31.1.06

undirskriftasöfnun

Þó mér sé það gersamlega óskiljanlegt að á 21. öldinni þurfum við að vera að ræða þessi mál ennþá, vil ég benda fólki á undirskriftasöfnunina
ÖLL JÖFN

Ég bara skil það ekki, skil það EKKI,hvers vegna þetta flækist fyrir fólki. Lenti einmitt inn á smá umræðu um þetta um daginn í franska sjónvarpinu. Franska þingið var að gera breytingar á hjúskaparlögum og "gleymdi" enn og aftur samkynhneigðum. Fólkið sem situr þarna og er að réttlæta þetta beitir sömu rökleysunni og íslenskir hálfvitar: "Náttúran vill hafa þetta svona".

Síðan hvenær í fjandanum eru hjúskaparlögin náttúrulögmál? Hjúskapur, hjónaband, giftingar, þetta eru allt orð sem við mennirnir bjuggum til og fjalla um skipulag í þjóðfélaginu sem er svo flókið að við þurfum að gera alls konar samninga við m.a.s. þá sem við elskum mest til að tryggja réttarstöðu okkar ef eitthvað kemur upp á. Náttúrulögmál hvað? Kapítalískt lögmál, já. Náttúran er alsaklaus af þessari vitleysu.

Ég giftist manninum mínum eftir að við vorum orðin fjögurra manna fjölskylda, eingöngu til að tryggja réttarstöðu mína sem útlendingur og móðir (og vitanlega eiginkona). Við gerðum örlítið partý úr þessu, svona fyrir foreldra sem voru svo innilega og á sinn gamaldags hátt, ánægð með þessa ákvörðun okkar. Við munum hvorugt okkar almennilega dagsetninguna og eigum eflaust lítið eftir að halda upp á brúðkaupsdaginn okkar. Við höldum upp á það á hverjum degi að við erum saman og að okkur líður vel saman og það er nóg. Hins vegar fannst mér, aðallega mér, nauðsynlegt að ganga frá þessum pappírsmálum.
Þess vegna er ég gersamlega ósammála þeim sem afgreiða þetta mál sem platvandamál. Það sé hvort eð er svo hallærislegt að giftast að hommar og lesbíur eigi bara að vera ánægð með að þurfa þess ekki. Það er rangt að hugsa svona meðan þjóðfélagið byggir ýmis lög og rétt fólks á hjúskaparsamningnum. Erfðamál, forræðismál og ýmislegt annað skipta (því miður) máli. Og það er bara hreinlega óútskýranlega fáránlegt að ákveðinn hópur fólks, vegna kynhneigðar sinnar, þurfi að líða svona óréttlæti.
Burtséð frá því hvort okkur finnist giftingar hallærislegar eða ekki, skiptir það máli fyrir alla að hafa þetta val.
Ef brotið er á einum þegn, er brotið á þjóðinni allri. Munum það.

Lifið í friði.

Ótrúlega góður

Fyrirsögnin er tengill í góðan pistil. Já, ég er orðin eins og versti sníkjubloggari. Kem með leiðindahúmbúkk hér á milli þess sem ég sendi ykkur að lesa markvert og gott á öðrum síðum.
Kannski er kominn tími til að leggja þessa síðu niður?
Kannski verður þetta bara tímabundin lægð.
En ég er í kreppu: Má maður segja fallega sögu af fólki sem maður þekkir ekkert lengur?

Æ, ég geri það bara. Ef mér berast kvartanir, tek ég söguna bara út. Annað eins hefur nú gerst hérna hjá mér.

Einu sinni vann ég á miklum kvennavinnustað. Þetta var með skólanum, á kvöldin og um helgar. Á laugardagskvöldum áttum við það til að byrja að fá okkur í tána rétt fyrir vinnulok, til að vera nú tilbúnar á djammið sem beið okkar niðri í bæ.
Eitt vetrarkvöld var svona plan í gangi. Mateus rósavín var drukkið úr plastglösum sem kók væri. Um leið og búið var að ganga frá var hringt á bíl. Við hlupum allar út í rok og mikla hálku og vildi ekki betur til en svo að ein okkar (því miður ekki ég) rann illilega til og sneri sig. Hún kom þó inn í bílinn með okkur en á leiðinni niður í bæ horfðum við á fót hennar bólgna upp og hún var hálfkjökrandi af sársauka. Eins og góðri vinkonu sæmir, rak hún okkur út úr bílnum niðri í bæ og þurfti ekki mikið að hafa fyrir því að sannfæra okkur, enda tókum við það loforð af bílstjóranum að hann færi með vinkonu okkar heim að dyrum.
Við skemmtum okkur ágætlega þetta kvöld og höfðum litlar áhyggjur af meiddu stúlkunni. Vissum þá ekki að bílstjórinn stóð ekki við orð sín. Þegar þau komu að götu þeirri er foreldrar hennar bjuggu við, blasti við honum klakabrynjuð brekka og neitaði hann að reyna við hana. Rak hana út úr bílnum, vitanlega eftir að hún hafði greitt farið.
Nú voru góð ráð dýr fyrir meiddu stúlkuna. Hún sá að í fyrsta húsinu í götunni var partý í gangi og ákvað að hökta þangað og biðja um hjálp að sínum dyrum. Hún hringir bjöllunni og fegursti maður sem hún hafði augum litið opnar dyrnar. Hún útskýrir vandamál sitt og orðalaust grípur maðurinn hana í fangið og ber hana heim. Hann kveður með virktum og hverfur út í nóttina og partýið sitt.
Meidda stúlkan átti erfitt með svefn um nóttina og ekki eingöngu vegna sársauka í ökkla.

Daginn eftir fréttum við að stúlkan er komin í gifsi og mun ekki mæta í vinnuna næstu vikurnar. Við hömuðumst við að vorkenna henni og vorum vitanlega með bullandi samviskubit við fréttirnar af ómögulega bílstjóranum. Eitthvað minnkaði samviskubitið þó þegar seinna um daginn barst risastór blómvöndur til vinkonunnar með korti sem óskaði henni góðs bata.

Einhvern veginn gerðist það svo að fallegi maðurinn hafði samband sjálfur og bauð í bíltúr á fína sportbílnum sínum. Við vinkonurnar stóðum yfirleitt á öndinni þegar hann fór svo að venja komur sínar á vinnustaðinn, til að sækja eða keyra meiddu stúlkuna í vinnuna eftir að hún var komin á fætur á ný.

Meidda stúlkan og fagri maðurinn eru hjón í dag.

Lifið í friði.

30.1.06

drengur með tár

Ef ég færi núna með drenginn minn upp á Montmartre til að láta teikna hann, gæti útkoman orðið myndin sem var á vegg í mörgum íbúðanna í blokkinni minni í gamla daga.
Hann er ómögulegur. Grætur og barmar sér. Vill ekki sofa, en samt ekki vaka. Hitalaus en rjóður í kinnum með grænt hor í nösum.
Mig grunar helst að tönn sé á leiðinni, þó ég hafi ekki hugmynd um það hvort allar séu komnar eða hvort eitthvað vanti. Hef oft skilgreint óværð hans sem tanntöku sem ekki varð. Bara dettur ekkert annað í hug.
Djöfull er þetta leiðinlegt blogg, en ég hef bara engan annan að tala við en þig. Blogger, þú ert vinur minn.

Ég sem ætlaði einmitt að nýta blundinn hans í hugleiðingu um vondar fréttir sem gætu verið góðar fréttir og vice versa. Það verður að bíða betri tíma. Best að fara að knúsa lítinn kall.

Lifið í friði.

29.1.06

lesist

Titillinn er tengill á óhugnalega en jafnframt frekar skemmtilega lýsingu á því hvað karlmenn eru oft mikið ÖM.
Ráðlegg lesturinn og hafa gubbufötu hjá sér.

Lifið í friði.

