29.6.05

mikki er refur

Hér mætir Mikki sjá
með mjóa kló á tá
og mjúkan pels
og merkissvip sem mektarbokkar fá...

En þar sem þeir vilja ekki samþykkja notendanafnið mitt og leyninúmerið sem ég er sannfærð um að ég hafi stofnað, get ég ekki breytt listanum ennþá.
Ég skil samt núna þetta með user og allt það, takk fyrir hjálpina farfugl.

Þetta blogg er farið að vera dálítið þreytandi, eins og alltaf gerist þegar maður er að bæta við sig tækninýjungum, þá snýst allt í kringum það og það eitt.
Ég er afskaplega mikill kleyfhugi varðandi tækni. Mig klæjar í fingurna í tækjabúðum og langar í allt. Mig langar í skanna/prentara/ljósritunarvél. Mig langar í vefmyndavél. Mig langar að geta sett myndir inn á þessa síðu og tengla í gríð og erg eins og hinir kláru bloggararnir en einhverra hluta vegna er ég með gamla tölvu sem fáir skilja og get ekki gert þessa einföldu flóknu hluti sem hinir gera, að því er virðist, áreynslulaust.
Og ég er eiginlega alveg sátt við það líka. Þess vegna hefur það ekki breyst. Þ.e.a.s. ég pirra mig á því meðan á stendur en þess á milli truflar það mig ekki neitt að vera gamaldags. Sem ég er að svo miklu leyti. Glötuð í tónlist, glötuð í bíó, glötuð að fylgjast með. Og er sama. En samt ekki.

Ég játaði gamalt partýtrikk á athugasemdakerfi Þórdísar kaldlyndu í gær. Ég stundaði það reglulega að slá því fram að Ísland ætti að verða ríki í USA. Það olli alltaf miklu fjaðrafoki og illdeilum sem ég hafði gaman að.
Annað partítrikk sem er mjög gott fyrir athyglissjúka einstaklinga eins og mig er að kunna að syngja Mikka ref. Það eru til nokkrar góðar myndir af mér að taka hann með trukki og dýfu. Svo notaði ég hann mikið á dóttur mína þegar hún grét lengi. Það róaði hana. Mikki blífur bæði á börn og fullorðna.

Eiginlega nenni ég ekki að blogga enda er ég ein heima og ætla að mála dúkkuhúsið sem ég minntist á að ég væri að gera fyrir nokkrum mánuðum en hefur síðan þá staðið fokhelt inni í barnaherbergi.

Lifið í friði.

28.6.05

meiri tenglar

Ég er frekar dugleg að bæta tenglum þeirra sem ég les í tenglasafnið mitt. Þó eru nokkrir bloggarar sem ég hef stolist til að lesa við og við án þess að tengja inn hjá mér. Meðal þeirra er Ásta Svavars sem ég skemmti mér konunglega við að lesa einhvern tímann í vor þegar Rýnirinn ógurlegi tók hana "í gegn". Þá fann ég lag eftir nemendur hennar um Jón Sigurðsson sem er púra snilld. Ég komst svo aldrei inn í það aftur til að setja tengil og varð eitthvað pirruð. Hins vegar les ég hana stundum. Nú ber svo við að stúlkan var í París á dögunum og kom ekki í ferð með mér. Hm. Frekar móðguð, en hún bætir það upp með frábærri ferðasögu og skemmtilegum myndum. Fyrir þetta fær hún tengil hjá mér.
Svo bætti ég líka Huxy við, hana kíki ég stundum á þegar ég er í mikilli lesþörf. Ég held að kannski þekki ég hana, eða kannist við hana öllu heldur, en er ekki alveg viss.
Að lokum bætti ég hinu ofurmenningarlega bloggi Norðanáttarinnar við. Ég er alfarið á móti helmingnum af því sem Tóta pönk skrifar í bloggráðum sínum. Ég bara nenni ómögulega að telja það upp núna sem mér finnst misskilningur á blogginu hja henni, en það sem ég þoli alls ekki í bloggheiminum íslenska sem er, nota bene, ennþá minni en Ísland sjálft þannig að þið getið rétt ímyndað ykkur hvað hann er lítill, er þetta skjallbandalagsfyrirbrigði. En mér finnst HS samt nokkuð glúrinn og skemmtilegur og því allt í lagi að bæta honum við.
Það mætti koma fram að ég fann söguna hennar Ástu í gegnum mikkalistann hennar Farfugls sem hún er búin að bæta glæsilega við á síðuna sína. Mig langar líka í svona. Hvernig gerir maður?

Lifið í friði.

26.6.05

heilagur andi

Ég skil að kaþólska kirkjan skilur hvers vegna það kæmi betur út markaðslega að hliðra aðeins reglunum og drífa Jóhannes Pál 2. heitinn í heilagra manna tölu meðan hann er enn á vinsældarlistum. Það er nefninlega hætt við því að eftir fimm ár fengi atburðurinn mun minna pláss í sjónvarpi og öðrum fjölmiðlum.
Þetta skil ég. Einföld markaðsprumpfræði.
En hvers vegna engu má hliðra eða hnika í sambandi við smokka, konur eða samkynhneigða, það skil ég ekki.
Angurvær svipurinn þegar þeir segjast bara því miður ekki geta boðað notkun smokksins, og að ekki sé mögulegt fyrir óbreytta að skilja hvers vegna veldur mér ógleði og mig kitlar í rassinn, svo mikið langar mig að sparka í sjónvarpið þegar ég horfi á þá. Skúrkar og viðbjóður. Í nafni föður, sonar og heilags anda.

