31.8.05

andvaka

Verð að reyna að sofna áður en börnin vakna. Annars neyðist ég til að gefa þeim morgunmat.

30.8.05

Maðurinn minn og ég

Ég og maðurinn minn eigum ekkert sameiginlegt nema kannski grunnhugmyndir um hvernig lífið á að vera, bæði á heimsmælikvarða og hér innan veggja heimilisins.
En eitt eigum við þó sameiginlegt: Við munum ómögulega hvaða dag við giftum okkur, vitum að Júróvisjón kom upp á sama dag og að þetta var laugardagur. En dagsetningin... einhvers staðar í kringum miðjan maí. Tengdapabbi sagði okkur rétta dagsetningu um daginn, en við erum bæði búin að gleyma henni.

Lifið í friði.

án titils

Hér er hitabylgja í uppsiglingu, var svo heitt í nótt að við sváfum öll frekar illa. Endaði með að láta Sólrúnu hafa blautan þvottapoka í rúmið til að róa hana niður. Og mér skilst að veturinn sé kominn til Íslendinga (og útlendinganna) á Íslandi. Ég er hæstánægð með hitann hér, mér finnst hlýr og sólríkur september góð tilhugsun. Set bara vifturnar í gang seinnipartinn til að loftið verði ekki eins þungt hér og í nótt. Og loka hlerunum yfir bjartasta tíma dagsins. Maður þarf bara að vera viðbúinn þá er þetta allt í lagi enda ekki verið að tala um nein fjörtíu stig, bara rétt slefar upp í þrjátíu.
Föstu ferðirnar mínar eru búnar núna. Sumarið var frekar rólegt fyrir utan nokkra ýkta hápunkta eins og daginn sem nítján manns komu í Mýrarferð. Þá hefði ég helst þurft svona græjur eins og Japanskir leiðsögumenn hafa, lítinn míkrófón með magnara. Röddin var frekar brostin það kvöldið. Og svo finnst mér leiðinlegt að vera með of marga, er orðin vön að geta "hlúð að" hverjum og einum, spjallað um hvaðan fólk er og svona. Í stórum hópum nær maður ekki slíkri tengingu.
En þó að sumarið hafi verið viðskiptalega rólegt, er ég ekki svekkt út í útkomuna. Veðrið var gott, börnin eru við hestaheilsu, margir góðir dagar sem við fjölskyldan höfum átt. Ég held að ég hafi komið út í lífsgróða þó að ég hafi t.d. ekki náð að safna fyrir heimferð (til Íslands) um jólin. Ég safna þá bara fyrir henni eftir fríið. Fríið. Búin að minnast á baðfatavandræði mín án nokkurs skilnings frá lesendum en hef ekkert sagt frá áætlunum.
Síðast þegar ég fór í almennilegt frí, þ.e.a.s. ekki til Íslands og gisti á hótelum og var að hanga og hafa það huggulegt í meira en eina helgi, var í september 2001. Hinum eina sanna. Við lögðum af stað 22. september og reyndist vélin einungis að þriðjungi full og þurfti að færa alla til eftir að innritun var lokið því búist var við fullri vél svo við vorum öll fremst og hefðum líklega komist í heimsfréttirnar ef alþjóðleg lög væru ekki til um hleðslu farþega í vélum. Stefnan var tekin á Sikiley og lifum við hjónakornin, þá barnlaus þó að Sólrún væri komin í magann á mér, enn á þessari velheppnuðu og dásamlegu ferð.
Ég át stanlaust allan tímann, máltíð í hádeginu og á kvöldin, dísæta morgunverði og ís í tíma og ótíma milli mála. Ég var komin fjóra eða fimm mánuði á leið og samt grenntist ég þarna. Borðaði einu sinni kjöt, vegna þess að konan misskildi mig en annars alltaf sverð- eða túnfisksteikur. Fullt af tómötum, eggaldinum og öðru gómsætu grænmeti lagað á gómsætan ítalskan máta og það er greinilega ekki hægt að fitna af þessum mat. Ég held að þessi mamma italiana sé feit af hamingju og engu öðru. Eins og ég er núna. Börnin og karlinn eru þvengmjó og ég virðist blása út þó við borðum alltaf sama matinn og þó að yngsta barnið borði stundum meira en ég! Ég held að keppir og dúllur sé allt saman hamingjupokarnir mínir. Eins og ítölsku mæðranna. Sikiley... mæli með ferð þangað. Gott fólk, góður matur, gott veður.

Í ár verður stefnan tekin á hitt góða Suður-Evrópulandið sem liggur að Frakklandi: Spánar. Við völdum áfangastað með tilliti til beinna ferða frá Íslandi og verðum í leiguhúsnæði rétt fyrir utan Alicante. Þrjár vikur í ljúfum lifnaði með allri íslensku fjölskyldunni nema bróa sem er að byrja í HR og verður í prófum þá þegar. Hann um það. Get ekki beðið.
Búin að lesa ýmislegt um spænskan mat og hlakka til að liggja í áti og víndrykkju þarna niður frá. Man ekki nöfnin á réttunum sem ég ætla að smakka, nema náttúrulega gazpacho og paëlla, en á bókina pantaða aftur rétt fyrir brottför.

Ég biðst afsökunar á þessum sjálfhverfa pistli sem gerir líklega ekkert fyrir ykkur annað en að pirrast á því hvað ég lifi ljúfu lífi í hita og sól á leið í enn meiri hita og sól. En munið: Þið getið alltaf ákveðið að flytja frá Íslandi. Stuttur tími til stefnu áður en klöguskjóður fara að stjórna borginni. Borgarstjórinn í París er kannski ekki óaðfinnanlegur og nettir stjörnustælar í honum, en hann er þó vinstrisinnaður og er á móti bílum.
Reyndar passar þetta síðasta ekki við tilfinningar mínar, þvert á móti hef ég engar áhyggjur af vælukjóanum, einmitt gott að þau fá svona mikið fylgi strax í byrjun. Það mun herða vinstra fólkið til að muna eftir að kjósa og hvetja þau í að taka þátt í kosningabaráttunni. Ég ætti kannski að færa lögheimilið í smá tíma?

Lifið í friði.

28.8.05

þegar ég var bankastjóri

Fyrir nokkrum árum skráði ég mig í bríaríi í einn af fínustu hagfræðiskólum Frakklands, L.A.R.G.E.N.
Mér tókst að koma fjölskyldu minni og vinum nokkuð á óvart, svo vel gekk mér í þessu námi. Ég blómstraði þarna þvert á allar spár.
Ég hef alltaf verið frekar svona þessi "artý" týpa í lopapeysu en í þessum skóla þarf maður mjög fljótlega eftir erfiða síuna á fyrstu önn að fara að klæða sig í bankastarfsmannaföt, konur í drögtum, karlar í jakkafötum með bindi. Við stúlkurnar höfðum töluvert meira frelsi en strákarnir, gátum leyft okkur litskrúðuga toppa undir dragtirnar og þó þetta væri áður en netsokkabuxurnar komu aftur í tísku vorum við þarna þrjár sem gengum oft í slíkum gersemum og kunni ég ágætlega við þennan búning.