27.1.06

smáborgarinn moi

Ég stefndi hraðbyri í alvöru þunglyndi áðan yfir eigin smáborgarahugsunarhætti og almennri hræsni minni.
Ég sá að ég gæti ekki verið að gera neitt af viti og lagðist því upp í rúm eftir að drengurinn minn var sofnaður, og hélt áfram að lesa í bókinni sem ég er búin að vera að glugga í síðastliðna mánuði. Sjáið bara smáborgaraháttinn við þessa setningu. Mér, fullkomnu húsmóðurinni og góða gædinum getur ekki þótt það að liggja og lesa á miðjum degi, vera vit. Nei, það væri vit að vera að taka til uppi á skáp eða frammi á skrifstofu. Ekki veitti nú af!
EN, ég lenti á svo rosalega góðum kafla að ég fílefldist og varð aftur reið út í heimska markaðskalla (já, konur eru líka kallar eins og við amma pönk komust að í símanum áðan) og fylltist von um að bráðum fari nú eitthvað að gerast.
Ætla ég að deila þessum kafla með ykkur? Það væri nú gaman, en hann verður djöfulsins torf að þýða. Hann fjallar um tvöfeldni í samskiptum stjórnmálamanna við fólkið, lýðinn. Og um að þessi ameríkaníserun á stjórnmálum sem hafa breyst í sýningar (sirkús?) hverra gæði mælast með klappmælum í salnum er farin að valda hjásetu kjósenda. Er orðið hjáseta til?
Hver er munurinn á republicain og democratique? Ætli ég nenni að leggjast yfir þessar blaðsíður og deila þeim með ykkur?
Læt mér nægja í bili að segja ykkur að eftir að ég fór að lesa frönskuna almennilega fylltist ég miklum hroka gagnvart fólki sem ekki les frönsku. Fann fyrir mikilli stærrimáttarkennd, vegna víðáttunnar sem opnaðist mér. Ég hef aðeins lækkað rostann í sjálfri mér, held ég... og þó... veit ekki alveg.

Bendi svo á ágæta grein á Múrnum eftir ÁJ um lagabreytingar á hjúskaparlögum. Er sammála öllum orðunum og öllum samsetningum þeirra. Pour une fois.

Lifið í friði.

kuldi

Ég var búin að skrifa langa hugleiðingu um samviskubit og fátæklinga og mig feita og freka lifandi í vellystingum. Það er ekki hægt að skrifa svoleiðis tvisvar. Kannski var ágætt að "Safari left the building" áður en ég náði að birta hana.
Fór með föt og teppi og fleira í rónaskjól hér í hverfinu. Mér líður samt ekkert betur. Það er erfitt að þola þennan kulda þegar maður er svona í ofkyntu húsi með allt sem þarf en veit samt af öllu þessu fólki sem þjáist svo mikið.
Af hverju þarf frumskógarlögmálið að gilda, þegar maður veit, VEIT, að megnið að þegnum þjóðfélagsins er ekki hlynnt því? Hver er ekki samþykkur því að hjálpa minni máttar? Hver getur uppástaðið að réttur sjúkra og fatlaðra til mannsæmandi lífs sé bara nostalgía?

Sem betur fer verður ekki eins kalt og búið var að spá. Á m.a.s. að ná upp í 4 gráður um helgina, ekki fara niður í -15 eins og spáin var í vikubyrjun.

Lifið í friði.

26.1.06

súrrealismi

Ten Top Trivia Tips about Parisardaman!

  1. If you lick parisardaman ten times, you will consume one calorie.
  2. The most dangerous form of parisardaman is the bicycle!
  3. In a pinch, the skin from a shark can be used as parisardaman.
  4. Parisardaman was the first Tsar of Russia.
  5. Europe is the only continent that lacks parisardaman.
  6. Only one person in two billion will live to be parisardaman!
  7. Parisardaman has a memory span of three seconds.
  8. The colour of parisardaman is no indication of her spiciness, but size usually is.
  9. All gondolas in Venice must be painted black unless they belong to parisardaman!
  10. By tradition, a girl standing under parisardaman cannot refuse to be kissed by anyone who claims the privilege!
I am interested in - do tell me about

öryggi í heimahúsum

Mér brá mikið við auglýsinguna frá Securitas sem var í Mogganum sem barst mér í hendur í gær. Þess vegna var ég mjög fegin að sjá þetta rætt hjá Dr. Gunna núna í morgun. Ég er honum fyllilega sammála og vona að sem flestir fyrirlíti svona lummulega herferð.
Þetta er svo sem alveg í stíl við annað í þessum brenglaða heimi okkar. Eins gott að við erum flest bara svo klár að sjá í gegnum þetta og halda áfram að lifa okkar dásamlega lífi ótrufluð af þessum trufluðu einstaklingum sem beita öllum brögðum til að ná okkur á sitt vald. Eins gott.

Lifið í friði.

holtasóley

Persónulega finnst mér ágætt að þingið sé upptekið af holtasóley og stöðu hennar í þjóðfélaginu. Fegin að rétt á meðan eru þeir þá ekki að gera neinn óskunda.
Þetta sýnir hvaða álit ég hef á löggjafarvaldinu.

Lifið í friði.

25.1.06

Baskakórinn syngur afar fallega á sínu fína tungumáli sem er áreiðanlega í meiri útrýmingarhættu en okkar ástkæra ylhýra.
Þeir eru líka skemmtilegir menn og fagrir með afbrigðum og átti ég góða kvöldstund með þeim.
Sumir eru gamlir og gráir í nælonpeysum og slitnum buxum. Aðrir ungir og uppstrílaðir í teinótt jakkaföt eða nýjasta gallabuxnasniðið (eða ekki það nýjasta, hvað veit ég, þegar einhver sagði einhvern tímann í hneykslunarrómi við mig um annan að sá hefði verið í 501 sem ég átti þá að skilja að væri síðasta sort, gerði ég mér grein fyrir því að ég er dottin út úr gallabuxnatískunni).
En ég er nokkuð sannfærð um að það verði gríðarlega skemmtilegir og spennandi karlakóratónleikar í París 1. apríl nk.

Dóttir mín fór í læknisskoðun í morgun. Hún er rétt tæpur meter á hæð og skrifar nafnið sitt og fleiri stafi. Hún ruglar reyndar hvernig S á að snúa, finnst það flottara öfugt, segir hún. Sjónprófið kom ekki nógu vel út, hún þarf að fara til augnlæknis í almennilega skoðun. Hún teiknaði hring, kross og ferning á blað og gerði allar þær kúnstir sem fyrir hana voru lagðar. Karlinn sem hún teiknaði var í mjög löngum og támjóum skóm með hárið út í loftið. Hún þekkti allar gjörðir fólksins á myndunum þar til kom að síðustu myndinni: Kona að strauja. Þá strandaði litla dúllan, enda ekki nema von. Hér er að vísu til bæði straujárn (sem mér var gefið og hvar er það nú?) og straubretti sem ég fann úti á götu ef ég man rétt. En bæði eru pökkuð inn í plast og hafa verið notuð kannski tvisvar á heimilinu síðan við fluttum hingað og í bæði skiptin af gestkomandi.

Í gær reyndi maður að fremja sjálfsmorð í Frakklandi. Næsta víst er að einhverjir aðrir en þessi maður hafi reynt það og nokkuð líklegt að einhverjum hafi tekist ætlunarverkið. Þessi maður var ekki að gera þetta í fyrsta skiptið og hefur alltaf verið bjargað því hann vill það. Þessi maður, ásamt góðum hóp af öðru fólki, er mikið í fréttum þessa dagana sem píslarvottur óhugnalegra réttarmistaka þar sem fjöldi fólks var í fangelsi í 20 mánuði eða meira vegna kynferðisafbrota gegn börnum sem búið er að sýkna þau öll af í dag. Outreau málið er mjög skrýtið allt saman og væntanlega er íslensk pressa að fylgjast með þessu, þetta er a.m.k. í meira lagi áhugavert mál. Sýnir m.a. núna við vitnisburð fórnarlamba lygavefsins fyrir framan þingnefnd, hvernig lögregla hikar ekki við að pynda hér í Frakklandi. Þau voru öll talin ógurleg skrímsli og þess vegna mátti neita þeim um stóla, vatn og annað. En nú verð ég að hætta í miðri setningu svo til. Vildi bara benda á að það eru ekki alltaf "bara" sekir geðskjúklingar sem fremja sjálfsmorð eða reyna það.

Lifið í friði.

24.1.06

Baskakór

Ég er að fara á æfingu hjá baskneskum karlakór í kvöld. Hef enga trú á öðru en að það verði fjör. Mér er tjáð að einn söngvaranna tali íslensku. Spennandi. Vegir vinnunnar eru órannsakanlegir.