Lifið í friði.

VARÚÐ: ofurpólitískar hugleiðingar á sunnudegi

Ég minni aftur á tónleikana í kvöld og auðvitað á útkomu bókarinnar UM ANARKISMA sem tónleikarnir eru að kynna. Það er mjög hollt og gott að lesa um anarkisma. Og það er mjög gott að lesa um hluti á sínu eigin tungumáli, það skýrir oft margt sem áður var óljóst. Ég er viss um að vinstrisinnaða fólkið sem ég geri ráð fyrir að sé meirihluti gesta þessarar síðu verður hissa að sjá hvað margt í anarkismanum höfðar til þeirra. Anarkisminn er kannski nostalgísk hugmynd, en eru ekki öll vinstri hugmyndakerfin hálfgerð nostalgía í þessum ofurkapítalíska heimi sem við lifum í?
Ég varð svo glöð í Versölum um daginn. Var þar með (h)eldri konur sem urðu svo hissa þegar ég, "svona ung" þekkti orðið SIGÐ. Það kom til umræðu því að verkamennirnir í Versalagörðunum nota sigð með löngu skafti til að snyrta trén. Ég sagði þeim að auðvitað þekktu allir kommúnistar sigðina og þá sló sú eldri sér á lær af gleði og sagðist líka vera mikill kommúnisti. Þetta var falleg stund sem við konurnar áttum þarna í litla golfbílnum í ofurvelsnyrtum görðum eins mesta valdaskúrks sögunnar.
Það er erfitt að játa á sig kommúnismann í dag. Erfitt að útskýra fyrir fólki sem lokar eyrunum og dregur upp Stalín og Rússland og skýlir sig á bak við það og neitar að hlusta á að mögulega gæti kommúnisminn verið góð lausn fyrir t.d. lítið en gjöfult land eins og Ísland.
Við náðum saman í að ímynda okkur fagurt samfélag fólks sem hefði tekist að losa sig við valdagræðgi og deildi með sér auðævunum og að allir lifðu í vellystingum, andlegum, félagslegum og jarðlegum. Falleg stund. Kveikti vonarljós í hjarta mínu.
Kommúnismi, anarkismi, sósíalismi, lausnin er þarna einhvers staðar. Það sem þarf að gerast er að fólk fái nóg af því að vera þrælar peningakerfisins, fái nóg að því að fylla húsin sín af drasli, fái nóg af því að vera með samviskubit því það veit að á hverju ári eykst tala þeirra sem leita til hjálparstofnana um leið og fleiri og fleiri komast inn á einhverja undarlega lista yfir ákveðið ríka einstaklinga. Miðstéttin er með nagandi samviskubit yfir húsinu sem þeir eiga lítið sem ekkert í, bílnum sem Glitnir á, sófasettinu sem á eftir að borga síðustu greiðsluna af, græjunum sem það veit að verður ekki hægt að gera við þegar þær bila því það hentar framleiðendum mun betur að pína fíklana til að kaupa nýtt... klisjur og aftur klisjur... ég veit það en stundum verð ég bara að koma þessu út úr höfðinu á mér.

Ég veit að einn daginn verður hvorki helvíti né paradís. Hvorki austur né vestur. Hvorki ríkir né fátækir. Ég veit að einn daginn mun saga aldanna verða skoðuð af fólki sem þekkir ekkert annað en jafnrétti og samlyndi og mun furða sig á þessu undarlega kerfi sem forfeður þeirra lifðu við og sættu sig við. Ég veit. Veist þú?

Lifið í friði.

25.6.05

Ferðamálaráð Póllands í Frakklandi strikes back

Þetta heitir líklega að snúa vörn í sókn. Ég hafði ekki hugmynd um að Pólverjar hefðu húmor en alltaf lærir maður eitthvað nýtt. Fyrirsögnin er tengill í það sem ég er að tala um. Myndin talar sínu máli og tengist þetta umræðum um ódýra pólska pípulagingarmenn sem mikið var rætt um í tengslum við stjórnarskrá Evrópusambandsins.

Annars er það að frétta að dóttir mín er lent á Íslandi í rigningu og að ég var í aðalblaðinu í dag. Ferðabransinn er að glæðast hægt og rólega, sem hentar vel í hitanum. Hef fengið ljúft og gott fólk að hugsa um í vikunni. Það er gaman.

Lifið í friði.