Á öðru ári um jólin fékk ég hæstu einkunn í aðalfaginu, vaxtareikningi verðbréfa og stóreigna, og varð það til þess að einn af stærstu bönkunum hérna bauð mér vinnu. Ég sló til, enda var mér næstum farið að leiðast í náminu, nýjabrumið farið af þessum lífsstíl, ég var búin að átta mig á því hversu mikið forskot ég hafði á litlu krakkana sem komu beint úr menntaskólunum 18 ára gömul og tók því feginshendi að hætta að skrimta á námslánum og fara að umgangast fullorðið fólk.
Ég tók við litlu útibúi rétt fyrir utan París og stýrði því í nokkur ár. Mér tókst að bæta þremur fullum stöðum við á þeim tíma og þrefaldaði veltu útibúsins.
Það var svo þegar ég kynntist manninum mínum sem augu mín opnuðust. Þetta var alls ekki lífið sem ég hafði ætlað mér að lifa. Að vinna myrkranna á milli, kona í harðskeyttum karlaheimi, komst ekkert á djammið lengur og hafði ekki verið við karlmann kennd í óratíma. Maðurinn minn greip mig þegar ég leið út af í metró á leið heim úr vinnu dag sem hafði farið í stanslausa fundi og ég gleymt að borða. Hann tók mig á eftirlætis veitingahúsið sitt og fyllti mig af andafitu og rauðvíni og um þrjúleytið um nóttina hringdi ég í einn af valdamestu mönnum atvinnulífsins og sagði vinnunni upp sisona. Ég sé það núna að ég hefði átt að semja um starfslokasamning, það var orð sem ég þekkti ekki enn en mig svíður oft við að heyra í dag.

En ég sé ekki eftir þessu. Skemmtileg reynsla þó hún nýtist mér ekki við margt í dag. Og glöð er ég að hafa losnað úr þessu áður en það varð um seinan. Maður les í Daglegu lífi í Mogganum að fleiri og fleiri konur séu að fá hjartaáföll og skalla fyrir aldur fram. Ég hefði getað orðið ein af þeim tölulegu staðreyndum. Ég er þakklát fyrir að vera bara það sem ég er.

Lifið í friði.

p.s. þessi pistill er í boði Þórdísar múmínmömmu.

baðföt

Ég er ekki nógu ánægð með hugmyndirnar að baðfötum sem ég falaðist eftir um daginn. Urðu allir kjaftstopp við hugmynd Emblu um að ég yrði nakin?
Það kemur ekki til greina vegna hjartveiks föður míns sem verður með í baðstrandarferðinni.
Verð að fá fleiri uppástungur.
Með fyrirfram þökkum, og friður sé með yður.

íkornaútilega

Fyrir u.þ.b. einu og hálfu ári síðan byrjaði ég að sanka að mér dótinu sem þarf til að geta farið í útilegu. Fjárlög heimilisins leyfa okkur ekki hegðun eins og þá að ganga inn í sportvöruverslun og kaupa allt á einu bretti. Hins vegar áskotnast okkur stundum smá aukapeningur og hef ég við og við notað tækifærið og keypt útilegudót vitandi að einn góðan veðurdag ætti ég nóg til að drusla fjölskyldunni upp í bíl og út í sveit.
Ég keypti tjaldið t.d. á rokna útsölu í janúar (þá átti ég reyndar engan pening, man ég, og gekk út með bullandi samviskubit í bland við vitneskjuna um að ég hafði gert góð kaup). Ég náði að kaupa dýnurnar á mjög góðu verði núna um daginn en prímusinn varð að kaupa fullu verði.
Einhvern tímann í fyrra keypti ég líka bók með upplýsingum um bændagistingu ýmiss konar. Þetta er félag bænda sem leggja mikið upp úr lífrænni ræktun og virðingu við umhverfið og er oft frekar frumstætt. Sem mér finnst persónulega mun meira spennandi heldur en fjögurra stjörnu súpertjaldstæði troðfull af fólki sem talar hátt og prumpar.
Við gistum hjá Monsieur Maria sem er einn af fyrstu póníræktendum Frakklands. Borðaði m.a.s. hádegismat með þáverandi landbúnaðarráðherra fyrir þrjátíu árum síðan og er ábyrgur fyrir pónítískubylgjunni (þó ekki þessari með bleikt fax og glimmer, það kemur frá landi dobbeljús).
Við vorum eina fólkið hjá honum og höfðum það afar kósí þó að ég hefði nú alveg getað tekið baðherbergið í gegn ef ég hefði fundið hreinlætisgræjurnar sem eru kannski það sem Frakkar kalla non-existantes, ekki til segir maður víst á íslensku.
Hundurinn hans Monsieur Maria var dásamlega geðgóð labradortík sem leyfði börnunum að hlunkast ofan á sér og gelti bara einu sinni að Kára sem hafði þá líklega meitt hana. Kári tók um tvo tíma í að fyrirgefa henni þetta.
Það er gott að sofa í tjaldi upp á náttúruhljóðin og gott loft. En bakið, axlir og mjaðmir mínar eru fyrst núna að komast í samt lag. Kannski þarf ég að fjárfesta í kerru aftan í bílinn og fara með almennilegar springdýnur í útileguna?
Tjaldvagn kemur ekki til mála, ég er of snobbuð og hrædd við að vera tekin fyrir smáborgara til að aka um með slíka græju í eftirdragi.
Rigningin sem lamdi okkur alla síðustu nóttina náði ekki að draga úr okkur góða skapið, en það var dálítið erfitt að þurrka himininn í litlu stofunni okkar og enn erfiðara að brjóta hann saman. Vona að hann verði í lagi næst þegar við tökum hann upp.
Gönguferðir í skógi er dásamlegt fyrirbrigði. Normandískar pönnukökur og eplasíder er sælgæti. Franskar sveitir eru fagrar með eindæmum. Gott að fara í sveitaferð af mölinni stundum.

Lifið í friði.

skál og syngja

skagfirðingar skemmta sér og gera hitt

Tætum og tryllum og tökum nú lagið í lundi...

Jón var kræfur karl og hraustur, sigld'um höfin út og austur...

Troddu þér nú inn í tjaldið hjá mér...

Einu sinni var ég á 22 með frænda mínum og vinum hans að vestan og við sungum alla í hel. Fólk hótaði að drepa okkur og allt því við þóttum svo leiðinleg og halló að vilja vera að syngja á fylleríinu. Mér finnst gaman að syngja. En því miður býður bloggið ekki upp á fjöldasöng. Ég neyðist til að viðurkenna það. Mátti þó reyna.

Lifið í friði.

stundum

gæti rithöfundurinn gústi boggi drepið mann úr leiðindum en hann vill það, þ.e.a.s. það er einhvers konar stílæfing hjá honum að vera hrokafullur á blogginu.
Sumir gætu stundum gert út af við mann í hroka, en stundum er það vilji bloggaranna að hrokast. Stundum leikur fólk mjög opinskátt með það eins og stórkostleg færsla Hermanns Norðanáttar um fullkominn dag með hugmyndum um styttur og Bach og égmanekkihvaðmeira en hann eyðilagði allt með því að afhjúpa sig í lokin.
Stundum er maður perplexe eftir lestur blogga og stundum er það gaman.
Stundum man ég ekki orð og nenni ekki að fletta þeim upp, hvað í déskotanum er perplexe á íslensku? Veit að ég veit það en man það ekki.
L.í.f.