Lifið í friði.

gamalt efni

Ég var að leita að gömlum pistli sem ég fann ekki en datt niður á þennan í staðinn. Þetta er dálítið langt, en holl lesning:

HÚSMÓÐIR UM HÚSMÆÐUR
Ég var að lesa grein um bók sem var að koma út í Frakklandi sem sálfræðingur skrifaði um rannsóknir sínar á stressi húsmæðra. Þar kemur fram að streita hefur verið mæld í flestum störfum og að mörg störf eru viðurkennd sem sérlega erfið störf streitulega séð. Þessi sálfræðingur bendir á að samkvæmt hennar rannsóknum er húsmæðrastarfið jafn erfitt andlega og hjúkrunarkonustarfið og það að vera yfirmaður á skrifstofu. Hún segir jafnframt að í þessum geirum hafi verið lögð áhersla á viðurkenningu og umbun sem ráð gegn streitu, en að enginn veiti húsmæðrum svona hvatningu heldur séu þær frekar illa séðar af þjóðfélaginu, þykja afar óspennandi í boðum og margir líti svo á að þær geri bara ekki neitt, hangi bara yfir lélegu sjónvarpsefni alla daga.
[Bryn vinkona minnti mig einmitt um daginn á enska rannsókn sem leiddi í ljós að húsmæðrastarfið jafngilti að mig minnir 3 heilsdagsstörfum á ári, þ.e. að ef maður gerði ekkert sjálfur heima heldur fengi fólk í það, þyrfti að hafa 3 manneskjur í fullri vinnu.]
Í greininni voru vitnisburðir nokkurra kvenna, og sú sem er ánægð með líf sitt sem húsmóðir og móðir 3ja barna, segir að þrennt komi henni til hjálpar við að vera sátt við stöðu sína: mjög góður eiginmaður, brjálæðislega mikil skipulagning í heimilishaldinu þar sem börnin eru virkjuð til að hjálpa til og svo síðast en ekki síst að henni er skítsama um það hvað öðrum finnst um hana. Hún lætur t.d. börnin borða í skólanum tvo daga í viku þó margir hneykslist á því við hana.
Mér þykir þetta mjög áhugavert og vil minna á að öll störf sem fela í sér umönnun og uppeldi barna eru illa launuð og oft litið niður á þessar stéttir þjóðfélagsins. Samt erum við öll nokkuð meðvituð um þá staðreynd að þarna eru jú komandi kynslóðir og að það skipti máli að fara rétt að öllu til að byggja upp góða einstaklinga fyrir framtíðina, er það ekki?
Sálfræðingurinn kom með mjög gott dæmi til að fá útivinnandi fólk til að skilja hversu flókið húsmæðrahlutverkið getur orðið: Segjum að þú þurfir að gera stutta skýrslu fyrir fund eftir hádegi og ætlir að nýta morguninn í það. Tveir samstarfsfélagar þínir koma með vandamál til þín sem þeir þurfa aðstoð við að leysa og yfirmaðurinn kallar þig inn á skrifstofu til að bera undir þig nýja hugmynd sem þú átt að melta með þér. Á endanum gerir þú skýrsluna hroðvirknislega og mætir pirraður og óundirbúinn á fundinn með streitukúlu í maganum. Svona aðstæður eru daglegt brauð mæðra margra barna. Ein húsmóðir sagði henni sögu um það að hún ætlaði að fara að versla með tvö börn sín. Hún var rétt búin að koma þeim fyrir í bílnum þegar síminn hringdi. Þegar hún kom út á plan aftur var litli búinn að kúka og sá eldri grenjandi. Hún skipti á litla gaur og gaf þeim eldri djús að drekka. Þegar hún fór að setja þá aftur inn í bíl komst hún að því að klukkan var orðin of margt, hún myndi aldrei ná þessu fyrir kvöldmatartímann sem er heilagur fyrir börnin eins og allir foreldrar vita. Hún tók því alla inn aftur og settist niður við eldhúsborðið og grét. Þegar hún reyndi að segja manninum sínum frá þessu um kvöldið sýndi hann málinu engan skilning.
Málið er að konur í dag eru oft félagslega einangraðar þegar þær eru heima með börnin. Fjölskyldan býr oft of langt í burtu til að hægt sé að hittast reglulega, vinkonurnar eru allar úti að vinna og ekki býr maður til vinkonur úr þessum konum sem maður hittir úti í almenningsgarði, maður á yfirleitt ekkert sameiginlegt með þeim eða nær a.m.k. aldrei að komast að því þar sem það kurteislega hjal sem þar fer fram snýst aðallega um aldur barnanna og hvernig þau sofa og borða og hvort þau eru dugleg eða sein til í þroska. Ég hef a.m.k. aldrei prófað að ræða bókmenntir eða bíó við konurnar úti í garði. Kannski ætti maður að gera það einn daginn, ég ímynda mér samt að þær myndu horfa á mig eins og eitthvað viðundur og mjaka sér hægt í burtu frá mér eins og maður gerir ef maður lendir á sérlega leiðinlegri mömmu.
Ég er mjög heppin því ég á mikið af góðum vinkonum sem nenna að hlusta á mig og eru sjálfar í þessum barnapakka, og svo á ég líka nokkrar vinkonur sem nenna alls ekki að tala of mikið um svona mál þar sem þær eru alls ekki í þessum pakka. Bæði er mjög gott og gefandi. Reyni að hitta vinkonurnar reglulega til að afmamma mig aðeins eins og Agnes kallar það.
Svo er ég líka svo heppin að eiga yndislegan mann sem býr oft til matinn og gengur frá í eldhúsinu og vaknar t.d. alltaf með þessum morgunhönum sem við eigum og leyfir mér að sofa aðeins lengur. Ekki má gleyma því að við getum leyft okkur að fá konu í tvo tíma á viku sem ryksugar og þrífur. Ég elska þá konu svo mikið að engin orð fá því lýst, hún er eiginlega engillinn minn.
En best af öllu er þó að ég er farin að vinna aðeins aftur. Það er nóg að gera hjá okkur þessa dagana og ég er örþreytt á kvöldin. En ég er samt svo ánægð með að komast aðeins burt frá heimilinu og hversdagslífinu og hitta ókunnugt og skemmtilegt fólk og geta deilt með þeim þessari dásamlegu borg minni.
Öll þessi atriði gera það að verkum að ég mun að öllum líkindum halda geðheilsu minni meðan ég kem börnunum á legg. Málið er að það er fullt af konum út um allan heim sem gera það ekki. Þær eru meira og minna þunglyndar og oft gengur það svo langt að það endar með ósköpum og ofbeldi. Börn út um allan heim eru lamin af mæðrum sem, um leið og þær slá til barnsins, engjast um af kvöl inni í sér. Þjóðfélagið verður að gera eitthvað í þessu, það er ekki hægt lengur að láta eins og ekkert sé. Stórum fjármunum er ausið í að fá okkur til að hætta að reykja, væri ekki mikilvægara að koma á fót fleiri barnaheimilum, gefa konum kost á að fá frí frá börnunum þó ekki væri nema einn, tvo daga í viku? Kannski myndu m.a.s. reykingar húsmæðra snarminnka ef þær hefðu tíma til að hugsa aðeins um sjálfar sig og gætu styrkt sjálfsmatið.
Ég var að pirra mig um daginn á öllum þessum vörum sem eru gerðar með setningum eins og "I love my mummy" eða "mamma er best". Mér fannst svona framleiðsla ganga út á að gera lítið úr okkur mæðrum, gera ráð fyrir því að við værum svo frústreraðar að við þyrftum að sannfæra sjálfar okkur um að börnin elskuðu okkur svo og svo mikið. En líklega eru þessar vörur framleiddar af góðum hug og af góðu fólki sem skilur það að oft er eina hrósið sem við fáum okkar eigin sjálfshól og bolir og smekkir sem við getum klætt börnin okkar í og lesið á þeim að þau elski okkur um leið og þau frussa matnum út úr sér yfir nýskúrað gólfið.

Nokkrir hlutir sem "venjulegt fólk" getur byrjað að gera til að hjálpa húsmæðrum að halda geðheilsunni:
Hrósaðu mömmunni fyrir hárið, peysuna eða varalitinn í staðinn fyrir að segja að barnið sé fallegt.
Segðu öllum húsmæðrum frá ensku rannsókninni og dáðstu að þeim fyrir dugnaðinn (þó að íbúðin sé í rúst og horið leki úr barninu).
Dragðu húsmóðurina út í bíó eða á tónleika við og við. Ekki hlusta á hik hennar, píndu hana til að redda barnapíu ef pabbinn getur ómögulega komið heim úr vinnunni á skikkanlegum tíma.