24.6.05

sveitt leti

Maður verður ekkert smá latur í svona hita. Og þar sem það er brjálað að gera, er maður enn latari við að blogga. Ég er að undirbúa brottför dóttur minnar, hún ætlar að vera í 10 daga á skerinu hjá fjölskyldunni sinni í Norðri. Mér líður eins og það sé verið að rífa af mér handlegginn einmitt núna. Eða að draga eigi úr mér allar tennurnar. Ég veit að hún á eftir að eiga góðar stundir hjá fordekrandi afa og ömmu. Og rifist er um að fá að fara með hana í húsdýragarða og sund. Ég veit að það er erfitt fyrir hana að vera alltaf hérna með okkur. Samt finnst mér þetta fáránlega erfitt. Skammast mín hálfpartinn.
Lifið í friði.

21.6.05

sólstöður

Lengsti dagurinn í dag. Til hamingju með það, njótið vel.

Fête de la musique hér í Frakklandi. Tónlist út um allt. Og þeir sem ekki kunna eða vilja spila eiga að dansa, stappa og klappa með. Fínt partý en ég ætla að láta mér litlu dagskrána hér í Copavogure duga því ég nenni ekki niður í miðbæ ein með börnin. Það væri óðs manns æði.

Er það satt að Halldór talaði um að ekki ætti að tala um það neikvæða í þjóðfélaginu á 17. júní? Minnir mig ógurlega á það þegar Björn Bj. þá nýskipaður menntamálaráðherra sló á putta blaðamanns Mbl. fyrir að bera upp spurningar varðandi vandamál menntakerfisins. Honum fannst hreinn óþarfi að vera með barlóm og svartsýni. Það væri nú svo margt gott líka.
Og þetta hrokafulla lið kjósið þið yfir ykkur aftur og aftur!

Lifið í friði.

20.6.05

allir á tónleika

Í tilefni ef útkomu bókarinnar "UM ANARKISMA" - fyrsta íslenskaða
anarkistaritsins- koma eftirfarandi pönk- og rokksveitir saman á
tónleikum sunnudaginn 26. Júní.

INNVORTIS
FIGHTING SHIT
MYRA
MAMMÚT
SVAVAR KNÚTUR
GAVIN PORTLAND
VIÐURSTYGGÐ
TRANSSEXUAL DAYCARE

TÓNLISTARÞRÓUNARMIÐSTÖÐINNI (Hólmaslóð 2)
500 kr
18.00-22.00
EKKERT ALDURSTAKMARK

Aðgangseyrir rennur til stuðnings útgáfunni og tónlistarþróunarmiðstöðinni.
Bókin verður auðvitað til sölu á staðnum.

Góða skemmtun.

Ef ég gæti, færi ég hiklaust. Lifið í friði.

mikki vefur refur?

Ég ætlaði að hlýða mafíudrottningunni ógurlegu og skrá mig hjá Mikka vef. Þá kemur í ljós að ég er komin þar inn sem Kristín Jónsdóttir. Ég man einmitt eftir því að þegar ég var að setja parisardaman.com inn og var að fylgjast með hvernig hún "gúgglaðist", kom einhvern tímann þessi undarlegi mikki vefur upp. Ég reyndi eitthvað að eltast við hann en skildi ekkert í þessu og gafst upp. Ég veit ekki hver skráði mig, en þannig er það nú.
Þetta stemmir við annan skrýtinn atburð sem ég hef lent í, ungur maður gekk að mér á bar í Reykjavík og tilkynnti mér að ég væri fræg, þar sem ég bloggaði. Að hann þekkti mig og að mjög margir þekktu mig. Mér fannst þetta frekar óþægilegt, sérstaklega þar sem mér fannst maðurinn hálf agressífur í fasi. En ég var reyndar búin að fá mér aðeins í tána og lætin voru mjög mikil inni á þessum stað svo ég ákvað að vera ekki með ofsóknarbrjálæðisímyndanir. Hm.
En nú getið þið öll sett mig á vinsældarlistann ykkar hjá mikka. Ekki ætla ég að vera að gera mál úr því að vera á honum án þess að hafa beðið um það, þar sem Hildigunnur staðhæfir að þetta séu eingöngu plúsar, engir mínusar. En ég verð samt að játa að mér finnst þetta skrýtið og ég er afskaplega lítið fyrir að vera á listum, er með ofsóknarbrjálæðisfóbíu gagnvart því. Fæ mér aldrei viðskiptakort í búðum eða annað slíkt því ég vil forðast að vera númer.

Annars er aðallega það að frétta að hér er 30 stiga hiti eða meira og sól. Frekar ólíft og loftlaust en ég er þó alsæl. Sólrún er það líka, en Kári er frekar svona pirraður og þungur á brún enda er hann 100% víkingur og verður líklega að moka tröppurnar fyrir afa og ömmu á stuttermabolnum jólin 2015.

Jæja gæskurnar mínar. Ég ætla upp í rúm með Donnu Tartt á meðan börnin sofa sveitt og þreytt. Ekki séns að ég fari að taka til eða annað slíkt í svona hita.

Lifið í friði.

