.

Í gær kom einn af mínum eftirlætis fræðimönnum fram í Arrêt sur Images (sem er þessi sjónvarpsþáttur sem ég horfi alltaf á og fjallar um sjónvarp - Fryst á mynd). Hann er heilasérfræðingur eða tauga-eitthvað veit ekki alveg hvað og mætir stundum og skýrir frá rannsóknum á heila fólks og dýra og hvaða ályktanir má draga af niðurstöðum.
Frægur prófessor í Toulouse komst að þeirri niðurstöðu fyrir mörgum árum að trú og trúartákn draga úr húmor manna. Þ.e.a.s. ef þeir horfa á krossa eða annað augljóst trúartengt (sem þeir trúa á) finnst þeim brandarar síður fyndnir.
Þannig er ljóst að t.d. eini brandarinn úr Jyllandsposten sem okkur (þ.e.a.s. bæði mér og eftirlætis sérfræðingnum mínum) fannst virkilega fyndinn, sá með setningunni um að ekki væru eftir neinar hreinar meyjar, getur ekki verið eins fyndinn fyrir þá sem eru islamstrúar.

Ég ætlaði að gera langa og afskaplega gáfulega hugleiðingu útfrá þessu, en ég er að leka niður í kvefi, hálsbólgu og hita. Mér vex því það verkefni að ætla að vera gáfuleg afar mikið í augum einmitt núna. Líður eiginlega frekar eins og ég sé búin að taka slævandi lyf. Lyklaborðið er erfitt viðureignar. Lífið er erfitt viðureignar. Stundum. Núna. Ég veit ekki hvað ég á að gera við litla drenginn minn sem getur varla horft upp á mig liggjandi fyrir í allan dag. Hvað er hægt að gera fyrir 2ja ára fílhraustan og hressan dreng þegar maður getur varla dregið lappirnar á eftir sér?

Lifið í friði.

12.2.06

spurning

Maðurinn minn fer stundum inn á bloggsíður sem bjóða upp á prentvæna útgáfu af pistlunum, ýmist sem textaskjöl eða á pdf-formi. Þar sem hann er sannfærður um að fólk þrái að prenta út viskuna sem frá honum kemur, langar hann mikið að læra hvernig þetta er gert. Ég er búin að vera að lesa hjálparsíður bloggers í amk 10 mínútur sem er nóg fyrir mig. Finn ekkert um þetta. Veit einhver þarna úti?

Annars er ekkert að frétta. Vorið er ekki komið. Hálsbólgan er hins vegar komin og tók frænkuna Kvef með sér. Afskaplega mikið til að bæta leiðann sem í mér býr þessa dagana.
Mig langar svo að fara að komast út að vinna. Hef alveg nóg að gera hér heima, það er ekki málið. Er að undirbúa komu nokkurra hópa og svo þarf að fara að huga að kvennakvöldinu okkar ógurlega.

En það er bara svo miklu miklu skemmtilegra að vera úti og með fólk í eftirdragi. Er enginn á leið til Parísar? Tilboð í gangi og allt. Drífa sig.

Lifið í friði.

10.2.06

vorboðarnir aspas og kirsuber

Ég gerði það asnastrik áðan að fara að láta mig dreyma um að fara á markaðinn í voryl og kaupa ferkan aspas og kirsuber.
Og nú get ég ekki á heilli mér tekið.
Mér er kalt og ég nenni ekki lengur að klæða mig og börnin mín í þúsund flíkur á dag.
Mér leiðist febrúar grebrúar slebrúar.
Hvar er vorið?

Lifið í friði.

mismunun

Eftirfarandi er svar frá ordabok.is sem barst vinkonu minni í tölvupósti eftir fyrirspurn:

"Erlendur ríkisborgari þarf ekki að greiða VSK. Íslendingur (íslenskur ríkisborgari) sem býr erlendis þarf að greiða VSK."

Ég er ekki sammála þessu. Ég fékk vsk endurgreiddan af vörum núna um jólin og er það ekkert nema réttlátt þar sem ég bý ekki á Íslandi. Ég sé ekki að þessi regla sem þau setja sér þarna geti staðist.

Lifið í friði.

Frelsi

Frelsi fylgir ábyrgð.