Nú er ég farin að hljóma eins og einn af þessum tölvupóstum sem ég er alltaf að fá þar sem konur stunda sjálfshól sér til styrkingar. Best að hætta núna.

er ekki lagið að verða búið?

Er ekki janúar að verða búinn?
Er ekki veturinn að verða búinn?

Lifið í friði.

23.1.06

pyntingar - pyndingar

Ég ákvað að færa umræðuna úr orðabelgnum hér að neðan upp á "hærra plan", beint inn á síðuna þar sem mér finnst þetta nokkuð áríðandi.

Ég að svara Hildigunni sem spurði hvort 24 væri ekkert að förlast:
24 er alltaf jafn spennandi en ég var byrjuð að kvarta í lok 3. seríu yfir of miklum pyndingum. Þetta versnar í 4. seríu og nú um daginn rakst maðurinn minn á grein um þetta á franska netinu, fleirum en mér er farið að blöskra. Þeir virðast vilja láta okkur finnast það eðlilegt að stundum þurfi að pynda svörin úr fólki. Það fer afskaplega mikið í taugarnar á mér.

Ég með efasemdir um sjálfa mig:
Er það pynta eða pynda?

Hildigunnur:
pynta (sem er ekkert skylt pynte í dönsku )
mér fannst alveg nóg um pyntingar í annarri seríu. Takk fyrir að vara mig við.
(ætli sé verið að lauma inn stuðningi við quantanamo og svipaða staði?)

Eyja:
Sjálf nota ég yfirleitt orðið "pynta" þegar ég pynda fólk við yfirheyrslur. Annars segir orðabókin mín að bæði orðin séu góð og gild.
Mér þætti gaman að vita hversu gagnlegar upplýsingar sem fást með pyntingum reynast. Fangar sem er verið að pynta hljóta að segja svo til hvað sem er og þar að auki oft að vera orðnir snarruglaðir. Sannsögli er þeim sennilega ekki efst í huga. Ekki það að gagnsemi upplýsinganna dugi til að réttlæta pyntingar í mínum huga en mér svona dettur í hug að pyntingarnar þjóni fyrst og fremst kvalalosta pyntingameistaranna og að "árangurinn" sé í raun aukaatriði.

Mitt svar:
Já, það er að mínu viti augljóst að framleiðandi/handritshöfundur/leikstjóri er að berja inn í haus áhorfenda að pyndingar (ég ætla að halda mér við þessa stafsetningu fyrst það má, þar sem hún kom umhugsunarlaust hjá mér í upphafi) séu nauðsynlegur hluti af stríði Bandaríkjamanna við hryðjuverkamenn.
Þetta er afar óhugnalegt sjónarmið og í fyrstu seríunum virtist mér þessi hluti frekar vera eins konar ádeila. Aðalpersónan upplifir miklar sálarhremmingar í sambandi við allt sem hann þarf að ganga í gegnum og verkin sem hann neyðist til að vinna til að bjarga forsetanum og "milljónum Bandaríkjamanna" (síendurtekið í seríunum: "Millions will die, we don't have time..."). Nú í fjórðu seríu bendir ýmislegt til annars. Það er tekið til við að pynda ótrúlegasta fólk og persónur sem reynast hafa verið pyndaðar að ósekju eru svo gerðar leiðinlegar eða frekar og látnar hverfa. Þetta er þó ekki algilt, ein persónan er orðin að einhvers konar píslarvætti og spennandi að sjá hvað þeir gera við hana í næstu þáttum.
Ég get eiginlega ekki sagt of mikið um þetta þar sem Hildigunnur á eftir að sjá seríuna og ég þoli ekki þegar fólk eyðileggur fyrir mér með því að segja mér hluti. En ég get a.m.k. lofað því að ef serían endar í fasískum lofsöng um Bandaríkin og hvernig þau fórna mannslífum í baráttunni við illu Arabana, er ég ekki alveg viss um að ég horfi á 5. seríuna líka.

Ég er gersamlega sammála Eyju um að pyndingar eru kvalalosti, þegar lögregluþjónar fara illa með fanga eru þeir iðulega að gera það af hatri, ekki til að þjóna réttvísinni á nokkurn hátt.
Ég vona bara að sem flestir geri sér grein fyrir því að pyndingar eru að verða eðlilegur hlutur fyrir æðstu ráðamenn í Bandaríkjunum og að þessa þróun verður að stöðva. Hvað er langt í að íslenskir ráðamenn feti í sömu fótsporin? Gera þeir það ekki yfirleitt?

Lifið í friði.

brjóstsviði

Þegar ég var barn fannst mér brjóstsviði undarlegt orð. Svo varð ég ófrísk og aftur ófrísk og þá fékk ég að kynnast því hvernig brjóstsviði getur verið jafnógeðfelldur og mígrenikast eða tannverkur.
Í dag þjáist ég svolítið af brjóstsviða. Líklega get ég kennt um þriggja kvölda útstáelsi og tveimur þáttum úr 4. seríu 24 í gærkvöld. Djöfull varð ég hrædd maður!
Tapas-staðurinn á föstudagskvöld fer bráðum inn á netsíðuna. Eini gallinn við þann stað er að hann er dálítið dýr. Á minn mælikvarða. Borguðum 40 evrur á mann. Enginn desert en nóg af víni og bjórum og mat. Dásamlega góðum mat. Ég fæ vatn í munninn.
Ég ætlaði að blogga um eitthvað ákveðið, eftir bloggrúnt morgunsins, en ég get ómögulega munað hvað það var. Hvað var það?

Lifið í friði.

20.1.06

spænskur veitingastaður

Ég er að fara að borða á dásamlega góðum tapas-stað í kvöld. Einn af mörgum stöðum sem ég gleymi alltaf að bæta inn á netsíðuna mína. Skamm ég. Verð nú að fara að ganga í ýmis mál þar. Þegar ég er búin að ganga frá nokkrum öðrum málum. Og enn öðrum. Og tveimur í viðbót... kannski...
Hvernig væri það að ákall milljóna manneskja á degi hverjum um fleiri klukkustundir í sólarhringinn færi að bera árangur? Ætli það sé rétt hjá ykkur vantrúaða efalausa fólki sem ég veit að les mig, ætli guð sé kannski bara ekki til? Ég veit a.m.k. að fólkið sem græddi 28 milljarða á síðasta ári á sér guð. Hann heitir dollari, yen, króna, pund... eins og margir aðrir guðir ber hann mörg nöfn. Flottast er kannski mammon.

Lifið í friði.

klukk

Fernt sem ég hef unnið við:

skrifa símaskrána
gera kaffi handa skógræktarfólki
sendill fyrir bíómynd
aðstoðarklippari stuttmynda

Fjórar bíómyndir sem ég gæti horft á aftur og aftur (og geri):

Singin' in the Rain
Vertigo
Les Demoiselles de Rochefort
Arsenic and Old Lace

Fjórir sjónvarpsþættir sem ég fíla:

24
Friends
Barnaby
Without a Trace

Fjórar bækur sem ég les oft:

Sjálfstætt fólk
Ástin fiskanna
Bróðir minn LJónshjarta
Arsene Lupin ævintýrin

Fjórir staðir sem ég hef búið á:

Þórsgata 7
6, rue la Boetie
Óðinsgata 7
Hjallasel 22

Fjórir staðir sem ég hef heimsótt í fríum.

Sikiley
Ísland
Korsíka
Ibiza


Fjórar síður sem ég kíki daglega á:

Parísardaman er opnunarsíðan
... bloggrúnturinn er farinn svona næstum daglega
og annað er mjög misjafnt, engin síða sem ég er "háð" nema mín eigin...

