30.7.05

sveitaferð á svartri helgi

Samkvæmt sjónvarpsfréttum er þessi helgi "svört" umferðarlega séð. Þ.e.a.s. að allir eru að rjúka í frí og leggja allir snemma af stað til að vera á undan hinum en það mistekst því allir gera það sama og hnútarnir út úr borgunum verða margir tugir kílómetra.
Við verðandi ógurlegar bissnesskonur ætlum nú samt að rjúka upp í sveit eftir göngutúrinn minn. Þá getum við, þökk sé Alnetinu, skoðað hvernig liggur í málum á vegunum og valið skástu leiðina.
Við verðum báðar með strákana okkar litlu svo við gerum ekki beint ráð fyrir að koma miklu í verk málningarlega séð. En ég ætla að taka fleiri myndir og svo LOFA ég að koma þeim inn á netið fljótlega eftir heimkomu.

Ég er að spá í því hversu margir skyldu lesa þessa síðu. Fékk nefninlega upplýsingar um fjölda þeirra sem skoðuðu myndasíðuna mína vikuna sem ég auglýsti hana hér: 1278 manns! Er þó ekki viss hvort talið sé hver mynd skoðuð sem fækkar þessu. En þetta fannst mér óhugnaleg tala. Ég veit ekki hvort ég er að skrifa hérna fyrir einhvern annan en mig og kannski örfáa dygga lesendur sem ég "þekki" úr athugasemdakerfinu og af þeirra bloggum. Hverjir eru þá allir hinir? Og á ég að passa mig betur, ritskoða mig meira, skrifa minna um... eitthvað? Ha? En mig langar eiginlega ekki í teljara, hefur alltaf fundist dálítið spennandi að vita ekki nákvæmlega hversu margir koma hér inn.

En eitt er víst að í símalausri sveitinni verður ekkert bloggað. Ekkert.

Vona að svarta íslenska helgin heppnist vel og að veðurguðir séu góðir við tjaldbúa um landið allt.

Lifið í friði.

28.7.05

vestræn mildi

Mér finnst gaman að lesa hugleiðingar nokkurra bloggara um vestræn gildi. Þetta hugtak fer ógurlega í taugarnar á mér, mér finnst það yfirlætislegt og dæmin sanna að hugtakið er misnotað og að auðvelt er að gera það í skjóli þess hversu óljóst það er hvað hugtakið þýðir í raun og veru.
Ég hef séð talað um fjögur gildi: Tjáningarfrelsi, kvenfrelsi, lýðfrelsi og æ, núna verð ég að fara og kíkja, best að sjá þetta hjá Varríusi (enginn tengill enn hjá mér, sorrí, þið finnið hann í gegnum Gvendarbrunn). Jahá, fyndið að ég skyldi gleyma blessuðu trúfrelsinu. (Það er annars gaman að lesa Varríus stundum, set tengil á hann við tækifæri).
Þið munuð segja mér að allt í heiminum hafi gloppur, að ekkert sé gersamlega skothelt, að alltaf sé hægt að horfa á það neikvæða og kannski eitthvað fleira, en mér finnst það algerlega óþolandi að við skulum halda það að við búum við þessi fjögur frelsi hér fyrir vestan. (Ég ætla að leyfa mér það að tala um frelsi í fleirtölu hér, það undirstrikar skömmina sem ég hef á þessu húmbúkki).
Tjáningarfrelsi: Í Frakklandi ríkir víst tjáningarfrelsi. Það má samt ekki gefa út Mein Kampf eftir Adolf heitinn Hitler. Það ríkir því tjáningarfrelsi með ákveðnum hömlum. Settum af kerfiskörlum sem ákveða að eitthvað sé of ljótt til að okkur sé treystandi fyrir að lesa það. Ég er alfarið á móti svona hömlum, ég hef engan sérstakan áhuga á að lesa Mein Kampf en mér finnst að mér eigi að vera það frjálst, ég tel mig fullfæra um að dæma sjálf hvort ég sé að lesa skít eða ekki.
Kvenfrelsi: Þarf að segja eitthvað. Dómurinn sem féll í Keflavík fyrir nokkru, þar sem maður fékk mildaðan dóm fyrir að berja konuna sína af því hún hafði verið svo LEIÐINLEG við hann, dugði til að afhjúpa það sem við konur höfum svo sem alltaf vitað. Það ríkir kvenfrelsi upp að vissu marki, með ákveðnum hömlum, settum af kerfiskörlum eins og öll önnur frelsi sem við teljum okkur búa við.
Lýðfrelsi: hvað í fjáranum er það eiginlega?
Trúfrelsi: Tja, ég get svo sem samþykkt það að við á Íslandi megum alveg trúa á það sem við viljum, en það er nú alltaf dálítið fyndið að fylgjast með málum Þjóðkirkjunnar og ofurvaldinu sem hún virðist hafa á ákveðnum sviðum. Og ég vildi óska þess að maður eins og t.d. Egill Helgason eða einhver annar vinsæll persónuleiki snerist skyndilega til íslamskrar trúar. Sjá andlitið detta af þessu skilningsríka trúfrelsisfólki sem byggir Ísland.

Voilà, þetta er stytt útgáfa af pistlinum sem ég hugsaði upp meðan ég keyrði um París á flutningabíl í morgun. Nenni ekki að hafa hann lengri því dagurinn er orðinn nógu langur samt.

Svo vil ég koma því á framfæri að mér finnst GÁFUMAÐUR og GÁFAÐUR MAÐUR ekki vera skammaryrði. Er það satt sem var haldið fram á athugasemdakerfi Varríusar að á Íslandi væri þetta orðið skammaryrði? Það þykir mér leitt að heyra. Vantar gáfumenn og mikið af þeim (og nú finnst mér ég verða að minna enn og aftur á að konur eru líka menn).

Lifið í friði.

26.7.05

úthýst

Mér virðist hafa verið úthýst úr athugasemdakerfum margra, m.a. mínu eigin. Nærri því alls staðar kemur FAILED eða eitthvað álíka skemmtilegt.
Ekki það að ég hafi neitt ákaflega merkilegt að athuga við annarra manna gáfutal.
Mér finnst reyndar athugasemdakerfisárásir á bloggsíðu Ágústs Borgþórs vera magna fyrirbrigði. Ég myndi ekki láta mig dreyma um að skilja eftir athugasemd hjá honum af hræðslu við að þetta "fólk" finni þá slóðina mína. Hann er víst búinn að hreinsa megnið af þessu út þannig að þið getið kannski ekki séð neitt djúsí hjá honum núna.
En ef þið eruð búin að lesa Potter og langar að skemmta ykkur getið þið farið inn hjá Gvendarbrunni og þaðan yfir á Varríus og séð ýmsar skemmtilegar útfærslur á lokasenunni.

