22.7.04

húsmæðraorlof

Jæja, þá er að koma að því. Ég fer til Danmerkur á morgun. Hlakka mikið til, en kvíði samt líka fyrir. Er með hálfgerðan hnút í maganum og fæ tár í augun í hvert skipti sem ég lít á börnin og kallinn. Það er nú meira hvað maður getur verið væminn gagnvart þessari fjölskyldu sinni. En það er einmitt það sem er samt svo gott.
Ég var að horfa á Hair í sjónvarpinu. Þetta er mynd sem á líklega alltaf við þar sem maðurinn er alltaf í stríði einhvers staðar. Hún er skemmtilega léleg á köflum og endirinn svo flottur að ég fæ alltaf risahnút í magann. Mæli eindregið með því að fólk fari í svona stríðskirkjugarða, það eru t.d. nokkrir niðri á Normandí, mjög áhrifamikið að koma á svona staði.
Annars er allt gott að frétta og alltaf koma túristar til mín í göngutúrana, alveg hissa á þessu. Hef ekki meira að segja.
Lifið í friði.

19.7.04

Ekki heimshryggð

Ég hef áhyggjur af því að þið haldið að ég sé alvarlega þjáð af þunglyndi og almennri heimshryggð. Því fer fjarri, ég er hamingjusöm og frekar glaðlynd að eðlisfari. Það er bara of mikið um að vera í heiminum til að maður geti látið eins og ekkert sé fyrir framan tölvuna sína. Ég ræð ekki við þetta, mér finnst svo lítilsvert að skrifa um hversdagsleikann minn og fer alltaf út í einhverjar pælingar sem yfirleitt enda með því að vera svartar sem hafið.
Ég fór í gærmorgun með alla fjölskylduna á flóamarkaðinn á Porte de Clignancourt. Við vorum að leita að afrískum búbúkjólum á Emblu vinkonu. Ég fann búbú kerlingu sem átti fullt af búbúkjólum og valdi hjá henni fjóra mislita kjóla og nú er bara að sjá hvort Embla vilji þá. Búbúkerlingin var stór og mikil og mjög erfið í viðskiptum. Hún fæddist með prúttið í blóðinu, hvernig á bláeygð gerfirauðhærð stúlka frá landi þar sem verðið er verðið, hversu ruddalega hátt sem það er, að eiga sjens á því að sigra þessa glímu sem prúttið er? Ég lækkaði verðið á öllum fjórum kjólunum um 20 evrur samtals, en er nokkuð viss um að ég hefði átt að fá kjólana fyrir 20 evrum minna í viðbót. Nú er ég ægilega stressuð yfir því að snjakahvíta búbúkerlingin mín hún Embla verði ekki hrifin af kjólunum, og þá sit ég uppi með fjóra of stóra kjóla. Verð líklega þá að bera þá til Íslands í næstu ferð og stilla mér svo upp við innganginn á Kolaportinu og selja þá þar.
Markaðurinn á Clignancourt er alltaf jafn frábær. Þar er stór hluti með Kolaportshluti, þ.e. nýtt drasl (athugið að orðið DRASL öðlast nýja þýðingu þegar maður gengur um á milli stórra bása troðfullra af alls konar ónytjum og yfirleitt ljótum ónytjum) en svo eru margar skemmur með frábærum antíkbúðum og auðvitað litlu göturnar í Vernaison-markaðnum þar sem hinn dásamlegi veitingastaður Chez Louisette leynist.
Chez Louisette felur hverja nýja hrukku með nýju jólaskrauti. Ég veit ekki hvar þetta mun enda, hversu mörgum glimmerborðum og jólaseríum og stjörnum og glingri er hægt að troða í einn matsal án þess að fólki verði óglatt og hætti við að borða kræklingana og stóru heimagerðu frönskurnar undir glymjandi orgelinu og tærum söng fólks sem lifir í þeirri trú að VÍST séum við enn á 7. áratug síðustu aldar?
Það er alltaf jafngaman að koma til Louisette þó ég hafi sárt saknað gamla tannlausa Elvis/Leningrad Cowboy sem syngur O Sole Mio og spákonunnar minnar sem segir manni fyrsta stafinn í nafni manns.
Vitanlega var ekkert antík keypt, enda er það gersamlega fokdýrt þarna, það er bara svo gaman að rölta um og skoða alla fallegu hlutina og fá innblástur. Hins vegar keyptum við okkur röndóttar mussur og Dr. Martens skó á Arnaud sem neitar samt að henda hinu tvítuga pari, segist geta notað þá eitthvað lengur á bökkunum. Hann heldur að hann hafi unnið þeim inn 3ja mánaða lífsframlengingu, en honum skjátlast. Við versluðum sem sagt nákvæmlega sömu hluti og ég hefði getað keypt þarna 1989, þegar ég kom þarna fyrst. Merkilegt hvað sumir hlutir breytast ekki. Ætli ég verði einhvern daginn ein af þeim sem kem á rándýrum bíl og versli mér húsgögn í stóru íbúðina sem ég var að kaupa með útsýni á Eiffel? Og finni þá nostalgíu í hjarta þegar ég geng fram hjá Dr. Martens salanum? Kaupi jafnvel eina græna og eina fjólubláa (sem mig langaði í en tímdi ekki í gær) bara svona upp á grínið?
Eins og þið sjáið, er ég alltaf jafndugleg að enda setningar mínar í spurnartóni, en það eykur ekki á kommentaþörf lesenda minna.
Lifið í friði, þarf að fara að stilla slíkt milli Sólrúnar og Kára sem eru að slást um blómið sem Tryggvi bjó til handa mér þegar ég brenndi mig um árið...