Fernt matarkyns sem ég held upp á:

Tómatar
Andabringur
Gulrætur
Mangó

Fjórir staðir sem ég vildi heldur vera á núna:

Reykjavík
Egilsstaðir
Vogar á Vatnsleysuströnd
Sikiley

Fjórir bloggarar sem ég klukka:

Eyja
Hanna litla
Bryn
Huxy

Þar hafið þið það. Fyrirgefið mér þið sem ég klukkaði, það er engin skylda að hlýða þessu ef fólk er orðið leitt á að leika sér.
Ég svaraði þessu hratt og án mikillar umhugsunar og athugið að svörin eru engan veginn forgangsröðuð. Það er nauðsynlegt að átta sig á því. Mjög nauðsynlegt. Ætti að binda í lög. Munið það bara. Ekki gleyma því.
Svo finnst mér líka ástæða til að eftirfarandi komi fram, því ég er svo montin með það: Ég er þunn eftir gærdaginn og er á leið út í kvöld OG annað kvöld. Mætti halda að ég hefði hoppað aftur í tíma, tímans fyrir börnin og kallinn. Gaman að geta ferðast í tíma. Þó það sé í þykjó.
Svo finnst mér líka eftirfarandi mega koma fram: Ég sigraði í kvikmyndakeppni Hjössa Frjálsa í dag. Ég er best. Langbest.

Lifið í friði.

19.1.06

sumir dagar

Sumir dagar eru þannig að þú gefur uppteknu konunni í viðskiptadeildinni upp ranga dagsetningu og þarft að hringja aftur og leiðrétta og þá hún farin á fund.
Sumir dagar eru þannig að barnið þitt er enn og aftur komið með sýkingu í augun.
Sumir dagar eru þannig að þú ert búin að skera gulrætur og kartöflur í fína bita, þú ert að fara setja þetta í örbylgjuofninn í fínu örbylgjugufusuðudollunni en lokið er eitthvað laust, þú reynir að laga það, missir hana úr höndunum beint á hitastillitakkann á eldavélinni sem brotnar af, dollan í gólfið með takkanum og gulrætur og kartöflur út um allt gólf.
Sumir dagar eru bara hreinlega leiðinlegri en aðrir dagar.
Samt er gaman að lifa. Er það ekki annars?

Er hægt að líma takka á eldavélum án þess að skemma snúningsfídusinn sem er bráðnauðsynlegur á eldavélatökkum?

Ef ég fæ mér teljara á síðuna, hvernig ber ég mig að? Er einn teljari betri en annar?

Lifið í friði.

16.1.06

ofurviðkvæmt blóm

Ég hef aldrei talið mig ofurviðkvæma en ég er kannski farin að verða meyrari með árunum.
A.m.k. hefur þolstuðull minn gagnvart lélegu sjónvarpsefni snarlækkað sem hefur orðið til þess að ég er nokkurn veginn hætt að horfa á sjónvarp.
Að sama skapi skil ég ómögulega hörku fólks sem getur setið og lesið barnaland og málefnin. Ég hef oft reynt, alveg eins og ég margreyndi að horfa á Loft Story (franski big brother) en ég gefst alltaf upp á innan við mínútu.
Lýsingar Hörpu á skrifurunum á barnalandi eru nú samt óviðjafnanlegar, mæli sterklega með þeim (tengill í hana hér til hliðar).
Varðandi DV-málið hlakka ég ógurlega til að lesa Guðna í Mogganum frá laugardeginum síðasta. Guðni hefur lengi rýnt í DV í pistlum sínum í Lesbók og nú væri sannarlega gaman að eiga þá alla. Ég er ómöguleg í að safna úrklippum, hendi blöðunum alltaf í tiltektarkasti og gef mér þá ekki tíma til að renna yfir þau til að klippa út. En Guðni er mjög gáfaður maður og ritfær og hefur verið unun bókmenntalegri rýni hans á stefnu DV. (Nú þori ég ekki annað en að taka fram að fyrir mér er lýsingarorðið gáfaður EKKI skammaryrði.)
Eftir að hafa lesið margt misgáfulegt um þetta mál, er mín niðurstaða enn sú sama og í upphafi: Mér finnst blöð eins og DV ekki hafa tilverurétt. Mér er skítsama þó að ákveðinn hópur fólks hafi gaman af því að velta sér upp úr skít og óþverra, mig langar til að búa í heimi þar sem DV er ekki til. Alveg eins og mig langar til að peningarnir hætti að vera Guð. Ég er hugsjónamanneskja og draumórakona og barnaleg og allt það sem þið viljið kalla mig. Kannski m.a.s. hræsnari og lýðskrumari. Það verður að hafa það, ég vil trúa því að heimurinn geti orðið betri, að tíminn haldi ekki áfram að líða bara til að við getum sokkið dýpra í drulluna.

Þegar ég var í fríinu á "Spáni" í haust voru öll blöðin í búðinni sem við skruppum stundum í, bresk. Eftir að hafa rennt yfir fyrirsagnirnar tvisvar óforvarendis gerði ég mér grein fyrir því að þær voru of mikið fyrir mig og hætti því að líta á þennan vegg. Blóð, morð, níðingar, lýtalækningar... þarna voru óteljandi blöð sem höfðu öll þessa sömu stefnu og DV, að draga upp skít og klína honum út á forsíðu vegna þess að "þetta er það sem fólkið vill" eða jafnvel "þetta er það sem fólkið ÞARF " eins og sumir DV manna hafa reynt að sannfæra landann um.
Þess vegna varð maðurinn minn að hnippa í mig einn morguninn þegar við áttum leið hjá búðinni. Þar stóð stórum stöfum á forsíðunni sem sett var á skiltið fyrir framan búðina: WAR. Hann spurði mig hvort ég héldi að virkilega gæti verið að skella á heimsstyrjöld en við ákváðum í sameiningu að líklega væri verið að ræða um átök Kate Moss við einhverja umboðsmenn hennar eða eitthvað sem við höfðum óvart heyrt eitthvað um deginum áður þar sem við sátum á borði við hliðina á háværum breskum kerlingum.
Við nenntum ekki einu sinni að athuga málið betur, svo sannfærð vorum við um að STRÍÐIÐ sem um ræddi væri eitthvað sem okkur kæmi ekki hætishót við.
Mér finnst erfitt og rangt að geta ekki tekið neitt mark á fjölmiðlum. Ég tek ekki mikið meira mark á öðrum íslenskum fjölmiðlum. Né mörgum frönskum ef út í það er farið. En það er þó skárra að hafa ekki þennan sjokkstíl á bullinu. Er það ekki?
Annars er mín aðal fréttalind núorðið bloggið. Ég fæ allar helstu fréttir, innlendar og erlendar af því að lesa ykkur kæru bloggvinir. Og mun betur framreiddar. Stundum þarf ég að lesa þrjá til fjóra til að skilja alveg hvað rætt er um. Stundum skellir bloggarinn mér yfir á mbl eða visi með tengli. En þetta er samt mun betri leið til að horfa á umheiminn en að éta upp það sem fjölmiðlarnir segja manni að sé fréttnæmt.
Kannski bloggin eigi eftir að drepa prentuðu fjölmiðlana eins og franskir blaðamenn vilja meina? Og kannski er það bara vel?

Lifið í friði.