Við verðum að skemmta okkur konunglega í þessum ömurlega skítaheimi eða leggjast niður og deyja. Ódýr hugmynd að sjálfsmorði sem tryggir þér myndbirtingu á forsíðum dagblaða um allan heim og minningarathafnir og grát og gnístran tanna: Einn bakpoki: 1500kr, skósverta 800kr, miði til London með Iceland Express á tilboði aðra leiðina: 5000kr. Mála sig í framan með skósvertunni á flugvellinum. Svindla sér í almenningssamgöngur niður í bæ og alls ekki stoppa, hver sem býður ykkur það. Munið að skrifa kveðjubréfið áður en þið stígið á breska jörð, maður veit aldrei...

Lifið í friði.

ekki bend'á mig

Ég er næstum sannfærð um að lögreglan í London beið eftir tækifæri til að taka eitthvert hentugt fórnarlamb af lífi til viðvörunar öllum þeim sem gæti dottið í hug að vera með hrekki í taugaveikluðu andrúmslofti borgarinnar.
Mér finnst þetta hryllilegur atburður, alveg jafn ömurlegt að hugsa til ættingja þessa drengs eins og ættingja þeirra sem létu lífið í sprengingum hryðjuverkamannanna. Alveg eins og mér finnst ömurlegt að hugsa til fólksins í Írak sem á um sárt að binda vegna vina- og ættingjamissis. Og alls staðar annars staðar.
Mér finnst það hneisa að íslensk stjórnvöld standi ekki með Íslendingum sem berjast fyrir réttindum arabanna í Palestínu.
Mér finnst rigningin ekki góð.
Mér þykir leitt að geta ekki hlustað á RÚV, hafa aldrei heyrt í gryllhorninu sem er víst að ljúka, að geta ekki hlustað á Sigga pönk lesa úr pistlum sínum í ágúst, að heyra ekki í Næturverðinum...
Mér finnst lífið svo skrýtið því maður fyllist vonleysi og harmi á einni sekúndunni og svo á hinni næstu byrjar maður að plana kvöldmatinn og vorkenna sér yfir smáræði eins og skorti á RÚV sem maður hefur verið án í öll þessi ár í útlöndum.
Mér finnst lífið svo undarlegt. Næ ekki alveg að höndla það hver tilgangurinn er. Held bara ótrauð áfram og er reið og sár en um leið mjög hamingjusöm og meðvituð um eigin lán og lukku.
Ég er fordekraður og feitur Vesturlandabúi. Það er ekki beint mér að kenna. Ég er frekar svona góðhjörtuð og er á móti kapítalismanum og reyni að boða frið á jörð. Ég gef fátækum fyrir mat og brennivíni, stundum. Ég reyni að ala börnin mín upp í því að vera góð og kurteis og meðvituð um mikilvægi þess að vernda jörðina okkar.
Djöfull er ég leiðinleg maður! Ferlega er stutt á milli þess að vera almennileg manneskja og þess að vera lýðskrumari, demagó, óþolandi ánægð með sjálfa sig haldandi það að maður sé eitthvað gott afl fyrir heiminn. Auðvelt að benda á þá sem hafa fordóma, fordóma gagnvart dökku fólki, gagnvart trúarbrögðum sem það þekkir ekki, gagnvart þjóðfélagshópum, gagnvart minnimáttar. Auðvelt að þykjast vera laus við þetta, þykjast geta tekið allan heiminn í faðm sinn og því með afsökun fyrir því að lifa góðu lífi. Hafa alltaf val um hvað á að vera í kvöldmatinn. Vera jafnvel fúll yfir að hafa ekki efni á að panta alltaf pitsu, eins og það sé spurning um mannréttindi.
Vá, ég er svo týnd. Sorgmædd og glöð. Fegin og leið.

Lifið í friði.

25.7.05

ung gröð og rík

með fullt af seðlum, hún var ung, gröð og rík...

Ég vil fá hana strax og ekkert ástarkjaftæð'eða rómantík hér,
ég vil fá hana strax.
Hún er veik fyrir mér og sérhver heilvita maður með augu það sér,
hún er veik fyrir mér...

Feitar konur unna mér í tonnavís
feitar konur síst af öllum konum kýs
feitar konur framar öllum vonum,
ég er ofsóttur af feitum konum...

Ég er mikið partýljón og fer oft síðust heim, en ég reyni samt að forðast allar risastórar samkomur, sérstaklega ef drykkja áfengis tengist þeim. Mér finnst vont og ljótt að sjá of margt fólk of fullt samankomið á einum stað.
Eina bestu Verslunarmannahelgi sem ég hef átt var ég að vinna á Kleppi og fór í bíó og á bar á kvöldin í rólegheitum með úrvalsfólki, þeim sem voru verslunarmenn og fengu því ekki frí, eða sérvitringum sem fara aldrei í tjald. Það var góð helgi.
Önnur góð var fámenn tjaldferð í Landmannalaugar með fín vín og góðar steikur og fokdýra osta. Lúxushelgi.
Ég fæ óbragð í munninn af því að hugsa um rigningarhelgina miklu í Þjórsárdalnum forðum. Þá vorum við vinkonurnar nú glaðar að sjá mömmu og pabba koma sólarhring fyrr að sækja okkur en um var samið. Þó við sætum vissulega í bílnum með ákveðinn fýlusvip til að þau fyndu nú áreiðanlega ekki hvað við vorum ánægðar. Og svo fórum við að sjá Bowie tónleikamynd í Regnboganum um kvöldið og það voru u.þ.b. átta manns í salnum og við settumst öll saman á annan eða þriðja bekk og sungum með. Það var góður endir á vondri helgi.

Eru íslensk popplög ennþá svona déskoti andfemínísk?

Lifið í friði.

24.7.05

illvirkjun

Eins og vanalega er fyrirsögnin tengill. Í þetta sinn er um að ræða vörur til styrktar hópnum sem vill stöðva framkvæmdir og illvirkjanir á hálendi Íslands.
Ég ætla að fá mér grænan stelpubol. Af því að ég er stelpa. Kannski eitthvað fleira.

Lifið í friði.

vonandi óþarfa áhyggjur

Af því ég er eins og ég er, þá er ég strax komin með áhyggjur af því að þeir sem ég álít tvíburana frægu úr MS, séu kannski ekki þeir. Ég hef nefninlega brennt mig á því áður að draga rangar ályktanir af nöfnum fólks. Get ég fengið staðfestingu frá einhverjum Íslending á Íslandi sem fylgist grannt með undarlegu og áberandi gáfufólki? Og eruð þið svo ekki sammála mér um að þetta nafnakerfi okkar er ómögulegt? Ég meina, það er ekkert grín að heita Kristín Jónsdóttir og eiga u.þ.b. þúsund alnöfnur og sjá reglulega nafnið sitt á síðum dánartilkynninga og minningargreina.

Mugison, kórinn, tvíburarnir og aftakan.

Voðalegur bloggþurrkur einhvern veginn alls staðar. Og ekki get ég enn hlustað á útvarpið í skrýtnu tölvunni minni. Fór að skoða mýs í tölvubúð og ákvað að reyna að splæsa í nýja tölvu fljótlega. Verst að enn sem komið er fer sumarhýran í að fylla í holur og lifa af.