27.8.05

j'aime les filles

söng Jaques Dutronc einu sinni. Frábært lag.
Ég elska allar konurnar sem ég les á blogginu. Allar með tölu. Og auðvitað urðu þær allar hræddar um að ég væri leið á þeim meðan enginn, ENGINN, drengjanna spurði sig þess.
Líklega les sá sem mér leiðist mig ekki og er það vel.
Ég elska konur, ég elska stelpurnar, íslenskar konur eru svo frábærar eins og Ásta bendir t.d. á í bloggi um daginn þegar hún segir frá smsi: Kemst ekki í vinnuna á morgun, átti barn í hádeginu.
Ég hef oft sagt og segi enn, ég veit ekki hvernig þessi vetur hefði orðið ef ég hefði ekki getað yljað mér við bloggið. Bull og óþarfa kjaftæði um libbu og tibba en sem yljar manni um hjartarætur því mannlegheit og húmor skína í gegn. Flott og skemmtilegt fyrirbrigði bloggið. Stundum troðfullt af óþarfa óþarfa. En stundum þarf maður á óþarfa að halda. Alls konar konur og menn sem maður þekkir ekki neitt en sem manni þykir samt einhvern veginn undarlega vænt um. Vá, ég er á trúnó. Samt bara búin með tvö, tja, kannski fjögur, glös... hætti núna. Elskykkur.

Lifið í friði.

26.8.05

tyrkneskur rithöfundur

Ég er sármóðguð því að í morgun áður en nokkur hafði sagt neitt hjá Þórdísi stakk ég upp á því að hann hefði látið kellinguna skúra fyrir sig. Kerfið vildi ekki hugmyndina mína og enginn þeirra sem komst inn er jafn góð. Nema kannski hugmynd Unnar um að Þórdís hafi hreinlega upp á kallskrattanum og að hann svari fyrir sig.
Mér leiðast kommentakerfi sem henda mér út í sífellu.
En hugur minn er hjá sjónvarpslausum Íslendingum í kvöld. Spái því að eftir níu mánuði verði mikið að gera á fæðingardeildinni.

Lifið í friði.

25.8.05

ládeyða

Hvaða lægð liggur yfir bloggheimum? Þórdís með efasemdir, Pulla farin, frábærlega vel skrifaður kveðjupistill Einars Arnar (er ekki með hann í tenglalista þar sem ég uppgötvaði hann nýlega en hann er á blogcentral/amen), mjög sannfærandi um að blogg sé tímaeyðsla og vitleysa... sumir þeirra sem ég setti í listann hjá Mikka eru að drepa mann úr leiðindum (og þetta á ekki við um Þórdísi), ég sjálf er að kálast úr bloggleti og hugmyndasneyðu (er þetta orð?), Dísadrusla farin og svona má áfram lengi telja.
Ég ætla ekki að hætta, mér finnst þetta gaman. Kannski er það líka öðruvísi fyrir mig að ég get ekki tölt niður á Klapparstíg (eða hvaða stíg fer maður á núna?) og hitt fólk sem hefur lesið bloggið mitt og lent í vandræðalegum endurtekningum. Ég kannast hins vegar við söknuðinn að maður nennir ekki lengur að skrifa vinunum, það er leiðinlegur fylgikvilli bloggiðjunnar.
En ég ætla samt ekki að hætta.
En ég ætla samt ekki að skrifa neitt núna, því ég er örþreytt eftir ferðalög. Segi ykkur áreiðanlega frá sveitinni seinna. En Signa varð ekki á vegi mínum í þessari ferð, því miður... hafði eitthvað misskilið lýsinguna. Og veðrið bauð meira upp á síðbuxur en baðstrandarklæðnað. Ein mjög mikilvæg spurning sem þarfnast svara: Er baðstrandarklæðnaður nauðsynlega bikini? Gæti ég komist upp með að klæðast svörtum kufli eins og konurnar í Sádí? Er ekki alveg tilbúin til að ímynda mér mig dillandi mér um á bikini í þrjár vikur á næstunni. Þyrfti að komast í einhvers konar extreme makeover fyrst. Einhverjar hugmyndir að góðri lausn?

Lifið í friði.

23.8.05

gömul geit

fór í sveit og elti aðra geit...
Ég er að fara á "strönd" við Signu EFTIR að hún rennur í gegnum París. Ég mun baða mig og hringi svo í Chiraq ef mér verður illt í skinninu.
Bið ykkur vel að lifa og haldið friðinn.

22.8.05

ulla bjakk

Ég hef svo sem alltaf vitað að Íslendingar eru sérlega hræddir við múslimi, af einhverjum undarlegum orsökum sem ég tengi helst við að þeir hlusta á bullið sem Bush og félagar hans hafa að segja um þennan trúarhóp og gleyma því að það sem kemur frá þeim er flatt út og gefur skakka mynd af raunveruleikanum. Allir sáu það til dæmis þegar Oprah tók sig til og málaði mynd af Íslandi í þættinum sínum. En gleyma því um leið að þar með geti þeir sagt sér að allt sem þessir bandarísku þættir sýna okkur er bagað af sama vandamáli og að allt sem sagt er um araba og múslimi er bjagað viljandi í bandarísku sjónvarpi. Því að í bandarísku sjónvarpi er bara til hvítt og svart og af peningalegum orsökum er arabi og múslimi svart fyrirbrigði.
Ég hef svo sem alltaf vitað þetta en mér blöskraði samt þegar mér var sagt í gær að samkvæmt einhverri könnun sem ég reyndar man ekki hver gerði fyrir hvern, vildu 25 prósent Íslendinga helst ekki búa við hliðina á múslima! Ha? Ég skil þetta ekki.
Ég skil það örlítið betur að sumir hiki við tilhugsunina um að búa við hliðina á geðfötluðum einstaklingum, sem 22 prósent (færri en hinir) vilja víst ekki. Það getur verið vandasamt að umgangast manneskjur sem eru óútreiknanlegar, og óþægilegt t.d. að heyra í manni sem býr einn öskra og æpa á djöfulinn heilu kvöldin eins og ein vinkona mín lendir stundum í. Ég skil að vissu leyti fordóma, byggða á hræðslu, gagnvart geðsjúkum. Það er í alvörunni oft mjög skrýtið fólk, geðskjúklingarnir. Og oft verður maður óöruggur þegar maður veit ekki alveg hvernig maður á að koma fram við fólk, þegar maður er hræddur um að þau geti verið ofbeldishneigð. Sem ég persónulega óttast mun meira af fólki sem ég veit að notar eiturlyf en af geðfötluðu fólki. Og geðfatlað fólk getur veitt manni svo skemmtilega sýn á heiminn með "bullinu" sínu og undarlegum athöfnum.
En múslimir??? Hvað heldur fólk eiginlega að múslimir séu að gera á daginn? Og kvöldin? Allir að búa til sprengjur og berja konurnar sínar? Eða er vond lykt af þeim? Eru þeir kannski enn að hita upp húsin sín með kindum?

Mikið er ég fegin að búa ekki nálægt neinum Íslendingum. Helvítis hávaði í þeim, síglápandi á sjónvarpið og tillitslausir gagnvart náunganum. Hvernig haldið þið að gatan mín væri ef litlu bílskrjóðunum sem komast allir haganlega fyrir væri skipt út fyrir risajeppa? Rosalega er ég heppin.