Frelsi er fölsk tilfinning í okkar þjóðfélagi.
Það er svo margt sem við megum ekki. Sumt er mjög gott að við skulum ekki mega en annað er hreinlega fáránlegt. Til dæmis er það út í hött að mega ekki hjóla á tómum gangstéttum, í tómum almenningsgörðum, að okkur frjálsu fólkinu sé ekki treystandi fyrir því að vega og meta hvort gáfulegt eða heimskulegt sé að vera á hjóli hér og nú meðan það er gott að ekki megi áreita börn kynferðislega eða drepa fólkið sem fer í taugarnar á okkur eða skíta úti á götu. Enn stendur í frönskum lögum að konur megi ekki ganga í buxum. Lagabálkar nútímaþjóðfélagsins tala í kross við sjálfa sig og fullt af fólki græðir fullt af peningum á að finna glufur í þeim og bjarga þannig fólki frá dómum. Fólki sem hefði í raun átt að sitja inni fyrir glæpi sína og allir vita það en við getum ekkert gert og viljum kannski ekki breyta þessu of mikið.

Frelsi getur verið heftandi í sjálfu sér. Það getur verið erfitt að þurfa endalaust að velja, að vita, að ráða. Ég hef stundum sagt (og eflaust einhverjir aðrir sagt það sama) að besta stjórnkerfið hljóti að vera góður, óendanlega góður og réttlátur einræðisherra. Sem að mínu viti gæti ekki orðið annað en kona og þyrfti helst að vera ég. Ef ég, Kristín, réði yfir heiminum í dag væri voðalega gott að lifa í honum. Eða ekki. Kannski Björk væri betri?

En þetta var nú bara smá augljóst bull á föstudagsmorgni, flótti frá hversdagsleikanum sem bíður eftir því að ég takist á við hann. Ég þarf að skrifa tölvupósta, senda böggla og sækja afmælisgjöf, skoða hótelvefi, skoða franskar reglugerðir um míkrófyrirtæki (sic). Ég þarf að velja í hvaða röð ég ætla að gera þetta. Það verður ekkert erfitt val, ég mun ráða við það.

En ég er að kikna undan allri þvælunni sem dynur yfir okkur í þessum fáránlega heimi okkar. Mig langar til að flytja á eyðieyju með bókaklúbbsáskrift og ekkert annað.

Nenni þessu varla lengur. Á ekkert að fara að hlýna hérna á meginlandinu?

Lifið í friði.

9.2.06

ekkert grín að gera grín

Ég við forláts ef ég særði einhvern í alvörunni með því að gera grín að íslenska handboltaliðinu og áhangendum þeirra. Segir maður annars áhangandi um þá sem halda með liði? Ekki viss en dettur ekkert annað orð í hug einmitt núna.

Ég fór að sjá myndina um ástföngnu smalana á dögunum. Mér finnst þessi mynd frábær.

Svo fór ég að sjá Mrs. Henderson presents eftir Stephen Frears með Judi Dench og Bob Hoskins og fleiri góðum breskum dásamlega breskum leikurum. Þrykkjufín líka.

Fer svo sjaldan í bíó núorðið að það er eiginlega skammarlegt. Með allar þessar myndir, allt þetta úrval í stórborginni og fer samt aldrei. En maðurinn minn á gott safn mynda á spólum og sýnir mér stundum gullmola. Það jafnast bara ekkert á við að fara í stóran sal og horfa á mynd ótruflaður.

Frakkar klappa þegar mynd er sérlega góð. Það var klappað á smaladrengjamyndinni.

Ég er svo þreytt að ég sé tvöfalt. Get ekki sofið á nóttunni. Vakna og ligg vakandi. Hefur gerst nokkrar nætur í röð. Fékk mér rauðvín og góðan mat í gærkvöld og var örþreytt þegar ég fór seint að sofa en samt vaknaði ég og lá vakandi. Heimskulegt af mér. Er farin aftur inn í rúm.

Lifið í friði.

7.2.06

aldrei er manni óskað til hamingju

Á föstudag skrifaði ég í upphafi færslunnar að dóttir mín ætti afmæli. Barst svo talið að leikfimi og stöngum og það var það eina sem fólk hjó eftir. Enginn óskaði mér til hamingju með dóttur mína á blogginu.