Mugison sagði í lok tónleikanna að honum liði eins og bæði hann og gítarinn væru þunnir. Það er ekki hægt að segja að tónleikarnir hafi verið leiðinlegir, en ég er viss um að hann hefur verið betri. Hann var einhvern veginn stífur og feiminn þarna uppi á sviði.
Upphitunin var plötusnúður sem spilaði undir afar viðvaningslega teknum myndum frá Íslandi. Alltaf gaman að sjá íslensku náttúruna. Hún er skemmtileg þó að þessir drengir sem vinna á tónleikastaðnum træðu sér í forgrunn á flestar myndanna. Ekki laust við að þjóðarrembingurinn brytist örlítið fram í mér við þetta.
Mugison var klæddur eins og versti túristi, í síðum stuttbuxum með sokkana rúllaða niður og í leðurskóm, lokuðum. Mjög skemmtilega lummó. Hann talaði ensku og byrjaði á að afsaka það og lét alla rétta upp hönd sem skildu ensku. Flestir réttu upp hönd, þar á meðal ég. En svo skildi maður afskaplega lítið af því sem hann var að segja milli laga. Þar sem það voru yfirleitt einvhers konar brandarar og ögrun sem átti að hlæja að, féll það um sjálft sig. Við það stífnaði hann upp og fór úr gír. Ég mun ekki rjúka í Fnac eftir disknum hans, en ég mun glöð mæta aftur á tónleika með honum. Helst á Íslandi.
Franskir áhorfendur eru oft mjög erfiðir því þeir setja sig í gáfumannastellingar með sígarettu og bjórglas og horfa grafalvarlegir á sýninguna. Ég man hvað ég pirraði fólkið í kringum mig á Pixies tónleikunum 1990. Lét eins og vitleysingurinn sem ég varð þegar ég hlustaði á þá og þeir stóðu þarna með jónuna sína og fyrirlitu lætin í mér.

Um helgina er ég að fylgja fegursta hópi sem ég hef nokkrun tímann lóðsað um borgina. Kór Öldutúnsskóla. Sárabótaferð í stað áætlaðrar Kúbuferðar. Mjög sorglegt að vita að þær söfnuðu og voru búnar að greiða þá ferð upp í topp og að tryggingafélögin þurfa ekki að endurgreiða skilding því um MAJOR FORCE er að ræða. Það finnst mér ótrúlegur útúrsnúningur á hlutverki tryggingafélaga. Eiga þau ekki einmitt að vernda okkur fyrir hinu ófyrirsjáanlega?

Ég er að kynnast nýjum bloggurum betur því mínir helstu bloggvinir eru á þeytingi um allar jarðir og sinna blogglestrarþörf minni ekki neitt á meðan. Ég er mjög ánægð með tvíburana frægu úr MS sem ég gerðist svo frökk að þekkja ekki einhvern tímann snemma á bloggferli mínum. Kommentin um það hafa máðst út svo það er gleymt og nú get ég róleg dáðst að gáfum þeirra og samsinnt gagnrýni þeirra á skítaþjóðfélag okkar. Það sem mér finnst mest um vert er að a.m.k. annar þeirra tekur strætó. Jú, hinn tekur neðanjarðarlestina í útlöndum. Ég hélt það væru bara þroskaheftir og gamlingjar sem tækju strætó á Íslandi. Mig rámar reyndar í að eitthvað væri talað um að þeir væru undarlegir þegar þeir rústuðu spurningakeppnum um árið. Ég vildi að Ísland ætti meira af alvöru undarlegu og kláru fólki. Reyndar er nú slatti af slíku á blogginu.

Annars var grein á mbl.is um aftökuna á pakistanskt útlítandi drengnum með ógurlega bakpokann og þar var talað um jarðlestir. Það fannst mér undarlegt, þó það skipti vissulega afar litlu máli miðað við efni greinarinnar. Ég bið guð, allah og búdda að passa alla þá sem eru dekkri en Bush, Blair og ég. Ekki meira af svona viðurstyggð, takk.

Lifið í friði.

21.7.05

sigur mugipabba

Langflottasta mómentið var þegar mugipabbi kom upp á sviðið í jafn flottum stuttbuxum og sonurinn og söng Armstrong.

Annað um tónleikana verður skrifað eftir meltingu. Segi bara að Mugison sagðist fíla sig dáltítið eins og bæði hann og gítarinn væru þunnir. Kannski var hann þunnur. Sá alla vega nokkur stykki af bjórum borna inn af aðalstjörnunni (pabbanum) eftir giggið. Kannski er hann bara á fylleríi í Frans á vegum Flugleiða. Sem minnir óneitanlega á sýninguna frómu síðasta haust. En ég skrifa meira um drenginn þegar ég er búin að fá smá svefn og sjóleiðis.

Lifið í friði.

Mér finnst ég eigi...

...að skrifa um Harrý. Ég las hinar bækurnar og hafði mjög gaman af. Ég sagði við vinkonu mína sem lánaði mér þær að ég ætlaði að finna eitthvað á höfundinn til að neyða hana til að ljá mér næstu bók strax. Ég lét aldrei verða af þessum djöfullegu áætlunum og nú man ég varla nöfn aðalpersónanna og er algerlega laus við að liggja á að fá bókina í hendur. Ég veit líka að það verður voðalega lítið mál að fá hana lánaða eftir einhvern tíma.
Ég ákvað fyrir nokkrum árum að herða sultarólina með því að kaupa ekki bækur og geisladiska. Auðvitað kaupi ég stundum bækur, en mun sjaldnar en áður en ákvörðunin var tekin. Reglan er að fá bækur lánaðar, hjá vinum eða úti á bókasafni. Svo á ég gott safn bóka og finnst gaman að endurlesa margar þeirra og geri mjög reglulega.
Ég myndi aldrei kaupa mér bækur eins og Harrý Potter. Mér finnst það alger peningasóun. Ég keypti mér nú samt reyfara um daginn. Hann er skrifaður af tveimur systrum sem hafa gefið út þrjá í viðbót um sama bóksala/leynilöggu.
Bækurnar gerast í París rétt fyrir aldamótin 1900. Ágætis afþreying sem ég hefði vissulega getað tekið á bókasafni. Mun áreiðanlega ná í framhaldið þar. Það voru bara sérstakar aðstæður, ég var afar niðurdregin niðri í bæ og þurfti að koma mér heim í metró og var ekki með neitt að lesa. Hefði verið ódýrara að kaupa eitthvað glysblað í blaðsöluturni en ég veit að glysblöð draga mig alltaf niður svo ég kaupi slíkt aðeins þegar ég er í uppsveiflu.
Svo ég rölti inn í eina af fáum litlum bókabúðunum í París, sem tilheyrir ekki stórri keðju, og rakst á þessa bók innan um stóra stafla af öðrum bókum. Hún orgaði á mig með teiknuðum Eiffelturni utan á kápunni. Og ég hlýddi orginu og sé ekki baun eftir því. Það er gott að setja sér viðmiðunarreglur en afar óhugnalegt að brjóta aldrei reglurnar sínar.