Lifið í friði.

20.8.05

jú, ég held ég geri það...

Ég held ég fái mér bara vínglas og prenti út tvær þrjár töluþrautir, þó að þakkað sé fyrir tónlistina má bölva sama manni fyrir að hafa komið mér á bragðið með þær.

Lifið í friði og skál!

dúbbídúbbídú

Það er svo gaman... en samt er ég svo leið... ekki beint kannski leið en einhver kökkur í hálsi mínum... mig langar eiginlega að vera á Íslandi núna ekki til að komast á menningarnótt, mér er eiginlega alveg sama um hana bara langar að hitta fólk sem mér þykir vænt um og sjá nýju einstaklingana sem stækka og stækka og eiga mömmur sem kunna sig ekki og senda því ekki myndir og svo langar mig bara til að vera annars staðar en nákvæmlega hér nákvæmlega núna því allir eru farnir að sofa og ég nenni ekki að sofa og mig langar til að mála en ég er ekki með pensil og mig langar til að glápa á sjónvarp en... laugardagskvöld eru vonlaus sjónvarpskvöld í Frakklandi út af lögum sem sett voru til að vernda kvikmyndahúsin, engin lygi... og langar dálítið í vín en nenni ekki hausverk á morgun og langar...
Það var áhugavert að lesa Þorvald Gylfason á blaðsíðu 19 eða meira í Fréttablaðinu... um... æ, hagfræðiorð, get bara ekki munað þau, alla vega finnst mér betri kostur að búa í Frakklandi en í Bandaríkjunum miðað við tölurnar sem hann gefur upp.
Og gaman að sjá kortið af breiðholtinu sem bloggvinkona sendi mér í pósti... takk fyrir það, ég er líka á mac svo ég sá þetta vel, en ég sá ekki hvað göturnar í kring heita, langaði að muna hvað blokkin hans Andra punkts hét og svoleiðis...
Og frábær stjórnarskráin á Kistunni, Embla þú verður að lesa hana og þarna verðum við að koma og kannski flytja hjó reyndar eftir líkingunni við Montmartre var einmitt að spá í það í morgun hvort ég myndi vilja búa þar ef ég væri milljónamæringur ekki viss mikið af túristum sem er ekki slæmt í eðli sínu nema að það þýðir mikið af fólki á götunum alltaf og það er kannski þreytandi man samt ekki hér er færra fólk og oftast þekki ég það og heilsa því og spyr frétta og það finnst mér hvetjandi og gott og mér finnst gamla fólkið hérna svo glatt og kátt og jákvætt og það gefur mér von um að kannski sé í lagi að eldast.
Og svo var svo skemmtileg tónlist hjá Gvendarbrunni ég pissaði á mig af gleði yfir Yes sir I can boogie útgáfunni ég elska nefninlega orginalinn og dansa reglulega við hann af diskóplötunni hennar Bryndísar hvenær kemur hún eiginlega úr þessu blessaða fríi sínu? Hlakka svooo til. Er það þessa helgi eða þá næstu?
Hvernig var líf mitt áður en ég fór að blogga og lesa blogg?

Lifið í friði.

18.8.05

minningar úr blokkinni

Í Arahólum tvö var mikið af krökkum. Og nokkrar mömmur sem alltaf var hægt að leita til þegar manns eigin mamma var í vinnunni. Ég var jú lyklabarn, með lykil í teygju um hálsinn og tel það ekki hafa skaðað mig á nokkurn hátt.
Það var alger paradís að hafa svona mikið af krökkum að leika sér við. Stundum var það líka erfitt, stundum var leikinn leikur sem hét þú mátt ekki vera memm í dag eða eitthvað slíkt, stundum lék ég slíka leiki sjálf.
Ég man ekki eftir því að neinn úr Arahólum tvö hafi orðið sérlega frægur á Íslandi, hvorki um lengri né skemmri tíma. (Nema kannski systir mín, sem er mjög fræg fótboltastjarna og var í sjónvarpinu um daginn að sýna kraftaverkið dóttur sína.)
En í nálægri blokk bjó fagurlega skapaður drengur sem var lengi á stalli í hugum okkar því hann lék Andra í Punktur punktur komma strik. Ég held að hann hafi ekki fallið af stallinum, bara flutt í burtu. En þarna gætir reyndar gloppa í minni mínu.
Í Suðurhólum (minnir mig, er ekki viss og er búin að eyða löngum tíma í að reyna að sjá kort af helvítis Reykjavík á netinu og nenni ekki meir) bjó fín stelpa sem var með mér í bekk. Hún átti frábæra mömmu sem var fóstra og yndislegan pabba. Svo átti hún yngri bróður sem okkur fannst náttúrulega bæði vælu- og klöguskjóða. En við vorum líklega ekki alveg réttlátar í því mati okkar. Þessi maður skemmtir landanum á hverju laugardagskvöldi í dag. Aldrei hefði okkur dottið í hug að hann yrði svona frægur hann Gísli, þetta peð.

Lifið í friði.

sonic youth

Ég væri alveg til í að vera á Íslandi í kvöld... ekkert smá abbó...

Ég spyr nú eins og Hryssan, hvar eru allir? Nennti enginn að geta hvaða mynd ég sá um daginn? Var þetta of augljóst eða alls ekki ljóst?
Ég sá Kill Bill um daginn, bæði 1 og 2. Við hjónin erum í smá meðferð núna og reynum að horfa á bíómynd a.m.k. einu sinni í viku. Mér fannst Kill Bill bæði ógeðfelld og frekar leiðinleg. Jú, jú, hún Uma er flott og ýmislegt gott í myndunum en heildina var ég mjög svekkt með. Ég held að hluti af því sé að ég þoli mun verr ofbeldi en áður. Svo finnst mér Tarentino eiga við barnavandamál að stríða, hann finnur einn góðan brandara eins og t.d. að láta blóðið sprautast úr sárum eftir afskorna limi og notar hann aftur og aftur og aftur eins og dóttir mín gerir þegar henni tekst að fá okkur til að hlægja. Á endanum frýs brosið og maður þarf að halda í sér að verða ekki hreinlega pirraður. Sko, maður vill ekki gera litlu barni það að verða pirraður á sama hlut og fékk mann til að hlægja, maður reynir að leiða athygli þess að einhverju öðru og fá fíflalætin til að stöðvast af sjálfu sér. Tarentino býður ekki upp á þann möguleika, enda myndin hans ekki gagnvirk svo maður bara pirrast. Og bardagasenurnar eru leiðinlegar. Og uppgjör skötuhjúanna í endann er annað hvort of stutt eða einhver annar galli á því sem gerir það að verkum að maður nær ekki að langa til að syrgja það þegar hún drepur manninn sem hún elskaði en gat samt ekki elskað. Út á það gengur öll myndin, stefnir að þessu lokaklímaxi sem fellur um sjálft sig.
En svo sá ég Himmel über Berlin nú í vikunni og það fannst mér góð mynd. Nick Cave var ekkert smá sætur og Peter Falk hefur alltaf verið í miklu uppáhaldi hjá mér. Og öll myndin er bara svo mannleg og yndisleg að maður var með stanlausan kökk í hálsinum af gleði og sorg. Snilld.
Fyrir löngu síðan fór ég að sjá Alice in the cities í bíó hérna og fannst hún líka frábær. Hún var sýnd í sjónvarpinu í gær en við gleymdum að taka hana upp. Það er gaman að sjá góðar bíómyndir og allt of sjaldgæf hamingja nú til dags sagði kerlingin og hló við fót.

