26.10.04

afmæli í dag

Elsku besta mamma mín á afmæli í dag. Mamma er best og fær því kveðju á blogginu mínu, þó ég hafi ákveðið að sleppa mest slíkum kveðjum vegna þess að ég er glötuð í að muna afmælisdaga. Man minn og svo nokkra aðra svona eftir dúk og disk. Keyrði mömmu í vinnuna, eftir að hafa borðað með henni hafragrautinn, en þurfti að hringja í hana klukkustund síðar til að óska henni til hamingju með daginn.
Mömmur eru bestar.
Lifið í friði.

24.10.04

samviskubit

Jæja, nú er farið að síga á seinni hluta dvalar minnar og barnanna hér á skerinu. Þá gerist það að maður byrjar að fá nagandi samviskubit og stresskitl yfir öllum sem maður hefur ekki enn hitt. Það er nefninlega alveg ótrúlegt hvað fjöldinn er mikill, hvað margir elska mann og vilja fá að sjá mann, kannski ekki svo ótrúlegt þegar ég set þetta svona fram. (Best að gleyma því algerlega að líklega vilja flestir sjá mig til að geta séð afkvæmin, það gerðist um leið og maður átti barn, maður bara kolféll í skuggann af því.)
Ég hef ekki hringt í marga, og skulda m.a.s. nokkrum svar við þeirra tilraunum til að ná í mig. Tíminn er ótrúlegt fyrirbrigði. Frábært ljóð um tímann á mjólkurfernum þessa dagana. Brilljant útskýring á því að þetta sé bara röð af sekúndum og mínútum... vil ekki nauðga góðu ljóði með því að fara rangt með og nenni ómögulega að standa upp til að ná í mjólkurfernu, enda er ég í músaleik hér í stofunni með son minn meðan aðrir sofa núna klukkan 7.45 á sunnudagsmorgni. En ég hef lengi básúnað yfir vinum mínum að setningin "tíminn er peningar" sé dáleiðslusetning sem við erum farin að trúa eftir allt of margar endurtekningar. Að segja að tíminn sé peningar, er gersamlegt vanmat á þessu fyrirbrigði og ofmat á skítafyrirbrigðinu peningar. Fé. Auður. Seðlar. Mynt. Krónur. Þoli ekki peninga og þoli ekki að maður er tilneyddur til að eyða góðum hluta tímans síns dýrmæta í að skaffa þá. Skil vel að sumir rónar eru það í mótmælaskyni við kerfið. En vil þó minna á að sumir rónar eru sjúklingar sem myndu þiggja hjálp með glöðu veiku geði, en ekki pláss fyrir þá í fína kerfinu okkar hinna.
En ég er sem sagt að komast í tímaþröng ef ég ætla að leyfa öllum að njóta mín í eina kaffistund. Nú verður maður bara að taka upp tólið og stundaskrána og raða fólkinu upp og vera á þeysingi fram að brottför og koma út/heim dauðuppgefinn, eins og vanalega. Nú eiga allir að gráta hlutskipti vesalings fólksins sem býr í útlöndum.
En ég sá sem sagt litla íslenska spörfuglinn á sviði Þjóðleikhússins og kom skjálfandi heim með grátstafinn í kverkunum. Er þessi leikkona hægt? Hún er stórkostleg, Edith Piaf er náttúrulega snilld og vel farið með hana þarna. Bravó Siggi Páls fyrir þýðingar á textum, truflar mann nákvæmlega ekki neitt. Bravó fyrir gott leikrit. Drífið ykkur, þið sem ekki hafið séð. Hægt að fá miða í desember, skilst mér. Og svo verður maður bara alveg greinilega að hanna Piaf göngutúr um París fyrir næsta sumar. Vefsíðugerð er í fullum gangi, læknaneminn og vefstjóri minn er að vísu floginn til Amsterdam í viku, en þetta er allt að komast í rosa flott form. Afar jákvætt allt saman.
Best að fara að sinna litla morgunhananum, hann er kominn í lyklaborðið.
Lifið í friði.

22.10.04

Næturgalinn

Er að fara að hitta vinkonu mína Edith Piaff í kvöld. Hlakka mikið til, miklar væntingar bundnar við stykkið, enda margir ferðalangar og vinir búnir að lofsyngja söng og leik konunnar.
Fór annars að sjá Línu Langsokk um daginn og hún sveik ekki. Vorum himinlifandi mæðgurnar og erfitt að útskýra fyrir barninu að við getum ekki hitt Línu á hverjum degi.
Kennaraverkfallið er annars það eina sem kemst að hjá mér, þó aðalfréttin hafi verið um þjóðaratkvæðagreiðslu um blóm landsins þar sem Hofsóley vann með 21.000 atkvæðum. Að sjá ráðherra og prúðbúna klappa þarna í salnum var svo hlægilega grátlegt að Buster Keaton og Chaplin mættu fara að vara sig.
Lifið í friði.