Í dag er ég pínulítið niðurdregin því Sólrún er farin með ömmu sinni og afa til Grikklands. Bæði er ég að kálast úr afbrýðisemi, væri til í að flatmaga á strönd með bók í tvær vikur einmitt núna og svo er hræðilegt að horfa á eftir dóttur sinni vitandi að maður fær ekki að sjá hana í tvær vikur. En ég er búin að ræða þær undarlegu kenndir sem fylgja aðskilnaði við börn hér og ætla ekki að kvelja ykkur með endurtekningu á því. Sumar vísur er hægt að kveða of oft.

Lifið í friði.

20.7.05

maður lifandi kaka

Mér finnst ástæðulaust að leyna ykkur því að möndlukakan á maðurlifandi.is er dásamleg.
Ég ætla að setja aðeins minni sykur næst og í stað 2 tsk. egg setti ég einfaldlega 2 egg.
Kakan er algert nammi og mjög auðvelt að gera hana. Möndluhökkunin er kannski smá maus, en þar sem magnið er ekki meira, reyndist það fljótlegt. Að hakka hnetur og súkkulaði er mjög auðvelt á bretti með góðum hníf sem maður ruggar bara yfir hráefninu þar til manni finnst allt orðið nógu fínhakkað. Restin er bara písofkeik eins og Ingibjörg myndi segja. (Hún sagðist, í útvarpsviðtali, hafa málað herbergið sitt Signublátt, ég er enn að hlægja...)

Lifið í friði.

18.7.05

endurtekið efni

Ég ætla að feta í fótspor snillingsins Uppglennings og birta endurtekið efni. Þennan reiða pistil skrifaði ég í september síðastliðnum. Mér finnst hann eiga við aftur í dag. Ég sé mig knúna til að taka fram að ég er ekki MEÐ hryðjuverkum. Þið ættuð öll að vita að ég er friðarsinni og trúi því statt og stöðugt að ofbeldi geti horfið úr heiminum. Ég er hins vegar afar ósátt við "tveggja gíra réttlæti" eins og Frakkarnir kalla fyrirbrigðið, hjarta mínu blæðir jafnt með Írökum og Englendingum, Tjétsenum og Rússum.
Hér kemur pistillinn:

BREYTUM-ST

Morgunblaðið síðasta laugardag fordæmir hryðjuverkamennina frá Tjétsínu og segir ALLAN HEIMINN STANDA MEÐ RÚSSLANDI. !?
Þessu er haldið fram í forystugrein, svo er vitanlega annars staðar í blaðinu heil síða með lýsingum og listi yfir öll hryðjuverkin síðustu ár. Einhvers staðar er minnst á ódæði Rússa í Tjétsínu, en þá er talað um eyðileggingu Grosníu Í LOK SÍÐUSTU ALDAR, eins og það ætti þá bara að vera löngu gleymt. ?! Er þetta stríð sem sagt búið í hugum Íslendinga? Er ekki verið að myrða og pynda fólk í Tjétsínu í dag?
Ég skil ekki hvernig við feit og fordekruð getum vogað okkur að hafa skoðun á því hvernig Tsétsénar og aðrar kúgaðar þjóðir eiga að haga sér. Ég er vitanlega illilega hrærð yfir þessum atburðum í Rússlandi, en það er samt ekki ljóst enn, hvað þá að það lægi ljóst fyrir síðasta laugardag, hverjum þetta blóðbað er í raun að kenna. Jú, blaðamaður Moggans fantasmerar eitthvað með að einhverjir arabar liggi í valnum. !? Fann hann þetta á heimasíðu W sjálfs, eða hvað? Og hvernig getur blaðamaður á Íslandi verið með vandlætingartón meðan móðir sem missti börnin sín minnir á það að Rússar hafi niðurlægt og myrt fleiri börn í Tjétsínu, en þeir í Rússlandi? Er einhver lógík í því að við lepjum upp áróðurinn að vestan, meðan fólkið sem horfir í augu dauðans, heldur sönsum og bendir á að sökudólgana sé kannski ekki svo augljóst mál að finna?
Getum við aðeins staldrað við og reynt að skilja hvers lags örvænting rekur fólk til að taka börn í gíslingu? Voru þeir kannski að reyna að fá áheyrn heimsins, þ.e. að vekja athygli á ömurlegu ástandinu heima fyrir án þess að Rússar voguðu sér að kála gíslunum með gasi áður en heimurinn fór að fylgjast með gíslatökunni, eins og var gert í leikhúsi Moskvu fyrir skömmu síðan? Þeir ímynduðu sér kannski að herinn legði aldrei til atlögu ef þeir hefðu börn fyrir framan sig?
Er ekki kominn tími til að íslensk dagblöð leyfi sér að hafa annan tón en W og Pútín viðhafa til að hylma yfir sínum eigin voðaverkum? Þeirra eilífa raus um alþjóðleg hryðjuverkagrýlusamtök heldur áfram þó þeir hafi þurft að játa á sig lygar og falsanir í sambandi við Írak og Afganistan.
Er ekki kominn tími til að við Íslendingar gerum okkur grein fyrir því að okkar ríki, okkar land, við, þjóðin sjálf, þú og ég, skrifum undir stuðning við ofbeldisverkin í Írak og eigum því yfir höfði okkar að þeir komi og hefni sín?
Vöknum Íslendingar! Vöknum til meðvitundar um að hvert líf á jörðu er dýrmætt, að við eigum ÖLL að vera jafn rétthá.
Ekki kynjajafnrétti heldur mannkynsjafnrétti.
Ekki peningavald, heldur mannauðsmáttur.
Ef breyta á heiminum, þarf að byrja smátt. Byrja þú í þínu höfði.
Lifið í friði.

Voilà. Lifið í friði.