18.7.04

Það er að líða að miðnætti. Ég er yfirleitt farin að sofa miklu fyrr á kvöldin, en í kvöld er ég andvaka. Gafst upp á að lesa, allt of mikið að brjótast um í kolli mínum. Ákvað að fara fram og blogga smá í staðinn, eða blóka eins og ég sá á síðu hjá ungum manni í dag. Hann sannaði það fyrir mér sem mig grunaði, að fólk rétt upp úr tvítugu getur líka verið hugsandi. Var nefninlega næstum farin að örvænta eftir töluvert flakk um síður ungra Íslendinga.

Hér koma tölurnar upp úr greininni í Le Monde Diplomatique um ofbledi á konum í Evrópu:
Rúmenía: 12,65 af milljón konum drepnar á ári hverju af maka sínum.
Finnland: 8,65 af milljón.
Noregur: 6,58.
Lúxembourg: 5,56.
Danmörk: 5,42.
Svíþjóð: 4,59.

Í Þýskalandi eru um 300 konur drepnar af maka sínum á ári, eða 3 konur á 4 dögum. Á Spáni eru fórnarlömbin um 100 konur á ári. Svona gæti ég haldið áfram. Fleiri tölur eru gefnar upp í greininni, en vitanlega er ekki minnst á Ísland, frekar en vanalega.
Einhver Íslendingur sem ég minntist á þessar tölur við, var snöggur að rifja upp sögur af innflytjendum í Svíþjóð sem höfðu myrt stúlku fyrir að vera ástfangin af sænskum dreng. Þessar tölur hafa ekkert með slíkt að gera, og ég minni aftur á að það sem kemur á óvart er hversu hátt hlutfall morðingjanna er með góða menntun og góðar stöður. Og PLÍS hættum að skella öllum skuldum alltaf á blessaða innflytjendurna. Þarf ég að minnast á skemmdu eplin og allt það? Megnið af innflytjendum er bara venjulegt fólk sem vill venjulegt líf og hefur þjáðst mikið fyrir að þurfa að yfirgefa ofsóknir og kúgun í föðurlandinu. Er einmitt að flýja ósóma eins og aftökur á unglingsstúlkum í heimahúsum og annað sem öfgasinnaðir brjálæðingar taka upp á. En þessar svörtu hugrenningar munu ekki hjálpa mér í baráttu við andvökuna.
Ég er ánægð með að heyra fleiri og fleiri lýsa því yfir að þeir neiti að standa hjá þegar ráðist er á minni máttar og ég vil þakka Eg fyrir orðin sem hún lagði í belg þar sem hún lýsir því hvernig hún stöðvaði mann með hníf í einhverju hugrekkisástandi sem mætti líkja við bræðiskast. Það hjálpar mér að vita að kenning mín er þá rétt, að þessi bræði sem ég finn við að hlusta á fréttirnar af árásum geti komið manni til að stíga fram gegn stærri máttar. Oft er það nóg að stíga fram, oftast eru árásarmennirnir bleyður og hugleysingjar og leggja niður skottið um leið og þeim er sýnd mótstaða. Eins er löngu sannað að ef einn skiptir sér af einhverju óvanalegu úti á götu, hlaupa yfirleitt fleiri til líka, voru kannski hikandi við að taka fyrsta skrefið en eru tilbúnir til að aðstoða um leið og einhver brýtur þann ísinn.