16.6.05

öryggismyndavélasjónvarp

Ég fékk skemmtilegt símtal í morgun. Svar við atvinnuumsókn. Sjaldgæft að fá slíkt. En það voru lílega ekki margir umsækjendur. Það á að gera þátt um íslenskt sjónvarp í þáttaröð um útlensk sjónvörp. Maðurinn sem ég talaði við var þess fullviss að til væri sjónvarpsstöð á Íslandi sem sýndi beint frá eftirlitsmyndavélum borgarinnar. Er þetta satt?
Ég vann einu sinni örlítið fyrir dreng sem gerði stuttmynd um þetta. Hann er franskur og gerði falska heimildarmynd um að svona væri þetta á Íslandi. Fín mynd og fékk verðlaun og allt. En hann tók það fram í enda myndarinnar að allt væri lygi nema stóru hlerunarbelgirnir sem eru nálægt Flugstöðinni í Keflavík. Leifsstöð minnir mig að sá flugvöllur heiti.
Nú spyr ég ykkur bloggarar og sjónvarpsgláparar með meiru: Er tökum úr eftirlitsmyndavélum sjónvarpað á hertzbylgjum á Íslandi? Þetta er alvöru spurning og ég verð að fá alvöru svar.
Varðandi fjölda annarra sjónvarpsstöðva og hlutfalls milli erlends og innlends efni gekk ég auðveldlega í heimildir um það, þökk sé fjölmiðlafrumprumpinu sem gerði allt vitlaust í hænsakofanum fyrir nokkrum mánuðum. Skýrslan er mjög auðlæsileg, stutt og laggóð og fyrirsögnin er tengill í hana. Skemmtið ykkur konunglega!

En spurningin þarfnast svars, þó margt annað í þessari færslu sé grín.

Lifið í friði.

brýst um og áfram tími

Það er mikið að brjótast í mér þessa dagana hvað tíminn líður hratt. Kannski er það alltaf að brjótast í mér, kannski er ég of mikið að hugsa um það. Mig rámar alla vega í að hafa skrifað um það hér á þessa síðu áður.
Ég er með ágætt dagatal uppi á vegg við tölvuna mína, með stórum reitum fyrir hvern dag. Reitirnir eru yfirfullir af alls konar upplýsingum fyrir mig til að hjálpa mér að muna allt sem ég hef lofað. Þegar ég horfi á framtíðina á dagatalinu finnst mér þetta mikið og skemmtilegt og svo horfi ég á fortíðina á dagatalinu og á erfitt með að muna að ég uppfyllti allar skyldurnar.
Svo er manni sagt að tíminn líði hraðar og hraðar með aldrinum. Ég get staðfest að þannig hefur það verið hjá mér, en á ég virkilega að samþykkja það að þetta muni halda áfram að versna?
Gamanið kárnar. Maður hrörnar og á erfiðara með að þola lífsmunstur sitt og um leið þarf maður að upplifa það og standa í því á meiri hraða. Hvusslags lógík er í þessu?

Ég er að lesa bók sem ég bjargaði frá því að vera hent áður en ég læsi hana. Svo mun ég annað hvort láta einhvern hafa hana eða henda henni út á götu til að einhver geti hirt hana. Það er nefninlega skýr stefna á þessu heimili að Billy má ekki taka of mikið pláss, það eru takmörk fyrir Billyhlutföllum lítilla íbúða. Þess vegna læt ég allar bækur sem ég veit VEIT að mig mun aldrei langa að lesa aftur.
Þetta er þykk og mikil bók sem heitir The Secret History. Fyrsta skáldsaga einhverrar Donnu Tartt um dreng sem lendir í morðmáli. Segi ekki meir, hata það þegar fólk gefur mér upp söguþráð ólesinna bóka. Þetta er svona pæling um sekt og sakleysi og ágæt afþreying hingað til. Svolítið mikill rembingur að vísa í gríska harmleiki, sem fer kannski meira í taugarnar á mér en öðrum af því ég hef aldrei nennt að lesa almennilega gríska harmleiki, en hef lesið slatta af 17. aldar frönskum harmleikjum og er því líklega of meðvituð um skort á þekkingu minni á grísku frumgerðinni...
Ég býst fastlega við að ég sé ekki að fara með fleipur þegar ég uppástend að Tartt mun ekki verða kennd í sama kúrs og Dostojevskí eða Camus. Held hún nái ekki með tærnar að hælum þeirra gaga. Snagi -> snagar, gagi -> gagar. Þetta er líklega það sem ég man best af öllu því sem Broddi Broddason kenndi mér, en hann fór með okkur stúlkum í 3.A. í gegnum grísku goðafræðina sem ég þjáist reglulega yfir að þekkja ekki nógu vel. Hann kenndi mér reyndar líka að lesa dagblöðin með fyrirvara um að þau gætu verið að plata. Broddi var frábær kennari og ég fæ alltaf ástarsting í magann þegar ég hlusta á hann lesa fréttir. Ha, þessi útúrdúr var nógu langur til að ég get hætt að tala um Donnu.

Lifið í friði.