16.7.05

Paul og Maya

Það er sérlega skemmtilegt að flakka milli þorpa í Frakklandi og finna alls konar antíksölur (antiquités/brocante) eða umboðssölur (dépôt vente).
Maður dettur inn hjá hágæða húsgagnasmiðum sem kaupa húsgögn úr sveitabæjunum og vilja ekkert yngra en 1870 eins og maðurinn sem seldi Laurence eldhúsborðið sitt sem er 260 cm á lengd og 94 cm á breidd.
Hann sagðist dauðfeginn að losna við þetta stóra borð enda sérhæfir hann sig í litlum skápum sem voru upprunalega eiginlega ferðatöskur vinnumannanna sem flökkuðu milli bæja í vinnu. Þeir höfðu þá allt sitt hafurtask í skápnum og skelltu honum upp á kerru og ferðuðust þannig þangað sem eitthvað var að gera. Mjög skemmtilegir skápar og er ég ákveðin í að eignast slíkan grip einn góðan veðurdag.
Svo getur maður komið í lítið ofurfallegt þorp og séð þar kaffihús með plastborðum og scheppes sóltjöldum og málað skilti sem auglýsir dépôt vente. Manni finnst skiltið kannski dálítið Emblulegt og fær fiðring í magann. Hér hlýtur að vera eitthvað spennandi.
Fyrst kemur maður inn á kaffihúsið. Þar trónir ung akfeit stúlka við kassann við enda barsins. Við sjálfan barinn hangir lufsulegur ungur maður sem lítur út fyrir að þiggja atvinnuleysisbætur (ég hef enga fordóma, þetta er bara svona ákveðin tegund af mönnum, er það ekki?) með bjór í glasi fyrir framan sig. Hann horfir sljóu augnaráði á okkur.
Skilti vísa á umboðssöluna út í bakgarð. Dúkarnir á plastborðunum í innri salnum eru dökkblá indversk næfurþunn efni með gullbróderingum og pallíettum sem stinga í stúf við undarlegar sjávarskreytingar á veggjum, akkeri, netbútar, baujur o.fl. Við erum mörg hundruð kílómetra frá sjó en það er ekkert að því að láta sig dreyma.
Frá bakgarðinum þarf slösuð ég að skakklappast niður undarlega illa steyptar tröppur. Við enda þeirra blasir hundur á stærð við vænan kálf. Hann teygir á keðju sem er samsett úr ýmsum vírbútum og einhverju fleiru óskilgreinanlegu og geltir hátt og grimmilega. Það er ekki laust við að þrátt fyrir hitann renni manni kalt vatn milli skinns og hörunds.
Við komum inn í meðalstóra skemmu sem er svo troðfull af dóti að varla er hægt að stíga niður fæti. Þarna er eldhúsinnrétting úr hjólhýsi, sófi sem hefði sómt sér á Southfork, lampaskermar, beyglaðir pottar, samansafn af glösum, skálum, öskubökkum og öllu þessu smádóti sem fyllir alltaf svona umboðssölur. Mjög mikið af dótinu kemur greinilega úr barnaherbergjum, oft líklega jóla- og páskaskraut sem börnin hafa gert í skólanum. Þarna fundum við þrjár fínar tréhillur sem við vildum fá að vita hvað kostuðu. Smærri útgáfa af akfeitu unglingstúlkunni hafði fylgt á eftir okkur niður. Við spurðum hana hvað þetta kostaði og hún sagðist verða að ná í mömmu sína. Eftir drjúga stund birtist stærsta útgáfan af kvengerð heimilisins, með svart mikið hár í risastórum appelsínugulum indjánakufli. Við náðum hilluverðinu niður um 4 evrur.
Vinir okkar voru að skoða eitthvað lítið sófaborð og skyndilega öskrar litli og tágranni kallinn sem við höfðum séð glitta í á bak við skemmuna að með sófanum fylgi tveir stórir hægindastólar. Hann var greinilega sannfærður um að þetta sófasett væri gullið í draslkistunni og að við hlytum að hafa mikinn áhuga á því.
Við klöngruðumst upp stigann og inn í annað bakherbergi sem frúin hafði sagt okkur frá. Þar var forláta verksmiðjuvigt sem maður getur bara ekki keypt þegar maður býr í íbúð í blokk og frábærir stólar sem þau vildu ekki selja. Upp um alla veggi héngu málverk af undarlega löguðum berum konum, bátum á reki á sjó og öðrum landslagssenum sem hljóta að hafa verið eftir einhvern vin þeirra, ef kerlingin er ekki að mála sjálf (eins og sumir sem ég minntist á í byrjun þó að gæðin séu ekki samlíkjanleg).
Á gólfi upp við hurð sýndist okkur standa kjötpoki sem er ekki gott í þessum hita og þykkt lag af ryki lá yfir öllu svo við ákváðum að vera ekkert að fá okkur svaldrykk hjá þeim.
Þegar við ókum í burtu sáum við skiltið yfir hurðinni: CHEZ PAUL ET MAYA.

Lifið í friði.

15.7.05

sveit og sviti

Ég eyddi heitri og sólríkri vikunni í sveitinni hjá Laurence. Laurence býr ein í gömlum sveitabæ á miðjum akri. Hún er með fullt af fallegum trjám í garðinum kringum húsið og maður sér ekki niður á veg. Sælan er hvílík að ég kom heim með öndina í hálsinum og tilkynnti manninum mínum að við ætluðum að flytja í sveit líka. Ég veit ekki hversu lengi ég myndi endast þannig, er dálítið steinsteypubarn í mér, en mér finnst samt þess virði að spá í þetta út frá hamingju barnanna, stærra húsnæði og fleiru slíku. Vendôme er lítil borg með TGV-hraðlest sem er klukkustund til Parísar. Ekki slæmt að finna sér hús í fimm mínútna fjarlægð frá lestarstöðinni en vandamálið er að fleiri hugsa slíkt hið sama og húsin á ákveðnum svæðum hækka hratt og örugglega.
Ég hafði það nú af að misstíga mig þannig í byrjun vikunnar að ég skakklappast um á spelku með bólginn og svartan ökkla. Ekkert brotnaði né slitnaði en ég er ekki til stórræðanna. Þess vegna var ég fegin í vonbrigðunum þegar enginn ferðalangur sýndi sig í göngutúr í dag. Hitinn er illilega hár og sólin yfir sig björt þessa dagana. Kannski ekki við því að búast að Íslendingar séu í miklu göngustuði.
Vinnulega séð var vikan bæði vond og góð. Sumir hlutanna sem við máluðum eru líklega ónýtir, a.m.k. verðum við að byrja upp á nýtt. Aðrir koma hvílíkt flott út. Og í morgun skakklappaðist ég í bókabúð og fann bók sem mun líklega létta okkur lífið þó ég þurfi að fletta ansi mörgum orðum upp. Það er alltaf erfitt að byrja á einhverju nýju, alltaf einhver sértækur orðaforði sem flækist fyrir manni. En gaman líka.
Annars er ekkert að frétta nema gras er grænt, tré eru hvert öðru fallegri, það eru til margs konar skordýr sem sum eru frekar ógnvekjandi en eðlur eru hins vegar einhverra hluta vegna eitt það skemmtilegasta sem maður sér í náttúrunni eins og reyndar líka fuglar. Ha!

Lifið í friði.

10.7.05

afstæði

Mér finnst merkilegasta frétt vikunnar vera dýri veitingastaðurinn sem á að opna á Íslandi. Sprengjur í London og ólympíuleikar á sama stað falla gersamlega í skuggann af þessu.
Flestir þeir sem ég þekki og eru fjáðir, eru líka frekar naumir. Ekki beint nískir, en það er samt ástæða fyrir því að þeir eru loðnari um lófana en hinir (og miklu fleiri) sem ég þekki og eiga í vanræðum með að ná endum saman. Þeir eru oft sniðugir að láta bjóða sér, og fara "vel" með aurinn sinn. Ég efast stórlega um að mikið af ríku fólki eigi eftir að koma á þennan dýra veitingastað í Reykjavík. Ætli það verði ekki mest fólk sem á í raun ekki fyrir því en langar svo að fara því það er svo smart að hafa komið? Eða hvað? Kannski kemur aldrei neinn. Og hvað í fjandanum á maturinn eiginlega að kosta? Er ekki verið að selja steikur á fimmþúsundkall á hinum "ódýru" stöðunum fyrir plebbana sem eiga hvorki frægð né troðin seðlaveski? Ég hlakka til að fylgjast með þessu máli. Þetta bjargar vikunni frá því að vera bæði veðurfarslega og fréttalega ómöguleg.
Frekar lamað veður hérna, ekki þó rigning í dag og farið að hlýna aðeins, en búið að vera hráslagalega íslenskt veður undanfarna daga. Maður varð að fara í lokaða skó á föstudaginn eftir að koma heim með bláar tær á fimmtudeginum.