Í stjórnarskrá Frakka segir að sé brotið á einum þegn, er brotið á allri þjóðinni. HVAÐ EF við lifðum í samræmi við þetta á heimsmælikvarða og berðumst jafnharkalega gegn misrétti sem aðrir verða fyrir eins og við gerum þegar við sjálf verðum fyrir slíku?
Þið megið kalla mig draumóramann. En ég er ekki ein. Vona að dag einn bætist þú í hópinn. Og heimurinn lifi saman sem einn. (John heitinn Lennon).
Góða nótt og sofið rótt í alla, alla, alla nótt.
Lifið í friði.

17.7.04

Ég er mjög ánægð með nýja uppsetningu Lesbókarinnar, en er hrædd um að þegar farið er að blanda poppinu og kvikmyndunum þarna inn í, breytist hún smátt og smátt í fólksífréttumsnepil à la Séð og heyrt. Ég er alveg sammála því að gera vinsælum listgreinum jafnhátt undir höfði og hinum "æðri" listum, en vandamálið er að greina iðnaðinn og risana þar frá fólkinu sem er að tjá eitthvað af alvöru. Það var fín greinin hjá þeim um daginn um tilbúnar hljómsveitir eins og Nylon og Spice Girls, þó þar kæmi svo sem ekkert nýtt fram. Gott samt að minna á þessar iðnaðarvörur sem bransinn býður upp á í stórum stíl.
Morgunblaðið er ekki undanskilinn markaðsráðandi stjórnun og það er gömul tugga að við lesendur viljum lepja upp misvitrar fréttir af fræga fólkinu sem okkur langar svo að líkjast, að slíkt selji. Verðum að passa Lesbók allra landsmanna. Hjálp!
Lifið í friði.

14.7.04

Eftir pælingar um ofbeldi á konum, sem ég er EKKI hætt að hugsa um og ætla að skrifa meira um, skulum við þó slá á léttari strengi í tilefni þjóðhátíðardags Frakka.
Símtal á laugardag:
Kristín: Góðan daginn, er sundlaugin hituð í dag?
Starfsmaður sundlaugarinnar í Pré Saint Gérvais (sem var hituð á laugardögum í allan vetur): Þú meinar, er laugin opin í dag.
Kristín: Nei, ég vil vita hvort sundlaugin er hituð á laugardögum í sumar.
Starfsmaður laugar: Þú meinar að þú vilt vita hvort laugin er opin í dag.
Kristín: Nei, ég meina hvort laugin er hituð í dag.
Starfsamaður laugar: Þú meinar, er laugin opin í dag.
Kristín: Allt í lagi. Er laugin opin í dag?
Starfsmaður laugar: Nei, það er lokað vegna viðgerða fram á mánudag!!!!!