15.6.05

partí

Á laugardagskvöldið (það hefur alltaf farið í taugarnar á mér að hafa dag áfram inni þó það sé komið kvöld, af hverju segir maður ekki laugarkvöldið?) fór ég í partí. Sem er mjög sjaldgæf athöfn hjá mér þessa dagana. Það er af sem áður var.
Ég var svo hrikalega sein því ég var í öðru partíi um daginn með börnin að ég ákvað að hoppa upp í leigubíl. Bílstjórinn var hress og skemmtilegur svertingi sem hló mjög smitandi hlátri. Þegar hann hleypti mér út, sagði hann: Þetta er nú ekki sama hverfið og Copavogure-inn þinn! Sem var hárrétt athugað hjá blessuðum karlinum. Ég fór í partí í eitt af fínu hverfunum í borginni. Þar sem ríka fólkið býr.
Ástæðan er sú að vinkona mín vinnur með ríkri stúlku sem vill vinna þó hún þurfi þess ekki, skiljanlegt að vissu leyti þó maður gæti nú ímyndað sér að maður veldi annað lífsmunstur, sérstaklega með tilliti til þess að hún er einhleyp (að vísu nýr kærasti í hverri viku) og barnlaus. En hún vinnur sér ekkert til óbóta heldur og er t.d. alltaf í mánuð á ári í húsinu sínu á Grikklandi með vinum sínum ríku. Plús fullt af öðrum fríum og ferðum.
En vinkona mín og þessi ríka og önnur samstarfskona ákváðu sem sagt að halda saman risapartí, bjóða hver um sig 20 manns og hafa fullt af kampavíni. Allir komu líka með eina flösku og í þessari toppíbúð með 4 metra lofthæð og 30m2 svölum flaut kampavínið, diskótónlist ómaði úr (lélegum) græjunum og inn streymdi alls konar fólk. Það var mjög auðvelt að sjá hverjir tilheyrðu hverjum. Vinkona mín á vini sem eru flest blaðamenn eða leikarar og voru svona frekar frjálslega klædd. Ríka stúlkan á fullt af vinum sem eru fædd rík og þau voru í vönduðum kjólum, pinnahælum, röndóttum ofstraujuðum skyrtum og buxum með broti. M.a.s. skórnir líta öðruvísi út, áberandi dýrir og fínir einhvern veginn.
Fyrst í stað leið mér mjög illa þarna. Fannst ég eins og herfa og hafði engan til að tala við því blaðamenn og leikarar eru enn óstundvísari en ég. Smátt og smátt fór þó kampavínið að hafa áhrif, Abba kom á fóninn og eitthvað losnaði inni í manni. Lenti í samræðum við einn af Arnarnesinu Neuilly sem reyndist hið besta skinn þó hann væri lumma. Hann hefur vafalaust hugsað það sama um mig.
En ég get þó ekki neitað því að þessir ríku krakkar hafa neikvæð áhrif á mig. Að horfa á þetta lið, ofuröruggt með sig utan frá séð þó að oft sé þetta komplexað fólk þegar maður kynnist því. Mér fannst ég stödd í bíómynd, þið vitið, svona ekta franskri búrgeisamynd sem sýnir ungt ríkt og gratt fólk í flottum íbúðum og maður hugsar með sér að þetta sé of óraunverulegt en man ekki að fullt af fólki lifir þennan raunveruleika. Ég get ekki að því gert, en ég lít niður á þetta fólk að vissu leyti. Finnst ég yfir það hafin af því ég þarf að hafa fyrir lífinu. Kannski er það óréttlátt, en þetta er svona. Ég er með fordóma gagnvart ríku fólki, þessu ríka fólki sem fæddist ríkt. Ber meiri virðingu fyrir fólki sem vann sig upp. Eru þetta áhrif af of miklu glápi á ammrískar bíómyndir sem mæra ammríska drauminn? Veit ekki. Og ekki ber ég virðingu fyrir nýríku fólki sem gleymir að láta börnin sín læra að peningar vaxa ekki á trjám. Gera börnin sín að þessum ríkra manna börnum, fædd rík og áhugalaus um eymdina sem getur verið allt í kring.
Eitt veit ég þó: Ef draumurinn minn frá í nótt rætist, verð ég forrík innan skamms. Annað eins magn af kúk hef ég ekki dreymt áður. Og ef ég verð rík, ætla ég ekki að fara og búa í ríkra manna hverfi því ég vil alls ekki að börnin mín gangi í skóla með ríkra manna börnum eingöngu. Sennilega myndi ég finna mér gott hús í þessu hverfi mínu sem ég er alsæl með. Gott hús með skrifstofu fyrir manninn minn og vinnustofu fyrir mig. Og góðum litlum garði með garðhúsgögnum. MMmmm... money money money must be funny in a rich man's world money money money

Manninum mínum þykir líklegast að kúkadraumurinn hafi verið forboði þess að sikileyska lasagnað hennar Hildigunnar reyndist mjög þarmaörvandi. Og þar með er ég búin að brjóta regluna um að halda hægðum mínum frá þessari síðu.

Lifið í friði.

p.s. ef þetta er hundleiðinlegur pistill segi ég mér það til varnar að ég hef ekkert kaffi fengið í morgun.

14.6.05

ha?

Er þetta ekki grín? Er júní HÁLFNAÐUR á morgun?!

Lifið í friði.