Annars er ég að fara upp í sveit á morgun í fjóra daga með verðandi samstarfskonu minni. Við ætlum að gera tilraunir með málningu og ýmislegt spennandi. Drattaðist niður í geymslu í morgun og troðfyllti bílinn af dóti. Var hálfþunn eftir víndrykkju með kallinum í gærkvöldi og þetta var mikið þrekvirki. Ég hata geymslur. Allar geymslur fyllast af drasli, sama hvað maður er ákveðinn í að láta það ekki gerast. En vonandi get ég komið þessu dóti í verð eftir að ég verð búin að fegra það. Og vonandi getum við látið drauminn um að gera þetta að atvinnu okkar rætast. En það kemur í ljós í haust.

Mugison er með tónleika hér aftur 21. júlí. Ég ætla að fara og tókst m.a.s. með smá andlegu ofbeldi (þú hefur aldrei áhuga á neinu frá mínu landi, ertu búinn að lesa Laxness? Ertu búinn að lesa Eddu? Þér er skítsama um uppruna minn...) að fá manninn minn til að samþykkja að koma með mér.

Sé ykkur um næstu helgi. Lifið heil og verið dugleg að skrifa. Bloggið er frekar dauflegt þessa dagana finnst mér. Ekki það að sjálf er ég gersamlega andlaus og kreisti þetta röfl úr mér núna með miklum erfiðismunum og er alveg búin núna. Farin að leggja mig.

Lifið í friði.

7.7.05

túlkun

Á þriðjudagskvöldið var ég ein heima með börnunum. Sjaldgæft fyrir mig og yfirleitt nýt ég þess út í ystu æsar að horfa á einhverja rómantíska mynd sem ég hef tekið upp nokkrum mánuðum áður og maðurinn minn þolir ekki að horfa á með mér. En börnin voru frekar uppskrúfuð yfir heimkomu Sólrúnar og voru með læti.
Ég þoli ekki að horfa á bíómyndir undir sífelldum truflunum og þess vegna lenti ég inn á þætti á TF1 með brotum úr mistökum í sjónvarpi. Svona þættir eru mjög reglulega á dagskrá hérna og þess vegna þekkir maður mikið af myndbrotunum en í þetta sinn sá ég nokkur í fyrsta skipti.
Ég er fullkominn áhorfandi að svona efni, ég grenja úr hlátri þegar ég sé fólk hafa sig að fíflum, get stundum hlegið heilu dagana ef ég er svo heppin að sjá fólk detta úti á götu og það sem þáttastjórnendur lenda í er margfalt neyðarlegra en eitt feilspor á förnum vegi.
Eitt af brotunum var úr Roland Garros tenniskeppninni. Þar var Michael Chang að fagna sigri á ensku og þulur sem talaði yfir á frönsku í beinni útsendingu.
Michael Chang: And of course I have to thank the Lord Jesus. I would not have been here without him.
Og þulurinn: Og svo þakkar hann einhverjum LUIGI. Hlýtur að vera vinur hans...

Þetta minnti mig á atvik sem ég lenti í fyrir nokkrum árum. Þá fór ég með hóp af verkfræðingum niður í holræsakerfi borgarinnar. Ég hafði aldrei heimsótt þau áður, forðast að fara niður í þröng göng þó ég sé alls ekki sjúklega hrædd. Bara ekkert voðalega spennt fyrir svona stöðum. En þarna var ég með hóp af spenntum mönnum sem vildu stúdera holræsin í París því þeir ætluðu að byggja holræsakerfi fyrir norðan einhvers staðar.
Við ákváðum að taka leiðsögumann. Það hlutverk er leyst af hendi af starfsmönnum holræsakerfisins. Fengum stóran og mikinn rum sem bar þess merki að hafa lifað stórum hluta lífs síns í holræsum og virtist líða afar vel með það og var mjög stoltur og montinn af holræsakerfi Parísar sem er reyndar mjög glæsilegt, er t.d. manngengt sem er einstakt.
Hann byrjaði að þusa og útskýra hin ýmsu smáatriði. Ég reyndi eftir bestu getu að þýða jafnóðum það sem maðurinn var að segja án þess að missa af því sem hann sagði á eftir því hann hafði lítinn skilning á því að ég þyrfti að túlka sögur hans og hélt hiklaust áfram vaðli sínum.
Fát kom á mig þegar hann fór að útskýra fjölda rotta og að einu sinni á ári væri fiskum hleypt út í rörin til að fækka þeim! Mennirnir fengu sama skelfingar- og undrunarsvip og ég fann að myndaðist á eigin andliti þegar ég bar setninguna fram. Fiskar! Hvernig fiskar éta rottur? Það getur ekki verið!
Ég var ekkert smá skömmustuleg þegar ég náði að stöðva manninn og biðja um nánari útskýringu.
Fiskur: poisson. Eitur: poison.
Eitt af því fyrsta sem maður lærir í frönskunni.

Fljótlega gáfumst við upp á sögum holræsamannsins, og sögðum honum að við vildum bara skoða. Hann varð mjög svekktur, ekki einu sinni hálfnaður með fyrirlesturinn og gekk til baka tuldrandi eitthvað um hálfvita frá útlöndum. Við höfðum smá áhyggjur af því að hann færi í fiskabúrið og hleypti einhverjum skrímslum á okkur, en við komumst heil á húfi upp úr göngunum og hef ég ekki heiðrað 6 milljón rotturnar sem þar búa með nærveru minni síðan.

Lifið í friði.

6.7.05

myndir uppglennings

Farið inn á uppglenning og skoðið myndirnar hans. Uppáhalds uppáhalds myndin mín heitir "Kynning hjá Hringnum 2002".
Glæsilegar konur komnar af "besta aldri" (sem er væntanlega 25-31 árs skv. kvennablöðum), bollastellið og myndirnar fyrir aftan þær. Stórkostleg stemning á þessari mynd. Ímyndið ykkur ef þetta væri forsetinn og forsætisráðherra en ekki stjórn Hringsins. Heimurinn væri sannarlega betri ef konur réðu.

Lifið í friði.

magnleysi

Á hverjum degi get ég kvartað yfir einhverju nýju. Í dag sit ég hér í algeru magnleysi meðan hópur bindiskalla og dragtakellinga taka ákvörðun sem varðar mig og líf mitt. Og ég hef ekki orð um það að segja.
Hver veit nema ég komi til Íslands sem ólympískur flóttamaður? Ætti kannski að hafa samband við Halldór beint (er hann ekki í Vesturbæjarlauginni á morgnana?) og gera honum tilboð um að koma með hóp af góðu og gegnu fólki með mér. Frönskum snillingum sem gætu rifið íslenskt þjóðfélag upp. Best að minnast ekki á hæfni Frakka til að mótmæla, það gæti fengið hann til að hika, voða gott að ríkja yfir þjóð sem bloggar bara. Stórhættulegt að fá fólk til landsins sem hugsar öðruvísi.