Svo er annað. Ég skráði mig í netklúbb SNCF, Franska lestarfélagið. Eins og væmnasta móðir skaut ég saman fornöfnum barnanna minna tveggja. Nú fæ ég reglulega tölvupóst sem hefst á þessa leið:
Kæra/kæri solrunkari.

Þá er léttara yfir öllum og sérstaklega mér. Þrátt fyrir ofbeldisfullan og gráðugan heim, getum við þó alltaf hlaupið í skjól í gríninu og góða skapinu og reynt að dreifa því yfir á gráðuga fýlupúka með ofbeldishneigðir. Heyr fyrir pistli af kistunni.is í lesbókinni á laugardaginn var, sem fjallar einmitt um þetta. Hláturinn lengir lífið og lífið er sannarlega þess virði!!!!!
Lifið í friði.

13.7.04

Ofbeldi gegn konum er ört vaxandi vandamál á vesturlöndum samkvæmt nýlegri skýrslu Amnesty International. Fjölmargar konur eru myrtar á hverju ári af maka sínum, fleiri en þær sem deyja í bílslysum eða úr krabbameini. Þetta er háalvarlegt mál og tími til kominn að stjórnvöld geri eitthvað til að hjálpa konum sem verða fyrir ofbeldi á heimili sínu. Til dæmis þarf að fjölga kvennaathvörfum. Í París er EITT kvennaathvarf sem tekur á móti konum með börn, og þær mega aðeins dvelja þar í sjö nætur. Eftir það fara vitanlega flestar aftur heim, þar sem þær eiga oft ekki í önnur hús að venda og eru oft gersamlega peningalausar. Ýmsir aðrir staðir taka á móti konum á daginn og aðstoða þær við að ganga frá skilnaði og þess háttar, en aðeins einn staður er virkilegt athvarf, og mig minnir að þeir taki á móti fimmtán konum í einu. Þessi mál eru í algerum ólestri í Evrópu allri. Stjórnmálamenn kæfa vandamálið alltaf með afsökunum um að þetta varði einkalíf og þeir geti því ekki skipt sér af því. Gleymið ekki að þeir skipta sér af ýmsu öðru úr einkalífi okkar, s.s. hvernig við eyðum peningum okkar, hvað við fáum góð lán o.m.fl.
Annað sem kemur fram í þessari skýrslu er, að þvert á allar hugmyndir sem við höfum um heimilisofbeldi, er í fyrsta lagi ekki meira um það í löndum sem eru viðurkennd sem "karlremburíki" þ.e.a.s. Suður-Evrópa er alls ekki verri en Norður-Evrópa, heldur skárri ef eitthvað er. Rúmenía er verst, en síðan koma mjög ofarlega á listanum Finnland (í öðru sæti) og Svíþjóð og Noregur fljótt á eftir. Í öðru lagi er heimilisofbeldi alls ekki algengara í neðri hópum þjóðfélagsins, í Hollandi er t.d. helmingur morðingjanna með háskólagráðu og oft virðist ofbeldið vera verra/ljótara á heimilum með háar tekjur og góða menntun.
Því miður fór maðurinn minn með blaðið með greininni um þetta (í Monde Diplomatique) í vinnuna svo ég hef ekki nákvæmar tölur. Birti þær við fyrsta tækifæri.