Um helgina urðum VIÐ Evrópumeistarar í handbolta. Ég hef reynt að útskýra fyrir Íslendingum hversu hollt og gott það er fyrir geðheilsuna að halda með Frökkum. En alltaf skulu þessi grey bera sömu von í brjósti um að litla landið í Norðrinu muni einn góðan veðurdag ná sér upp í íþróttasigra.
Ég verð að segja að mér finnst það krúttlegt og sætt hvernig ÞIÐ hafið alltaf þessa óbilandi tröllatrú á keppnisliðum ykkar. Og nú væri hægt að tengja yfir í Eurovision en það ætla ég samt ekki að gera. Mér finnst lagið hennar Silvíu (æ, var það skrifað svona?) fínt miðað við Eurovision lag, mér finnst hún sjálf afar skemmtileg persóna og góð breyting í íslensku grínflórunni sem hefur verið einhæf og annað hvort allt of lin við þá sem þarf að deila á eða allt of klámfengin. Silvía er flott pía og má alveg fara í Eurovision fyrir mér. Eða einhver annar. Ég er nefninlega orðin sammála Frökkum með að þessi keppni er tímasóun og er löngu hætt að fylgjast með henni.
Nú er ég enn og aftur búin að tilkynna um að ég ætli ekki að skrifa um eitthvað og gera það svo um leið. Nú er spurning um að snúa til baka og taka út setninguna um að það ætli ég ekki að gera. En það ætla ég ekki að gera. Síðast gerði ég þetta um teikningarnar af Múhammeð spámanni. Sem ég er búin að komast að síðan að er ekki alltaf bannað að myndgerva. Fer eftir löndum og öfgum ríkisstjórnanna. Algerlega bannað í Sádí, skilst mér. En þetta var útúrdúr.

Mér finnst að þið eigið öll að krjúpa á kné fyrir mér sem Evrópumeistara. Ég og strákarnir mínir erum einfaldlega best.

Lifið í friði.

4.2.06

Jón Kalman

Það er svo undarlegt að ég las helming af bók eftir Jón Kalman um jólin í íbúðinni sem við vorum með að láni. Dró hana út úr hillu fullri af ólesnum bókum og var svo undrandi á því hvað þarna var góð bók á ferð. "Sumarið bak við brekkuna" minnir mig að titillinn sé. Bráðskemmtilegur stíll. Fór að spyrja mig hvers vegna ég þekkti ekki þennan höfund. Mundi eftir því smám saman að við og við skrifar þessi maður góðar greinar í Lesbókina. Ég er sko haldin nafnaminnisleysi á háu stigi og á alltaf mjög erfitt með að tengja upplýsingar saman. Þetta bætist ofan á sjúklega andlitsblindu mína.
Þess vegna fleytist ég oft lengi um á vitundarleysishafi áður en mér tekst að skilja að þessi og þessi eru sami maðurinn eða konan. Hakka bara í mig greinar og pistla án þess að vita almennilega hver er hver eða hvað er hvers.

Ég hef oft kvartað yfir skorti á "séð og heyrt" upplýsingum um fólkið sem birtist í Lesbókinni. Stundum er ég að farast úr forvitni á því hver sefur hjá hverjum í listaheiminum. Einnig mætti kannski vera örlítið um aldur og fyrri störf þegar fólk skrifar þar? Eða á maður alltaf að hoppa beint í tölvuna og gúggla? Yfirleitt les ég Lesbókina uppi í rúmi á kvöldin og það eina sem gæti hugsanlega dregið mig framúr aftur er þorsti eða löngun til að losa vökva. Myndi aldrei fara framúr til að gúggla einhverjum jónum eða sigríðum.

Ég er búin að spá mikið í góðar fréttir/vondar fréttir vandamálið. Nú þarf ég að fá góða stund til að skrifa um það fljótlega. En um helgina þarf ég að halda barnaafmæli og íbúðin er eins og hún hafi verið tekin upp (af guði?) og hrist rækilega. Það verður því ekki fyrr en í næstu viku.
Meðan þið bíðið getið þið lesið þakkarræðu Jóns Kalmans á Bjartur.is. Það er falleg lesning. Til hamingju Jón, hver sem þú ert og hverjum sem þú sefur hjá.

Lifið í friði.