13.6.05

furðuveröld

Veröldin er skrýtin. Ég hef alltaf vitað það, en ég hef fengið endanlega staðfestingu á því aftur og aftur undanfarna daga.
Fyrst ber mér líklega skylda til að játa það að enginn kom í gönguferð með mér í síðustu viku. Aftur stóð ég, þrisvar sinnum, með spjaldið mitt og enginn kom. Ég er þó ekki á því að láta hugfallast og mun mæta sperrt aftur á föstudaginn. Það getur bara ekki verið að það sé svona gott að vera að grilla á Íslandi, að það slái ferðalögum um fjarlæg lönd við. Næst kemur einhver. Ha? Er einhver þarna úti?
Meðan ég beið við metróstöðina Anvers á laugardagsmorgni sinnti ég ferðalöngum frá öðrum löndum. Fyrst kom japanskt (eða alla vega skáeygt og lágvaxið fólk) að mér með kort af borginni og spurði mig á japönsku hvort að byggingin þarna væri sú sama og á kortinu. Ég sagði þeim á íslensku að svo væri. Þau brostu blítt og þökkuðu mér fyrir á japönsku og hurfu svo upp hæðina ásamt tugum annarra ferðalanga, líklega þó enginn þeirra íslenskur, eða hvað?
Svo lagði stóri pólski hópurinn af stað upp hæðina ásamt sínum heppna leiðsögumanni sem var a.m.k. með 18 manns. Þegar ég var komin upp í 18 nennti ég ekki að telja lengur. Skömmu siðar birtist maður með unglingsdóttur og spurði mig á pólsku hvort ég hefði séð pólskan hóp hérna. Ég sagði honum (í þetta sinn á ensku) að þau væru nýfarin og að ef þau gengu greitt upp götuna ættu þau að ná þeim. Unglingstúlkan hnussaði og dillaði sér pirringslega fyrir aftan pabba sinn og skammaðist sín agalega fyrir hann og lét hann vita af því: Æ, pabbi! Á pólsku. Sumt er bara ekki hægt að misskilja þó ekki skilji maður tungumálin. Unglingar á ákveðnu skeiði eru alveg nákvæmlega eins um allan heim.
Eftir þetta róaðist mannlífið á svæðinu við metró, enda klukkan orðin fimm mínútur gengnar í ellefu og allir hópar sem áttu stefnumót klukkan tíu lagðir af stað. Þá birtist allt í einu maður á skíðaklossum með skíði og stafi á öxlinni, í fínum þykkum skíðabuxum. Mér var allri lokið. Fór að efast um að ég stæði við rætur rétta fjallsins. Spurði því næsta mann hvort þetta væri ekki örugglega Montmartre þarna fyrir ofan okkur. Hann staðfesti það. Ég veit ekki hvort skíðalyftur eru í fjallinu, hélt ég þekkti hvern krók og kima, en maður veit aldrei. Ég get hins vegar lofað því að enginn var snjórinn á þessum fagra og vonum framar hlýja laugardagsmorgni.
Þegar klukkan var korter gengin ákvað ég að gefast upp. Fór ofan í metró og þar hitti ég konu sem notaði þvottaklemmur sem spennur í stutt hár sitt og var í mislitum Doc Martens skóm. Einum grænum og einum rauðum. Vinstri rauður og hægri grænn. Sem gerir mér kleift að álíta að heima hjá sér eigi hún par af vinstri grænum og hægri rauðum. Og svo getur hún vitanlega ákveðið að vera óspennandi og sleppt þvottaklemmum og verið í samlitum skóm. Til dæmis ef hún er að fara í atvinnuviðtal eða að biðja um lán í bankanum.

Um kvöldið fór ég svo í partý. Það væri efni í annan pistil ef ég nenni.

Lifið í friði.