15.1.06

élskann

Maðurinn minn ber af öðrum mönnum, bæði hvað varðar gáfur og hversu mikið gagn er að honum heimafyrir. Þessa vikuna hef ég verið föst við tölvuna og hann hefur að mestu séð um að fæða, klæða, baða og fara út með börnin. Kann ég honum bestu þakkir fyrir það og er fullmeðvituð um að ekki hefðu allar konur getað leyft sér að hverfa svona frá heimilishaldinu, sérstaklega þar sem ég var heima allan tímann. Hann lætur mig alveg í friði og gerir sitt besta til að halda börnunum frá mér sem er erfitt verkefni þar sem við búum ekki svo vel að eiga sérstakt herbergi undir tölvuna. Hvorki húsbóndaherbergi né skrifstofu. En við gætum svo sem átt skrifstofu og verið bæði útivinnandi að vinna fyrir afborgununum og þá hefði ég ekki skotist í svona verkefni og ekki getað treyst á hann til að vera með börnin á meðan. Skiljið þið? Maður velur og hafnar og okkar val er að lifa smátt og vinna smátt. Í skorpum.
En eitt gat ég þó ekki lagt á herðar honum þessa vikuna. Að kaupa afmælisgjöf fyrir litla vinkonu dóttur okkar. Ekkert frekar en að ég setti í þrjár vélar á dag alla þessa vikuna og lét mig ekki dreyma um að biðja hann um hjálp við það. Allir hafa sín takmörk. En þar sem verkefnið mitt gekk ágætlega í gær, ákvað ég að skella mér í bíltúr út í mollið hérna rétt hjá til að kaupa afmælisgjöf handa litlu dúllunni. Ég vissi hvað ég vildi og hvar það fengist. Mollið er í tíu mínútna akstursfjarlægð héðan svo þetta yrði ca. 40 mínútna pása fyrir mig þar sem ég fengi m.a.s. að sjá ókunnugt fólk sem er alltaf mjög þægilegt og gott.
Það var bara eitt lítið smáatriði sem ég hafði ekki tekið með í reikninginn: Fyrsti laugardagur útsölunnar. Til að gera langa sögu stutta og hlífa ykkur við lýsingum af öskrandi fólki að slást um stæðin og mannhafinu sem barðist um ódýrar skyrtur og Timberland skó svo Parísardömunni sem hefur óbeit á mollum og enn meiri óbeit á lummulegum tískuþrælum leið svo illa að í stað þess að drekka í sig ókunnugsfólksorku varð hún að loka sig inni í glerhjúpnum sínum sem eingöngu er tekinn fram í neyð, get ég bara sagt ykkur hvað það tók mig langan tíma að komast út af bílastæðinu. Getið þið nú. Hálftíma? Fjörtíu mínútur? Neihei, það tók mig sléttar 60 mínútur. Klukkustund. Frá því ég startaði bílnum og bakkaði út úr stæðinu sem beðið var eftir með óþreyju, silaðist ég þessa hvað... ég hef ekkert lengdarskyn, en ég var uppi og þurfti að fara eitt U, svipað U-unum í Kringlunni og svo niður brekkuna (ein hæð) og svo álíka lengd og meðfram Kringlunni öðrum megin og þá er maður kominn út á aðalgötuna. Þetta var eins og martröð. Ekki hægt að snúa við. Ekki hægt að leggja í stæði og fara inn og fá sér kaffi og bíða. Ekki hægt að gera neitt nema sitja þarna eins og fáviti með hinum fávitunum og bíða. Í lokin mölbrotnaði glerkúlan fína og ég var næstum farin að öskra af pirringi, rífandi í hár mitt.
Ég mæli eindregið með ferð til Parísar. En ég mæli alls ekki með því að vera á bíl og ég mæli alls ekki með fyrsta laugardegi útsölunnar.

Lifið í friði.

13.1.06

yfirlestur

... er notað á brundadeildum sjúkrahúsa...

eins gott að maður les yfir sjálfa sig

Lifið í friði.

tíminn og sjónvarpið

Um daginn horfði ég að venju á upptöku frá sunnudeginum af þættinum "Arrêt sur Image" sem tekur fyrir málefni og kryfur til mergjar hvernig farið er með þau í sjónvarpinu. Þetta er mjög vandaður og góður þáttur, stýrt af Daniel Schneiderman sem alveg er hægt að byrja að tala illa um því stundum er hann svolítill lýðskrumari og auðvitað dettur stundum út úr honum eitthvað sem pirrar. Hann er blaðamaður og var rekinn frá Le Monde með hávaða og látum fyrir nokkrum árum. Varð svona "enfant terrible" sem Frakkar elska að elska. En ég ætlaði nú ekki að tala um hann hérna heldur það sem kom fram í þættinum síðasta sunnudag.
Þátturinn fjallaði um tsunamiharmleikinn á ársafmælinu. Farið var yfir sjónvarpsmeðferð flóðbylgjunnar frá upphafi fram á vora daga. Þar kom fram að í byrjun voru fjölmiðlar uppfullir af sorg og harmi og óhugnalegum myndum og göluðu hver í kapp við annan að nú yrði að hjálpa og senda pening og fólkið greip það á lofti. Ekki sakaði að stöðvarnar sjálfar og allir þekktir sjónvarpskallar (já, það eru afar fáar konur í einhverjum stjórnendastöðum hér, þær eru bimbóar að segja veðurfréttir eða bimbóar að skreyta umhverfið í kringum sjónvarpskallinn) gáfu pening og svona. Í það minnsta söfnuðust meiri peningar en hafa nokkurn tímann safnast eftir náttúruhamfarir. Rauði krossinn og allar hinar hjálparstofnanirnar tóku við peningnum og byrjuðu björgunarstarfið af fullum krafti. Mikla athygli vakti þegar "Médecins sans frontieres" (læknar án landamæra) báðust undan meiri pening. Þeir væru komnir með of mikið. Þetta þótti fréttamönnum og þar með fólkinu í landinu, mesti hroki og voru fúlir út í þá og leyfðu þeim ekki lengur að vera með í nokkru sjónvarpsefni. Og peningarnir streymdu inn.
Svo kom janúar og þar á eftir febrúar og heimurinn fór að snúa sér að öðrum hugðarefnum en vesöld í öðrum heimshornum.
Svo í maí, júní, byrjar aftur sjónvarpsáhugi á Asíu og tsunsami-afleiðingunum. Þá var komið annað hljóð í strokkinn. Þá var viðkvæðið: Peningarnir ykkar liggja í banka á reikningum með vöxtum. Og ekki var gleðihljómur í rödd fréttamannsins yfir þessu heldur mikil vandlæting og hneykslan. Hann fór og fann þorp sem var ekki enn búið að byggja upp. Hann sýndi fram á að Secours Populaires (hjálparstofnun) vissi ekki um konuna sem var þar frá þeim og beið eftir aðstoð við að byggja á landinu sem hún var búin að fá afhent. Mikil umræða fór í gang um það að aldrei er hægt að vita hvað verður um peningana okkar þegar við gefum þá til svona stofnana. Rauði krossinn reyndi að bera í bætifláka og útskýra fyrir sjónvarpinu að hjálparstarfið byggðist ekki upp á nokkrum vikum heldur ættu þeir þarna margra ára starf fyrir höndum.
En sjónvarpið hlustar ekki á svoleiðis vitleysu. Í sjónvarpinu er tímapressa. Allt þarf að gerast á 26 eða 52 mínútum. Ein til tvær mínúta er langur tími í fréttum. Þetta geta hjálparstofnanir reynt að berjast við með álíka árangri og Don Kíkóti barðist við vindmyllurnar. En sem betur fer fór sjónvarpinu að leiðast að fjalla um þetta og fólkinu var snúið að öðrum hugðarefnum.
Líður og bíður og allt í einu er kominn nóvember. Farið að nálgast eins árs afmælið. Hvað er að gerast þarna niðurfrá? Þá kemur í ljós að allt er í fína, hjálparstofnanir hafa með þinni, ÞINNI, hjálp náð að byggja ótrúlega hratt upp nýja paradís fyrir þig. Komdu í heimsókn.

Tvennt truflar mig ógurlega í þessu öllu saman:
A. Þegar peningar safnast inn fyrir ákveðið málefni má alls ekki nota þá í annað málefni. Þess vegna sátu hjálparstofnanirnar með stútfulla reikninga á vöxtum og horfðu á afleiðingar jarðskjálftans í Pakistan og gátu ekki gert nokkurn skapaðan hlut því viðbrögð fólks á Vesturlöndum voru ekki nógu sterk. Sjónvarpið sýndi þessu lítinn áhuga, enda voru þarna engir túristar, engar ljóshærðar litlar stúlkur krambúleraðar búnar að týna mömmu, engar stórstjörnur í hættu. Þetta finnst mér alveg að mætti endurskoða.

B. Fólkið í heiminum er líklega farið að lifa í takt við sjónvarpið. Þess vegna finnst okkur tíminn líða hraðar en áður. Í sjónvarpinu þarf allt að gerast hratt, vera taktur í því, málið er reifað, bla bla bla, niðurstaða fengin, snúum okkur að öðru.
Er það kannski þess vegna sem við höfum ekki lengur tíma til að sauma fötin okkar, baka smákökur, hitta fólk fyrir jólin, hitta fólk á öðrum árstímum, fara í leikhús...?
Mér var t.d. bent á aðferðir supernanny sem þykir stundum heldur hörð við börnin þegar hún rífur af þeim pela og hendir í ruslið með barnið organdi í baksýn. Supernanny myndi aldrei gera svona á leikskóla. Hún tæki nokkra daga í að útskýra fyrir barninu að nú væri kominn tími á að losa sig við pelann og á endanum er það barnið sjálft sem hendir pelanum stolt með bros á vör. Sjónvarpið leyfir ekki slíkt vegna tímans, taktsins.