Lifið í friði.

5.7.05

eirðarleysi

Nú er Sólrún í flugvélinni með fólki sem hún þekkir lítið sem ekkert og ég enn minna. Skrýtin tilfinning. Hún var hress og hugrökk í morgun skv. ömmunni og fór vel á með henni og samferðafólkinu þegar þau hittust í kaffi í gær.
Mér líður svo skringilega, það bærast alls konar tilfinningar í brjósti mér eins og þær að enginn annar en ég geti sinnt þörfum barna minna. Afar óheilbrigður hugsunarháttur kviknar inni í móðurinni þegar fylgjan fer út. Einhvers konar frumskógareðli, maður veit að maður getur breyst í villidýr ef einhver gerir barninu eitthvað og maður ákveður að barnið muni aldrei neitt henda.
Nemó-myndin fjallar einmitt um þetta: "Ef aldrei neitt má koma fyrir hann... þá kemur aldrei neitt fyrir hann" segir Dóra og vorkennir Nemó mikið.
Yfirleitt tekst foreldrum að hrista af sér þessar hugsanir en þær eru þarna einhvers staðar niðurbældar og brjótast upp á yfirborðið á ólíklegustu tímum. Það þýðir ekkert fyrir mig að hugga mig við að allt sé í lagi, mér líður hörmulega og mun ekki líða betur fyrr en hún er komin í fangið á mér. Ég veit að fólkið mun segja mér að allt hafi gengið vel. Ég veit að allt gengur vel. En ég er óhemja og mér er sama hvort allt gengur vel eða ekki, barnið mitt á ekkert að vera þarna með ókunnugu fólki.

Ég er búin að hengja upp úr tveimur vélum í morgun og sú þriðja er á fullu að vinda. Mér tókst þá alla vega að virkja eirðarleysið í eitthvað gagnlegt.

Milli þvottaupphenginga fletti ég upp hlut sem hefur verið að vefjast fyrir mér í smá tíma. Hryssan skrifaði um daginn að maður ætti að segja: Hafa gaman AF e-u. Mér hefur alltaf fundist það eiga að vera þannig, en hef í einhvern tíma skrifað að hafa gaman AÐ eftir að ákveðin kona leiðrétti það hjá mér í tölvupósti. Hm. Svona á maður ekki alltaf að trúa öllu án þess að athuga það. Ég á hina frábæru bók ORÐASTAÐUR og þar stendur að maður HAFI GAMAN AF bókum, hestum... en samt FINNST eða ÞYKIR manni GAMAN AÐ handavinnu. Þarna hef ég það. Þess vegna er bloggið mitt áreiðanlega fullt af þessari villu. Á ég að lesa það allt aftur? Held ég nenni því ekki. En rosalega þykir mér leiðinlegt að hafa vaðið í villu í þennan tíma.

Svo fletti ég öðru orði upp í Orðabók Menningarsjóðs sem ég fékk í fermingargjöf: Uppreist þýðir uppreisn. Skrýtið. Orðið uppreistarmaður hnaut ég um í formála Kristjáns Karlssonar að (eða af?) kvæða- og greinasafni Steins Steinarrs. Ég er á milli bóka núna og ákvað að lesa Stein enn og aftur.

Lifið í friði og lifi uppreistin.

4.7.05

Sóla á Íslandi

Og enn og aftur er það fyrirsögnin sem er tengill. Þetta er albúm litlu frænku okkar, Soffíu, sem hefur leikið sér við Sólrúnu meðan hún hefur verið á Íslandi. Gaman að bera saman klæðaburðinn á henni þarna og hér úti (sjá tengilinn í fyrirsögninni hér að neðan).
Dvölin hefur gengið vel, hún fékk að hitta Elmar og þau voru eins og versta kærustupar allan tímann, skilst mér. Svo hefur hún verið að dúlla sér með afa og ömmu og öllum hinum. Olga María hefur verið dugleg að fara með hana á róló og ég held að þau hafi farið í sund á hverjum degi. Frekar abbó út í það. Hef ég ekki skrifað hér áður að sundlaugarnar eru það eina, EINA, sem ég sakna frá Íslandi fyrir utan vitanlega fólkið? Íslenskar sundlaugar eru alger paradís og eiga sér engan sinn líka annars staðar í heiminum. Dugar ekki til að fá mig til að flytja heim, en ég sakna þess oft að komast ekki í laugina á heitum sumardögum. Laugarnar hér eru sæmilegar en oftast ískaldar og afar mikill klór í þeim. Enda fer enginn í almennilega sturtu, öll nekt bönnuð, m.a.s. í búningsklefunum.
En Sólrún kemur heim á morgun. Við hlökkum svo til að fá hana að ég er eiginlega frá mér í dag. Veit ekki hvað ég á af mér að gera. Hún segist hins vegar ekki ætla að koma, svo gaman þykir henni að láta dekra við sig þarna á Fróni.
Hennar bíður hins vegar næstum fullbúið dúkkuhús. Var að saga niður litla kubba í morgun og get varla hamrað á lyklaborðið fyrir verkjum í höndum eftir aðfarirnar. Þó ég muni vel eftir því sem ég lærði í smíði: Láta sögina vinna verkið. Bara á ekki neitt til að klemma spýturnar meðan ég saga þær svo ég þarf að halda þeim sjálf. Það er erfitt.

Lifið í friði.

myndir

Þá er komið júníalbúm á myndasíðuna. Þar sést að önnur stemning ríkir í júníalbúmum parísarbúa en í júníalbúmum lítillar frænku á Íslandi. Þori ekki að setja tengil á það albúm án samþykkis foreldranna. Njótið sólarmyndanna í rigningunni lömbin mín.
Reyndar rignir hér og vindar blása þannig að ég get svo sem ekkert mikið montað mig. En spáð sól og 25 seinni partinn.

Lifið í friði.