9.6.05

Eggaldin

Um daginn fékk ég leiðbeiningar hjá Hildigunni Corleone um meðhöndlun eggaldina fyrir eldun. Eins og mín er von og vísa, prentaði ég leiðbeiningarnar ekki út um leið. Í gær ákvað ég svo að elda eggaldin fyrir mig og manninn minn því dagurinn var eitthvað svo ömurlegur, alltaf að hella niður (sem gerði það reyndar að verkum að ég skúraði eldhúsgólfið) og gat ekki sofið (sem gerði það að verkum að ég hellti niður og skúraði eldhúsgólfið) og svona. Ég leitaði um alla síðu Hildigunnar, las ýmsar færslur frá maí sem höfðu farið framhjá mér (!) skil nú ekkert í því en ég fann ekki leiðbeiningarnar sem eru faldar í athugasemd við einhverri færslu sem kom mat ekkert við, ef ég man rétt. Ótrúlegt hvað konan fær mikið af athugasemdum. Maður verður nett abbó.
En ég ákvað að treysta á gráa efnið og gera þetta eftir minni. Mamma og pabbi sögðu mér að ég yrði alltaf að lesa þrisvar til að muna. Það er líklega rétt. Ég las nefninlega leiðbeiningarnar um daginn tvisvar, þar af einu sinni upphátt fyrir vinkonu mína, en eitthvað smáatriði fór forgörðum í meðförum mínum í gær. Eggaldinin, steikt í hvítlauk og soðin í tómatsósu (EKKI ketchup!) reyndust rammsölt og óæt.
Það skipti reyndar ekki máli því ég eldaði þetta snemma um daginn og skellti loki sem passaði ekki á pönnuna yfir og þegar kvöldmatur hófst náði ég lokinu ekki af pönnunni. Það hafði myndast lofttóm undir lokinu og það var sem límt með jötungripi á blessaða pönnuna. Þess vegna keypti maðurinn minn franskar kartöflur með kjúklingnum.
Allan málsverðin gjóaði ég illu augnatilliti að pönnunni og lokinu. Þau virtust hæstánægð með sig, geymandi það sem ég taldi þá dýrindis kræsingar án þess að ég gæti náð í þær. Sem ég útskýrði mæðulega fyrir manni mínum að væri einfaldlega rökrétt framhald á erfiðum degi. Við komumst að þeirri niðurstöðu að hamarinn væri það eina sem gæti dugað til að bjarga a.m.k. pönnunni. Þangað til að ég fann allt í einu að kviknaði á peru einni einhvers staðar djúpt grafinni í gráa efninu. Baldur, Elías og allir hinir eðlisfræðikennarar fyrri ára hefðu nú aldeilis orðið ánægðir með mig. Skellti gasinu á undir pönnuna og viti menn. Lokið spratt sjálft upp eftir u.þ.b. eina mínútu. Við vorum búin að fá okkur osta og ávexti og ísinn orðinn mjúkur þannig að ekki var mikill áhugi fyrir eggaldinrétti þarna. Maðurinn minn ákvað þó að smakka og eins og sagði í upphafi, reyndist þetta óætt og endaði í ruslinu.
En ég á bæði pönnu og lok sem passar á lítinn pott.
Og ég er eðlisfræðingur í eðli mínu.
Og þó ég hafi skúrað í gær er ég ekki verri manneskja í dag.

Lifið í friði.

7.6.05

á barmi heimsfrægðar

Ég er í blaðinu, afsakið, Blaðinu í dag...

Lifið í friði.

6.6.05

Ég fékk senda grein úr ELLE um Ísland frá tengdamömmu. Ég fékk svona kvíðasting í magann áður en ég las hana. Oh, ég vona að þær minnist ekki á Kárahnjúka og framkvæmdirnar. Greinin var mjög jákvæð og minnist ekki á það að Íslendingar eru að gera eitthvað sem mætti bera saman við að David Beckham skæri af sér hægri fót því hann fengi svo déskoti gott verð fyrir hann. En greinin er svo jákvæð að þær tala um lágt verð á ferðum til landsins. "Aðeins rúmar tvö þúsund evrur fyrir tveggja vikna túr um landið". En Elle finnst líka 140 evrur fyrir hlírabol vera lágt verð.
Það er fín grein um Kárahnjúkavandann á Múrnum frá 3. júní.

Í dag komu tvær örvæntingafullar húsmæður í kaffi til mín. Önnur þeirra getur bráðum lánað okkur hinum fyrstu seríuna um vinkonur okkar í Ameríku. Ég hef reyndar ekki hugmynd um hvað þessir þættir fjalla. Langar aðallega að sjá þá út af nafninu. Vil ekki fá að vita neitt um þá, takk samt.

Annars er bara nóg að gera við að svara tölvupósti frá verðandi túristum. Ég vona að sumarið á Íslandi verði tóm rigning og kuldi svo þið komið öll að hlýja ykkur hjá mér hér í París sólar og léttvína.

Hef ekki neitt að segja og þá er víst best að þegja.

Lifið í friði.

3.6.05

fyrsti dagurinn

Í dag mætti ég í fyrsta sinn í sumar niður á torg með spjald upp á von og óvon að einhvern langaði að kaupa af mér göngutúr. Enginn vildi það en ekkert svekkelsi því ég bjóst allt eins við því, hefði orðið mjög hissa á að sjá einhvern mæta. Ég fæ alltaf mikla athygli með spjalið mitt óskiljanlega: "PARÍSARDAMAN GÖNGUFERÐ Á ÍSLENSKU". Fólk stendur og glápir á mig og spjaldið og aftur á mig. Sumir brosa, aðrir eru feimnari og loka andlitinu. Í fyrra kom kona að mér og rétti mér smápening. Um leið og hún sá svipinn á mér áttaði hún sig og varð hálfskömmustuleg. Ég brosti mínu blíðasta og þakkaði henni kærlega fyrir um leið og ég sagði henni að ég væri að bíða eftir fólki. Eflaust hafa fleiri álitið mig betlara en hún var sú eina sem sá aumur á mér.
Það þarf ákveðið hugrekki eða einhvers konar brjálæði til að gera þetta, að standa svona á áberandi og fjölförnum stað í París með spjald. Ég hef mikinn svipsskrekk, þarf ekki annað en að ímynda mér að ég þurfi að halda ræðu á fundi og þá fer ég að skjálfa. Þess vegna er ég alltaf mjög stressuð og óörugg með mig þegar ég fer í vinnuna. Alltaf sami hnúturinn í maganum á mér sem hverfur á sömu sekúndunni og ég tek í höndina á viðskiptavini. Þá set ég upp einhvers konar grímu, fer í hlutverkið og stend mig yfirleitt alveg ágætlega, held ég.
Ég hugga mig við að mér var einu sinni trúað fyrir því af einum besta kennara sem ég hef haft að hann kæmi alltaf í tíma með hnút í maganum. Og að hann vissi að ef hnúturinn hyrfi, væri kominn tími til að hætta kennslu. Hnúturinn gerir mig kannski ekkert að betri leiðsögumanni, en hann virkjar mig í að gera mitt besta. Ég veit, eins og kennarinn minn fyrrverandi, að ef hnúturinn hverfur er kominn tími til að finna sér annað að gera.
Annað að gera. Gamall maður spurði mig á róló í gær hvort ég gæti lifað af leiðsögustarfinu. Erfið spurning. Við söfnum ekki peningum, við getum ekki alltaf leyft okkur allt sem við gætum óskað okkur, en við erum hamingjusöm fjölskylda og erum aldrei svöng. Við eigum þak yfir höfuðið, internettengingu, sjónvarp og síma. Við lifum lúxuslífi þó að margir hnussi yfir sófaskirflinu okkar og skilji ekkert í okkur. Amma mín lifir stöðugt í þeirri trú að ég lifi í eymd og volæði. Hún getur ekki skilið lífsval okkar og ég ætlast ekki til þess af henni. Reyni oft að segja henni að ég hafi það gott en hún hristir bara höfuðið, grafalvarleg á svip.