Ég vildi óska þess að fólk hætti að horfa á sjónvarp og færi að lifa meira eftir eigin takti. Heimurinn yrði áreiðanlega betri.

p.s. þetta var skrifað í dálitlum flýti, vonandi læsilegt en ég hef ekki tíma til að athuga það núna og ætla að henda þessu inn því ég hef týnt pistlum sem ég hef geymt sem uppkast.

Lifið í friði.

12.1.06

gleymdi ædol

áróðrinum sem ég var búin að lofa að taka þátt í og er mun skemmtilegri og jákvæðari en allt um DV.

Þetta er Idolstjarnan. Kjóstu.

Lifið í friði.

hégómi

finnst mér skemmtilegt orð. En það passar nú samt ekki inn í þýðinguna núna. Kannski fæ ég einhvern tímann tækifæri til að koma því að í auglýsingapésa:
Vertu hégómleg og stolt af því. Veldu vörunar frá okkur.
Boðháttur svínvirkar.
Ég er greinilega í þörf fyrir að tjá mig en hef bara ekkert að segja sem er sorgleg tvenna. Jú, eitt. Í gær skrifaði ég pistil um DV sem datt út fyrir klaufagang hjá mér. Þar skrifaði ég það sama og Ármann um að mér þætti reyndar ýmislegt gott við DV. En mér finnst nú samt of mikið vont til að geta verið sammála honum og fleirum um að gefa þeim séns. Ég vil a.m.k. sjá "mun skýrari línur í siðferðisstefnu þeirra" eða eitthvað annað ámóta gáfulegu lofuðu áður en ég fyrirgef þeim á ný. Ég hef aldrei á ævinni keypt DV, held ég. A.m.k. ekki í mörg mörg ár. Hins vegar valdi ég mér það úr blaðakerrunni í flugvélinni um daginn manni mínum til ómældrar undrunar. Og fannst ýmis skot á pólitíkusa í litlu fréttunum ágæt. Þeir þora, en þeir kunna sér ekki hóf. Þar stendur hnífurinn í kúnni. Ég vil frekar sjá fólk sem kann alls ekki með vín að fara hætta alveg en að lofa sér og öðrum að þeir geti breytt sér. Vá, metafóra fletafóra. Ég vildi að Proust væri hérna til að sjá þetta.

Og hvernig fer Ármann nú að því að sjá að ég setti tengil á hann í pistlinum?

Lifið í friði.

Hugsandi

Þó ég sé í alvarlegri tímaþröng í vinnunni, ákvað ég að laga aðeins tenglalistana mína. Glöggir hafa kannski tekið eftir nokkrum nýjum bloggtenglum undanfarið, það er hræðilegt fyrir bissí konu eins og mig að vera sífellt að uppgötva ný og góð blogg, en svona er það bara. Ég henti einni út sem hefur ekki haldið áfram eftir tvo pistla í haust en leyfi Bryn að vera áfram í veikri von um að hún fari að taka sig á. Ég vil benda þeim sem eru á tenglalistanum mínum á að ef þeir skrá sig á Mikka Vef er ég mun duglegri við að lesa þá.
Svo bætti ég loksins Hugsandi við. Það er fínt veftímarit og nú er þar mjög skemmtileg grein eftir Unni internetmömmu um tónleika og andóf. Hríslast um mann minningarnar við lesturinn. Skyldi Bubbi verða þarna 2018? Kannski verður þá hægt að raula: En núna er Bubbi lamaður, hjólastólnum ííííí....
Ég var þó ekki á þessum fyrri tónleikum frekar en núna en segi mér það til varnar að ég var ofverndað ungmenni þar sem foreldrar mínir höfðu starfað með hjálparsveit Skáta og séð um "dauða tjaldið" í Þórsmörk og foreldrar bestu vinkonu minnar voru bæði löggur. Við fengum því vídeótæki og nóg af nammi þegar eitthvað var um að vera sem olli okkur fiðringi. Þangað til að við fengum allra náðarsamlegast að skreppa stundum í D14, Best og seinna Traffic með því skilyrði að við vorum sóttar. Það var flókið ferli, ekki máttu vinirnir sjá að við vorum sóttar svo þau urðu að bíða bak við hornið með slökkt á bílljósunum. En þetta var útúrdúr.

Ég hef um fullt annað að blogga, en þar sem ég er orðin fimmtán mínútum á eftir áætlun hætti ég núna þæg og góð.

Lifið í friði.

11.1.06

veit ekki

Ég er tóm.
Mér leiðist.
Mig langar svo á Klimt sýninguna í Grand Palais og melankólíusýninguna líka. Og Da Da í Pompidou. Í staðinn er ég föst yfir brauðstriti í tölvunni. Ég veit ég á ekki að kvarta en ég er galfokkingtóm en samt í tímaþröng.
.
.
.
Djöfulsins DV.
.
.
.
Gott á Íslendinga með Tarantino. Þekki mann sem heyrði vel í honum á veitingastað í litla smábænum Reykjavík og það voru eingöngu dónabrandarar sem fuku við borð hans. Þetta er subbukall og fyndið að Íslendingar skuli lepja upp slepju um að það sé svo kúl að fá hann í heimsókn. Maðurinn er viðurstyggð. Ókei, sumar myndirnar hans eru góðar eða allt í lagi en kommon. Hann er deli og dregur að sér dræsur af því hann er deli með péning. Og hvað með það?
Hefur einhver farið á djammið í Madrid? Eða Bournemouth? Haldið þið virkilega að þetta sé ógeðslegra á Íslandi? Djamm er kannski alls staðar frekar ógeðfellt. Það er a.m.k. ógeðfellt að horfa upp á fólk sem er ekki sjálfrátt vegna drykkju. En það er ekkert verra á Íslandi heldur en annars staðar. Held ég.
Veðrið er grátt en mikið er nú samt gott að vakna snemma og samt er farið að birta.
En voðalega sakna ég samt Íslands. Mömmu.

Lifið í friði.

9.1.06

vinkonur

Vinkonur mínar eru allar meira og minna bilaðar. Sumar löggiltir geðsjúklingar sem fá stundum lyf og meðferðir en flestar bara skemmtilega léttgeggjaðar án þess að þurfa á hjálp að halda... eða vilja a.m.k. ekki hjálp... eða... æ, ég veit ekki...
En þær eru líka allar snillingar, hver á sinn hátt.
Kosturinn við að flytja frá Íslandi þegar maður er tvítugur pikkfastur í ákveðnum hópi með ákveðnar hópskoðanir og hóphúmor og hóphegðun er að maður byrjar að kynnast alls konar fólki sem maður hefði ekki svo mikið sem yrt á ef ekki væri fyrir þá staðreynd að tveir Íslendingar í útlöndum eru eins og ættingjar, sitja uppi með hvorn annan hvort sem þeir eiga samleið eða ekki. Og svo reynist maður bara eiga samleið með flestum. Ekki alveg öllum en ansi mörgum. Sumir fara svo heim á skerið aftur og stundum missir maður sambandið þó ekki hafi mann langað til þess, það bara gerist eins og flest annað í lífinu sem bara gerist án þess að hægt sé að ákvarða nákvæmlega á hvaða púnkti eða vegna hvers.
Toujours est il... ég er farin að rugla um allt annað en það sem þessi örstutti póstur sem ég er að stelast til að skella hér inn vegna þess að sonur minn er að gera mig gráhærða og ég get ekki þýtt frasa um yngingarmeðul meðan hann er að vinna í því að elda mig. Geri væntanlega speglaprófið á eftir til að sjá muninn fyrir og eftir meðferð hans.
En já... ég get bara ekki komið orðum að því sem ég ætlaði að segja. Hér kemur það: Ein vinkona var að fá inni í doktorsnám og önnur var að fá vinnu hjá íslensku útrásarfyrirtæki hér í París. Ligga ligga lá! Ég er að rifna úr monti.

Lifið í friði.

p.s. er kallinn dauður eða er hann bara sofandi?