Það er ótrúlegt og óþægilegt til þess að hugsa að helmingur kvenna búi við einhvers konar ofbeldi á heimili sínu. Ég get ekki ímyndað mér neina af vinkonum mínum í þessari stöðu, og vona svo sannarlega að þær myndu koma til mín ef þær lentu í slíku. Ég veit að ég myndi gera hvað sem er til að hjálpa hverri þeirri konu sem væri, ef hún leitaði til mín. Það er einmitt allt í báli og brandi hér í Frakklandi vegna stúlku sem kærði hrikalega árás á föstudag í RER-lest (metró sem fer langt út í úthverfin). Sex strákar áttu að hafa ráðist á hana og rifið föt hennar, klippt hárið og krotað hakakrossa á maga hennar og hrint kerru með 13 mánaða barni hennar. Fullt af fólki í vagninum og enginn gerði neitt. Málið er, að stúlkan virðist hafa logið þessu, ekki eitt einasta vitni hefur gefið sig fram, eingöngu ættingjar sem segja stúlkuna lygasjúka og hún hefur kært ýmis konar þjófnaði og árásir, fimm eða sex sinnum á síðustu mánuðum á mismunandi lögreglustöðvum.
Það breytir því þó ekki, að fréttamenn fóru á stúfana um helgina, ræddu við farþega á þessari RER-línu, og fengu marga til að játa að þeir hefðu ekkert gert ef þeir hefðu orðið vitni að svona árás. Pælið í þessu! Get ekki ímyndað mér mig sitjandi þegjandi horfandi á einhverja gaura klippa hárið á öskrandi stúlku og lítið barn í kerru að horfa á. Ég GET ekki trúað öðru en að ég hefði staðið upp og öskrað og steytt hnefum og jafnvel hjólað í þessa gaura. Ég GET ekki lifað í sátt við sjálfa mig öðruvísi en að trúa því að ég sitji ekki hjá þegar ráðist er á fólk fyrir framan nefið á mér. En fullt af fólki segir bara: Nei, við erum of hrædd, það borgar sig ekki að blanda sér í annarra vandamál.
Um helgina var einmitt sýndur grínþáttur þar sem stjörnur leika sér með falda myndavél. Í zapping (brot af því besta þáttur á Canal+) sáum við unga konu skokka í garði og þykjast detta með látum fyrir framan aðra skokkara. Skokkararnir hopuðu, hikuðu, stundum næstum dottnir um stúlkuna, en undantekningalaust héldu þeir samt áfram, tóku bara sveig og skokkuðu á brott án þess svo mikið sem að spyrja stúlkuna hvort hún væri óbrotin! Pælið í þessu! Þetta er alveg í takt við það sem ég er að segja um að þjóðfélagið er hætt að hafa samúð með AUMINGJUNUM. Þeir kalla þetta yfir sig. Hvað er stúlka að gera í lest ein og án fylgdar? Hvað er stúlka að skokka ef hún getur ekki staðið í lappirnar? Hvað er konan að gera með manni sem lemur hana?
Við lifum við frumskógarlögmálið og hörðnum á hverjum degi, ef við leggjumst ekki bara niður og deyjum.
Ég er sorgmædd í dag. Sorgmædd yfir því að við erum öll að breytast í nashyrninga með harða skorpu og einstefnuhugsun. Ionesco var kannski ekkert að tala um nasistana, kannski var hann að tala um vestrænt þjóðfélag í heild sinni. Nasisti, rasisti, þjóðernissinni, eiginhagsmunaseggur, þetta eru allt saman tilbrigði við sama stefið. Hvar ert þú?
Lifið í friði.