19.10.04

Kári fnæsir

Ég er búin að finna nokkrar ástæður fyrir offituvandamáli Íslendinga:
1. Sundlaugar. Paradís á jörðu og það EINA sem mig langar að flytja með mér út, fyrir utan náttúrulega allt fólkið sem mætti koma þangað, en maður er hrikalega svangur þegar maður kemur upp úr, þó maður fari bara í heita pottinn og liggi þar eins og skata. Deffínettlí fitandi.
2. Veðurfarið. Maður leggst í tröstespisen (hughreystingarát fyrir þá sem eru ekki á norrænu línunni) þegar vindurinn blæs, snjór fýkur um göturnar og svo kalt að manni langar að öskra af sársauka þegar maður opnar fyrir gestum. Fitandi.
3. Veðurfarið II. Ekki smuga að ganga út í sjoppu eftir meira tröstespisen. Maður bara verður að fara á bílnum, þó sjoppan sé í næstu götu. Fitandi.
4. Lambakjötið. Það er SVOOOO gott, sérstaklega þetta stökka brúna ofan á. Fitandi.
5. Kókosbollur. Reyndar ekki búin að borða neina núna, þar sem ég borða þær eingöngu í laumi, og hef ekki fengið mínútu fyrir sjálfa mig hérna núna. Deffínettlí fitandi.

Annars líður mér nokkuð vel hérna, það er svo gaman að lesa blöðin, hló mig hása að auglýsingu frá Rekstrarvörum í Fréttablaðinu í morgun, fögur blondína í hvílíkum ræstitæknigalla að James Bond myndi roðna. Fullt af vösum fyrir bursta og svampa og alles. Hvílík gella mar!

Svo er ég að læra unglingamál af bróður mínum, en það getur verið varasamt. Hann hringdi um daginn og sagðist vera "á lafinu". Ég var mjög ánægð með að læra þetta nýja unglingaorð sem ég taldi vera komið af því að hanga sem hefði orðið að lafa sem hefði orðið lafið. En hann var víst bara Á LANINU, sem er fullt af tölvum tengdar saman svo tölvunördar geti drepið hvorn annan í æsispennandi leik.
Nóg í bili. Farin í sund.

Lifið í friði.



15.10.04

Guðbergur Bergsson skrifar um menningu

Jæja börnin góð. Fann ég ekki þessa líka rokna löngu grein um menningu eftir einn af snillingunum okkar. Ég hef ekki haft tíma til að lesa hana, ætti líklega að prenta hana út og lesa í strætó á eftir, er maður ekki þrjá klukkutíma að fara upp í Grafarvog? Það heyrist mér a.m.k. á íslenskum jepparæktendum sem drápu strætisvagnakerfið "alveg óvart".
Treysti því að greinin sé góð þar sem höfundur hefur aldrei svikið mig.
Lifið í friði.

hvad er det for noget?

Ég skrifaði hneykslaðan pistil um kennaraverkfall og yfirgefin börn í dag, en hann komst ekki inn. Ég er afar leið yfir því og nenni ekki að þvæla um þetta aftur áður en ég sé hvort þessi prufa kemst inn.
Lifið í friði.

14.10.04

Ástkær fósturjörð

Nú hefur liðið lengri þagnartími en nokkru sinni fyrr, síðan ég byrjaði á þessu bloggstandi. Ýmsar ástæður eru fyrir því og ein þeirra er sú að eftir nokkra klukkutíma á Íslandi er maður kominn með valkvíða yfir því hvað maður á að ræða í næsta pistli, svo mikið liggur manni á hjarta.
Efst á Baugi, æ, afsakið, hlýtur að stafa af oflestri Morgunblaðsins, efst á baugi er vissulega sú staðreynd að meðan stór þjóðfélagshópur, viðkvæmur og dýrmætur og alls ekki sjálfbjarga, gengur sjálfala um götur borgarinnar og akra sveitanna, getur ráðherra látið hafa það eftir sér að það komi ríkisstjórninni ekki við. Það komu viðbrögð frá einhverjum fulltrúa Kennarasambandsins sem krafðist réttilega að menntamálaráðuneytið yrði þá lagt niður, en ekki heyrist margt frá foreldrum, yfirmönnum þeirra, ömmum sem standa á kafi í björgunarstörfum, öfum sem hafa ekki heyrt fréttir í tæpar fjórar vikur, eða öðrum fullorðnum sem þetta verkfall kennara bitnar á. Mér finnst að ríkisstjórnin öll eigi að segja af sér fyrir svona ummæli, ef ekki þá einfaldlega fyrir þá staðreynd að þetta verkfall hafi skollið á og standi svona lengi. Til hvers er ríkisstjórn í landinu? Svo sitja þeir uppi á þingi og mala um fjölmiðlafrumprump því auðvitað er þar um hákapítalískt vandamál að ræða, þar eru beinharðir peningar (og þá um leið völd) í húfi og auðvitað mun mikilvægara en þessi margumtalaði "þjóðarauður" sem felst í börnum okkar. Ráðamenn hafa ekki mikinn áhuga á slíkum auði, enda hefur aldrei verið hægt að stofna hlutafélag um íslenskt barn, eða selja eignaréttinn á því.