En það sem við hjónakorn horfum yfirleitt á þegar við leggjumst í sófann er Malcolm in the middle. Á frönsku. Rosalega eru það nú skemmtilegir þættir maður. Alger unun. Setning úr þeim þáttum hefur ekki yfirgefið mig í nokkrar vikur: Ef ég hefði viljað fullkominn vinnumann hefði ég ráðið vélmenni eða Svía. Segir Ottó, þjóðverjinn sem rekur búgarðinn Grotto.
Þau eru svo djöfullega frábær öll fjölskyldan. Það hljóta að vera til gáfuleg skrif um þessa þætti, parallelluna við Friends og hvernig snilldin felst í anarkismanum en samt óhugnanlegri undirgefninni og sadómasókismanum... nenni ekki að gerast of "fræðileg" en þakka æðri máttarvöldum hver sem þau eru fyrir að Sólrún var alltaf í klukkutíma að drekka brjóst og ég fór að horfa á sjónvarp á eftirmiðdögum alveg óvart út af því og uppgötvaði tilveru Malcolms og fjölskyldu hans.

Lifið í friði.

15.8.05

peter falk og nick cave

Ég eyddi kvöldinu í góðum félagsskap og fer að sofa í góðu skapi.

Lifið í friði.

Ég fékk beina spurningu í athugasemdakerfi Hreins Hjartahlýs frá Birni Friðgeiri: Hvernig á hann að borga mér fyrir leiðsögn ef ekki eru til peningar? Hann talar svo um að forritun í jafnlangan tíma og göngutúrinn tæki, kæmi ekki að neinu gagni og þar með finnst honum vöruskiptahugmyndin ekki hugsanleg milli okkar. Ég veit ekki alveg hvernig ég á að svara þessu. Draumurinn er vitanlega að við lifum öll sómasamlegu lífi og getum gert það sem okkur langar, þegar við viljum og að við þurfum ekki að hugsa um peninga, því peningar eru ekki til. Þess vegna þarf ekki að borga mér.
En ef við segjum að enn sé við lýði einhvers konar hagkerfi (sem er hugtak sem BF segir að ég noti rangt, ég er ekki sannfærð um það) í breyttu þjóðfélagi, þá finnst mér alveg spurning um það hvort að fyrirlestur og göngutúr með mér um götur Parísar eigi að mæla í sama tímaeiningaverði og forritun. En þetta yrði dálítið flókið og leiðinlegt reiknisdæmi og því ætla ég ekki að ganga lengra í því að spá í það. Enda yrði tíminn alls ekki álitinn peningar í mínu draumaríki. Það er ein af þessum kapítalísku leiðindaklisjum sem ég geri mikið í að reyna að losa heiminn undan. Tíminn er ekki peningar. Munið það öllsömul! Tíminn er mun dýrmætara fyrirbrigði en það sem hægt er að mæla í peningum.
Hinn sami Björn Friðgeir skrifar í athugasemdakerfi Hildigunnar að götusópari og heilaskurðlæknir ættu að fá sömu laun. Ég held að hann hafi verið að meina með þeirri athugasemd að þetta væri fásinna.
Persónulega finnst mér það alls ekki óhugnanleg tilhugsun að götusópari og heilaskurðlæknir hafi sömu laun. Hins vegar er ég alveg tilbúin til að viðurkenna að götusóparinn getur byrjað 16 ára að vinna, meðan heilaskurðlæknirinn getur ekki byrjað fyrr en... hvað ætli þetta séu mörg ár? 12? Segjum að hann geti byrjað að vinna 32 ára. Hann hefur því "tapað" launum í öll þessi ár sem hann stundaði nám. Í mínum draumaheimi fékk verðandi læknirinn allt sem hann þurfti meðan hann stundaði námið, hann gat gengið í forðabúrið eins og allir hinir og leið aldrei eins og hann væri að tapa einhverju á því að vera í námi. Sem er enn ein af þessum ömurlegu klisjum sem koma upp nú til dags í sambandi við umræður um launakjör og annað.
Götusóparinn er líklega ómenntaður og hefur því tapað af fleiru í mínum huga en vesalings heilaskurðlæknirinn. Götusóparinn vinnur alveg nákvæmlega jafn göfugt og nauðsynlegt starf. Götusóparinn er maður sem við eigum öll að líta upp til og við eigum að vera þakklát fyrir að enn skuli fyrirfinnast fólk sem nennir að þrífa undan okkur skítinn. Maðurinn er svín og skilur leifar af ofneyslu sinni eftir sig um götur og stíga. Það höfum við vel fengið að kynnast hér í landi þar sem götusóparar eru með bein í nefinu og fara í verkfall þegar þeim líkar ekki ákvarðanir yfirvalda.

Mér þykir afar leiðinlegt að rífast um svona ómerkilega hluti eins og peninga. Ég hef ekki sömu sjónarmið gagnvart þessu fyrirbrigði og margir aðrir og mér er alveg sama um það. Mér er alveg sama um það að sumir hafa þörf fyrir að safna peningum og að aðrir fara mjög illa með peninga og að enn aðrir synda í kringum núllpúnktinn. Fólk hefur allan rétt til að lifa lífinu eins og því langar sjálfu. Og má bera virðingu fyrir peningum mín vegna. Eða bera virðingu fyrir fólki sem á peninga. Eða ekki.
OG ég held að Björn Friðgeir sé alveg ágætis maður. Bara dálítið mikill hagfræðingur... og kerfiskall... eða ekki...
Mér er sama. Kaupæði, málæði, erðett'ekki brjálæði?
Það dregur úr mér allan mátt að pæla of mikið í þessu.

Pælum frekar í þessu:
Í París ber ekkert safn eða minnismerki nafn konu.
Fjögur "avenue" heita eftir konum, tvær þeirra eru dýrlingar og hinar eru Viktoría drottning og andpyrnuhreyfingarkonan Bertie Albrecht.
Ein metróstöð ber kvenmannsnafn: Louise Michel.

Hvílíkt óréttlæti sem þarna er á ferðinni. Og mun skemmtilegra að berjast fyrir fleiri kvennöfnum á staði í París en jafnan rétt til sómasamlegs lífs þegna jarðarinnar. Að minnsta kosti, vonandi, ekki eins djöfulli vonlaus og barnaleg barátta.

Lifið í friði.

Skilaboð frá almættinu

    Dagurinn bíður þín
    brosandi út undir
    bæði eyru
    og blessuð sólin er
    komin hátt á loft.

    Það er gaman að lifa,
    - jafnvel við sult og seyru.
    Hvað á ég að þurfa
    að segja þér þetta oft?

Guðrún Guðlaugsdóttir.  Gluggi – Ljóð úr Kópavogi, 1996.

Lififð í friði.