12.7.04

Ég las í lesbókinni að Rocky og Rambó hefðu verið ópólitískar myndir. Hvert er þessi heimur að fara? Pólitískari áróður er varla hægt að finna. Mér líður svo illa yfir þessu að ég er alvarlega að hugsa um að hætta að kaupa lesbókina. En það er bara svo gaman að fá hana, og oft góðar greinar. Á bara svo erfitt með að fyrirgefa svona ritóstjórn eins og þetta. Er að hugsa um að skrifa drengnum sem skrifaði þetta, en nenni því varla, alveg eins og maður nennir ekki alltaf að skipta sér af vitleysisganginum í kringum sig. Ætli þetta endi ekki með því að mér rennur reiðin og held áfram að lesa lesbókina og drengurinn haldi áfram að lifa í þeirri trú að Hollywood sé ópólitískur griðastaður á jörðinni.
Er að lesa öllu gáfulegri bók eftir franskan brjálæðing sem uppástendur að borgarastyrjöld ríki í vestrænum heimi. Er ekki alltaf algerlega sammála manninum um allt sem hann slengir fram, en hins vegar er sumt svo óhuggulega brillíant og rétt að manni rennur kalt vatn milli skinns og hörunds.
Við lifum í ömurlegum heimi þar sem lögmál frumskógarins er í gildi. Þeir sem eiga mestan peninginn eiga mestu virðinguna, það þykir ekki tiltökumál að stunda auðgunarbrot ef þau eru nógu stór og gerð í nafni græðginnar, fátækt fólk þykir ekki smart og á því ekki samúð meðaljónanna, arabar eru fínt tákn hins illa, gott í markaðssetningu, því hræddari sem við erum, því auðveldara er að stjórna okkur... best að hætta núna undir hljómum um að lífið sé dásamlegt hvaða vella er þetta á Rás 2???!!! svona upp með húmorinn, lífið er hið besta mál, algjör snilld, láttu ekki skuggana ljúga að þér... ókei, best að fara eftir þessu allaveganna í dag og sjá svo til hvernig ég get bjargað heiminum á morgun.
Lifið í friði!

9.7.04

Það rignir og rignir og rýkur (af roki... veit að þetta er ekki rétt, en nenni ekki að segja vindarnir þeysa eða eitthvað álíka) og maður hefði trúað að maður væri staddur á Hellisheiðinni en ekki á Montmartre með túristana í morgun. En Íslendingar eru hugrakkt fólk og láta ekki rigniguna stoppa sig. Finnst hún kannski ekkert GÓÐ, en láta hana bara ekki stoppa sig. Enda þýðir það ekkert, mér finnst alltaf dálítið fyndið hvað Parísarbúar eru í raun hræddir við rigninguna, þeir hlaupa alltaf í skjól og fara helst ekki út og umferðin fer öll í hnút þegar rignir. Samt er þetta mikið úrkomusvæði og frekar algengt hérna. Man ekki tölurnar og nenni ekki að fletta þeim upp.
Það er kominn tími á alvöru sumar hérna. En nú þorum við varla að kvarta, af ótta við að hitinn rjúki upp í fjörtíu eins og í fyrra. Gamla fólkið situr að vísu með vatnsúðabrúsana sína sem Raffarin og ríkisstjórnin sendi þeim, og allar stofur í París státa af viftum sem rykfalla. Hafið þið prófað að þurrka af viftum? Það er leiðinlegt og erfitt og mæli með því að pakka þeim inn í plast þegar þær eru ekki í notkun. Mínar standa hér tilbúnar og rykfalla en það er auðveldara að gefa ráð en að fara eftir þeim.
Annars er ég eiginlega óviðræðuhæf þessa dagana þar sem ég hlakka svo til að fara til Danmerkur að það kemst lítið annað að í mínum litla kolli. Byrjuð að pakka í huganum þó ég og flestir sem þekkja mig viti að ég verð að láta ofan í tösku korteri áður en ég þarf að leggja af stað út á völl. Alltaf sama sagan hjá mér. Ákveð alltaf að vera nú tímanlega í pökkun en alltaf á síðustu stundu með það. Reyndar hef ég yfirleitt verið búin að þessu í huganum og því búin að flokka og ákveða svo þetta er svo sem aldrei neitt stórkostlegt mál og væri það alls ekki ef ég yrði ekki alltaf lifandi og gangandi kjarnorkusprengja rétt fyrir ferðalög. Hvæsi á alla sem yrða á mig og er hreint óþolandi. Þá er ég að einbeita mér að því að gleyma engu og enginn má trufla prinsessuna í því. Passinn, ökuskírteinið, gleraugun, þetta, hitt, tékk tékk tékk... það er erfitt að ferðast og sérlega vorkenni ég fólki sem þarf mikið að ferðast vinnunnar vegna. Held að í því felist mun meira stress og álag heldur en gleði yfir að uppgötva nýjan stað.
Það er gaman að uppgötva nýja staði. Hlakka til að uppgötva Óðinsvé með Emblunni minni litlu góðu. Og Hlédísinni minni sem ég hef ekki séð ógnarlengi. Og öllum hinum sem verða þarna þessa miklu helgi. Þekki Danmörku ógnarlítið fyrir utan Köben og auðvitað hið stórkostlega úthverfi Bröndby. Það er ein dönsk kona að mála á Montmartre og hún spurði mig hvert Norðurlandanna Íslendingum þætti vænst um. (hún talaði þessa frábæru skólabókadönsku sem ég skildi alveg þó ég svaraði henni mest á frönsku) ég svaraði auðvitað eins og versti diplómat að það væri Danmörk og þá brosti hún sjálfumglöðu brosi og sagði: Selvfölgelig!
Fred med jer!