Ég gekk latínugöngutúrinn minn að gamni þó ég væri ein. Hann er fínn, alltaf er nú jafngott að koma í arabísku moskuna og drekka myntute. Það er eins og að stíga inn í annan tíma að koma inn í ólífutrjálundinn þeirra. Allir hvíslast á þarna.
Place de la Contrescarpe var ekki eins rómó. Sama hvað ég einbeitt mér að því að ímynda mér Rabelais með vinum sínum að reyna að leysa vandamál heims síns tíma eða Hemingway dulbúinn sem róna að afla sér efnis í næstu bók, mér tókst ekki að leiða hjá mér ofurstóran frystiflutningavagninn sem var greinilega að afgreiða vörur til veitingahúsa hverfisins. Ég vona að við eigum ekki fast stefnumót þarna á föstudögum í sumar. Annars verð ég að breyta leiðinni eitthvað.

Lífið er frábært. Ef manni líkar ekki eitthvað breytir maður því bara. Það er bara hjá stjórnvöldum ríkja og í bandalögum ríkja sem fólk hefur ekki vald til að breyta neinu. Og er okkur ekki bara slétt sama? Verði þeim að því að troða þessum samningi í gegn þvert á allar lýðræðishugmyndir. Verði þeim að því að stuðla að verndum Markaðarins. Lífið er samt frábært. Einhverra undarlegra hluta vegna.

Veðrið var óráðið í dag: Hiti og sól og rok og þrumur og eldingar og svo aftur sól og brennandi hiti.

Lifið í friði.

1.6.05

strákar og stelpur

Ég er mjög spennt fyrir jafnrétti kynjanna, var alin upp sem rauðsokka af rauðsokku og hef alltaf verið stolt af því.
Nú er ég í mestu vandræðum. Sonur minn sýnir töglum og fléttum og kúlum og spennum mikinn áhuga. Ég get ekki sett slíkt í hárið á honum því það er of stutt. Í mesta lagi fest eina litla spennu í smá stund sem lekur svo úr þunnu ljósu hárinu. Þetta get ég útskýrt fyrir honum auðveldlega. En hann horfir einnig aðdáunaraugum á skó stóru systur. Þeir eru bleikir og blómum skrýddir.
Ég get ómögulega sett hann í svona kvenlega skó. Og alls ekki í kjól ef hann hann biður mig um það einn daginn. Eða hvað? Á maður að brjóta þessi lög um kynskiptan klæðaburð? Ég ímynda mér að ef ég vendi hann á það núna að ganga í stelpufötum myndi hann vilja halda því áfram, það er með ólíkindum skemmtilegra sem gert er fyrir konur, m.a.s. nýfæddar! Strákafötin eru strax frá fæðingu miklu hefðbundnari og minna ímyndunarafli beitt við hönnunina. En þá kemur hættan á að honum verði strítt í skóla. Maður byrjar að óttast einelti um leið og maður kemur úr fyrsta sónarnum og því vil ég ekki gera neitt sem gæti ýtt undir möguleikann á því.
Það fer í taugarnar á mér að þurfa að segja við hann: Nei, þetta getur þú ekki því þú ert strákur. En mér finnst samt persónulega ekkert eins hallærislegt og þessi nýlega hönnun markaðsfræðinga: Metrómaðurinn. Að Beckham fái borgað fyrir að segjast ganga í kvenundirfötum og að meika sig finnst mér lágkúra. Ég vil miklu heldur hlutlausan og hefðbundin mann en spjátrung. Ég er í krísu. Og pirruð yfir þessu.

Örlagaþrungið móment:
Er lífið aðeins fallinn víxill oft þau spyrja sig.
Þau reyna að stefna í rétta átt, hvað um mig og þig?

(muna sérstaklega eftir brostinni rödd Röggu þegar hún syngur "hvað um mig og þig", slær Bó við)

Lifið í friði.