3.2.06

samtíningur

Fyrir nákvæmlega fjórum árum í dag urðu stærstu kaflaskipti lífs míns. Þá varð ég mamma. Og nú á ég tvö stykki barna. Og á enn erfitt með að trúa því.

Í dag urðu kaflaskipti í lífi mínu því ég rauk hér út fyrir klukkan átta (og jörðin var hvít, en það föl er nú farið þó eitthvað hafi tutlast niður snjókornum í allan dag) og fór í leikfimi. Ég er mjög ánægð með að vera ekki nógu fræg til að paparazzi hafi áhuga á mér. Það hefði ekki verið fögur sjón að sjá mig á forsíðu einhverra sóðablaða baðandi út öngunum, missandi blessaða stöngina sem notuð var allan tímann, rauð í framan eins og fegursta jólakúla. Mér er illt alls staðar en er afar montin með mig samt.

Í dag er ég alveg um það bil að fá nóg af umræðunni um skopmyndir af Múhammeð. Mér finnst umræðan um þetta arfaleiðinleg, og nenni ekki að hefja sama söng og þegar ég reyndi að sannfæra fólk um að París stæði ekki í ljósum logum á dögunum, þvert á það sem öll dagblöð heimsins reyndu að telja okkur trú um. Hef aðeins þetta að segja: Vinkona mín í Óðinsvéum kyssti þrjá múslimska vini sína í gær bless. Þeir voru nákvæmlega eins og alla aðra daga. Glaðir og kátir. Einn þeirra uppástendur að sögur af því að múslimir hafi verið hvattir til að sniðganga vörur frá Danmörku hafi byrjað sem brandari í kjörbúð þar í landi. Einhver húmoristi sagði þetta við vin sinn og fjöður varð að hænsnabúi í kjölfarið. Ég veit náttúrulega ekki hvort þetta er heilagur sannleikur, en er jafn tilbúin til að trúa þessu eins og hverju öðru sem ég heyri um þetta mál.
Mér finnst athugavert að ritstjóri France Soir var rekinn eftir að birta myndirnar, en eigandi blaðsins er viðskiptajöfur (group eða hvað sem þið viljið kalla það) og á mikil viðskipti við Mið-Austurlönd. Svona fer með dagblöð þegar viðskiptakallar eiga þau, ekki hægt að birta hvað sem er.
Mér finnst merkilegt að einhvers staðar sá ég (ég held að það hafi verið í svari á kommentakerfi einhvers staðar) að nú sé alltaf verið að "ota islamstrúnni að okkur og börnum okkar". Ég kem af fjöllum. Bý í nábýli við mikið af múslimum (og gyðingum) og hef algerlega verið látin í friði. Trúi því varla að múslimir standi og boði trú sína á Kringlutorgum Íslands. En kannski er ég bara búin að gleyma því hvernig þetta er á Íslandi, kannski hef ég ekki fylgst nógu vel með.
Fleira hef ég hnotið um í sambandi við þetta mál. Persónulega finnst mér alltaf óþægilegt að fólk leyfi sér að gera grín að trú annarra. Persónulega hef ég lengi fundið fyrir miklum óþægindum vegna þessa skrýtna hugarfars fólks gagnvart aröbum og múslimum. Hef alltaf undrast það hvað auðvelt er að heilaþvo fólk, heilu þjóðirnar, heilu álfurnar.
Persónulega finnst mér að öll dýrin í skóginum eigi að vera vinir.

Þið megið kalla mig draumóramann, en ég er ekki ein...

Lifið í friði.

2.2.06

að gefnu tilefni

Það eru eingöngu 841 undirskriftir komnar.
Eruð þið virkilega ekki meðmælt þessu?
Farið þá héðan út.
Undirskriftirnar úr tölvupóstinum eru ekki nóg.
Þó að þú hafir skrifað þar undir,
þarftu samt að gera það aftur.
Þetta var klúður hjá þeim í byrjun,
en nú þarf bara að fara inn á
www.mannréttindi.net og SKRIFA UNDIR.
Ef þú veist ekki hvers vegna lestu þá pistilinn hér að neðan.
EF þú ert enn ekki sannfærð, get ég ekki hjálpað þér
og ekki heldur beðið guð um það.

Lifið í friði.