11.8.05

blóð og fiskisúpur

Þegar ég gekk með alblóðuga dóttur mína um götur áðan, var ég A) fegin því að muna eftir hryllingnum sem mætti mér þegar Áki litli bróðir meiddi sig smá á enninu fyrir mörgum árum sem hjálpaði mér mikið við að minna mig núna á að líklega væri þetta bara smáskráma og fyrst hún hélt meðvitund og gat sagt hvað hún heitir og hvað hún er gömul ætti ég ekki að hníga niður í örvæntingu og B) glöð yfir því að hún datt bara sjálf eins og venjulegt barn að leik og að ekki var um að ræða sár eftir sprengju.
Einhvern veginn tróðu sér alltaf fram í huga mér þessar dæmigerðu og vel þekktu fréttamyndir af foreldrum með særð börn á stríðssvæðum. Ég var reyndar öll út í blóði og föt okkar beggja þurfa eitthvað sterkara en milt fyrir barnið til að ná blettunum úr. Hópur barna safnaðist á eftir okkur og einn spurði m.a.s. hvort hún væri nokkuð dáin.
En Sólrún er hress, þetta var bara lítil sprunga í hársverðinum sem var klemmd saman með plástri hjá lækninum áðan.

Annars finnst mér tvímælalaust að ég eigi að stofna fiskisúpuhátíð í París. Eða Copavogure. Hafa t.d. á tveggja ára fresti stóra potta með íslenskri fiskisúpu, fá íslenskar hljómsveitir og listamenn og ekki leyfa neinum pólitíkus að hafa nokkur afskipti af þessu. Mig vantar hvatningu, ef ég fæ hana, lofa ég að láta af þessu verða.
Þangað til, getið þið lesið skemmtilega lýsingu hjá Gvendabrunni.

Lifið í friði og verum þakklát fyrir að þurfa ekki að óttast sprengjur neitt verulega mikið...

Parísarströndin

Ströndin sem borgarstjórinn okkar lætur útbúa á hverju sumri í 3 vikur við Signu er hreint frábærlega vel heppnuð aðgerð. Eyddi eftirmiðdeginum með dóttur minni þar í gær við að busla í vatni og moka sandi. Hlustuðum andaktugar á unga fallega stúlku sem hefði alveg getað verið íslensk, spila klassík á fiðlu, sáum kolsvarta stráklædda konu dansa með stóra trommu bundna við mittið. Hún er líklega ekki íslensk en rosalegur kraftur var í henni og gaman að sjá hvernig hún dró konur inn í dansinn og hvernig þær slepptu sér smátt og smátt og hristu mismjúka búka sína í takt við trommusláttinn. Mikil upplifun. Svo sáum við gráhærðan karl með greitt yfir skallann spila I can't get no satisfaction á skemmtara, harmónikku og trommu, á öll hljóðfærin í einu. Allir skankar nýttir þar.
Fallegt fólk, stórt og smátt og svart og hvítt og útlenskt og innlent og samkynhneigt og gagnkynhneigt og þroskaheftir og fólk á bikini og fólk í leðurjökkum og stígvélum og fullt af blómaskreyttum sumarkjólum og margar parishiltonbritneyspearsspicegirls í bleikum undarlega sniðnum bolum með bleik belti á háum hælum, bleikum. Sumar þeirra voru reyndar ekki bleikar heldur blágrænar eða túrkís. Börn og gamalmenni og allir, ALLIR, glaðir og afslappaðir.
Eiginlega er það eins og bylting að slaka á taugum og vöðvum ofan á hraðbraut. Út úr París með einkabílinn. Út núna strax! Áfram borgarstjórar stórborga sem þora að skera upp herör gegn þessum ósóma sem bílar eru. Borgarstjórinn í London er hetja í lit og Delanoë okkar stendur sig ágætlega. Brosir framan í allt skítkastið sem hann fær út af þessu tiltæki með ströndina í París og einnig út af strætóreinunum sem hann er búinn að koma upp um alla borg. Almennilegir menn.

En nú er ég farin út í góða veðrið. Á mínum tveimur jafnfljótu.

Lifið í friði.

9.8.05

tenglar og péningar

Sko, það var nefninlega eins og mig grunaði: Sumir minna bestu bloggvina vissu ekki af minni frábæru síðu parisardaman.com! Farfuglinn er búinn að bæta henni við í áhugaverða listann sinn og kann ég henni mínar bestu þakkir fyrir.
Ég vil ekki vera of leiðinleg og ýtin en ég er bara að gera mér betur og betur grein fyrir því að allt of fáir vita af mér áður en þeir koma til Parísar, að ekki er bent á mig sjálfkrafa t.d. í Sendiráðinu sem ætti nú að sjá sóma sinn í því og að ég hef verið allt of hógvær. Allt of hógvær með þessa fínu síðu troðfullri af skemmtilegum og nýtum upplýsingum. PARISARDAMAN.COM er alls ekki það sama og rausið hér á blogspot. Fyrirsögnin hér er tengill í þá síðu og eins má sjá tengil í hana hér til hliðar, fyrsti tengillinn. Voilà. Þetta var svo erfitt að skrifa og ég var næstum því búin að þurrka það út rétt í þessu. En ég ætla að halda þessu inni því mig langar að geta haldið áfram að vera leiðsögumaður í París. Mér finnst Íslendingar skemmtilegt fólk, ég finn til samkenndar með þeim og mér finnst óendanlega gaman að hjálpa þeim að uppgötva bestu borg í heiminum, París.
Draumurinn er að koma á laggirnar litla fyrirtækinu sem selur máluð húsgögn og geta sinnt leiðsögn með. Ég á stefnumót við ráðgjafa hjá borgarstjóra í næstu viku. Bara að skrifa það gefur kitl í magann og kveikir löngun til að fara á klóið. En ég man einmitt hvað ég skalf og titraði þegar ég ákvað að verða sjálfstæður leiðsögumaður og þó ég hafi engar bansettar milljónir í laun á mánuði er ég ánægð með það sem hefur komið út úr því.

Hvernig nennir fólk annars að vera með milljónir í laun á mánuði? Það vita allir að þeir sem eru með milljón á mánuði eru þrælar. Þrælar fyrirtækisins og háu launanna. Það er nefninlega mjög erfitt að skrúfa sig niður í eyðslu og þess vegna getur fólk ekki hætt. Jú jú, sumir ná að koma sér á það hátt plan að ná að láta peningana ávaxta sig sjálfa og geta því hætt að vinna og snúið sér að því að lifa milljónamæringalífi sem felst, að því mér skilst, í því að elta sólina og djammið um heiminn allan ársins hring. Sumir djamma í friði og ró með vel völdum vinum (sem þurfa helst að eiga nóg líka því annars eru þeir afætur og hver vill eiga afætur að vinum?) á leyndum eyjum eða stórum skipum.
Kannski er þetta einum of mikil einföldum á afar flóknum hlut. En fólkið sem ég þekki persónulega og hefur há laun, lifir að miklu leyti fyrir vinnuna. Vinnur mun meira en 8 tíma á dag og hugsar stöðugt um vinnuna meðan það er í fríi. Ég myndi ekki vilja skipta við þetta fólk. En ég er bara ég og ég skil alveg að fólk langi til að þurfa ekki að hugsa vandlega um hverja einustu fokking krónu sem það notar. Það getur verið þreytandi og slítandi. En ég held að fullkomið tóm felist í ríkidæmi. Að þurfa aldrei að hugsa sig um, geta keypt hvað sem er án þess að þurfa að láta sig dreyma dálítið fyrst. Ég sé ekki tilganginn í slíkri aðstöðu. Ég sé ekki lífsgæðin í þess lags lífi. Ég finn miklu fremur vorkunn en afbrýðisemi gagnvart þessu ríka fólki.