7.7.04

Jæja, ég er komin aftur inn. Ekki búin að blogga lengi og samt alveg eyðilögð yfir því að það hrökk úr lagi. Maður er fljótur að venjast nýjum hlutum í lífinu og gera þá að þörfum. Í þessum mannlega veikleika er einmitt styrkur markaðssetjaranna. Fljótir að gera okkur litlu greyin háð hlutunum sem þeir plata inn á okkur varnarlaus...
Ég var hjá neytendasamtökunum út af endalausum hótunarbréfum sem minn fyrrverandi er að senda mér, minn fyrrverandi netþjónn, datt einhverjum eitthvað annað í hug? Nei, ég hef verið svo heppin að lenda aldrei í útistöðum við menn sem ég hef verið í slagtogi við. Ekki það að þarna sé eingöngu um heppni að ræða, en þó skil ég fullkomlega að konur lendi í því að rugla reytum sínum við ofbeldismenn og annars konar hálfvita. Lýsi hér með yfir fullkomnum stuðningi við JBH, þó ég viti ekkert um málið annað en það sem Lísa Páls las lauslega upp úr einhverju blaðanna á Rás 2 í fyrradag. Ef stelpan hans var í vandræðum, finnst mér ekkert að því að hann hafi nýtt sér aðstæður og losað hana ásamt barninu úr þeim. Finnst samt óþolandi að íslensk stjórnvöld hafi ekki strax gert eitthvað róttækt í málum Soffíu Hansen. Áttu náttúrulega strax að fara ólöglega leið og ná börnum hennar heim med det samme. En þetta eru samt mál sem ég veit ekkert allt um og get því ekki tjáð mig mikið um þetta. Veit bara að oft veit fólk ekki hvaðan á sig stendur veðrið þegar hinn aðilinn sprengir öryggi í kolli sínum og gerbreytist og stend með því að börn séu losuð frá ofbeldishneigðum foreldrum ef mögulegt er. Æ, þetta er svo flókið og eiginlega verður alltaf að taka hvert mál fyrir sig, aldrei hægt að alhæfa í svona fjölskylduvandamálum.
En ég var sem sagt hjá neytendasamtökunum og greiddi 23 evrur fyrir að heyra að allt sem ég gerði var rétt og satt og að ef þeir voguðu sér að fara með "skuld" mína við þá fyrir rétt, myndi ég vinna án hjálpar lögfræðings þó þeir veiti mér einn slíkan að sjálfsögðu. Sögðu m.a.s. að ég gæti farið með mál fyrir rétt til að krefjast endurgreiðslu á ýmsum kostnaðarliðum s.s. símareikningum (sem ég er búin að krefja þá um í kurteislegu bréfi) en sögðu mér líka að það tæki sig ekki fyrir þennan pening. Prinsippsins vegna finnst mér í hjarta mér að ég ætti að gera það, en nenni því samt ekki og treysti á að þessir glæponar hljóti refsingu æðri máttarvalda og vona að þeir sofi stundum illa á næturnar.
Ég á eftir að fá nokkur hótunarbréf í viðbót, og líklega eitt opinbert rukkunarbréf frá lögfræðingi, en var sagt að raða þessu bara skilvíslega inn í möppu og halda áfram að lifa lífinu án áhyggja af þessu. Lærði a.m.k. það fyrir þessar 23 evrur að þessi opinberu rukkunarbréf frá lögfræðingum stæðust ekki fyrir rétti!
Jæja, stóðið er komið heim og komið að baðkvöldmaturháttatími klukkustundinni. Hugsið fallega til mín.
Friður sé með yður.