3.7.05

Bowie

Ég er fædd 1969, þegar blómaskeið hippans og glysrokksins er að líða undir lok og diskóið er á leið inn. Ég var eiginlega aðeins of ung fyrir pönkið, þegar ég er byrjuð að breytast úr saklausu barni í "reiðan" ungling ruddist yfir okkur bylgja af Duran Duran, Wham, Boy George og fleiri ámóta spennandi hljómsveita. Þegar ég er tólf, þrettán ára byrja ég að hafa mikinn áhuga á tónlist. Ég náði að hlusta á nokkrar pönksveitir en ég var samt alltaf mjög hrædd við pönkstelpurnar niðri á Hlemmi sem gengu í nærbuxum utan yfir níðþröngar gallabuxurnar. Ég var í stretsbuxum úr Karnabæ, sem ég þurfti að leggjast í gólfið til að komast í, en ég hefði aldrei þorað að vera í nærbuxum utanyfir. Ég átti fótlaga skó, sem voru álitnir pönkaraklossar í mínum hallærislega Seljaskóla og ég gekk helst í blá-hvít röndóttum mussum úr Vinnufatabúðinni. Ég hlustaði á Sjálfsfróun, Fræbblana, Egó og dýrkaði Tappa Tíkarrass, en ég hafði aldrei áhuga á að klæða mig of áberandi og ég hafði mig ekki mikið eftir því að kynnast hugmyndafræði pönkaranna. Ég var afskaplega þæg og prúð.
Eina leiðin til að uppgötva nýja tónlist fyrir tólf, þrettán ára krakka sem gat ekki farið niður í bæ og KEYPT plötur, var að taka upp hinn "allt of stutta", "elsku fjörtíu mínútna" LÖG UNGA FÓLKSINS. Ég gerði tók mig mjög alvarlega við þessar upptökur og eyðilagði a.m.k. tvö segulbandstæki fyrir pabba, sem sýndi mér engan skilning, þoldi ekki hvernig ég níddist á tökkunum. Trikkið var að ná sem mestu af laginu án þess að rödd þáttastjórnandans kæmi inn á bandið. Ég varð fljótlega sjálfskipaður DJ í bekknum, sá um tónlistina á bekkjarkvöldum og í leikfimis- og sundrútunni. Á þessum árum ferðaðist pabbi mikið til útlanda og keypti þá oft plötur handa mér. Aðallega þýskar og sænskar safnplötur með vinsælu lögunum. Þetta hjálpaði mér mikið í skífuþeytarabransanum.
Á upptökubrölti mínu kom stundum röddin með, það var ómögulegt að hafa þetta fullkomið. David Bowie gerði lagið Cat People vinsælt á þessum árum, 1982 að mig minnir og fannst mér það afar flott lag. En í einum þætti LAGA UNGA FÓLKSINS hafði einhver þroskaðri unglingur en ég vit á að biðja um lagið Life On Mars. Í endann á laginu kom stjórnandinn og sagði David Bowie og það varð eftir inni á bandinu.
Mér varð um og ó þegar ég uppgötvaði að þetta stórfína lag væri sungið af sama manni og Cat People. Ég bað pabba um að kaupa Bowie plötu handa mér í útlöndum. Hann keypti handa mér eina og eina plötu. Ég uppgötvaði þarna Pin Up's, Low, Hunky Dory og sitthvað fleira. Smátt og smátt uppgötva ég líka að ég get fundið ýmislegt út um þennan frábæra tónlistarmann. Það voru til heilu bækurnar um hann Hjá Hirti og svo gaf hann út Let's Dance og fór að koma í BRAVO, ásamt Boy George, Taylor drengjunum og Le Bon.
Ég var kannski alein í skólanum að hlusta á Bowie, en gat þó sagt þeim ýmislegt um erfiða æsku, slys á auga og önnur ómerkileg smáatriði þegar stelpurnar voru að pípa um bláar nærbuxur og annað stórmerkilegt úr lífi Simon.
Þegar Rás 2 hóf útsendingar breyttist heimurinn svo mikið að það er ekki hægt að skrifa stuttlega um það í einhverju bloggi. Ég er reyndar viss um að flestir unglingar í dag geta ekki svo mikið sem ímyndað sér helminginn af tilfinningunum sem bærðust í líkömum okkar, hversu erfitt það var að slökkva á viðtækinu í miðju vinsælu popplagi til að fara í skólann, hversu stórfengleg undur það voru að koma heim aftur og tónlistin enn á fullu í útvarpinu. Smátt og smátt lærði maður að lifa með því að þetta væri komið til að vera. Að maður þurfti ekki að hlusta á allt, þetta voru m.a.s. mest endurtekningar. Undarlegast var að finna að stundum fékk maður nóg og slökkti á tækinu þó maður væri ekki að fara neitt!
Í dag óskar maður þess stundum að kommúnistarnir hefðu náð völdum og að allur vestrænn heimur þyrfti að vera í felum með poppið, þá væri kannski verið að gera eitthvað af viti. Í það minnsta væri heimurinn líklega betri ef útvarpsrekstur væri ekki frjáls. Drullan og bullið sem vellur á FM-bylgjunum væri flest best geymt í stórri rotþró.
Ég á ennþá einhvers staðar spóluna með fyrstu ROKKRÁSAR-þáttunum. Skúli og Snorri á Rokkrás voru nefninlega Bowie aðdáendur og fyrstu tveir þættirnir fjölluðu um hann. Þar heyrði ég af samvinnu hans og Lennon og margt fleira spennandi. Ég kann líklega enn utanað ákveðna kafla úr þessum þáttum. Þetta voru góðir tímar.
Mamma var mjög hissa á þessari Bowie dellu í mér og sagði mér að hann gæti verið pabbi minn. Ég notaði það óspart að mamma væri í vafa um faðerni mitt.
Ég tilkynnti fljótlega (hey, ég var nú eftir allt mjög ungur unglingur þarna) að ef ég kæmist einn góðan veðurdag á tónleika með Bowie myndi ég fyrirfara mér því þá væri ég búin að upplifa allt. Ég hef séð hann mörgum sinnum á sviði. Stundum góðan, stundum allt í lagi, en ég ætla ekki að fyrirfara mér, var líklega orðin of gömul þegar ég sá hann loksins fyrst, þá tvítug. En á þeim tónleikum skemmti ég mér svo vel að ég grét mig í svefn um nóttina.
Ég hlusta ennþá mikið á Bowie, fæ gleðihroll þegar hann syngur um Lady Stardust, þegar hann rokkar með Jean Genie og ég fer í dáleiðsluástand undir Low. Changes og Space Oddity virka alltaf á mig. Bowie er góður félagi þó að ég hafi ekki nennt mikið að fylgjast með honum í dag. Ég fékk þrjú eintök af hrikalega lélegu plötunni hans sem er stolið úr mér hvað hét og eftir Tin Machine gafst ég eiginlega upp. Hlustaði ekki einu sinni almennilega á Outsider þó ég eigi nú diskinn.
Það var LÖGUM UNGA FÓLKSINS og þessum dónaskap þáttastjórnanda að tala yfir lögin að þakka að ég uppgötvaði Bowie. Í dag hlusta krakkarnir á síbylgjuna valda af markaðsfræðingum til að selja þeim meira kók. Í LÖGUM UNGA FÓLKSINS hlustaði maður á bréf frá fólki sem boðaði frið eða dauða og hlustaði á lög sem þetta fólk valdi með. Auðvitað valdi þáttastjórnandinn bréfin, en ég er sannfærð um að hann hafði algert frelsi og mátti spila það sem hann vildi. Eins og reyndar Rás 2 virðist leyfa stjórnendum sínum að gera í dag, a.m.k. að einhverju leyti. Ég man til dæmis mjög vel eftir þættinum sem kom eftir að NICOLE sigraði Eurovision með Ein Bichen Frieden. Langur lestur af friðarbréfum, örugglega tveimur lögum færra í þættinum en vanalega, en þetta var bara eitthvað svo flott að maður fyrirgaf það. Þá var Ísland ekki að keppa svo maður undi sigri annarra þjóða mun betur.

En nú verð ég að hætta þessari nostalgíu og koma mér í sturtu. Skógarferð í dag í hitanum.

Lifið í friði.