Í huga mínum hljómar stöðugt síðan ég kom heim, lag eftir snillinginn Roger Waters:

Can't you see?
It all makes perfect sens.
Expressed in dollars and cents,
pounds, shillings and yens.
Can't you see?
It all makes perfect sens.

Æ, vitið þið hvað? Ég er svo þreytt, að ég get varla hugsað meira um þetta. Ég vil bara koma því á framfæri að Frakkar trúa mér ekki þegar ég segi þeim að allt skólastarf liggi niður á Íslandi, og að það hafi gert það í tæpar fjórar vikur. Þetta væri ekki hægt í neinu siðmenntuðu landi sem ég þekki til í. Það væru a.m.k. allir gersamlega eyðilagðir og með allan hugann við að laga ástandið. Forsætisráðherra sæti fundi með deiluaðilum, forsetinn líka, menntamálaráðherra færi ekki heim til sín á kvöldin, foreldrar væru með setuverkföll og aðrar aðgerðir út um allan bæ.
Hér gengur maður um og einu merki verkfallsins eru öll þessi börn út um allt. Ikea var eins og stríðsvöllur síðasta mánudagsmorgun. Krakkar hoppandi um alla búð, rífandi og tætandi. Það er mál flestra foreldra sem ég hef heyrt í, að mikið eirðarleysi sé komið í þau. Fyrstu vikurnar voru þau ánægð með tilbreytinguna og áköf að leika sér og hafa ofan af fyrir sér, en nú vilji þau bara regluna aftur. Enda eru börn hamingjusömust þegar lífið er í reglu.
En verkfallið nær ekki einu sinni forsíðum blaðanna á hverjum degi. Fjölmiðlafrumprumpsmálið náði því nú ALLAN maímánuð sl. og er þar oft enn. Krakkar eru ekki með kosningarétt. Krakkar eru erfiðir og oft hrikalega leiðinlegir. Krakkarnir geta bara átt sig.
Ég játa það að ég kom of seint heim til að sjá greinar um kröfur kennaranna, og hef ekki leitað eftir því að kynna mér þær. Skil reyndar alls ekki neinar kröfur í þessu þjóðfélagi, svo ég myndi líklega ekki græða mikið á því að kynna mér kröfur kennara. Mín krafa er sú, að Ísland leggi sig fram um að vera með gott skólakerfi og mannsæmandi laun fyrir alla. Hins vegar er ég ekki viss um að minn skilningur á mannsæmandi launum sé sá sami og annarra hér á landi... gefst upp... ætla að leggja mig...
Lifið í friði.

2.10.04

Ég trúi því ekki að enginn hafi lagt orð í belg varðandi síðasta pistil. Það er alveg sama hversu lágt maður leggst, ég minni á að ég bað um hrós fyrir dæmin sem ég bjó til á vísindalegan hátt, en enginn varð við þeirri lágkúrulegu beiðni.
Annars er það merkilegt að nú er ég á fullu í því að vera frökk, og ég finn vel fyrir því að það er stundum ógreinileg lína milli þess að vera frakkur og að leggjast lágt. Ég bað t.d. um að vera boðið í kokkteilboð í vikunni, sem er afskaplega framhleypið, og eiginlega telst það leggjast frekar lágt, á minn mælikvarða. En það fyndna var, að mér var launuð þessi framhleypni, manneskjan sem ég bað um að redda mér gat það ekki en hins vegar hringdi önnur manneskja í mig sem vildi fá aukamiðana á tónleikana og bauð mér í staðinn í kokkteilinn. Ég er svo mikil nýaldarkarmaárukerling að ég vil meina að þetta sé tengt á einhvern undarlegan hátt.
Ég hef ýmislegt fleira gert undanfarið til að minna á mig og bjóða fram þjónustu mína, en ekkert hefur komið út úr því brölti mínu.
Ég er þó ekki búin að missa móðinn og held áfram að vera frökk. Það er nóg komið af hógværð og feimni.
Lifið í friði.