6.7.04

Ég er að prófa þar sem síðasti pistill fór ekki inn. Nenni ekki að skrifa mikið og alls ekki neitt gáfulegt sem tekur alltaf mikið á minn litla heila. Frábært veður í dag.

5.7.04

Þetta er fyrir hana Dísudruslu sem bloggar líka. Þar sem ég get ekki sett komment hjá henni verð ég bara að skella þessu inn sem pistli frá mér:

Búlúlala
Abbessiníukeisari heitir Negus Negusi,
og Negus Negusi segir: Búlúlala.
Öllum mönnum, sem íhuga málstað ríkisins,
finnst unun að heyra Negus Negusi tala.

Og í hreinskilni sagt eru allir óvinir ríkisins,
sem ekki hlusta á Negus Negusi tala.
Ég er Negus Negusi, segir Negus Negusi,
ég er Negus Negusi. Búlúlala

Steinn Steinarr

1.7.04

Ma og pa eiga 37 ára brúðkaupsafmæli í dag. Ef þau eiga 37 ára brúðkaupsafmæli, þýðir það að ég verð 35 ára á þessu ári. Hlýtur að vera einhver villa í þessu. Getur ekki verið. Mér líður eiginlega alltaf eins og ég sé tvítug og miða oft reikninga á aldri og tíma við það. Finnst t.d. alltaf að fólk sem er aðeins eldra en ég hljóti að vera í kringum þrítugt. Og að allir sem eru yngri en ég hljóti að vera í mesta lagi í menntó. Litli bróðir minn er í menntó. Litla barnið sem ég fékk í 16 ára afmælisgjöf er að verða 18 ára. Ó, nei, miðað við reikningana að ofan er hann að verða 19. Orðinn 18. Getur þetta verið?
Hlæ alltaf mikið að frómri setningu Höllu "frænku" sem sagðist hafa langað til að leggja lögreglumanninn sem stoppaði hana fyrir of hraðann akstur um árið, á brjóst. Skil alveg hvað hún var að fara. Horfi stundum á gaga (sbr. snagi/snagar - kemur frá Brodda sem kenndi mér sögu í menntó í fyrra eða þarna um árið...) og gellur á kaffihúsum með bjór og sígarettur og finnst þau hljóti að hafa verið að fermast í gær.
Annars er ég sátt við ákveðinn hluta af því að eldast. Ýmislegt sem er auðveldara en áður. Margt sem maður tekur af meiri rósemi. Einhvers konar þroski, hugsa ég. En ég er samt ekki á því að ákveða hvað ég ætli að verða eða neitt slíkt. Og endurtek að mér finnst ég yfirleitt tvítug. Bara aðeins betur tvítug en ég var fyrir tíu árum síðan (ókei þá: 14 og hálfu ári síðan).
Jæja, stóðið er komið heim. Það er eitt sem er skrýtið við að hafa elst, að maður sé orðin tveggja barna harðgift móðir. VÁ! Verð alltaf jafnhissa þegar ég hugsa um það.
Salut!