Það má samt ekki gleyma því að ríkir einstaklingar eru oft mikil lyftistöng fyrir þjóðfélagið. Ég get t.d. nefnt Herra Sommerard. Hann var milljónamæringur sem keypti sér stórt einbýlishús í miðborg Parísar og sankaði að sér miðaldalist. Svo arfleiddi hann ríkið að öllu saman og þetta er eitt besta miðaldasafn í heiminum, Cluny-safnið sem þúsundir ferðamanna heimsækja og dásama á hverju ári. Gersamlega ómetanlegt. Mér skilst að einhverjir ríku kallanna á Íslandi séu afar listelskandi og styð eindregið pistlahöfundinn í Lesbókinni sem um daginn stakk upp á því að fá þessa grúppugaura til að byggja óperuhús fyrir okkur. Auðvitað!
Það sem mér finnst brandari, er að fólk með of há laun eigi "rétt á" fæðingarorlofi. Þar finnst mér virkilega vera stórt vandamál á ferð. Vitanlega á að vera almennilegt launaþak sem hindrar að of ríkt fólk geti krafist nokkurra bóta frá skítfátækuensemgætiveriðforríku velferðarþjóðfélagi okkar. Bótapeningar eiga að vera fyrir þá sem eru á venjulegum launum og fyrir fátæka, hinir oflaunuðu geta hreinlega bjargað sér sjálfir. Er þetta einhver spurning?
Mér finnst það óhæfa að einhver milljónalaunamaður fái ekki að halda vinnu sinni þó hann vilji í fæðingarorlof, þar sannast það sem ég sagði hér að ofan: þetta fólk er ÞRÆLAR. En milljónalaunamaður á að geta tekið sér LAUNALAUST eða a.m.k. BÓTALAUST leyfi til að kynnast nýju barni sínu og geta komið tvíelfdur til starfa aftur, þegar hann langar.
Ég tek það fram að allar fréttir af málinu hef ég af bloggsíðum og er því alls ekki að kryfja málið gáfulega til mergjar. Þetta eru bara mínar misvitru pælingar um péninga. Helvítis elsku péningarnir. Þeir munu hverfa. Einn góðan veðurdag munu börnin okkar líta upp úr sögubókinni, hrista höfuðið og segja hvert við annað: Hvernig tókst þeim þetta? Hvernig tókst þeim að gera hlutina og þetta skrýtna pappírsdrals að guði? Hvernig gerðist þetta nákvæmlega? Og mikið er ég fegin að hafa ekki verið uppi á þessum myrku tímum!
Þá verður veröldin góður heimur þar sem það sem skiptir máli verður á oddinum. Og peningar eitthvað skrýtið drasl í sögubók og inni á Árbæjarsafni í römmum.
Þið megið kalla mig draumóramann en ég er ekki ein...

Lifið í friði.

8.8.05

þakkir dagsins fá...

Mig langar að þakka Mikka vef fyrir að vera til, þetta er frábært fyrirbrigði svona þegar daman náði loksins tökum á notkuninni.
Svo langar mig líka að þakka mbl.is, frábært að fá að vera með auglýsingu hjá þeim ókeypis og að maður er minntur á að hún sé að fara að detta út, gersamlega hannað fyrir dömur eins og mig.

Lifið í friði.

p.s. ef ykkur vantar sól og eigið enga punkta getið þið farið og keypt ykkur sólrík vín eins og t.d. rósavín og fengið þannig sól í kroppinn. Muscat fordrykkurinn frá S-Frakklandi lýsir einnig upp gráa tilveru. Hef prófað þetta sjálf og það virkar. Með rósavíni er ég alls ekki, ALLS EKKI að meina Lambrusco eða Pink eitthvað Kaliforníudót. Alvöru fallegt og gott rósavín frá t.d. Provence.

veðurguðinn í góðu skapi

Mér þykir leitt að pirra Íslendinga, en veðrið hér er hrein dásemd. Eyddum öllum deginum í gær úti í Villette-garðinum. Trumbuslagarar í hópum, jazztónleikar og fullt af fólki að sleikja sólina þegar hún sýndi sig milli þess sem maður þurfti að vefja sig inn í síðerma því stundum komu ískaldar vindhviður. Ekki of kalt, ekki of heitt. Fullkomnun.
Ef þið eigið punkta, er tími til að nota þá í stutta ferð til Parísar.

Lifið í friði.

L'étrange étranger...