8.1.06

krem

Mér finnst ég liggja í kremdollu og á erfitt með að halda mér á floti. Mýkjandi, sefandi, róandi, stinnandi og styrkjandi. Frískar útlitið og slakar á andlitsdráttum. Það skal þó viðurkennast að mig er farið að langa á snyrtistofu í dekur. Á samt slæma minningu af andlitsnuddi á eina dekurdeginum sem ég hef tekið þátt í. Ég fékk óstöðvandi hláturskast en þorði ekki að hleypa því út um andlitið sem konan var að nudda og strjúka og klípa létt, hélt að hún gæti móðgast. Þess vegna barðist það um inni í mér og ég þjáðist allan tímann. Næstum búin að míga á mig. Sem hefði kannski valdið konunni meira hugarangri en að ég hefði hlegið dátt í smá stund og getað svo leyft henni að halda áfram slök og fín. En það er svo erfitt að bregðast rétt við þegar maður er settur í svona aðstæður sem maður þekkir hvorki né skilur.

Þegar maður er að vinna svona í tölvunni einbeitt og hugrökk er gott að eiga bloggrúntinn sinn. Og skyndilega fannst mér ekki úr vegi að láta ykkur vita að ég hringdi út af sófanum. Lenti á símsvara svo nú er boltinn hjá sófaeigandanum. Verst þykir mér að þurfa að játa að rétt fyrir jólin tók ég ærlega til í geymslunni (sem er ekki það sem ég á erfitt með að játa því ég er vitanlega rígmontin af þessum parti sögunnar) og þá henti ég svona bedda sem er ætlaður sem gestarúm. Dýnan í honum var hryllingur og hann tók ógnarlegt pláss. Voilà. Þetta sannar náttúrulega bara það sem við pabbi höfum alltaf vitað: Maður á aldrei að henda neinu. Feng sjúí peng sjúí. Það getur alltaf komið aftan að manni að losa sig við hluti sem maður getur svo þurft á að halda seinna. Vegir lífsins eru órannsakanlegir og hvern hefði grunað að vinkona vinkonu léti mig sjá á eftir beddanum innan við mánuði eftir að hann var látinn fara? Eftir að hafa staðið ónýttur í kjallaranum í tvö ár?
En aftur að kremunum.

Lifið í friði.

7.1.06

soffi

Ég er í sófadilemma. Rétt skriðin út úr flugvélinni og þarf að taka ákvörðun milli þess sem ég hamra misgáfulegar setningar um snyrtivörur á tölvuna. Það er fáránlegt hvað maður er þreyttur eftir ferðalag sem er ekki lengra en þetta og gekk svona líka skínandi vel. Maður er stjarfur. Næ varla að gleðjast með vinkonunum sem eru allar skyndilega farnar að þeysast um á framabrautum ýmsum. Það verður sko nóg að gera við að skála í kampavíni þegar ég lýk þýðingunni.
EN, áður en það allt saman gerist þarf ég að taka ákvörðun um það hvort ég vilji sófa sem er fallegur en ekki svefnsófi, nýlegur Ikea sófi, einn af þeim sem ég myndi velja mér sjálf og m.a.s. í litnum mínum. Málið er að ég ætla fljótlega að breyta öllu heimilinu og þá er skilyrði að stofusófinn sé svefnsófi. En svefnsófaskirflið sem við erum með núna er svo hrikalega ömurlegur að mig langar LANGAR svooo mikið til að henda honum út um gluggan núna í þessum rituðum orðum. Verst hvað ég er hrifin af runnunum hérna fyrir neðan. Ætli ég myndi ekki hlunka honum niður stigana með karlinum? Eða á ég að leyfa honum að vera og kaupa mér svefnsófa eftir einhvern tíma þegar ég hef ráð á því? Eða á ég að slá til og finna aðra lausn á gestagistingu? Eða á ég að hætta að hugsa um þetta? Eða hvað?
Æ hvað maður á það nú gott að eiga í svona dilemma en ekki einhverju ógeðfelldu sem skiptir alvöru máli. Ég er prinsessa.
Einu sinni var frænka mín með manni sem kallaður var Sófi. Hvað skyldi hafa orðið um hann?
Getraun: Hver er liturinn minn?

Lifið í friði.

5.1.06

think pink

eða eitthvað svoleiðis jákvætt. Er bleikt ekki jákvætt?
Í upphafi dvalar minnar hitti ég Gvendarbrunn, Hildigunni og Eyju á Mokka. Svo hitti ég Huxy í Hagkaupum í Skeifunni og einnig í áramótapartýi. Þar voru einnig Kókó sem ég á eftir að bæta á tenglalistann, dríf í því bráðum, lofa, hún er vinkona Farfuglsins sem er einn af fyrstu bloggvinum mínum en ég hef aldrei hitt. Í gær kom ég heim til Ljúfu en hún var að vinna svo ég hitti bara manninn hennar. Já, Davíð Þór var líka í áramótapartýinu en þar sem hann er stjarna þorði ég ekki að tala við hann.

Þetta var svona blogghittingauppgjör. Uppgjör. Upp.

Mér líður undarlega. Drakk kampavín og hvítvín með góðri sjaldséðri vinkonu og er rykug í dag. Verð að rífa mig upp þar sem ég þarf að mæta í morgunkaffi til annarrar sjaldséðrar vinkonu sem fjölgaði sér á árinu og skírði dóttur sína í höfuðið á mér þar sem ég er svo heppin að vera nafna ömmu einnar. Svo þarf ég í bæinn að gera dútl og ditl og svo verður kaffisopi með einni vinkonu sem bloggar ekki en var samt í áramótapartýinu og svo matur með ömmu og öllum hinum hér. Svo nær maður kannski að troða ofan í töskurnar og hver veit nema smá svefnhöfgi renni á mann og svo er það keflavíkurvegurinn yndislegi sem ég óttast kannski einna mest í lífinu og svo flugvélin sem ég óttast ekki neitt. Svo er maður bara kominn heim. Og ekki byrjaður neitt að ráði á þýðingunni. Og um helgina verða góðir vinir hjá okkur á leið heim til Kanada eftir jólafrí á Normandí í 10 stiga frosti. Þetta er algerlega að verða leiðinlegasti bloggpistill ever.
En það er gott að maðurinn vondi í Ísrael er að yfirgefa okkur. Megi hann þjást... eða ekki...

Lifið í friði.

3.1.06

geðorðin

Það er eingöngu geðorðunum tíu á ísskápnum hjá mömmu og pabba að þakka að ég er enn heil á geði. Var að missa mig í morgun í hið gamalkunna panikk- og þunglyndisástand sem einkennir alltaf síðustu daga fyrir brottför. Auðvitað hef ég ekki náð að hitta alla sem ég ætlaði að hitta né gera helminginn af því sem ég ætlaði mér að gera. En auðvitað er þetta bara alltaf svona.
Hugsa jákvætt. Hugsa jákvætt. (Já, ég las bara fyrsta geðorðið og áttaði mig á því að ég ein réði því hvernig mér liði og ákvað að leyfa mér að hætta að líða illa. Hver þarf tíu geðorð þegar þetta fyrsta er svona fínt?).
Gamlárskvöldið eitt og sér er til dæmis nóg til að ferðin hingað heim var þess virði. Við hjónin höfum ekki skemmt okkur svona konunglega lengi lengi og bæði saman. Dansað til klukkan... já, ég ætla að ritskoða tímann til að halda örlitlu af virðingu þeirra sem ekki þegar vita. En það var dansað og daðrað og hlegið og sungið. Við erum alls ekki nógu dugleg við að gera okkur svona góðan dagamun. Partýljónið sem ég var hefur legið niðurnjörvað einhvers staðar þarna inní mér. Norski sjóarinn lét á sér kræla, hneykslaði fjölskylduna upp úr skónum þegar hann hló hátt og hryssingslega og spurði hvort lundarnir ættu virkilega að liggja svona takandi hver annan í rass á fatinu. Svo kom hann við og við fram um kvöldið, sérstaklega eftir að í partýið var komið og hægt að byrja að drekka alminnilega.
Hugsa jákvætt.
Hugsa jákvætt.
Mikið verður gott að komast í eigið rúm. Mikið verður gott að koma börnunum og sjálfri mér aftur í rútínuna. Mikið verður gott að þurfa ekki lengur að vera á þeytingi um bæinn og sérstaklega að þurfa ekki lengur að aka bíl á hverjum degi.
En mikið er hjartað í mér kramið yfir þeim sem ég ekki hitti. T.d. fæ ég sting í hvert skipti sem ég sé BLAÐIÐ út af manni sem vinnur þar og sem ég vildi hitta og ræða við en hef ekki drullast til að gera.
Hugsa jákvætt.
Hugsa jákvætt.

Lifið í friði.