Meðan ég pússaði gamlar grotnaðar og misvel smíðaðar tréhillur í sveitinni flögraði hugur minn. Meðal annars hugsaði ég mikið um þolinmæði eða öllu heldur óþol fólks gagnvart hinu ókunnuga. Á frönsku lýsingarorðið "skrýtið" (étrange) af sama stofni og orðið "útlendingur" (étranger). Hugsunin er auðvitað hið ókunna, það sem við þekkjum ekki og skiljum því ekki.
Fólk er mjög auðveldlega hrætt við hluti sem það þekkir ekki. Til dæmis finnst Frökkum það óhugsandi að setja börnin sín út í vagn til að sofa, sérstaklega ef hitastigið er undir 20 stigum.
Þeim finnst þetta undarlegur siður hjá Íslendingum og afar óhuggulegur. Mýmörg dæmi eru um að norrænar manneskjur hafi lent í vandræðum með þennan sið sinn í "útlöndum". Komst það ekki í heimsfréttirnar að kona þurfti að fá lögfræðiaðstoð til að ná barni sínu af barnaverndaryfirvöldum í einhverri stórborg í Ammríku því hún skildi það eftir í vagni fyrir utan kaffihús? Ég man eftir mér síhlaupandi út af Café París í skítakulda til að athuga hvort nýfædd dóttir mín bærði nokkuð á sér. Hún svaf eins og steinn og hefur alltaf verið við hestaheilsu enda svaf hún ávallt úti á svölum hjá ömmu sinni og afa í Norðurmýrinni.
Ég lagði ekki í að setja hana út á svalir hér í Frakklandi þó að ég væri með slíkt fyrirbrigði þá. Nennti einfaldlega ekki að hætta á að valda nágrönnum mínum hugarkvölum, þeim dettur helst í hug að við séum að refsa börnum okkar þegar við setjum þau svona út og þó að maður útskýri þetta vel fyrir þeim eru þeir alls ekki sáttir við þessa meðhöndlun á hvítvoðungum.
Þegar við eyddum viku í Bordeaux með frændfólki mannsins míns sannfærði ég þau um að setja strákinn sinn út að sofa eins og ég gerði vitanlega við Sólrúnu þar sem við vorum í einbýlishúsi með stóran einkagarð. Þau prófuðu einu sinni. Sonur þeirra sem er mjög erfiður verður sennilega greindur með einhvers konar hegðunarvandamál þegar hann byrjar í skóla í haust. Hann er foreldrum sínum þungur í skauti og sefur stutt á daginn. Hann svaf í rúma tvo tíma þarna úti í garði fyrsta daginn okkar. Pabbinn var stöðugt á vappi í kringum kerrurnar þeirra frændsystkina og með sífelldar spurningar um öndun og lungu og kuldann. Drengurinn vaknaði eldhress og bar sig vel en þau gátu ekki hugsað sér að endurtaka leikinn daginn eftir.
Hræðslan við þennan skrýtna ókunnuga sið var of sterk.
Við Íslendingar og Frakkar erum tiltölulega líkar þjóðir. Við lifum í afar svipuðu þjóðfélagi, með álíka háa skatta, svipuð lágmarkslaun og þó að við höfum enn verið í moldarkofum meðan þeir byggðu hallir og turna er varla hægt að kalla það áskorun fyrir mig að búa hér. Einstaka tilslakanir með smáatriði eins og þetta hér að ofan er allt og sumt sem ég hef þurft að berjast við í mér til að aðlagast hérna í París.
Ég þurfti mun meira að vanda mig við aðlögun niðri í Suður Frakklandi, ég var alls ekki vön rólegheitunum í allri þjónustu þar, hvorki frá Reykjavík né París. Það tók mig smá tíma að hætta að pirra mig á því að bíða, en ég var farin að kunna afar vel við það í lokin og finnst að við norðurálfar ættum kannski að taka þennan hægagang upp eftir suðrænni svæðum.
Um daginn fékk ég þær athugasemdir frá Íslendingum hér að Frakkar væru afar rólegir við þjónustustörfin, að allt gengi ógurlega hægt fyrir sig hérna. Þegar ég var að vinna á veitingastað í París fékk maður skammir ef viðskiptavinurinn náði svo mikið sem að líta einu sinni við eftir manni eftir að hann var sestur. Helst átti maður að stökkva á kúnnan áður en rassinn var búinn að ná að fletjast út á sætinu til að spyrja hvers væri óskað. Líklega eru sumir eigendur rólegri en aðrir og kannski eru einhverjir eigendur í fríi og þjónustufólkið rólegra á meðan.
Að kunna að lifa getur verið vandmeðfarin list. Sérstaklega þar sem það er engin ein góð uppskrift til. Er ekki aðalmálið að vanda sig við að láta sjálfum sér líða sem best, opna huga sinn og reyna að skilja að venjur og siðir ókunnugra þjóða geta verið alveg eins góðar og sniðugar og okkar eigin og vitanlega reyna af öllum mætti að koma í veg fyrir að troðið sé á rétti nágranna okkar á plánetunni sem og að ekki sé jörðin okkar eyðilöggð? Og er þetta ekki bara alveg feikinóg að hugsa um fyrir hverja mannveru?

Lifið í friði.

5.8.05

tenglaherferð

Ég er frekar svekkt út í bloggvini mína fyrir að setja parisardaman.com ekki í tenglalista sína. Nú er tækifærið fyrir alla til að bæta úr því.

Annars er kannski vert að geta þess að eftirlætishljómsveit mín er núna Roðlausir og beinlausir. Sérlega skemmtilegt fólk sem stendur að þeirri grúppu.

Veðurguðir leika við París þessa dagana. Hvorki of heitt né of kalt. Dásamleg borg... þið ráðið hvort þið takið mark á mér...

Lifið í friði.

4.8.05

Grein sem bætir hressir og kætir

Fyrirsögnin er tengill í afar fína grein á kistunni. Eiginlega leið mér eins og ég hefði farið í hressandi sturtu eftir lesturinn. Og hætti snarlega að velta mér upp úr þeim ósóma að ég hefði bara eitt skitið BA. Ég sem hefði getað orðið læknir eins og pabbi segir alltaf...

Og gott að sjá að bloggið dó ekki drottni sínum þó ég skryppi frá. Gaman að koma heim og smella kossi á kinn karlsins og leggjast svo í tölvuráp í marga klukkutíma. Reyndar er ég bara búin að lesa örfáa, á allt of mikið eftir.

En mig óar samt ennþá við tilhugsuna um að 1279 manns lesi mig. Ef ég geri ráð fyrir því að allir hafi kíkt á myndirnar utan þögla lesandann sem mælti. Annars kannski fleiri? Eða þá að einhver varð svo hrifin af myndunum að hún skoðaði þær mjög, MJÖG oft? Eða þá að villupúki kom upp hjá webshots? Svar mun ekki fást og því mun ég ekki fást meira við spurninguna.

Sveitin var dásamleg, styrkti löngun mína til að flytja úr borginni. Þar á ofan rauk ég beint í vinnu í gær og lenti í hvílíkum dónaskap bæði hjá þjóni og stúlku í lestarmiðasölunni með hópnum mínum að ég mun líklega verða að endurskoða fullyrðingar mínar um að París sé orðin ferðamannavæn. En þetta má ég kannski ekki viðra of mikið á netinu þar sem mín eina litla tekjulind byggir á því að narra fólk til Parísar. Eiginlega eins og að hrækja í súpuna sína.
Sveitin er samt dásamleg. Veðrið var með undarlegra móti, hélst yfirleitt þurrt en var stundum hálfsvalt vegna vindanna sem blésu og lítil sól. Við Kári sváfum í tjaldi og það er frábært. Tjaldið keypti ég á útsölu í janúar síðastliðnum og ég fékk nú nett taugaáfall þegar ég fór að rúlla því í sundur. Það er risastórt og hægt að standa uppréttur inni í miðjunni sem rúmar borðsalinn og svo eru tvö rúmgóð herbergi sitt hvorum megin við hann. Til allrar guðslukku var ég með tvær tjaldvanar konur með mér, hugsanlega hefði orðið hjónabandsvandamál ef við hjónin hefðum staðið þreytt á almenningstjaldstæði með öskrandi börn og þessa ógurlegu þraut á milli okkar. En nú er ég búin að stúdera þetta og gerði nokkrar lærdómsríkar villur svo ég ætti að geta komið þessari höll upp sjálf næst. En við þurfum líklega að greiða fyrir tvö tjöld á tjaldstæðum hér.

Það verður ekkert af myndum úr þessari ferð því batteríið varð eftir í hleðslu hér heima. Ekki orð um það meir.
Fórum á sveitaflóamarkað og keyptum fullt af húsgögnum fyrir engan pening. Lentum í miklu basli við að koma þeim inn í bílinn ofan á drengina í barnastólum og þeir áttu erfiða bílferð heim sem og við frammí. En Kári getur sjálfum sér um kennt með skipalakkið í hárinu sínu. Hann þurfti ekkert að vera að reyna að troða sér í fangið á mér sí og æ. Allt of mikill mömmustrákur, sérstaklega þegar mamman er að gera eitthvað. Ef maður situr og starir út í loftið hefur hann engan áhuga á manni. Ef maður tekur upp símann, pensil, skrúfjárn, prjóna eða eitthvað áhald sem notað er til að gera annað en að hugsa um hann verður hann viðþolslaus af knúsþörf. Dularfull þessi börn.

Sólrún pólrún skítarólrún kemur frá Grikklandi í nótt. En við fáum ekki að sjá hana fyrr en á morgun. Ég hlakka svo til að mig verkjar í hjartað. Hún segist ekki vilja koma heim. Hm. Skil hana of vel til að ergja mig á því.

Lifið í friði.